Febrúar 1945
4. febrúar
Ég fór suður í Bægisá til að kveikja í kirkjuofninum því það á að messa þar í dag. Svo fór Steini til kirkju og var aðeins messað, voru 7 í kirkju auk prestsins. Steindór fór fram í Efstalandskot, reið á Grána og teymdi Brún og kom svo aftur með Brún hans Jóns[1], hann hefur gengið þar í vetur.
5. febrúar
Ég tók við að hirða féð og hrossin mín. Bíllinn kom ekki til að taka mjólkina vegna ófærðar.
6. febrúar
Þá gáfum við fénu inn ormalyf. Steini í Kirkjubæ kom til að biðja um kartöflur og lét Steindór hann hafa eitthvað. Hann kom aftur með póst. Steindór, Guðfinna og ég fórum á skíðum út í Ás í skírnarveislu, þar var saman komið milli 10 og 20 manns, úrvalslið og var óspart veitt súkkulaði, kaffi og brennivín með nægu brauði, vindlum, sígarettum og fl. Við komum heim kl. 8.30. Guðbjörn á Rauðalæk kom og ætlaði að finna mig en þá var ég ekki heima. Mjólkurbíllinn skrúfaðist fram eftir í kvöld en færið er vont.
7. febrúar
Steindór fór fram í Efstalandskot og ætlar að verða þar eitthvað við að fullgera húsið.
9. febrúar
Jón á Skjaldarstöðum kom. Hann var að biðja Steina að vera hjá sér í vor. Jóhannes á Steðja kom með bækur sem hann batt fyrir Steindór. Ég sendi með honum bækur í band. Kristján fór til Akureyrar til að máta á sig föt.
11. febrúar
Mjólkurbíllinn er bilaður en Steingrímur Sigursteins flytur mjólkina á einföldum[2] bíl og hann tók sunnudagsmjólk í dag. Kristján fór ofan í Hamar, Neðri-Rauðalæk og Brúnastaði. Guðbjörn kom með bækur. Siggi á Hamri kom um kvöldið.
12. febrúar
Guðbjörn kom til að finna Kristján.
13. febrúar
Við stungum út úr einni fjárhúskró.
14. febrúar
Kristján fór út í Vindheima til að sækja naut. Þorsteinn kom með það. Gránu var haldið. Steini fór til Akureyrar á mjólkurbílnum til að endurnýja o.fl., kom aftur um kvöldið. Mamma, Jóhanna og Kristján fóru suður í Syðri-Bægisá.
15. febrúar
Siggi á Hamri kom með auglýsingu um að það eigi að selja óskilahest í Kirkjubæ í dag. Einar á Laugalandi kom um hádegið og afhenti okkur hér skattskýrsluform. Hann var að fara til að selja hestinn í Kirkjubæ. Jóhannes á Steðja var með honum og keypti hann hestinn fyrir kr. 100. Tryggvi á Krossastöðum kom og fékk lánuð doðaáhöld. Um kvöldið fórum við Kristján út í Rauðalæk með bókina „Um láð og lög“ og spiluðum þar fram yfir háttatíma.
17. febrúar
Við stungum út úr tveimur króm. Kristján fór um kvöldið ofan í Rauðalæk og lét klippa sig. Fríða varð lasin um kvöldið.
18. febrúar
Þorleifur á Hamri kom með bók og fundarboð. Það á að verða hreppsfundur á morgun á Þinghúsinu. Steindór kom heim. Kristján fór suður í Bægisá með fundarboð og bók.
19. febrúar
Steindór fór fram í Kot síðdegis.
20. febrúar
Pétur á Rauðalæk kom og fékk lánuð Stjórnartíðindi. Þorleifur kom með boð til Steindórs um að fundur eigi að vera í Sjúkrasamlaginu á fimmtudag nk.
21. febrúar
Kristján fór suður í Kirkjubæ með bréf sem þarf að komast til Steindórs í kvöld.
22. febrúar
Stórhríðarrokur. Pétur á Rauðalæk kom. Hann fór í bæinn í gær og bað ég hann þá að finna lækni vegna þess að krakkarnir eru alltaf hálflasnir. Taldi læknir að það væri munnbólga að þeim og lét engin meðul. Í gær var verið að selja landspildu sem Efri-Rauðalækur á fyrir neðan braut. Kepptu þeir um partinn Pétur og Stebbi Nikk og endaði með því honum var skipt á milli þeirra fyrir 10.000 kr.
23. febrúar
Það var tekin mjólk en bíllinn kom innan að kl. 6 síðdegis.
24. febrúar
Dóri „drallið“ kom með hvolp sem ég fæ frá Efri-Rauðalæk[3]. Gísli í Kirkjubæ kom og bað Kristján að vera hjá sér tíma í dag og gerði hann það. Um kvöldið kom Kári Larsen og gisti. Frétt barst um það að „Dettifoss“ hefði verið skotinn niður við Skotlandsstrendur, nýskeð. 15 manns fórust.
25. febrúar
Kári var hér um kyrrt. Dóri drallið kom með boð frá Gesti á Brúnastöðum um að koma með mjólkina út að Rauðalæk í fyrramálið vegna þess að ófærð er komin á mýrarnar. Gestur keyrir nú mjólkurbílinn í forföllum Jóns Forbergs.
26. febrúar
Það fór engin mjólk.
27. febrúar
Þá tók bíllinn mjólkina. Steini fór með hana út á Rauðalækjarútleggjara. Kári lagði á stað heim til sín. Kristján fór með mjólkurbílnum til þess að hjálpa til að moka því færið er vont. Snjóýtan fór hér fram um í dag. Steini fór ofan í Rauðalæk með sýrugeymana sína í hleðslu. Siggi á Hamri kom um kvöldið með doðadæluna og bað um mjólkurbrúsa að láni.
28. febrúar
Steindór kom heim frá Efstalandskoti. Kristján fór á skíði ofan hjá Hamarsleiti.
[1] Jóns Ólafs Bjarnasonar (1925-2019) bróður mömmu.
[2] Gæti verið átt við að bíllinn hafi ekki haft tvær eða þrjár sætaraðir fyrir farþega eins og mjólkurbílarnir höfðu löngum.
[3] Þetta var ekki í eina skiptið sem Hallgrímur - síðar á Vöglum - ól upp hvolp fyrir pabba. Fjára kom frá honum um 1960.