Desember 1944

Desember 1944

1. desember
Steini fór út í Rauðalæk, ætlaði að setja niður olíuofn en það passaði ekki fyrir hann plássið. Kristján fór suður í Kirkjubæ o.fl. Siggi á Hamri kom með honum hér heim.

3. desember – sunnudagur
Snorri á Bægisá kom með bók (Verndarenglana). Steindór fór út í Efri-Vindheima og Neðri-Rauðalæk.

4. desember
Þá fengum við Baldur á Vindheimum til að fara með okkur til Akureyrar. Við fórum 3, ég, Guðfinna og Steindór. Svo flutti hann heim fyrir okkur 2500 pd af kolum, 4 síldartunnur og 7-800 pd af kornmat o.fl. smávegs s.s. 2 olíuföt. Kristján fór út í Skóga með Depil til hreinsunar.

5. desember
Ég rak ærnar upp á hjalla og var þar hjá þeim þar til þær fóru heim.

6. desember
Þá lét ég ekkert út féð því mér fannst veðrið svo vont. Þorleifur á Hamri kom með bækur o.fl.

7. desember
Ég hleypti ánum út en þær voru stutt úti. Siggi á Hamri kom um morguninn til að láta Kristján vita að íþróttakennslan eigi að byrja í dag en seinni fréttir töldu það ekki mundi vera og fór Kristján ekki.

8. desember
Ærnar voru stutt úti. Jón á Skjaldarstöðum kom og ég borgaði honum 100 kr. fyrir tún og engjalán í sumar.

9. desember
Þá byrjaði íþróttakennsla yfir á Melum og fór Kristján þangað. Steini og mamma fóru suður í Bægisá til að ræsta kirkjuna því það á að messa þar á morgun. Steindór kom heim um kvöldið.

10. desember
Ég fór snemma til að kveikja í kirkjuofninum og svo fóru Steini, Steindór og mamma til kirkju. Þar var 200 ára minning sr. Jóns Þorlákssonar. Ætlaði Brynleifur Tobíasson að halda þar erindi en hann kom ekki. Pétur á Rauðalæk kom með mjólkurdunk sem hann hafði að láni. Það var tekin mjólk í dag en tvo daga síðastliðna fór engin mjólk vegna ófærðar. Kristján fór ofan í Rauðalæk.

11. desember
Steini fór út að Steðja til að lóga belju. Kristján fór á íþróttaæfingu. Björn í Koti kom með bíl til að sækja Steindór. Snotra fékk doða í gær og var þá dælt í hana lofti[1] og svo þurfti að gera það aftur í dag. Gísli í Kirkjubæ kom til að biðja mig að lóga belju fyrir prestinn.

14. desember
Steini fór yfir í Hallfríðarstaði til að lóga belju fyrir Árna.

15. desember
Þá fór ég í bæinn með mjólkurbílnum. Einar[2] í Staðartungu kom og bað að taka gröf í kirkjugarði fyrir Stefaníu[3] í Staðartungu sem nú er nýdáin, 70 ára að aldri.

17. desember
Þá var haldinn fundur á Þinghúsinu fyrir mjólkurframleiðendur þar sem rætt var um reksturshalla á mjólkurbílnum o.fl. Samþykkt að jafna rúmlega 5.000 kr viðgerðarkostnaði á flutta mjólk.

18. desember
Þá tókum við Kristján gröf í Bægisárgarði. Það má heita að nú sé jarðlaust hér vegna áfreða.

19. desember
Þá böðuðum við féð. Gunnar[4] í Efstalandskoti kom og hjálpaði okkur við að baða.

20. desember
Þá var jörðuð að Bægisá Stefanía Jónsdóttir frá Staðartungu. Hófst athöfnin í Bægisárkirkju kl. 1 en á meðan verið var í kirkju hvessti á sunnan með mikilli snjókomu sem hélst fram í myrkur en fór heldur batnandi. Við Steini fórum suðureftir. Stefán á Barká kom og fékk lánaðar bækur, Dag í Bjarnardal og svo var hann við jarðarförina.

 

 

[1] Kýr með doða er máttlítil og rís ekki á fætur. Þá var lofti dælt upp í júgrin með holnál og það virkaði yfirleitt til að þær stæðu upp. Kalki var sprautað í kýrnar til að þær fengju síður doða.

[2] Einar Ingvar Sigfússon (1908-1966) bóndi og kennari í Staðartungu. Var austan úr Fellum.

[3] Stefanía Jónsdóttir (1873-1944) húsfreyja í Sörlatungu, Barká og Staðartungu, gift Friðbirni Björnssyni.

[4] Gunnar Höskuldur Brynjólfsson (1921-1984) vinnuvélastjóri á Akureyri.