Júlí 1936

1. júlí
Við settum upp sperrurnar á hlöðuna og fleira þar að lútandi. Kristján fór ofan í Hamar. Marinó á Rauðalæk kom með rekstur.

2. júlí
Við vorum við að slá upp fyrir suðurstafninum á hlöðunni og þakskeggjunum. Ég fór suður í Kirkjubæ með rekstur. Stúlkurnar[1] þvoðu ull.

3. júlí
Leónharð fékk ekki vinnu í brautinni og kom aftur og vann hér. Við vorum að steypa í mótin og líka gólfið í votheystóttirnar. Steini[2] á Grjótgarði kom, hann meiddi sig í fæti á mánudag og var nú að fá Lóa í samanrekstur á morgun. Stúlkurnar voru við ullarþvott.

4. júlí
Þá var aðalsamanrekstur í Glæsibæjarhreppi. Menn komu og fóru og við fórum út og suður á bæi. Um kl. 6 lögðum við á stað með féð fram í Bakkasel og vorum komnir fram fyrir Hóla um miðnætti. Féð hefur allt komið til rúnings en eitthvað vantaði núna af rúðu sem átti að reka.

5. júlí
Við komum með féð fram að Bakkaseli kl. að ganga 5 en áin var svo mikil að illt þótti að reka í hana svo við fórum með féð á Seldal. Fengum kaffi í Bakkaseli í heimleiðinni. Sáum við 2 dauða refi og 4 yrðlinga úr greni á Almenningi, það hafði verið unnið í gær.

6. júlí
Ég byrjaði að slá með sláttuvél fram að miðjum degi en seinnipartinn var ég að gera við girðingu með Alla á Kirkjubæ. Steindór sló seinnipartinn.

7. júlí
Við Steindór vorum að baksa við að koma saman snúningsvél[3] sem kom innanað í gærkvöld. Seinnipartinn var ég úti á Bryta að slá með vél en Steindór sló um stund með vél hér heima. Júlli kom með hálfan annan Mývatnssilung. (Hann er nýbúinn að fara lystitúr austur) svo var hann hér að slá til kvölds. Þorleifur kom og bað að slá fyrir sig á morgun með vél.

8. júlí
Ég fór út í Bryta og sló þar stund fyrri partinn en Júlli var hér í staðinn. Svo sló ég Leitið fyrir Þorleif á Hamri seinnipartinn en hann var hér og risti torf á meðan. Það var tekið saman í föng það sem fyrst var slegið hér.

9. júlí
Aðalheiður á Barká kom snemma dags. Steindór fór út á Rauðalækjarútleggjara til þess að setja saman rakstrarvél fyrir Steina á Bryta. Annars vorum við að slá, raka, snúa og fanga[4] töðuna. Það þornaði mikið.

10. júlí
Taðan var farin að þorna í flekkjunum en blotnaði nú en samt var hún sett í garða mest af henni.

11. júlí
Við vorum að slá upp fyrir norðurstafninum á hlöðunni og steypa í mótið. Töðu var snúið. Gestur á Efstalandi kom um kvöldið.

12. júlí
Mikill þurrkur. Við þurrkuðum dálítið af töðu[5]. Reynir kom og sagði að það væri ólag á rakstrarvélinni. Svo fór Steindór úteftir og lagaði hana og svo fór hann út í Neðri-Vindheima til að láta klippa af sér. Einar Jónsson kom og var svolítið betri eins og hann orðar það. Kristján var lengi niðri á Hamri. Um kvöldið fórum við Kristján með Búbót suður í Syðri-Bægisá.

13. júlí
Við dreifðum, snerum og tókum saman talsvert af töðu, einnig var kárað að slá nýræktina neðra allt að 4 dagsláttum. Guðbjörn á Neðri-Rauðalæk kom með bréf til pabba.

14. júlí
Við fönguðum dálítið af töðu fyrripartinn. Seinnipartinn slegið og rakað. Steindór ætlaði inneftir með Eggert úr miðjum degi en Eggert kom svo seint að ekkert var úr því.

15. júlí
Steindór fór inneftir með ullina. Kristján[6] fór út í Bryta með ullarreifi.

16. júlí
Það var slegið með orfum, rakað og garðað. Þeir binda á hinum bæjunum en við getum ekki bundið vegna þess að járnið vantar á hlöðuna. Það átti að koma um miðjan júlí en það brást. Nú er einhver von að það komi 26 júlí. Reynir kom. Jóhanna á Bryta er slæm af gikt og ætlar að reyna að fara inn eftir í fyrramálið.

17. júlí
Það var einu sinni snúið í töðunni og svo var slegið og rakað. Það er mjög vont að slá vegna þess hvað rótin er þurr en grasið er mikið á túninu, þó sést á stöku stað skemmd, bruni.

18. júlí
Við dreifðum föngum og görðum og tókum það aftur saman, sumt í bólstra en nokkuð af því í föng.

19. júlí
Við vorum talsvert í heyi, snerum og tókum saman. Pabbi fór út í Bryta. Guðni Jónasson[7] kom til að bjóða síldarmél. Þorleifur á Hamri kom til að biðja um hrífu en þær vou ekki til. Bjarni Friðriksson kom og var nótt.

20. júlí
Dagurinn fór mest í að snúa og taka saman, lítið slegið.

21. júlí
Það var slegið, rakað, snúið og tekið saman. Ingi á Rauðalæk kom til að grennslast eftir þarfanauti. Anna[8] á Neðri-Vindheimum kom til að sækja 4 hrífur.

22. júlí
Í dag var bundin taða í nýju hlöðuna þó þaklaus sé, var heyinu staflað með vesturhliðinni[9]. Það var 63 hestar allt talið. Hósi kom.

23. júlí
Við slógum fram að miðjum degi, þá var farið að binda og voru bundnir 30 hestar. Ég sló „skott“ eða suður og niður með vél um kvöldið. Aðalbjörn kom um kvöldið með boð frá Guðna um síldarmélið.

24. júlí
Það var tekinn saman og bundinn flekkpartur og einnig bundinn bólstur og sátur, alls 14 hestar. Steindór fór ofan að Hamri til þess að vita hvort Þorleifur vildi kaupa síldarmél og pabbi fór út í Bryta í sömu erindum. Svo fór Steindór suður í Bægisá í síma. Guðmundur[10] á Moldhaugum kom svo með síldarmélið í kvöld og keyrði hér heim á hlað og fengum við 8 poka. Það kostar 17 kr. pokinn og flutningurinn kr. 0,60. Týra gaut í nótt.

25. júlí
Það voru bundnir 40 hestar af töðu, mest úr bólstrum.

26. júlí - sunnudagur
Klukkan 4 í nótt var farið að rigna og fórum við þá á fætur til að þekja heyið í hlöðunni o.fl. svo vorum við lengst af að einhverju bjástri, flytja torf, setja yfir bólstra[11] o.þ.h. Hósi og Siggi á Hamri komu og töfðu lengi. Jón á Skjaldarstöðum kom og líka Bjarni Friðriksson. Júlli og Reynir komu og völdu einn hvölp og svo slattaði Júlli hinum. Mamma fór út í Rauðalæk og Bryta.

27. júlí
Steindór var allan daginn að setja vírnet og langbönd á hlöðuþakið. Ég sló seinnipartinn út og upp hjá kvíunum. Um kvöldið fór ég með kú, Hyrnu, suður í Syðri-Bægisá undir naut. Eggert kom með þakjárnið á hlöðuna.

28. júlí
Ég setti stoppið í hlöðuþakið og Steindór negldi járnið á svo nú er hlaðan komin undir þak að nafninu þó talsvert sé eftir að gera að því.

29. júlí
Við Steindór slógum fyrri partinn en seinni partinn var tekið saman og bundnir 20 hestar en svo tæpt stóð með samantektina að dreifar urðu eftir undan flekkjunum. Reynir kom um kvöldið með dót sem Steini keypti innfrá í gær.

30. júlí
Í dag voru bundnir bólstrar sem eftir voru og lítið eitt af flötu heyi, alls nær 60 hestar talsins.

31. júlí
Við kláruðum að slá túnið og slógum ögn af vallarsköfum.

 

 

[1] Sjaldan er þess getið að "stúlkurnar" hafi gengið að verkum en hér sjást þær utan dyra - út við læk - og þess vegna er þeirra getið.

[2] Aðalsteinn Sigurgeirsson (1900-1966) bróðir Leónharðs (Lóa).

[3] Hér eru heyvinnuvélar dregnar af hestum komnar til sögunnar, sláttuvél, snúningsvél og líklega rakstrarvél.

[4] Taðan var fönguð, þ.e. heyið var sett saman í "föng", það var saxað með hrífu og sett upp til að verja það rigningu.

[5] Heyverkun. Nýslegið grasið í flekkjum var lagt í rifgarða og görðunum snúið aftur og aftur þangað til heyið var orðið þurrt. Ef rigndi áður en heyið var fullþurrt þurfti að sópa því saman til að það blotnaði minna, ýmist í garða, föng eða dríli. Garðarnir voru nokkrir rifgarðar saman. Föngin voru "söxuð" og þeim síðan lyft upp í miðju þannig að þau mynduðu dálitlar hrúgur. Stundum var heyinu ýtt saman í dríli sem voru af svipaðri stærð og föngin en ekki jafn reisuleg. Þegar hætti að rigna og vel leit út með þurrk og orðið þurrt á grasi var dreift úr görðum, föngum og drílum til að fullþurrka heyið. Fullþurru heyi var komið heim í hlöðu eða heytótt, yfirleitt bundið í bagga sem voru fluttir heim á hestum eða jafnvel á vagni þegar þarna var komið sögu. Hér var verið að byggja fjóshlöðuna en þakið vantaði og þess vegna þurfti að geyma heyið úti í sátum eða bólstrum. Sátur voru ein fangbreidd þar sem föngunum var staflað hverju ofan á annað í rúmlega meterershá heysæti. Bólstrar voru tvær fangbreiddir og talsver

[6] Kristján er hér orðinn 8 ára og er sendur ýmissa erinda á næstu bæi.

[7] Guðni Jónasson (1897-1980) bróðir Einars á Laugalandi. Hann hefur búið á Efri-Rauðalæk á þessum tíma þótt það komi ekki fram í kirkjubók. Hannbjó síðar í Hofteigi í Arnarneshreppi ásamt Svanfríði konu sinni.

[8] Anna Sólveig Júlíusdóttir (1910-1969) kona Jóhannesar yngri á Neðri-Vindheimum.

[9] Hér er farið að flytja hey inn í nýju hlöðuna "þó þaklaus sé" og þá er hey úr flekkjum eða úr sátum og bólstrum bundið í bagga sem eru fluttir heim í hlöðu. Þar er heyið leyst úr böggunum og í þessu tilfelli hrúgað upp með vesturhlið hlöðunnar til að auðveldara verði að verja það fyrir rigningu ef með þarf eins og reyndin varð. Þá var torf lagt ofan á heyið í hlöðunni svo að heyið blotnaði ekki.

[10] Guðmundur Benediktsson fyrr nefndur.

[11] Útbúnar voru ábreiður úr striga sem settar voru yfir heyið í bólstrum og sátum til að vatnið steyptist betur af þvi.