Ungmennafélögin í Hörgársveit í byrjun 20. aldar

Gunnar Frímannsson:

Ungmennafélagshreyfingin til 1930 í núverandi Hörgársveit.

(Greinin birtist í Heimaslóð 2025)

Grein Brynjólfs Sveinssonar um Ungmennafélag Öxndæla í Heimaslóð 2024 og útdráttur úr sendibréfum Þorleifs Rósantssonar sem birtist hér í Heimaslóð 2025 gefa tilefni til að velta fyrir sér starfi ungmennafélaganna í umdæmi núverandi Hörgársveitar á fyrstu áratugum síðustu aldar. Margt áttu þau sameiginlegt en um annað voru þau ólík enda aðstæður ólíkar. Ítarlegri frásagnir af starfi þessara ungmennafélaga birtist í 50-ára afmælisriti Ungmennasambands Eyjafjarðar sem kom út 1972 en í eftirfarandi pistli er fyrst og fremst byggt á fundargerðum ungmennafélaganna.

Því hefur víða verið haldið fram að Ungmennafélag Akureyrar, hið fyrra, hafi verið fyrsta ungmennafélagið á Íslandi, stofnað 7. janúar 1906. Hrafnkell Lárusson segir í bók sinni „Lýðræði í mótun“: „Stofnun Ungmennafélags Akureyrar (UMFA) árið 1906 er álitin marka upphaf íslensku [ungmennafélags]hreyfingarinnar, þó svo að félög sem nefndust ungmennafélög hafi verið stofnuð fyrr. Þáttaskil urðu þegar UMFA beitti sér fyrir stofnun Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) árið 1907“.[1] Hrafnkell nefnir ekki dæmi um þessi ungmennafélög sem höfðu verið stofnuð á undan UMFA en í bók Björns Ingólfssonar, Brotum úr byggðarsögu[2], segir í kaflanum „Fyrsta ungmennafélag á Íslandi“: „Einhvers staðar hefur dottið upp fyrir sú staðreynd að Ungmennafélagið Dagsbrún [í Grýtubakkahreppi] var stofnað hálfu ári fyrr, 4. júní 1905“. En nú muna glöggir lesendur Heimaslóðar 2024 að í grein Brynjólfs Sveinssonar, Ungmennafélag Öxndæla 1900-1920, er sýnt fram á að Ungmennafélag Öxndæla hafi í raun verið til frá aldamótaárinu 1900 undir heitinu Íþróttafélag Öxndæla og því hafi félagið verið fyrsta ungmennafélag landsins. Auk þess bendir Brynjólfur á að Bernharð Stefánsson, sem var einn stofnfélaga Íþróttafélags Öxndæla og fyrsti formaður, gekk inn í nýstofnað UMFA þegar hann var við nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og var kosinn til að vera fulltrúi félagsins á stofnþingi Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) 1907. Þegar til kastanna kom urðu stofnfélög UMFÍ aðeins þrjú, Ungmennfélag Reykjavíkur, UMFA og Íþróttafélag Öxndæla sem þá hafði reyndar útvíkkað starfssvæði sitt og skipt um nafn til samræmis og hét nú Ungmennafélag Skriðuhrepps. Nafnbreytingin mun hafa verið gerð um svipað leyti og ungmennafélögin í Grýtubakkahreppi og á Akureyri voru stofnuð en starfshættir félagsins voru þannig frá upphafi að engu þurfti að breyta nema nafninu til að félagið gæti kallast ungmennafélag.[3]

Starfssvæði Íþróttafélags Öxndæla var víkkað eins og áður segir og það mun hafa gerst á árunum 1903 til 1905 og árið 1906 fékk félagið nafnið Ungmennafélag Skriðuhrepps og hét svo þangað til ákveðið var 1910 að kljúfa hreppinn í Skriðuhrepp og Öxnadalshrepp.[4] Þá hafði félagið starfað í þremur deildum, ein í Öxnadal en hinar tvær í þeim hluta Hörgárdals sem Skriðuhreppur náði yfir[5]. Í grein Brynjólfs kemur ekki fram hvernig skiptingin Hörgárdalsmegin var en trúlega var önnur í fram-dalnum en hin í Auðbrekkutorfunni. Við skiptingu hreppanna varð Ungmennafélag Öxndæla – UMFÖ – í Öxnadalnum en Ungmennafélag Skriðuhrepps – UMFS – hinum megin. Um það má svo deila hvenær Ungmennafélag Skriðuhrepps, það sem segir frá hér á eftir, var stofnað. Vissulega var til Ungmennafélag Skriðuhrepps eftir að Íþróttafélag Öxndæla skipti um nafn um 1906 en það var ótvírætt Íþróttafélagið undir nýju nafni. Því verður hinsvegar ekki á móti mælt að Ungmennafélag Skriðuhrepps var til frá 1906 og gerðist stofnaðili að Ungmennafélagi Íslands 1907 og ungmennafélag undir því nafni starfaði óslitið út öldina. En það að stofnað var landssamband ungmennafélaga 1907 gefur vissulega til kynna að til hafi verið fleiri ungmennafélög í landinu en þau þrjú sem gerðust stofnfélagar. Vitað er um Ungmennafélagið Dagsbrún í Grýtubakkahreppi og vafalaust eru ekki öll kurl komin til grafar hvað þetta varðar. Ekki væri óvænt þótt einhver ungmennafélög af þeim 82, sem stofnuð höfðu verið árið 1910[6], hefðu getað talist framhald af bindindisfélögum sem víða störfuðu í lok 19. aldarinnar og að þar hefði aðeins verið um nafnbreytingu að ræða.

En hvað sem því líður þá virðist Öxnadalsfélagið hafa verið öflugt en sama var varla hægt að segja um Skriðuhreppsfélagið framan af enda aðstæður mun örðugri þeim megin. Í Öxndælafélaginu störfuðu margir félagar á tiltölulega litlu landssvæði en Hörgárdalsmegin var ungt fólk álíka margt en dreift um svæði sem náði framan úr Flöguseli og út í Stóra-Dunhaga eða á um 26 km spildu.

Ungmennafélagið í Möðruvallasókn, UMFM, varð til samhliða því að gamla Arnarneshreppnum, sem frá 1824 hafði náð frá Hámundarstaðahálsi að Litla-Dunhaga, var skipt í Árskógshrepp og Arnarneshrepp 1911[7]. Í nýja Arnarneshreppnum var margt ungt fólk á um 15 km svæði með þéttbýlið Hjalteyri innan markanna. Glæsibæjarhreppur teygði sig reyndar yfir stærra svæði eða frá Bægisá, út að Gæsum og inn að Glerá sem gæti talist um 22 km leið en þetta svæði er landfræðilega tvískipt, Kræklingahlíðin annarsvegar og Þelamörkin hinsvegar. Það var því eðlilegt að til yrði sérstakt ungmennafélag í Kræklingahlíð frá árinu 1909, Ungmennafélag Glæsibæjarhrepps sem síðar var nefnt Ungmennafélagið Dagsbrún, rétt eins og ungmennafélagið í Grýtubakkahreppi. 

Ungmennafélagið í Grýtubakkahreppi var í dauðadái á árunum 1914 til 1919 og líklega hefur félagið í Kræklingahlíð hirt nafnið á meðan eða á árunum 1914 til 1917 en á þeim tíma eru ekki til fundargerðarbækur fyrir Dagsbrún í Kræklingahlíð. Í Glæsibæjarhreppi hafði þá myndast þéttbýli norðan við Glerá sem gekk undir nafninu Glerárþorp og úr þeim hluta hreppsins kom talsverður hluti félagsmanna í Dagsbrún.

Árið 1917 varð til skammlífa Ungmennafélagið Vorhvöt á Þelamörk sem starfaði af talsverðum þrótti fyrstu árin en lognaðist út af þegar ungu fólki fækkaði um 1930 og þungavigtarfólk flutti burt eða hvarf með öðrum hætti úr félaginu. Fátæklegum eignum var ráðstafað til Lestrarfélags Þelamerkur.[8] Reyndar hét félagið Framsóknarfélagið Vorhvöt fyrsta árið en enginn efast þó um að þar hafi verið um ungmennafélag að ræða, frekar en þegar Íþróttafélag Öxndæla breytti nafni sínu í Ungmennafélag Skriðuhrepps og síðar í Ungmennafélag Öxndæla.

Á Hörgársveitarsvæðinu voru því til 5 ungmennafélög á 3. áratug 20. aldar sem athyglinni er hér beint að með því að skoða fundargerðir og ársskýrslur þessara félaga. Reyndar eru engar slíkar fundargerðir til fyrir UMF Öxndæla á þessum tíma en ritgerð Brynjólfs reynist þar ómetanleg heimild, byggð á frásögn afa hans og alnafna sem tók þátt í starfi félagsins frá stofnun. Fundargerðir UMFM eru til frá stofnun 1909 til 1918 en síðan vantar fundargerðir þaðan til 1937, einmitt fyrir það tímabil sem hér er mest horft til. Fundargerðir eru til fyrir ungmennafélagið í Kræklingahlíð, fyrst 1907 til 1911 á meðan félagið hét Ungmennafélag Glæsibæjarhrepps og svo aftur 1917 til 1927 fyrir Ungmennafélagið Dagsbrún. Gerðabækur vantar fyrir fyrstu árin í Ungmennafélagi Skriðuhrepps en þær eru til frá árinu 1917 og út öldina að undanskildum árunum 1964 til 1974. Fundargerðir hafa varðveist fyrir allan starfstíma Ungmennafélagsins Vorhvatar 1917 til 1930. Vegna þessara gloppa í fundargerðum félaganna verður eftirfarandi stikl á sögu þeirra á fyrstu áratugunum líka gloppótt og sitthvað sem sagt er t.d. um starfið í UMFM byggir á fundargerðum frá fyrri tíma og á við þann tíma.

Félagafjöldi og fundarsókn var eðlilega mismunandi milli félaganna. Eftirfarandi tafla sýnir fjölda ungmenna árið 1920 sem fæddust árin 1890 til og með 1905 á félagssvæði hvers ungmennafélags. Taflan á að gefa hugmynd um úr hvaða mannskap félögin höfðu að moða.

Í UMFM voru 26 félagar 1916, 22 piltar og 4 stúlkur, sem héldu 8 – 9 fundi á ári á árunum 1915 – 1918. Árið 1937 voru félagar orðnir nærri 70, 39 piltar og 29 stúlkur. Fundargerðir herma ekki fjölda á fundum.

Árið 1917 voru 19 félagar í UMFS, þar af 3 stúlkur, en félögum fjölgaði lítillega á næstu árum og starfsárið 1922 – 1923 voru félagsmenn 23 en konur aðeins tvær. Félagsmenn á fundum voru oft um 10 en fjöldinn var ekki skráður skipulega. Starfsárið 1923 – 1924 voru félagar aðeins 13, engin kona, en úr því fer þeim fjölgandi. Starfsárið 1927 – 1928 voru „sambandsfélagar“ 23, þar af 10 stúlkur, en aukafélagar voru 9, þar af 1 kona, en líklega voru aukafélagarnir einstaklingar sem skrifuðu ekki undir bindindisheit UMFÍ og UMSE. Lengst af á þessu tímabili voru aðeins haldnir 3 fundir á ári en í hinum félögunum voru þeir yfirleitt 7 – 9.

Engar upplýsingar eru til um félagafjölda í UMFÖ á umræddu tímabili en í Vorhvöt voru rúmlega 20 félagsmenn fyrsta starfsárið og flestir sóttu fundi. Tveimur árum síðar komu 27 félagsmenn á fund en heildarfjöldi er ekki ljós. 

 

Á fundum á næstu árum voru oft tæplega 20 manns en um miðjan áratuginn voru gjarnan 10 – 15 manns á fundi. Á 10 ára afmæli félagsins 1927 voru félagar 20, af þeim voru 7 konur.

Á fyrsta starfsári ungmennafélagsins í Kræklingahlíð 1907 voru félagar 31, af þeim voru 9 stúlkur. Á aðalfundi Dagsbrúnar í árslok 1919 voru félagsmenn 53 en á aðalfundi 1921 voru félagar 31 og af þeim voru 22 á fundi. Félagaskrá var yfirleitt ekki birt með fundargerðum en til eru félagaskrár frá árunum 1923 til 1928 en þá voru félagsmenn á bilinu 35 til 40, konur voru um fjórðungur.

Ungmennafélagið Dagsbrún hafði aðgang að félagsheimili frá stofnun þar sem var Þinghúsið við Sólborgarhól sem einnig var notað sem skólahús. Svipaða sögu er að segja um UMF Öxndæla sem fékk snemma, þó ekki allra fyrstu árin, afnot af þing- og skólahúsi á Þverá í eigu Stefáns Bergssonar bónda. Í Arnarneshreppi fundaði ungmennafélagið fyrst í „Leikhúsinu“ á Möðruvöllum og síðar í Pálmholti og Ósi eða þangað til þing- og skólahús var byggt á Reistará árið 1914 með þátttöku ungmennafélagsins sem greiddi um þriðjung byggingarkostnaðar[9]. Ungmennafélagið Vorhvöt byggði sér strax á öðru ári félagsheimili í Ási sem hreppurinn fékk að nýta sem skólahúsnæði fram undir miðjan fimmta áratuginn, sem sagt lengi eftir að Vorhvöt lagðist af. 

Ungmennafélag Skriðuhrepps fundaði oftast á Öxnhóli eftir 1917 en átti sér varla fast athvarf þar fyrr en eftir að Aðalsteinn á Öxnhóli byggði samkomuhús sem hann kallaði „Þinghúsið“ en þar varð fundarstaður ungmennafélagsins þangað til samkomuhúsið var byggt á Melum. Ekki er vitað hvar UMFS fundaði frá stofnun og til 1917.

Þrátt fyrir allt voru starfshættir ungmennafélaganna í Hörgársveit um margt líkir og markmiðin keimlík sem að einhverju leyti má rekja til þess að landssamband ungmennafélaga á Íslandi, Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, sem stofnað var 1907 eins og áður segir, reyndi að móta sameiginlega stefnu fyrir ungmennafélögin í landinu. Framan af starfaði UMFÍ í fjórðungssamböndum sem ungmennafélögin á hverjum landsfjórðungi áttu aðild að. Þessi fjórðungssambönd héldu fundi með fulltrúum sem aðildarfélögin kusu og þar var reynt að sameinast um háleit markmið og að einhverju leyti um samstarf um íþróttaiðkun og um að útvega fyrirlesara sem fóru á milli félaganna og brýndu til dáða. Haldin voru fjórðungsþing og til var embætti fjórðungsstjóra. Svo virðist sem ungmennafélögin hafi getað tekið þátt í starfi fjórðungssambandanna án þess að gangast undir skyldur sem lög UMFÍ fólu í sér, t.d. um bindindissemi. Ungmennafélögin á Hörgársveitarsvæðinu mynduðu svo með sér þrengri samstarfsvettvang sem nefndist Kynning og starfaði 1918 til 1926. Kynning starfaði með svipuðum hætti og fjórðungssamböndin, hélt fundi kjörinna fulltrúa úr félögunum og beitti sér fyrir sameiginlegum samkomum, bæði skemmtunum og íþróttamótum, og veturinn 1921-1922 starfrækti Kynning einhvers konar unglingaskóla í Þinghúsi Glæsibæjarhrepps. Ekki varð framhald á því starfi. Árið 1922 var svo stofnað Héraðssamband ungmennafélaga Eyjafjarðar, síðar Ungmennasamband Eyjafjarðar, UMSE, sem til að byrja með var víst samstarfsvettvangur ungmennafélaganna í Eyjafirði – á Akureyri og framan Akureyrar – en vann að því að verða og varð fljótlega samband ungmennafélaga í allri Eyjafjarðarsýslu. Þar með var ekki lengur grundvöllur fyrir Kynningu sem var leyst upp 1926 með kveðjusamkomu á Öxnhóli.

Framan af voru efasemdir meðal félaga í ungmennafélögunum á Hörgársveitarsvæðinu um gildi þess að vera með í UMFÍ, Kynningu og UMSE. Sumum fannst samtökin ekki skila miklu nema kostnaði en meiri áhrif höfðu þó líklega bindindisheitin sem UMFÍ og UMSE höfðu á stefnuskrá sinni og gerðu jafnvel að skilyrði fyrir félagsaðild. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi 1908 hafði verið ákveðið algjört áfengisbann í landinu sem gekk í gildi árið 1915. Landinn fékk sem sagt aðlögunartíma til að láta renna af sér. Bannað var að framleiða og selja áfenga drykki. Sala léttra vína var leyfð aftur árið 1922 þegar Spánverjar neituðu að kaupa saltfisk af Íslendingum nema þeir keyptu af þeim létt vín eins og Vermouth og Tarragóna sem Þorleifur á Hamri hafði gjarnan um hönd[10]. Áfengisbannið var afnumið 1935 nema bjór mátti ekki selja fyrr en 1989 eins og elstu menn muna. En þrátt fyrir áfengisbannið blótuðu margir Bakkus á laun og í UMFS „létu sumir í ljósi að þeir myndu frekar segja sig úr félaginu en að undirgangast slíkt heit“.[11] Í Vorhvöt var ákvæði um vínbindindi sett inn í lög félagsins en tekið út aftur þegar farið var að ganga erfiðlega að ná fólki inn í félagið enda „[treysti félagið] sérhverjum meðlima sinna til þess að stjórna nautnum sínum“[12].

Tóbaksreykingar voru yfirleitt bannaðar á fundum en minna ræddar í hreyfingunni.

Í lögum ungmennafélaganna voru sett háleit markmið um að þroska félagana annarsvegar og að láta eitthvað gott af sér leiða fyrir samfélagið hinsvegar. Tilgangur UMFS var að „efla félagsskap, íþróttir og samvinnu innan sveitarfélagsins“. UMF Glæsibæjarhrepps – síðar UMF Dagsbrún – og fleiri félög ætluðu sér „að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að starfa fyrir sjálfa sig, land sitt og þjóð.“ Áhersla var á „allt það sem er þjóðlegt og alíslenskt“. Og í lögum UMFM frá 1915 setur félagið sér „að efla siðgæði og hófsemi æskumanna í hvívetna og innræta þeim drenglyndi, háttprýði og mannúð.“ Þá var búið að taka úr lögum félagsins ákvæði um að þeir gætu einir orðið félagar „sem byggja stefnu sína á kristilegum grundvelli og eru bindindismenn“ en í staðinn er komin krafa um að félagar undirgangist „skuldbindingarskrá Sambands ungmennafélaga Íslands“, UMFÍ. Lög félaganna tóku reyndar sífelldum breytingum og framangreind markmið eru einungis dæmi um hugsjónirnar.

Öll félögin lögðu áherslu á að þjálfa félagsmenn sína í því að koma fram á fundum, ýmist með eigin málflutningi eða upplestri sagna og ljóða. Þetta átti að gera þá hæfari til að láta til sín taka í þjóðmálaumræðu um málefni nær og fjær. Ungmennafélögin áttu að efla lýðræðið í landinu og það er athyglisvert að í starfsreglum þeirra voru ekki samskonar takmarkanir á lýðræðinu og utan þeirra þar sem þátttaka í landsmálum var framan af einskorðuð við efnaða karlmenn. Einu skilyrðin fyrir þátttöku í ungmennafélögunum voru bundin við lágmarksaldur, gjarnan fermingaraldurinn, og dæmi voru um að félögin færu á svig við þau skilyrði með stofnun barnadeilda eins og komið verður inn á hér á eftir.

Í ungmennafélögunum í Glæsibæjarhreppi var áhersla á málhreinsun, mállýti voru skráð og fjallað um á fundum og í Dagsbrún var til mállýtanefnd. Félögin gáfu út blöð með sögum og ritgerðum félagsmanna sem voru lesnar upp á fundum. Í Öxnadal hét blaðið Stúfur, síðar Snepill, Vorhvöt gaf út Mánaskin, Dagsbrún gaf út Ungling og síðar Tilraun og í Möðruvallasókn hét blaðið Árvakur. UMFS hafði reynt að gefa út „Gest“ árin 1919 og 1920 en hann varð ekki lífseigur en nokkrum árum síðar gaf félagið út blaðið Hörgdæling sem gekk milli bæja en var ekki lesinn upp á fundum. Reynt var að dreifa ábyrgð á útgáfu blaðanna þannig að sem flestir legðu eitthvað af mörkum. 

Á fundum félaganna voru oft einskonar málfundarefni innan um önnur dagskrármál þar sem framsaga var í upphafi en síðan urðu umræður. Þessi efni voru fjölbreytileg og mörg ærið háfleyg, t.d. Tíðarandinn, Hvað eigum við að lesa?, Ættjarðarást, Hamingjuleit, Menntun, Menning og Máttur hugsananna. Hætt er við að umfjöllun um slík efni gæti vafist fyrir mörgum okkar jafnvel nú á dögum gervigreindarinnar.Félögin lögðu áherslu á söng og sum höfðu það að venju að syngja í upphafi og enda funda, jafnvel inn á milli dagskrárliða.

Reynt var að fá söngkennslu handa félögunum sem var stundum örðugleikum bundið. „Páll ... gat þess að allt væri erfiðleikum bundið nú á dögum en óskaði þess að félagið beitti sér fyrir þessu nauðsynjamáli [að fá söngkennslu].“[13] Og hvað var sungið? Oft var tilgreint í fundargerðum hvað hafi verið sungið og ljóst er að þar voru fyrst og fremst kennd og sungin ættjarðarlög, „Hvað er svo glatt...“ var t.d. oft sungið. Aðgangur að hljóðfærum var misjafn og stundum voru einstaklingar styrktir til að kaupa hljóðfæri gegn því að þeir léku fyrir dansi hjá styrkveitendum. Sum félögin reyndu að eignast harmoniku eða jafnvel orgel og þau voru notuð til að leika fyrir dansi. Lesendur eiga ef til vill erfitt með að sjá fyrir sér dans við orgelundirleik en svona var þetta. Félagsfundir voru sem sagt ekki aðeins stíf þjálfun andlegs atgervis heldur fór þar líka fram fótamennt. Oft var dansað eftir fundi en svo voru líka haldnar margvíslegar skemmtanir, sýndir sjónleikir, farnar skemmtiferðir austur í Vaglaskóg, fram í Leyningshóla, upp að Hraunsvatni og upp á Þorvaldsdal til grasa. Það þótti vel við hæfi að halda dansskemmtanir sem hófust á fyrirlestrum aðfenginna fyrirlesara til að jafnvel á böllum færi menntunin ekki bara í fæturna.

Á félagsfundum og í starfinu létu ungmennafélagar líka málefni nærsamfélagsins til sín taka. UMFM lagði fram vinnu við að leggja sýsluveg um sveitina og tók að sér að dreifa pósti, allt í sjálfboðavinnu. Í nokkrum félögum var lögð áhersla á að efla matjurtarækt, blómarækt og trjárækt í sveitunum. Talsvert var rætt um unglingaskóla og stofnun alþýðuskóla fyrir héraðið. Í unglingaskólanum átti að kenna börnum í heimasveit eftir fullnaðarpróf en fræðsluskylda sveitarfélaganna náði þá aðeins til 10 – 14 ára barna. Félögin hvöttu líka til þess að unnið yrði að stofnun alþýðuskóla eins og stofnaðir voru síðar í nágrannasýslum, t.d. á Laugum, en varð aldrei af í Eyjafjarðarsýslu, líklega vegna nálægðar við gagnfræðaskóla á Akureyri.

Íþróttaiðkun var nokkur í félögunum, einkum var glímt framan af en bæði í Skriðuhreppi og í Kræklingahlíð var talin nauðsyn á að koma upp „fótboltaflöt“ eða knattspyrnuvelli. Höfundur pistilsins er hrifinn af orðinu fótboltaflöt og bíður eftir að heyra sagt frá leikjum á fótboltaflötunum Anfield og Old Trafford og á Laugardalsflötinni. Vitað er að á Þelamörk fóru knattspyrnuæfingar fram á Skógabökkum þar sem ekki hefur þurft að slétta flötina en þar gæti hafa þurft að tína úr henni grjót. Þar fóru líka fram kappreiðar á héraðshátíð Kynningar 1925 auk keppni í hlaupum og langstökki. Sund þótti mikilvægt að kenna og í Öxnadal var gerður sundpollur við Reiðhól sem Brynjólfur Sveinsson segir frá[14]

Í Arnarneshreppi hafði sundkennsla hafist árið 1896 en lagðist af eftir nokkur ár. Ungmennafélagið hvatti til þess að „sundstæði“ hreppsins væri endurreist en það var „í dálítilli hvilft milli mela sunnan og neðan við túnið á Ytri-Reistará“.[15] Dagsbrún vildi líka lagfæra sundpoll sem var ekki á Laugalandi, eins og vænta mátti, heldur virðist hann hafa verið í Bitrugerði. 

Eitt sumarið þurfti að koma upp „sundskýli“ eða tjaldi við sundpoll Dagsbrúnar til að hægt væri að kenna sund en það hafði einnig verið gert skamman tíma á upphafsárum sundkennslunnar á Ytri-Reistará. Hvergi var sem sagt synt í volgu vatni. Árni Björnsson, sem bjó á Nunnuhóli 1920-1930, lýsir fyrirkomulagi sundkennslunnar á Ytri-Reistará í drögum að 50-ára sögu UMFM:

„Var sá er þetta ritar þá í 8 daga við sundnám þarna, þá 10 ára að aldri. Var oft kalt að klæða sig úr undir beru lofti og síðan fara ofan í kalt vatnið. En hjá langflestum varð þó löngunin til þess að læra að synda óþægindunum yfirsterkari. Venjulegast var farið úr 6 sinnum á dag en sjaldan verið lengur niðri í vatninu en 5 – 7 mínútur. Var þá farið upp úr og klætt sig í flýti, síðan hlaupið suður fyrir melana og farið í glímu, boltaleik eða flogist á af kappi þar til manni var orðið sæmilega heitt og kennarinn kallaði aftur til hópsins að fara úr.“[16]

Nálægð Dagsbrúnar við íþróttafélög á Akureyri var félögum hvatning til að stunda frjálsar íþróttir, skíði og skauta en þessi iðkun varð aldrei almenn. Hinsvegar var taflmennska oft á dagskrá á fundum félagsins og keppnisreglur og verðlaun tekin til umræðu og afgreiðslu. Þetta er einkum athyglisvert fyrir þær sakir að á skákmótum félagsins voru stundum aðeins 3 – 4 keppendur sem fengu þó alla þessa athygli. Úrslit á skákmótum voru færð í fundargerðarbókina.

Upp kom vandræðamál í Dagsbrún þegar formaður tilkynnti að hann hefði týnt verðlaunapeningi fyrir taflmennsku, greinilega farandpeningi. Hann bauðst til að láta útbúa nýjan pening með nýrri áletrun enda hefði áletrun á þeim gamla verið óviðeigandi, peningurinn merktur taflfélagi sem virðist hafa runnið inn í ungmennafélagið. Um málið urðu umræður á hverjum fundinum á fætur öðrum og nýr peningur smíðaður. Þá fannst sá gamli. Og hvað var þá til ráða? Þau voru mörg úrlausnarefnin sem ungmennafélagsfundirnir fengust við.[17]

Önnur mál sem tekin voru fyrir á fundum ungmennafélaganna voru t.d. stofnun heilsuhælis á Norðurlandi, efling heimilisiðnaðar og heimilisiðnaðarsýningar og stofnun sjúkrasamlaga í Glæsibæjarhreppi og Arnarneshreppi. Ótalin eru ýmis mál sem fengu minna umtal.

Rétt er að geta þess að bæði Vorhvöt og Dagsbrún stofnuðu barnadeildir innan vébanda sinna með um og yfir 20 börn í Dagsbrún, sem funduðu í Sandgerðisbót, en í Vorhvöt voru börnin mun færri og fækkaði mjög undir lokin. Við 14 ára aldur gengu börnin upp úr barnadeild en gátu þá gengið inn í Vorhvöt eða Dagsbrún, þau höfðu þá verið „tekin í fullorðinna manna tölu“. Barnastarfið var smækkuð eftirlíking af ungmennafélagsstarfinu, upplestur, ræðuhöld, blaðaútgáfa, söngur, leikir og skemmtiferðir að sumri, einkum virðist starfið í Dagsbrún – deildin fékk nafnið Sóley – hafa snúist mjög um fundastarf þar sem kosnar voru nefndir um hvaðeina. Umræðuefni á fundum voru t.d. „Hvað mundir þú gera ef þú sæir vængbrotinn fugl?“ og „Hvort er þarfara að læra að dansa eða synda?“ Í barnadeild Vorhvatar var sáð blómfræjum og ræktaðar rófur og kartöflur og örvasa gamalmennum voru gefnar jólagjafir. Deildarstjóri barnadeildar Vorhvatar segir í ársskýrslu: „Börnin hafa valið falleg mál en fremur kjarnalítil. Umræðurnar hafa þá einnig verið fallegar en ekki fjörugar né skýrlegar.“[18] Við hverju bjóst maðurinn af börnum á þessum aldri? Og samkvæmt ársskýrslum var nokkuð um að í báðum félögunum væri bindindisheit brotið meðal þessara barna innan fermingar en ekki kemur fram í hverju brotin voru fólgin. Yfir þessum börnum vofði brottrekstur úr deildinni ef ekki yrði úr bætt.

Til þess að standa undir kostnaði við framlög til góðra mála og húsnæðiskostnaði af ýmsu tagi öfluðu félögin tekna með árgjöldum og sölu á aðgangi að skemmtunum en megintekjulindin hjá þeim öllum var þó heyskapur og sala á heyi. Félögin fengu aðgang að engjum bænda og þar var heyjað, piltar slógu og stúlkur rökuðu. Fyrir engin var greitt með heyskap, t.d. þurftu Dagsbrúnarfélagar að slá þrjár dagsláttur á engi og þrjár á túni eitt árið fyrir afnot af engi. Þeir félagar sem tóku ekki þátt í heyskapnum greiddu í staðinn eins konar tímakaup í sjóð á móti vinnuframlagi félaganna, piltar hærra en stúlkur að þeirrar tíðar hætti. Lengst í þessari starfsemi gekk líklega UMFM sem tók á leigu part úr Hvammkoti og stundaði þar búskap, eins og það var kallað. Borið var á tún, það hreinsað, slegið, heyið þurrkað og selt. Dagsbrún átti hlöðu fyrir eina 100 heyhesta og rak svokallað heyforðabúr sem virðist hafa vera hugsað þannig að heyið skyldi geymt fram á vor og því þá ráðstafað til bænda sem voru að verða heylausir. Dæmi voru um að hreppsnefndin mæltist til þess við Dagsbrún að farga ekki heyforða sínum fyrr en útséð væri um hvort „fóðurþröng yrði manna á meðal“ og bauð félaginu „fyrningargjald“ ef heyið seldist ekki allt.[19] Svipað fyrirkomulag hefur verið í Öxnadal en horfið frá því til þess að slá og raka fyrir bændur til að þeir yrðu ekki heylausir. Slíkt heitir núna forvarnarstarf. Í Skriðuhreppi heyjuðu félagar fyrir tvo bændur endurgjaldslaust sumarið 1926 vegna erfiðra aðstæðna þeirra. Vorhvatarfélagar heyjuðu á túnum bænda gegn greiðslum og Bægisárklerkur bauð UMFS að slá fyrir sig tvær dagsláttur „gegn hárri borgun og þar að auki skyldi hann halda fyrirlestur fyrir félagið hvenær sem það vildi, endurgjaldslaust. Tók félagið þessu kostaboði fengins hendi“.[20] Svipað tilboð fékk Vorhvöt en þar buðu aðrir betur.

Heysalan gekk ekki alltaf áfallalaust fyrir sig. Maður sem hafði verið virkur félagsmaður á fyrstu árum UMFS komst í vanskil við félagið eftir að hann flutti úr sveitinni og félagið stóð í því í mörg ár að innheimta skuldina. Áður en farið var í hart var þó þessi góði maður gerður að heiðursfélaga í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf og síðar var á félagsfundi ákveðið að afskrifa eftirstöðvar skuldarinnar. Þetta líkaði sumum stórilla og „út af þessum málalyktum gekk varaformaður allheitur af fundi“ eins og segir í fundargerð. Mikill hiti var í fundarmönnum. Fundarstjóri sagði sig úr félaginu á fundinum en kvaðst þó mundi stjórna þessum fundi til enda en þessi framganga hans fór illa í suma fundarmenn sem mótmæltu hástöfum. Þar kom að „fundarstjóri kvaðst eigi lengur geta stjórnað þeim fíflum sem á fundi sætu og gekk síðan frá fundarstjórn og af fundi“[21].

Það er svo önnur saga að umrædd skuld var ekki afskrifuð þegar til kastanna kom og var til umræðu á fundum UMFS allt til loka þriðja áratugarins.

Almennt hafa félagsfundir þó farið vel og skipulega fram. Félögin samþykktu fundarsköp sem fylgt var eftir mætti. Í fundarbyrjun skipaði formaður eða varaformaður fundarstjóra sem skipaði fundarritara. Reynt var að skipta þessum hlutverkum milli félaga en sjálfsagt hafa sumir þótt betur til forystu og fundarritunar fallnir en aðrir. Síðan var gengið til dagskrár sem kynnt var í upphafi fundar. Lýðræði var mjög í heiðri haft. Í Dagsbrún var varla tekin ákvörðun um nokkurt mál svo lítilvægt að ekki væri fyrst skipuð eða kosin nefnd þriggja félagsmanna til að gera tillögu um afgreiðslu sem síðan var tekin fyrir á næsta fundi eða síðar. Meiri háttar nefndarálit voru færð í fundargerðabók. Skipun nefnda var algeng í öðrum félögum einnig, jafnvel í barnadeildunum eins og áður segir.

Ýmislegt fleira væri hægt að tína til frá fyrstu árum ungmennafélaganna á þessum slóðum en hér verður látið staðar numið.

Heimildir:

Afmælisrit Ungmennasambands Eyjafjarðar 1972.
Árni Björnsson frá Nunnuhóli: Óbirt drög að 50-ára sögu Ungmennafélags Möðruvallasóknar 1959. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Björn Ingólfsson: Brot úr byggðarsögu. Mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár. Bókaútgáfan Hólar 2013.
Brynjólfur Sveinsson: Ungmennafélag Öxndæla 1900-1920. Heimaslóð 2024.
Fundargerðabækur Ungmennafélagsins Dagsbrúnar í Glæsibæjarhreppi 1917-1929 og 1924-1927 (barnadeildar).
Fundargerðabækur Ungmennafélags Möðruvallasóknar 1909-1911, 1912-1915 og 1915-1918.
Fundargerðabækur Ungmennafélags Skriðuhrepps 1917-1923, 1923-1928 og 1928-1943.
Fundargerðabækur Ungmennafélagsins Vorhvatar 1917-1924, 1925-1930 og 1924-1929 (barnadeildar).

Tilvísanir:

[1] Hrafnkell Lárusson: Lýðræði í mótun. Sögufélag Reykjavíkur 2024. Bls. 129.
[2] Björn Ingólfsson: Brot úr byggðarsögu. Mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár. Bókaútgáfan Hólar 2013.
[3] Brynjólfur Sveinsson: Ungmennafélag Öxndæla 1900-1920. Heimaslóð, 21. hefti, bls. 72.
[4] Sjá greinar Ara H. Jósavinssonar og Guðmundar Steindórssonar í Afmælisriti Ungmennasambands Eyjafjarðar 1972 um Ungmennafélag Öxndæla og Ungmennafélag Skriðuhrepps.
[5] Brynjólfur Sveinsson: Ungmennafélag Öxndæla 1900-1920. Heimaslóð, 21. hefti, bls. 67 - 72.
[6] Hrafnkell Lárusson: Lýðræði í mótun. Sögufélag Reykjavíkur 2024. Bls. 129.
[7] Byggðir Eyjafjarðar 1990, fyrra bindi, bls. 340.
[8] Sjá ítarlega umfjöllun í grein Eiríks Stefánssonar: Ungmennafélagið Vorhvöt á Þelamörk. Súlur, norðlenskt tímarit, 28. hefti 1988.
[9] Árni Björnsson: Óbirt drög að 50-ára sögu Ungmennafélags Möðruvallasóknar 1959.
[10] Gunnar Frímannsson: Sér til gamans gert. Heimaslóð 1925 bls. 39.
[11] Fundargerð UMFS 13. júní 1926
[12] Fundargerð Vorhvatar 27. des. 1928
[13] Fundargerð Dagsbrúnar 4. nóv. 1917
[14] Brynjólfur Sveinsson: Ungmennafélag Öxndæla 1900-1920, bls. 73-74.
[15] Árni Björnsson: Óbirt drög að 50-ára sögu Ungmennafélags Möðruvallasóknar 1959.
[16] Árni Björnsson: Sama heimild.
[17] Fundargerðir Dagsbrúnar 7. febr. 1920 og þær næstu á eftir.
[18] Úr Skýrslu um starfsemi barnadeildarinnar 1925. Gerðabók barnadeildar UMF Vorhvatar 1924-1929.
[19] Fundargerð Dagsbrúnar 3. mars 1918.
[20] Fundargerð í UMFS 19. júlí 1925
[21] Fundargerð í UMFS 3. júní 1923.