1. mars 1936 – sunnudagur
Haraldur[1] í Fagranesi kom, fór svo út í Vindheima og kom aftur í rökkri og gisti hér. Einnig kom hér Nanna[2] gamla í Seli og gisti. Steingrímur á Rauðalæk kom og spilaði á orgelið.
2. mars
Steindór og Einar voru við malarakstur en hættu fyrr en þeir ætluðu vegna þess að það fór að hrynja í melnum, þeir höfðu grafið inn undir stóran helli en það var ekkert spaug að vera þar inni þegar fór að hrynja.
3. mars
Steindór fór út í Bryta og Rauðalæk til að láta vita að hann ætlar í kaupstað í fyrramálið. Svo óku þeir Einar nokkrum kössum af möl. Kristján fór ofan að Hamri og út í N-Rauðalæk til að láta vita um kaupstaðarferðina. Steingrímur kom og spilaði og seinna kom Pétur. Einar skrapp suður í Kirkjubæ og Alli kom með honum til baka og stansaði fram að háttatíma og spilaði við okkur.
4. mars
Steindór hætti við að fara inneftir og Einar ætlaði að fara en hætti við það og var um kyrrt. Steindór fór í skoðunartúr í Bægisá, Hamar og Rauðalækina. Nú er skoðað svo snemma vegna yfirvofandi heyleysis og harðindatíðar.
5. mars
Einar hjálpaði mér við að setja spýtur undir tótt og svo bakaði hann lummur, þæfði smokka[3] handa prestinum o.fl. því ferðaveðrið var ekki gott.
6. mars
Það hefur hlaðið niður feikna fönn og þó mikið væri áður komið þá er þó sem nú sé kastað tólfunum. Það má heita að girðingar séu allar um það að fara í kaf á jafnsléttu en sér dálítið á þær þar sem hávaðar eru. Fjárhús og lágir bæir er nær því á kafi.
Einar lagði á stað heim til sín. Alli kom til þess að tala um kaupstaðarferð, býst hann við að fara á morgun með prestsfrúrnar[4] en þær geta ekki setið á mjólkurdunkunum svo það er helst í ráði að Steindór fari með mjólk á morgun.
7. mars
Steindór fór til Akureyrar með mjólkursleða. Kári kom um morguninn til þess að vita hvort hann ætlaði að fara.
8. mars
Mamma fór suður að Syðri-Bægisá til að vera Þórlaugu[5] til skemmtunar, hún hefur legið rúmföst síðan um nýár. Hósi kom og tafði æði lengi. Steingrímur kom og spilaði. Steindór kom heim kl. að ganga 7, hann var hálf lasinn og fór strax að hátta. Kári kom til þess að sækja mjólkurdunka.
9. mars
Steindór fór í skoðunarferð út á bæi. Alli kom og fékk hest og sleða til þess að sækja hey ofan að Grjótgarði.
13. mars
Marinó[6] á Rauðalæk kom eftir beiðni Steindórs og skoðaði hey og skepnur. Mældist úthey 120 hestar en taða allt að 100 hestar. Kári kom og bjóst við að Alli mundi fara inneftir með mjólk í fyrramálið.
14. mars
Glórulaus stórhríð. Steingrímur á Rauðalæk kom og spilaði um stund á orgelið. Það var svo mikill skarkali í útvarpinu að ekki var viðlit að hafa opið.
15. mars
Kristján var sendur út í Bryta og svo kom Steini með honum aftur. Ég skrapp út í Rauðalæk til þess að fá doðadælu því það er komin kýr að burði. Ragnar í Kirkjubæ kom með umboð til Steindórs.
16. mars
Við mokuðum ofan af húsunum því þökin voru farin að leka. Kola bar tímanlega dags og gekk það sæmilega. Steindór fór suður í Bægisá í síma. Ég skrapp út í Rauðalæk til að hjálpa til að draga Skjóna upp úr kartöflugröf. Steindór fór úteftir um kvöldið með mjólk því Marinó ætlar inneftir snemma í fyrramálið.
17. mars
Aðalfundur KEA byrjar í dag.
18. mars
Steini og Júlli á Bryta komu með hest og sleða og fengu hér 660 pd af heyi. Hósi kom til þess að láta vita um að Þorleifur ætlar til Akureyrar í fyrramálið. Steingrímur kom til að æfa sig.
20. mars
Ég fór ofan að Hamri til þess að sækja mjólkurdunka og Steindór fór út í Rauðalæk í sömu erindum.
21. mars
Steindór fór inneftir með mjólk og kom aftur um kvöldið. Steini á Bryta varð honum samferða, var hann að sækja Jóhönnu og Reyni inneftir. Jóhanna hefur verið við rafurmagnslækningar allt að hálfan mánuð. Ég skrapp út í Bryta.
22. mars – sunnudagur
Steindór fór suður í Kirkjubæ með Náttúrufræðinginn.
24. mars
Gunnar[7] á Steinsstöðum kom og sótti 400 pd af mjöli fyrir Harald í Fagranesi sem Steindór hafði flutt innan að. Hósi kom og sagði að Þorleifur ætli inneftir á fimmtudag.
25. mars
Steindór fór með heyæki ofan að Steðja fyrir Jóhannes Örn[8] því hann er að verða heylaus. Það var 420 pd úthey og 220 pd taða. Steindór símaði til dýralæknis því Jarpur hefur skaufnabólgu[9]. Alli kom og fékk léðan haka.
26. mars
Mamma og Kristján fóru út í Bryta og Efri-Rauðalæk. Þorsteinn á Efri-Vindheimum kom. Steini á Bryta og Júlli komu og fengi 420 pd af útheyi. Þorleifur fór inneftir með mjólk.
27. mars
Hósi kom og bað um mórautt bréf að láni og fékk dálítinn stranga. Ingi á Rauðalæk kom og bað Steindór að koma ofan í Rauðalæk og fór Steindór ofan eftir. Við mokuðum ofan af húsunum.
28. mars
Steindór fór inneftir með mjólk og kom aftur kl. að ganga 11 um kvöldð. Ég fór suður í Bægisá með félagsbók, „Væringjar“. Rósant[10] á Hallfríðarstöðum kom og ætlaði að finna Steindór viðvíkjandi heyi sem Steindór útvegaði hjá honum fyrir mann á Grenivík. Ásta á Laugalandi og Helga[11] í Ási komu og töfðu fram yfir háttatíma. Fríða á Hamri og Hósi komu til þess að hlusta á leik í útvarpinu, þætti úr Pétri Gaut eftir Ibsen. Kristján var sendur út í Bryta.
29. mars
Kristján var sendur suður í Kirkjubæ og svo kom Kári með honum aftur til þess að sækja fisk sem Steindór flutti innanað í gær. Kristín og Steingrímur á N-Rauðalæk komu og töfðu.
[1] Haraldur Sigurðsson (1882-1958) bjó á mörgum bæjum í fram-Öxnadal á fyrri hluta aldarinnar. Hann var bróðir Jóhannesar í Engimýri og Neðri-Vindheimum, Rósants á Efstalandi og Hamri og þeirra systkina.
[2] Nanna Soffía Guðmundsdóttir (1892-1973) húsfreyja í Ásgerðarstaðaseli, móðir Gerðar Nönnu sem áður hefur komið við sögu. Faðir Nönnu átti fyrst barn með Þóru Rósu Oddsdóttur Benediktssonar frá Flöguseli, giftist síðan Rósu Benediktsdóttur frá Flöguseli en þau voru barnlaus því að hún var 27 árum eldri en hann. Þau höfðu vinnukonu, Sigurlaugu Sigríði Guðmundsdóttur, og með henni átti Guðmundur fjögur börn, þeirra næstyngst var Nanna Soffía. Rósa tók fullan þátt í uppeldi þessara barna og heimilishaldi fyrir þau.
[3] Þetta er ekki stafvilla. Smokkar voru (hér)ullarhólkar sem prestur hefur getað smeygt yfir fótleggi eða handleggi.
[4] Líklega á pabbi við Jóhönnu Valgerði Gunnarsdóttur (1873-1957) konu sr. Theódórs á Bægisá en pabbi talar yfirleitt um hana sem "frúna". Með fleirtölunni vísar hann hér e.t.v. til dætra þeirra, Valgerðar Sigríðar og Halldóru Hólmfríðar Kristjönu, sem gætu hafa verið að fara í kaupstað, önnur eða báðar.
[5] Þórlaug Þorfinnsdóttir (1889-1946) kona Snorra á Bægisá.
[6] Steindór var forðagæslumaður í sveitinni en ekki hefur þótt við hæfi að hann legði mat á heybirgðir og ástand búfjár hjá sjálfum sér og þess vegna hefur Marinó verið kallaður til.
[7] Gunnar Höskuldur Brynjólfsson (1921-1984) sonur Brynjólfs og Laufeyjar á Steinsstöðum og síðar Efstalandskoti
[8] Jóhannes Örn Jónsson (1892-1960) bóndi, skáld og þjóðsagnasafnari á Steðja, faðir Ævars uppfinningamanns.
[9] Bólga í nára
[10] Daníel Rósant Sigvaldason (1903-1965) bjó fyrst í Skógum, síðan á Hallfríðarstöðum og síðast í Ási. Bóndi og kaupmaður.
[11] Helga Baldvinsdóttir sem áður átti heima á Neðri-Rauðalæk var flutt með foreldrum sínum og systkinum út í Ás þar sem þau bjuggu 1935-1940 áður en þau fluttu í Skóga.