Það væri synd að segja að sveitarhöfðinginn í Efstalandskoti í Öxnadal, Bryjólfur Sveinsson, eða kona hans, Laufey Jóhannesdóttir, hefðu fæðst með silfurskeið í munni. Þau voru bæði af bláfátæku fólki komin en voru svo heppin að komast í tengsl við velviljað og velmegandi fólk en þetta tvennt fór alls ekki alltaf saman. Auðvitað skipti eigin rammleikur mestu máli fyrir velgengni þeirra í lífinu en hún fólst þó ekki í mikilli efnalegri velmegun.
Eftirfarandi pistill byrjaði líf sitt þegar fyrir augu höfundar barst meðfylgjandi fjölskyldumynd og löngun hans vaknaði til að vita hver væri hvað en svo vöknuðu spurningar, hver á fætur annarri, um aðstæður og uppruna fjölskyldunnar sem myndin er af. Þetta er myndin af Brynjólfi og Laufeyju í Efstalandskoti í Öxnadal með 13 börnum sínum sem komust upp, eitt barn dó í frumbernsku og annað tæplega tvítugt. Sæmilega stöndug hjón voru þau þegar á leið og Brynjólfur í forsvari fyrir ýmis mál sveitar sinnar. En hvernig í ósköpunum fór Binni í Koti að því að hefja sig upp úr örbirgðinni og ganga á bændaskólann á Hólum og það í tvo vetur, bláfátækur unglingur sem hann þá hlýtur að hafa verið? Hvar fæddist Laufey og hvenær og hvar ólst hún upp? Og hvernig í dauðanum stóð á því að Laufey, niðursetningur úr Saurbæjarhreppi framan úr Eyjafirði, komst í fóstur vestur í Skagafjörð, fjögurra ára gömul, til vandalauss fólks sem var í hópi efnuðustu bænda í héraðinu? Og hvernig stóð á því að þetta unga fólk, sitt hvoru megin við Tröllaskagann, felldi hugi saman og giftist? Það ætti ekki að vera ofverk einhverra riddara lyklaborðsins á seinni tímum að svara þessum spurningum af viti en það hefur óneintanlega þvælst fyrir höfundi þessa pistils.
Fjölskyldan í Efstalandskoti um 1940

Fremsta röð f.v.: Þorbjörg (1935-1976), saumakona á Akureyri, og Árni (1932-2005), bóndi í Efstalandskoti og Steinsstöðum II.
Miðröð f.v.: , Anna Sigríður (1916-2007), húsfreyja á Akureyri, Kristín Álfheiður (1928-2018), húsfreyja á Neðri-Rauðalæk, Laufey Sumarrós Jóhannesdóttir (1892-1950), Brynjólfur Sveinsson (1888-1980)
Aftasta röð f.v.: Þórdís Kristrún (1922-2009), húsfreyja og verkakona á Akureyri, Geirþrúður Aðalbjörg (1918-2009), Stefanía Rannveig (1911-2007), húsfreyja á Akureyri, Björn (1920-2001), bifreiðarstjóri og vegaeftirlitsmaður á Akureyri, Sveinn (1923-1985), bóndi í Efstalandskoti og vegaverkstjóri á Akureyri, Sigurjón Ingimar (1914-1999), bóndi á Ásláksstöðum í Arnarneshreppi, Gunnar Höskuldur (1921-1984), vinnuvélastjóri á Akureyri, húsfreyja og matráðskona á Akureyri, Sveinbjörg Soffía (1912-1976), húsfreyja á Akureyri, og Helga Guðbjörg (1926-2018), húsfreyja og verkakona á Akureyri.
Auk þessara 13 barna áttu Laufey og Brynjólfur Árna (1913-1932) og Helgu Guðbjörgu (1925-1926).
Foreldrar Brynjólfs
Foreldrar Brynjólfs voru Sveinn Björnsson (1852-1922), sem fæddur var í Felli í Sléttuhlíð í Skagafirði, og Soffía Björnsdóttir (1853-1924) frá Ásgerðarstöðum í Hörgárdal, dóttir Björns Benediktssonar frá Flöguseli en mörg 10 barna hans, sem upp komust, voru alin upp á sveitarframfæri eftir að hann missti heilsuna á miðjum aldri. Sagnaþulurinn Eiður á Þúfnavöllum segir Björn hafa þótt „mannvænlegastur þeirra systkina allra [18 barna Benedikts og Rósu í Flöguseli] enda alinn upp að nokkru á öðrum bæ og betri, í Ásgerðarstaðaseli hjá Jóni Björnssyni frá Hillum, ágætum manni“ (Búskaparsaga í Skriðuhreppi forna, II, bls. 135). Guðrún Guðmundsdóttir, móðir Soffíu, var reyndar frá vildarheimili en barnmörgu, dóttir Guðmundar í Lönguhlíð sem var „atgervismaður til sálar og líkama, smiður góður og nærfærinn við menn og skepnur til lækninga, yfirsetumaður kvenna og mælskur vel og hagmæltur,“ eins og segir í bók Bernharðs Haraldssonar um Skriðuhreppinn forna (II, bls. 712). Fósturfaðir Björns Benediktssonar, Jón Björnsson „yngri“, var afabróðir Sveins Björnssonar, þess sem hér um ræðir, hvort svo sem það hefur nú skipt einhverju máli um kynni Soffíu og Sveins en væntanlega hefur hormónastarfsemi skipt meira máli.
Soffía var meðal yngstu barna Björns Benediktssonar og ólst upp sem niðursetningur á Steinsstöðum í Öxnadal frá fjögurra ára aldri hjá Stefáni Jónssyni, umboðsmanni konungsjarða og áður alþingismanni, og Rannveigu Hallgrímsdóttur konu hans, systur Jónasar skálds. Bæði Stefán og Rannveig höfðu misst maka sína en ruglað saman umtalsverðum reytum sínum á efri árum, hún þá komin hátt á sextugsaldur enda áttu þau ekki börn saman. Hjá þessum hjónum var Soffía fram á þrítugsaldurinn og það er til marks um gott atlæti, sem hún naut á Steinsstöðum, að hún var þar áfram sem vinnukona eftir að hreppurinn hætti að greiða með henni um fermingaraldur en þá fóru niðursetningar gjarnan í vinnumennsku á önnur heimili. Það væsti örugglega ekki um hana á þessu höfðingjasetri en fátæk hefur hún þó verið.
Björn Jónasson (1820-1894), faðir Sveins, var af eyfirskum uppruna. Hann eignaðist a.m.k. 12 börn með 5 konum beggja vegna Tröllaskagans en Sveinn var fimmti í röð sjö hjónabandsbarna sem fimm lifðu til fullorðinsára. Helga Sveinsdóttir (1822-1885), kona Björns, var Skagfirðingur og þau hokruðu fyrst nokkur ár í Svarfaðardal, síðan í Sléttuhlíð í Skagafirði áður en þau fluttu í fæðingarsveit Björns, Hörgárdalinn, þar sem þau bösluðu áfram í fátækt á ýmsum bæjum. Síðast voru þau bændur á Miðhálsstöðum 1875-1878 en sá bær taldist löngum hið rýrasta kot. Þau áttu svo athvarf í ellinni hjá Sveini og Soffíu, sem þvældust víða milli bæja, og voru hjá þeim á Neðri-Rauðalæk þegar Helga lést. Björn var áfram hjá þeim um tíma en fór síðan til Björns sonar síns sem þá bjó á Bryta, enn einu rýrðarkotinu, en lést á heimili Lilju dóttur sinnar austur í Landamótsseli í Kinn. Björn yngri á Bryta átti m.a. tvo syni, Árna og Axel, sem bjuggu í Arnarneshreppi og áttu eftir að koma við sögu barnabarna Sveins Björnssonar.
Nú er pistilshöfundur kominn fram úr sér með því að vitna í búskap Sveins og Soffíu áður en honum hafa verið gerð nokkur skil og því tímabært að víkja sögunni þangað. Sveinn Björnsson var vinnumaður í Þverbrekku 18 ára gamall en fór fljótlega að renna hýru auga til Soffíu á Steinsstöðum. Hann færði sig smám saman nær henni með því að gerast vinnumaður á Þverá 1871 og loks á Steinsstöðum frá 1872 þar sem þau voru bæði vinnuhjú næstu árin. Þau giftust þó ekki fyrr en árið 1878 og þess vegna fæddist fyrsta barn þeirra ekki fyrr en ári síðar. Sveinn gerðist fyrirvinna ekkju í Efstalandskoti 1877 og Soffía flutti þangað til hans árið eftir. Þegar húsfreyjur urðu ekkjur áttu þær um tvennt að velja, að bregða búi eða fá sér ráðsmann eða fyrirvinnu, eins og það var kallað, ef þær áttu ekki son eða syni sem gátu tekið við búinu. Það var háttur margra ungra manna þessa tíma að taka saman við ekkjurnar, sem þeir gerðust ráðsmenn fyrir, og þannig gat margur efnalítill en framgjarn ungur maður eignast bústofn og jörð. Þetta gerði Sveinn sem sagt ekki enda var ekkjan orðin 64 ára gömul en hann aðeins 26 ára. Sveinn hélt tryggð við Soffíu sína.
Sveinn og Soffía voru hjá ekkjunni næstu ár, hann reyndar kallaður bóndi í Efstalandskoti í sóknarmannatali 1880. Næsta ár voru þau húshjón í Varmavatnshólum en síðan bændur á Neðri-Rauðalæk á Þelamörk 1882 til 1887 – Soffía var auðvitað aldrei titluð bóndi því að það voru konur ekki að þeirrar tíðar sið. Hún var „aldrei nema kona.“ Síðan voru þau vinnuhjú eða í húsmennsku næstu 20 árin, lengst af á Steinsstöðum hjá afkomendum Stefáns, fóstra Soffíu, en þau bjuggu líka á Vöglum á Þelamörk og Hallfríðarstaðakoti í Hörgárdal og á Auðnum, Efstalandskoti og Þverá í Öxnadal. Það var fyrst 1908, þegar þau voru flutt í Syðri-Bægisá, að þau töldust aftur bændur í kirkjubókinni, bæði komin undir sextugt. Raunar var Sveinn aðeins húsmaður á Syðri-Bægisá fyrsta árið á heimili dóttur sinnar og tengdasonar. Sveinn og Soffía eignuðust um dagana 7 börn, fyrstu þrjú og það síðasta dóu í frumbernsku.
Systkini Brynjólfs
Fyrsta barn Sveins og Soffíu, sem komst upp, var Stefán (1883-1930) sem fæddist 1883 á Neðri-Rauðalæk, eflaust heitinn eftir fóstra Soffíu á Steinsstöðum. Stefán fór á fimmta ári í fóstur til Guðbjargar Björnsdóttur (1846-1908), einhleyprar móðursystur sinnar, vestur í Goðdali í Skagafirði þegar Hálfdán nokkur Guðjónsson gerðist prestur þar, 24 ára gamall, og bjó þar með móður sinni, prestsekkju, móður hennar, einnig prestsekkja, og fjórum yngri systrum sínum. Hálfdán og systur hans fluttu vestur í Breiðabólsstað í Víðidal í Húnavatnssýslu árið 1894 þar sem hann var prestur næstu 20 árin og Guðbjörg og Stefán fylgdu með vestur. Móðir Hálfdánar og amma voru þá látnar en mágur hans og systir hafa líklega haft einhver búsforráð með honum fyrstu árin á Breiðabólsstað eða þangað til Hálfdán eignaðist sjálfur konu. Hann komst til metorða innan kirkjunnar og víðar, varð prófastur í Húnavatnssýslu og alþingismaður og vígslubiskup varð hann á Hólum eftir að hann flutti aftur í Skagafjörðinn. Aðeins eitt barn Hálfdánar af fimm komst til fullorðinsaldurs, Helgi lyfjafræðingur og þýðandi. Guðbjörg var vinnukona hjá Hálfdáni til æviloka hennar en hann reyndist Stefáni sem besti faðir og á Breiðabólsstað skráði hann Stefán sem „fósturson“ í kirkjubókina.
Stefán var „að námi í Latínuskólanum [síðar Menntaskólanum í Reykjavík] nokkur ár“ (Ægir, 23. árg. 1930) en sá kafli í sögu hans varð sögulegur en árin færri en ummælin í Ægi gefa til kynna. Stefáni varð það á, þegar hann var á öðru ári í skólanum 1898-1899, 16 ára gamall, að taka þátt í hrekkjum skólapilta við óvinsælan skólameistara, Björn M.


Ólsen, og átti þátt í því að útvega púður sem aðrir skólapiltar komu fyrir í skáp í skólastofu og sprengdu svo í kennslustund hjá Birni. Þáttur Stefáns í hrekknum var líklega ekki meiri en margra annarra en hann varð blóraböggull fyrir eldri nemendur, broddborgarasyni sem sluppu að mestu við refsingu. Sumir þeirra vildu meira að segja láta reka sig úr skólanum, svo illa kunnu þeir við Björn, en feður þeirra komu í veg fyrir það. Stefáni var hinsvegar vikið úr skóla og þannig lauk veru hans í Latínuskólanum eftir eins og hálfs vetrar skólagöngu. (Saga Reykjavíkurskóla II, bls. 188-192). Hann var sendur heim í hérað og var þar vinnumaður fósturföður síns þangað til hann giftist Rannveigu Ólafsdóttur (1882-1956) austan úr Jökulsárhlíð. Þau bjuggu fyrst á Hvammstanga þar sem Stefán var verslunarmaður eða sölustjóri en síðast kennari. Síðan voru þau á Siglufirði þar sem Stefán var barnakennari 1916-1920 en vann sem verkstjóri á sumrin hjá útgerðarfélagi sem var svo hógværlega kallað „Hlutafélagið Ísland“.
Árið 1920 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Stefán starfaði áfram sem verkstjóri hjá „Íslandi“ þar til hann lést úr lungnabólgu tæplega fimmtugur að aldri. Sjö af níu börnum Stefáns og Rannveigar komust upp. Þekktustu afkomendur hans meðal eldra fólks eru líklega Hermann Ragnar (1927-1997) danskennari og Henný (1952-) dóttir hans en yngra fólk kannast ekki síður við Láru Stefánsdóttur (1957-) skólameistara í Fjallabyggð og dóttur hennar Hildu Jönu Gísladóttur (1976-) varaþingmann og bæjarfulltrúa á Akureyri.
Um Stefán segir í minningargrein í Framtíðinni, blaði óháðra manna (21. ágúst 1930): „Iðjufólki því sem vann undir stjórn hans, var hann sem besti bróðir. Kepptist fjöldi manna um að fá að vinna hjá honum. Enginn verkstjóri í borginni átti meira trausti að fagna hjá starfsfólki sínu en hann. Og svo voru vinsældir hans að verðleikum miklar að greftrun hans var ein sú allra fjölmennasta sem hér hefur þekkst.“ Viðlíka lof var borið á Stefán í minningargreinum í öðrum samfélagsmiðlum þess tíma.
Helga Guðbjörg Sveinsdóttir (1885-1924) fæddist líka á Neðri-Rauðalæk, tveimur árum á eftir Stefáni. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum en fór 12 ára sem „dável“ kunnandi tökubarn til prestshjónanna á Bægisá og þar var hún tvö ár og fermdist frá þeim. Síðan var hún aftur eitt ár hjá foreldrum sínum á Steinsstöðum en eftir það í vinnumennsku hjá vandalausum eins og títt var um fátækt fólk.
Á árunum 1905 til 1908 var ekkjumaðurinn Baldvin Sigurðsson (1872-1942) í húsmennsku og vinnumennsku á Steinsstöðum eftir að hann missti konu sína, Sveinbjörgu Guðmundsdóttur, úr berklum í janúar 1905 þegar þau bjuggu á Syðri-Bægisá en tæringin varð mörgum að bana í Öxnadal á þessum árum. Fyrst eftir komuna í Steinsstaði annaðist Baldvin þrjú börn frá fyrra hjónabandi Sveinbjargar. Þetta voru Guðný (1893-1906), Rósant Marinó (1896-1983) og Sigurbjörg (1900-1916) Sigurðarbörn. Guðný dó úr tæringu á Steinsstöðum ári eftir að Baldvin flutti þangað með systkinin. Marinó fór skömmu síðar fram í Eyjafjörð og fermdist þar, var síðar lengst af verkamaður á Akureyri. Sigurbjörg ólst upp hjá Baldvin til dauðadags hennar en hún dó úr tæringu 16 ára gömul.
Á Steinsstöðum var Baldvin þangað til hann giftist Helgu Guðbjörgu í júlí 1908 og þau fluttu ásamt foreldrum hennar í Syðri-Bægisá þar sem þau hófu búskap á meirihluta jarðarinnar. Þar höfðu þau þokkalegt bú en Sveinn, faðir Helgu, taldist búlaus fyrsta árið sem þau Soffía bjuggu þar. Hann var síðar talinn bóndi á Syðri-Bægisá en hafði jafnan lítið bú. Árið 1909 fluttu Baldvin og Helga að Bessahlöðum en lengst bjuggu þau á Hálsi í Öxnadal 1910-1920 áður en þau fluttu að Höfða ofan Akureyrar þar sem þau bjuggu 1920-1924 og hann áfram til 1936. Eftir að þau fluttu til Akureyrar var hún jafnan skrifuð Guðbjörg og kirkjubókin skráir hana Guðbjörgu Helgu þegar hún deyr úr berklum 1924, aðeins 39 ára gömul. Þau eignuðust 10 börn en af þeim urðu 4 skammlíf.
Á Hálsi virðist Baldvin og Helgu hafa búnast sæmilega til að byrja með en undir lok búskaparins þar var bústofninn ekki stór, árferði þá erfitt, börnin mörg og heilsa Helgu Guðbjargar ekki góð.
Langamma pistilshöfundar, Steinunn Anna Sigurðardóttir í Garðshorni, hafði kynnst Helgu, bæði þegar Helga var vinnukona hjá henni sjálfri í Garðshorni og þegar hún var vinnukona hjá Arnbjörgu dóttur Steinunnar á Efri-Rauðalæk nokkrum árum seinna en þar var Steinunn líka til heimilis það árið. Steinunni var hlýtt til Helgu og var hjá henni 2-3 vikur í Hálsi 1914 þegar Helga var að eignast fimmta barn sitt, Björn Svein. Steinunn segir svo frá dvöl sinni þar í bréfi til dóttur sinnar: „Helga átti barn, hafði aungva stúlku og hefðu þau verið til með að hafa mig í allt sumar en Frímann [sonur Steinunnar, þá bóndi á Hamri] vildi heldur ég væri heima. Helga auminginn á mikið stríð því hún er líka svo heilsulítil. Hún var mér mikið góð og notaleg.“
Meðal afkomenda Baldvins og Helgu Guðbjargar kannast líklega flestir á Akureyri og í nærsveitum við Magnús Ólafsson heilsugæslulækni og Baldvin H. Sigurðsson matreiðslumann og um tíma bæjarfulltrúa á Akureyri.
Uppvaxtarár Brynjólfs
Brynjólfur (1888-1980) var sjötta barn Sveins og Soffíu og þriðja barnið sem komst upp. Hann fæddist á Vöglum á Þelamörk en ólst upp hjá foreldrum sínum til 18 ára aldurs í Hallfríðarstaðakoti, Þverá og Auðnum en lengst í Efstalandskoti og Steinsstöðum. Sveinn, Soffía og Brynjólfur höfðu verið á Steinsstöðum frá aldamótum fram til 1908 en þá fluttu þau í Syðri-Bægisá ásamt Helgu Guðbjörgu og Baldvin eins og að framan greinir. Brynjólfur hafði reyndar verið vinnumaður á Bakka 1907 og árið eftir taldist hann vinnumaður hjá föður sínum á Syðri-Bægisá. Veturna 1907-1909 var hann lærisveinn á bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Þangað fóru um þessar mundir nokkrir bændasynir á svipuðu reki úr Skriðuhreppnum, á undan honum voru þar Steingrímur Stefánsson (1885-1915) frá Þverá og bræðurnir Loftur (1885-1978) og Eiður (1888-1984) Guðmundssynir frá Þúfnavöllum, komu af heimilum efnafólks í hreppnum. Með Brynjólfi voru á Hólum bræðurnir Aðalsteinn (1887-1947) og Gunnar (1879-1957) Bjarnasynir frá Sörlatungu, Freysteinn Sigurðsson (1886-1967) frá Hálsi og Þorsteinn Þorsteinsson (1890-1954) frá Engimýri, faðir Tryggva skólastjóra á Akureyri. Í Sörlatungu var þokkalegt bú en ekki verður sagt um hina drengina að mulið hafi verið undir þá. Hvorki í Engimýri né á Hálsi voru neinir stórbændur en þess má geta, meira til gamans en að það skipti máli í þessu samhengi, að 5 föðursystkini Freysteins voru öll um lengri eða skemmri tíma bændafólk í Öxnadal og settu þannig svip á samfélagið. Það gat fólk gert með ýmsum hætti þótt ekki væri endilega miklum efnum fyrir að fara.
Á Hólum gátu skólasveinar á þessum tíma valið um að taka lokapróf til að geta kallað sig búfræðinga og þetta gerði Brynjólfur og fékk fyrstu einkunn en sveitungar hans, sem voru með honum á Hólum, gengust ekki undir prófið. En búfræðingar eða ekki hafa þessir ungu menn þó lært sitthvað af Hóladvölinni því að þeir urðu virkir í félagslífi þegar heim var komið og eftir dvölina í Skagafirði hafði Brynjólfur náð sér í konu, Laufeyju Jóhannesdóttur frá Flugumýri í Skagafirði.
Nú er pistilshöfundi ekki kunnugt um hvernig fólk bar sig að við að stofna til kynna og hjónabanda þar um sveitir á þessum tíma nema hann veit að Geirmundur var ekki kominn til sögunnar og varla heldur hestamannamót á Vallabökkunum. Laufskálarétt kom ekki til sögunnar fyrr en 20 árum eftir samdrátt Brynjólfs og Laufeyjar en fyrsta tilgáta höfundar um kynni þeirra Laufeyjar var að Hólapiltur úr Öxnadal hafi einfaldlega fengið gistingu hjá brottfluttum sveitungum í Flugumýri, bæði á leið vestur að Hólum og að vestan, og gjóað þá augum til gjafvaxta fósturdætra Flugumýrarhjónanna, einkum þeirrar yngri því að sú eldri var við það að ganga út þegar þarna var komið sögu. Dætur Flugumýrarhjónanna voru undir lögaldri þegar þetta var. Sonarsonur Brynjólfs og alnafni kynntist afa sínum vel þegar Brynjólfur eldri bjó á gamalsaldri hjá Sveini syni sínum og Kristrúnu tengdadóttur.
Í tali þeirra langfeðga komu fram upplýsingar sem sýna að þessi tilgáta var út í hött. Í fyrsta lagi fór Brynjólfur ekki yfir Öxnadalsheiði á leið vestur að Hólum, um 95 km leið, heldur slóst hann í för með félögum sínum úr Öxnadal og Hörgárdal sem urðu samferða yfir Hjaltadalsheiði og komu þar niður í botn Hjaltadals og þá var stutt að fara að Hólum, alls um 50 km ganga. Það kom líka fyrir að hann varð samferða skólafélaga sínum úr Svarfaðardal á leið í jólafrí og þá fóru þeir Heljardalsheiði yfir í Svarfaðardal en það var um 90 km ganga heim í Öxnadalinn fyrir Brynjólf. Svarfdælingar gætu svo hafa skotið undir hann hesti hluta leiðarinnar en svo fór Brynjólfur ef til vill ekki heim í jólafrí heldur hélt jólin í Svarfaðardal. Það er hinsvegar ljóst að kynni Brynjólfs og Laufeyjar urðu á Flugumýri. „Þar kynntust þau Brynjólfur er hann kom þangað í kaupavinnu, nýútskrifaður búfræðingur frá Hólum, liðlega tvítugur,“ segir í æviágripi Brynjólfs og Laufeyjar í ættarmótsskrá úr fórum Helgu Ingólfsdóttur, dótturdóttur þeirra.
Vorið sem Brynjólfur lauk prófinu frá Hólaskóla vann hann fyrst hjá Ræktunarfélagi Norðurlands fram í júlíbyrjun en fór síðan vestur í Flugumýri sem kaupamaður og var þar fram á haust. Í nóvember skrapp hann til Stefáns bróður síns vestur á Hvammstanga. Þar ætlaði hann að hafa skamma dvöl en var settur þar í sóttkví vegna taugaveiki sem kom upp á heimilinu. Hann var því á Hvammstanga fram yfir sumarmál 1910 er hann fór norður í Syðri-Bægisá. Um miðjan maí fór hann svo aftur vestur í Flugumýri og sótti Laufeyju, hafði reiðingshest undir farangur hennar og söðulhest undir hana en sjálfur reið hann gamla Grána sem faðir hans hafði gefið honum er hann var barn. En það er samt óljóst hvað varð til þess að hann gerðist vinnumaður í Flugumýri, hvort hann var þá búinn að kynnast Laufeyju eða hvort þau kynntust þar fyrst þetta sumar. Það var út af fyrir sig ekki á námskrá skólapilta Hólapilta að búa sig undir búskap með því að ná sér í konu en svo mikið er víst að hann færði Laufeyju, brúði sína, frá Flugumýri í föðurhús á Syðri-Bægisá sumarið 1910. Þau giftu sig í ágúst þetta ár, hvorki í Flugumýri eða Miklabæ né á Bakka eða Bægisá eins og beinast hefði legið við heldur á Möðruvöllum eins og Helga, systir Brynjólfs, og Baldvin tveimur árum áður.
Ættir og æska Laufeyjar
Laufey Sumarrós (1892-1950) fæddist í Samkomugerði í Saurbæjarhreppi, Miklagarðssókn, en foreldrar hennar voru þar ógift vinnuhjú og aldrei í sambúð, Jóhannes Magnússon (1864-1910), fæddur í Hring í Blönduhlíð, og Guðrún María Friðbjörnsdóttir (1868-1896), fædd í Auðbrekku í Hörgárdal þar sem foreldrar hennar bjuggu um skamman tíma. Sú dvöl í Skriðuhreppi átti eftir að ráða örlögum Laufeyjar eins og komið verður að síðar. Guðrún María var yngst sjö systkina sem flest ólust upp sem niðursetningar í Saurbæjarhreppi en uppkomin var Guðrún vinnukona á bæjum þar í Eyjafirði og hafði lítið af Laufeyju dóttur sinni að segja eftir fyrstu vikurnar. Fæðing Laufeyjar var skráð í kirkjubók Miklagarðsprestakalls 2. maí 1892 en þá voru foreldrar hennar báðir vinnuhjú í Samkomugerði. Guðrún fór árið eftir að Holtsseli og næsta ár að Holti í Hrafnagilshreppi en 1895 fór hún aftur í Samkomugerði þar sem hún lést 1896, aðeins 28 ára gömul. Laufey var hinsvegar send fárra vikna gömul á fæðingarhrepp móður sinnar, Skriðuhrepp, sem bar skylda til að annast hana að foreldrunum frágengnum. Það heyrði til undantekninga ef ógift vinnufólk gat eða fékk að hafa börn sín hjá sér og Guðrún og Jóhannes voru engin undantekning. Laufey skyldi verða niðursetningur. Og nú verður lesandi ásamt skrifara að reyna að ímynda sér hvernig Laufey var flutt framan úr Eyjafirði og út í Skriðuhrepp, hugsanlega í fyrsta áfanga í Auðbrekku en jafn líklegt er að hún hafi verið færð Jónasi hreppstjóra í Hrauni. Fékk Guðrún María einhverra daga „fæðingarorlof“ til að færa vandalausu fólki fjarri heimahögum nýfædda dóttur sína eða var einhver vinnumaðurinn, jafnvel Jóhannes, látinn setja hana á hnakknefið og reiða hana fyrir framan sig inn í Skriðuhrepp? Eins er hollt bæði fyrir skrifara og lesanda að velta fyrir sér hugarástandi móður og jafnvel föður í þessum fráfærum. En flutt var hún og vísast sáu foreldrar hennar hana aldrei aftur.
Nokkrum árum eða áratug fyrr en þetta gerðist hafði hreppsómögum í Skriðuhreppi verið ráðstafað samkvæmt fastri verðskrá með samningum hreppstjóra við viðkomandi bændur en á þessum tíma hafði sami háttur verið tekinn upp og víða tíðkaðist að haldnir voru almennir hreppsfundir eða hreppamót þar sem ómagarnir voru boðnir upp og þeim ráðstafað til viðstaddra bænda sem buðust til að hafa þá næsta fardagaár fyrir lægsta meðlagið.
Almenn ómagaúthlutun í Skriðuhreppi hafði farið fram í mars fyrir fardagaárið 1892-1893 þannig að hreppsnefndin ákvað ein og sér á fundi 9. júlí 1892 að fela Sigurði bónda á Hraunshöfða að annast Laufeyju, „nýflutta í sveitina“, með 60 króna meðgjöf næsta ár. Laufey var heilsuhraust og meðfærilegt barn og þess vegna voru hjónin á Hraunshöfða sátt við að hafa hana áfram, sem þau og gerðu, og vorið 1894 bauðst Sigurður á Hraunshöfða til að hafa hana enn áfram næsta ár. Sigurður lést hinsvegar um sumarið úr lungnabólgu og þá var Laufeyju komið fyrir til bráðabirgða hjá Jóni bónda á Bakka og Ingibjörgu konu hans. Hreppsnefndin ráðstafaði svo Laufeyju til Kristjáns á Skjaldarstöðum á útmánuðum 1895 en hann bauðst til að hafa hana fyrir 50 krónur um árið. Engu að síður var Laufey áfram á Bakka því að Jón bóndi gekk inn í tilboð Kristjáns og fékk bæði barnið og meðlagið. Vorið 1896 bauð Jón svo hreppsnefndinni langtímasamning, sem var óvenjulegur, hann skyldi hafa Laufeyju næstu tvö ár fyrir 50 krónur á ári og næstu tvö ár þar á eftir fyrir 40 krónur á ári. Þessu tilboði gat hreppsnefndin ekki hafnað og þegar Jón og Ingibjörg á Bakka fluttust vestur í Flugumýri þetta vor fór Laufey með þeim. Skriðuhreppur greiddi síðan meðlag með henni næstu ár og í manntalinu 1901 er hún skráð tökubarn í Flugumýri „sem goldið er með“. Skriðuhreppur reyndi reyndar að innheimta meðlagið frá foreldrum Laufeyjar, án árangurs hvað Guðrúnu varðaði en Saurbæjarhreppur var ábyrgur fyrir meðlagshluta Jóhannesar og reyndi að ganga að honum með einhverjum árangri.
Fæðingardagur og jafnvel fæðingarstaður Laufeyjar var á reiki til að byrja með því að manntalið 1910 segir hana fædda 3. maí 1892 í Grundarsókn og manntalið 1920 segir hana fædda 4. maí 1892 í Samkomugerði. Sú dagsetning hefur jafnvel ratað inn í ættarmótsskrá(r) afkomenda hennar. Og þegar Laufey fermdist í Flugumýrarkirkju 1906 skráði prestur „óviss fæðingardagur“. Laufey hefur líklega ekki einu sinni vitað sjálf fyrir víst hvenær hún átti afmæli. Íslendingabók segir hana réttilega fædda 2. maí 1892.
En það að fósturforeldrar þágu meðgjöf með barni frá hrepp segir ekkert um tilfinningar og viðmót fósturforeldranna eða umhyggju þeirra fyrir barninu, þetta varðaði aðeins hagsýni þeirra og umhyggju fyrir afkomu búsins. Jóni bónda í Flugumýri er lýst sem góðum búhöldi en ekki miklum umbótamanni þótt hann léti raflýsa bæjarhúsin og yrði fyrsti maður í sveitinni til að fá sér sláttuvél. Hann hefur þó viljað búa vel og það skýrir e.t.v. hvers vegna hann sóttist eftir að fá Brynjólf til sín sem vinnumann, nýútskrifaðan búfræðing frá Hólum. Jón fær líka það orð að hann hafi getað verið harður í horn að taka ef fólk stóð ekki við skuldbindingar sínar en „fátæklingum og nauðleitarmönnum hjálpaði hann jafnan“ (SÆ bls. 156). Gefur það nokkra vísbendingu um hvers vegna hann reyndist Laufeyju jafn vel og raun bar vitni.
Soffía tengdamóðir Laufeyjar var niðursetningur á sveitarframfæri á Steinsstöðum þótt hjónin þar hafi reynst henni sem eigin barni og ekki skort fé til að ala hana upp á eigin kostnað. Og Laufey ólst greinilega upp í Flugumýri sem eitt barna hjónanna þar, þrátt fyrir meðgjöfina frá Skriðuhrepp, þangað til þau Brynjólfur giftu sig, hún þá orðin 18 ára gömul en hann 22ja.
Jóhannes, faðir Laufeyjar, var barn fjórðu af fimm barnsmæðrum Magnúsar Gíslasonar (1814-1865) sem bjó á mörgum bæjum í Skagafirði, aldrei lengi á hverjum bæ. Þegar Jóhannes fæddist var móðir hans ógift húskona í Hring sem var kotbýli á Akratorfunni í Blönduhlíð. Eitthvað hefur þessi barneign komið illa við Magnús því að Íslendingabók hefur það upp úr Skagfirzkum æviskrám (SÆ, II, bls. 133) að Jóhannes hafi verið „sagður Skúlason í kb. [kirkjubók] en Magnús, faðir Jóhannesar, hafði fengið bróður sinn Skúla til að gangast við drengnum.“ Svo mikið er víst að Jóhannes var skráður Skúlason í manntali þegar hann var léttadrengur á Heiði í Gönguskörðum 1880 en Magnússon var hann sem lausamaður í Samkomugerði 1890, kirkjubókin segir hann reyndar ekki kominn í sóknina fyrr en árið 1891. Hann var næsta áratuginn rúman vinnumaður á bæjum í fram-Eyjafirði. Árið 1903 giftist hann Helgu Sigríði Jónasdóttur (1881-1956) úr Saurbæjarhreppi í Eyjafirði og flutti með henni til Manitoba í Kanada. Þau áttu þrjú börn sem öll eignuðust afkomendur þar vestra. Fyrir hjónaband hafði Jóhannes eignast tvö lausaleiksbörn, fyrrnefnda Laufeyju Sumarrós með Guðrúnu Maríu Friðbjörnsdóttur og Axel (1897-1970) sem hann átti með systur Guðrúnar, Jóhönnu Soffíu (1860-1939) sem var vinnukona og húskona á bæjum í Eyjafirði. Axel var ekki eftirsóttur sem niðursetningur heldur fór á milli bæja eftir því sem bændur buðu best á hverjum tíma, var m.a. á Dvergstöðum, Holtseli og Hrafnagili. Hann bjó síðar á nokkrum bæjum frammi í Eyjafirði, síðast á Torfum 1938-1964, og átti 6 börn.
Jóhannes varð ekki gamall maður, lést 46 ára að aldri. Löngum hefur því verið haldið fram að „góður sé genginn hver“ og því sé lítt takandi mark á eftirmælum en þessu verður ekki haldið fram hér. Í eftirmælum um Jóhannes í Lögbergi 21. apríl 1910 segir m.a.: „Jóhannes var mesti dugnaðarmaður, ástríkur og umhyggjusamur heimilisfaðir og vann meðan fjör og heilsa leyfði. Hann hafði skarpar gáfur eins margir af ættingjum hans; var mjög bókgefinn og minnugur á margt. Líka var hann vel hagorður en hélt því lítt á lofti.“
Móðir Jóhannesar, Jóhanna Jónsdóttir (1832-1897), var skagfirsk og átti 4 börn með þremur mönnum sem þótti ekki tiltökumál í Skagafirði á þessum tíma. Eftir fyrsta barnið átti hún tvö börn með einum og sama manninum, fyrrnefndum Magnúsi Gíslasyni, með 10 ára millibili en síðasta barnið átti hún með eiginmanni sínum sem hún bjó með á Höfðaströnd en lengst og síðast í Fljótum. Jóhannes var þriðji í röð barna hennar. Þessi skagfirski uppruni Jóhannesar er þó alls ekki skýringin á því hvers vegna Laufey, dóttir hans, ólst upp vestur í Flugumýri í Skagafirði.
Hjónin í Flugumýri sem fóstruðu Laufeyju, þremenningarnir Jón Jónasson og Júlíana Ingibjörg Jónasdóttir, voru bæði tengd Bakka í Öxnadal og höfðu búið þar áður eins og áður hefur komið fram. Júlíana Ingibjörg (1859-1905) fæddist á Bakka og hafði tekið við búi foreldra sinna þar, hún var systir Sigtryggs vesturferðaagents, síðar ritstjóra Lögbergs og þingmanns í Winnipeg. Jón Jónasson (1855-1936), maður Ingibjargar, var Öxndælingur, fæddur í Engimýri. Hann var bóndi á hálfum Bakka 1884-1896, „talinn þar mikill athafnamaður,“ segir í Skagfirzkum æviskrám (bls. 155), en síðan í Flugumýri til æviloka „og varð í röð auðugustu bænda í Skagafjarðarsýslu“ (sama heimild bls. 155). Þegar þau hjónin tóku Laufeyju að sér höfðu þau verið gift í 10 ár og eignast 3 börn en misst öll. Sumarið eftir að Laufey kom til þeirra eignuðust þau loks dóttur sem lifði og aðra tveimur árum síðar. Fyrir áttu þau reyndar fósturdóttur sem þau höfðu tekið að sér tveggja ára gamla og þau höfðu nokkrum sinnum haft börn í fóstri um fárra ára skeið, tökubörn og niðursetninga. Ingibjörg var fyrri kona Jóns en lést úr krabbameini á fimmtugsaldri. Eftir dauða hennar náði Jón sér í aðra konu sem var helmingi yngri en hann, hún 25 ára en hann 51 enda entist hún honum ævilangt og með henni átti hann fjögur börn. Sagt er að Jón hafi gefið börnum sínum 6, sem komust upp, og tveimur fósturdætrum eina jörð hverju og þar var Laufey ekki undanskilin.
Uppeldi Laufeyjar á efnaheimilinu í Flugumýri hefur greinilega verið henni gott veganesti ekki síður en vist tengdamóður hennar á heimili efnabóndans á Steinsstöðum nýttist Soffíu og jafnvel Brynjólfi líka. Því fer nefnilega fjarri að allt fólk hafi farið illa með tökubörn og niðursetninga þótt það sé stundum gefið í skyn og það er umhugsunarefni að það var ekki hreppsnefnd Skriðuhrepps að þakka að Laufey fór ekki á flæking milli bæja eins og Axel, hálfbróðir hennar í Saurbæjarhreppi, eitt ár á þessum bænum og annað á öðrum eftir úrskurði markaðslögmálanna á hverjum tíma.
Búskapur, ævi og eftirmæli Brynjólfs og Laufeyjar
Árið eftir að Brynjólfur og Laufey hófu sambúð sína á Syðri-Bægisá fluttu Sveinn og Soffía enn einu sinni í Steinsstaði og Brynjólfur og Laufey með þeim. Þar bjuggu þau saman á þriðjungi jarðarinnar til 1920 og síðan bjuggu Brynjólfur og Laufey ein á jarðarpartinum til 1936. Þarna nutu Laufey og Brynjólfur stóreignamannsins Jóns í Flugumýri, fóstra Laufeyjar, sem „keypti þriðjunginn af Steinsstöðum í Öxnadal handa fósturdóttur sinni og tengdasyni og hjálpaði þeim aftur síðar er þau þurftu til að halda jörðinni.“ Svo segir í Skagfirzkum æviskrám (SÆ II, bls 155) en það er athyglisvert að höfundur talar um Brynjólf sem „tengdason“ Jóns í Flugumýri þótt Laufey væri ekki dóttir hans. Jón hefur þó reynst henni sem slíkri.
Frá Steinsstöðum fluttu Brynjólfur og Laufey í Efstalandskot þar sem þau bjuggu 1936-1950 en héldu áfram þriðjungi Steinsstaða sem síðar fékk nafnið Steinsstaðir II. Laufey lést 1950 og sr. Ágúst Sigurðsson frá Möðruvöllum segir svo um hana í minningargrein um Brynjólf: „Anna á Þverá kallaði hana kvenhetju en sveitungarnir og aðrir sem til þekktu dáðust að því fágæta lífsþreki sem Laufey var gædd og því afreki sem hún vann.“ Eftir lát Laufeyjar bjó Brynjólfur áfram eitt ár í Efstalandskoti og var þar heimilisfastur til 1980 en stundaði ekki búskap. Árin 1951-1963 bjuggu synir Brynjólfs og Laufeyjar, Sveinn og Árni, í Efstalandskoti og Steinsstöðum II og hjá Sveini átti Brynjólfur heimili á Akureyri síðustu árin. Ásrún dóttir Árna tók við búi af föður sínum á báðum jörðunum, sem nú nefnast Steinstaðir II, og þannig hefur þessi fjölskylda – eða ætt – að meira eða minna leyti átt heima á þessum bletti frá árinu 1857 eða frá því að Soffía Björnsdóttir fór í fóstur til Stefáns og Rannveigar á Steinsstöðum.

Efstalandskot um 1950
„Við sjáum nú til,“ er viðkvæði hárra sem lágra þegar spurt er um framtíðina sem er oftast á huldu. Með breyttu orðalagi og jafnan fjölskrúðugra er þetta gjarnan orðfæri stjórnmálamanna þegar þeir eru krafðir sagna um úrræði í þjóðmálum. Á bernskuheimili skrifara var stundum sögð saga um að gestkomandi kona á heimili Brynjólfs og Laufeyjar á Steinsstöðum hafi sagt í gamni við Laufeyju að hún ætti eftir að eignast fimmtán börn enda hefur hún þá vafalaust verið komin vel á veg með þann fjölda. Þetta taldi Laufey samt fráleitt en Brynjólfur á þá að hafa sagt: „Við sjáum nú til,“ og til þeirra orða höfðu sveitungarnir gaman af að vitna síðar. Og fimmtán fæddust börnin á árunum 1912 til 1935. Öll fæddust á Steinsstöðum nema fyrsta barnið, Stefanía Rannveig, sem fæddist á Syðri-Bægisá.
Öll ólust upp í foreldrahúsum fyrstu árin og áður en þeim fór að fjölga verulega fóstruðu Brynjólfur og Laufey í þrjú ár Sigríði Kristinsdóttur frá Geirhildargörðum, systur Sumarrósar sem síðar bjó í Hálsi, en foreldrar þeirra áttu mörg börn. Móðir Sigríðar var heilsutæp og lést þegar stúlkan var um fermingu og flutti þá til föður síns og systkina.
En svo fór framfærslan að þyngjast hjá Brynjólfi og Laufeyju og á tímabili voru 8 – 10 börn undir fermingu á heimilinu. Um miðjan þriðja áratuginn fóru elstu systurnar í vistir utan heimilis strax eftir fermingu og nokkrum börnum frá Steinsstöðum var komið í fóstur um lengri og skemmri tíma. Árni (eldri) fór í fóstur fyrir fermingu að Munkaþverá í Eyjafirði þar sem húsbændur voru óskyldir Steinsstaðafólkinu en þar var þó vinnukona, Kristín, sem var móðursystir Laufeyjar. Þetta vekur spurningu um tengsl Laufeyjar við frændfólkið sitt í Eyjafirði sem hún hafði lítið af að segja í æsku. Árni flutti svo til baka til foreldra sinna sem vinnumaður árið sem hann lést, 1932. Ingimar fór innan við fermingu í fóstur í Hvamm og síðar Ásláksstaði í Arnarneshreppi hjá Axel Björnssyni en þeir Brynjólfur á Steinsstöðum voru bræðrasynir. Anna fór fyrst í fóstur að Bessahlöðum hjá Stefáni Nikódemussyni þegar hún var 8 ára en síðan fór hún til Árna á Nunnuhóli og síðar Stórubrekku í Arnarneshreppi en hann var bróðir Axels í Hvammi. Anna og Ingimar fermdust á Möðruvöllum. Þórdís fór um fermingu í vist inn á Akureyri og bjó hjá Sveinbjörgu systur sinni sem hafði þá stofnað þar heimili. Geirþrúður var nokkur ár innan við fermingu í fóstri hjá vandalausu fólki á Birningsstöðum í Ljósavatnsskarði en kom aftur inn á heimilið á Steinsstöðum. Á Birningsstaði fór Stefanía systir hennar nýfermd sem vinnukona og hefur fengið að hafa yngri systur sína með sér. Öll börnin höfðu þó alltaf tengsl við heimili foreldranna á Steinsstöðum og í Efstalandskoti en af þessu sést ljóslega að rekstur heimilisins á Steinsstöðum var þungur og líklega var það á þessum árum sem fóstri Laufeyjar frá Flugumýri gaf þeim jarðarpartinn á Steinsstöðum öðru sinni með því að greiða áhvílandi skuldir. Heimilið rambaði á barmi gjaldþrots eins og sagt er.
Þrátt fyrir lítil efni varð Brynjólfur búfræðingur frá Hólum eins og sumir sveitungar hans og jafnaldrar í Öxnadal og Hörgárdal en hvernig hann gat það er óljóst því að það voru fyrst og fremst synir betri bænda sem fóru í bændaskólann þegar þarna var komið sögu. Áður höfðu betri bænda synir verið sendir á Möðruvallaskóla en synir fátækari bænda fóru frekar á bændaskólann á Hólum fyrst eftir stofnun hans 1882 að sögn Sölva Sveinssonar í afmælisriti bændaskólans 1982 (bls. 56). Í skólaskýrslu kemur fram að skólapiltur greiddi 30-35 kr á vetri fyrir matreiðslu og þjónustu og 120 kr fyrir matvöru auk þess sem einhverju hefur þurft að eyða í föt og aðrar nauðsynjar þessa 7 mánuði sem námið stóð yfir veturinn. Ekki verður séð að hann hafi þurft að greiða skólagjöld (Skýrsla um bændaskólann á Hólum 1910 bls. 32-33). Heildarkostnaður við skólagönguna hefur því verið á bilinu 150 til 200 krónur á vetri. Nú er erfitt að áætla hvað þetta þýddi fyrir skólapilt á Hólum. Tímakaup karlkyns verkamanns í Hafnarfirði árið 1912 var 30 aurar sem þýddi að hann var 500 klukkustundir að vinna sér inn 150 krónur, konur þurftu að vinna helmingi lengur (Kristín Ástgeirsdóttir: Réttindabarátta íslenskra kvenna á vinnumarkaði). Varla voru foreldrar Brynjólfs aflögufærir á þessum tíma og varla var hann sjálfur búinn að safna í stóran sjóð, tæplega tvítugur að aldri. Stefán Árnason, bóndi á Þverá, dóttursonur Stefáns þess sem fóstraði Soffíu, kemur til greina sem styrkveitandi en engar heimildir eru til um það. Hugsanlega hljóp Jón bóndi í Flugumýri undir bagga með Brynjólfi til að greiða niður námsskuldir eftir að honum varð ljóst í hvað stefndi með kynni Brynjólfs og Laufeyjar en það skýrir þó ekki hvernig Brynjólfur áræddi að fara í Hólaskóla.
En hvernig svo sem Brynjólfur fór að því að kosta sig til náms nýtti hann sér vel veganestið frá Hólum. Hann starfaði mikið fyrir sveit sína, m.a. að skólamálum og félagsmálum, og var í forystu fyrir ungmennafélagið um árabil. Hann var lengi hreppstjóri og sýslunefndarmaður fyrir Öxnadalshrepp svo og safnaðarfulltrúi og meðhjálpari við Bakkakirkju. Miklu fleira má og jafnvel þarf að skrifa um starfsferil Brynjólfs en það verður látið öðrum eftir.
Eiður á Þúfnavöllum lýsir Brynjólfi svo í bókinni Mannfellinum mikla: „Brynjólfur [er] ágætlega greindur og hagmæltur er hann, manna háttprúðastur og hvers manns hugljúfi. Brynjólfur er hár vexti, beinvaxinn og vörpulegur, að öllu garpslegur. Var og er þrekmaður ágætur og úrvals verkmaður“ (bls. 141).
Sr. Ágúst frá Möðruvöllum segir svo um Brynjólf í minningargrein: „Hann var gæddur prýðilegri greind sem naut einnig vel á hinu hlutlæga sviði svo að hvers konar skipulagning, skýrslugerð og reikningshald var auðveldlega og hárrétt unnið frá hans hendi. Á hinu hafði hann þó alltaf meiri hug sem var ljóða- og fróðleikslestur og hvað eina af arfi þjóðlegrar menningar, stefnur og straumar fyrri kynslóða og samtíðarinnar. Hann var hugsjónamaður og mannbótasinni ...“

Fremri röð f.v.: Geirþrúður Aðalbjörg, Stefanía Rannveig, Brynjólfur, Sveinbjörg Soffía og Anna Sigríður.
Aftari röð f.v.: Árni, Björn, Helga Guðbjörg, Kristín Álfheiður, Gunnar Höskuldur, Þórdís Kristrún, Þorbjörg, Sigurjón Ingimar og Sveinn.
Myndin var tekin á áttræðisafmæli Brynjólfs 1968.
Prentaðar og rafrænar heimildir:
Ágúst Sigurðsson á Mælifelli: Brynjólfur Sveinsson hreppstjóri í Efstalandskoti. Íslendingaþættir Tímans, 22. nóv. 1980.
Bernharð Haraldsson: Skriðuhreppur hinn forni I. Völuspá útgáfa, Akureyri 2021.
Eiður Guðmundsson: Mannfellirinn mikli. Skaldborg 1982.
Eiður Guðmundsson: Búskaparsaga í Skriðuhreppi forna II, Akureyri 1983.
Framtíðin, blað óháðra manna, 1930.
Gjörðabók hreppsnefndar Skriðuhrepps 1881-1902. HskjAk. H-7/26 Skriðuhreppur.
Heimir Þorleifsson: Saga Reykjavíkurskóla II. Reykjavík 1978.
Hjalti Pálsson (ritstj.): Skagfirzkar æviskrár, tímabilið 1910-1950, II. Sögufélag Skagfirðinga 1996.
Kirkjubækur Bægisár-, Bakka-, Myrkár-, Miklagarðs- og Grundarsókna í Eyjafjarðarsýslu, Hólasóknar, Miklabæjarsóknar og Goðdalasóknar í Dölum í Skagafjarðarsýslu og Breiðabólsstaðarsóknar í Húnavatnssýslu. Þjóðskjalasafn Íslands, skjalaskrár.
Kristín Ástgeirsdóttir: Réttindabarátta íslenskra kvenna á vinnumarkaði, ávarp flutt 8. mars 2011. Grein á vef Jafnréttisstofu, sótt í apríl 2023.
Lögberg, Winnipeg 1910.
Martin Gerard Rutten (1910-1970): Mynd af Efstalandskoti um 1950. Úr fórum Odds Sigurðssonar jöklafræðings á Veðurstofu Íslands.
Skýrsla um Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal, Prentsmiðja Odds Björnssonar, Akureyri 1910.
Sölvi Sveinsson (ritstj.): Bændaskólinn á Hólum 1882-1982, afmælisrit. Útg. 1982.
Ægir, tímarit um fiskveiðar og sjávarútvegsmál, 23. árg. 1930.
Æviágrip Brynjólfs Sveinssonar bónda og hreppstjóra og Laufeyjar Sumarrósar Jóhannesdóttur húsfreyju, Efstalandskoti í Öxnadal í ættarmótsskrá frá árinu 2002, 1 bls. Höfundur ókunnur.
Upplýsingar frá ættingjum:
Anna Snorra Björnsdóttir, dótturdóttir Brynjólfs og Laufeyjar
Brynjólfur Sveinsson, sonarsonur Brynjólfs og Laufeyjar
Dröfn Þórarinsdóttir, dótturdóttir Brynjólfs og Laufeyjar
Helga Ingólfsdóttir, dótturdóttir Brynjólfs og Laufeyjar
Lára Stefánsdóttir, barnabarnabarn Stefáns bróður Brynjólfs
Sveinn Björnsson, sonarsonur Brynjólfs og Laufeyjar