September 1944

September 1944

17. september
Við vorum við kindastúss lengst af síðari hluta dags því nú á að ganga fyrstu göngur á morgun. Siggi á Hamri kom og líka Rósant í Ási.

18. september
Við Steindór fórum í göngur á Ytri-Bægisárdal. Fóum ofan að Vaglarétt og komum heim um kl. 7 með um 50 kindur.

19. september
Steini fór í úrtíning[1] ofan á Vaglarétt. Við Steindór settum farg á votheyið og svo rákum við inn féð seinnipartinn þegar Steini kom heim og merktum lömb og veturgamalt fé.

20. september
Þá hirtum við síðasta heyið inn. Það voru 3 baggar af uppsláttartöðu. Það er ekki vitað með vissu um hvað heyið er mikið alls en ég reikna það 200 hesta töðu og 120-130 hestar úthey. Svo voru fluttir heim fjórir vagnar af sverði. Steini fór suður í Bægisá með nýþvegið rykkilín.

21. september
Steini fór út að Möðruvöllum til að setja niður olíuofn í kirkjuna. Ég fór með Kolu út í Vindheima undir naut (uppbeiðsla). Við Steindór byrjuðum að laga grunn undir bretaskúrinn.

22. september
Steini fór út í Vindheima og keypti lambhrút af Jóa. Steindór og Kristján fóru út í Skóga með tvo vagnhesta og sóttu undirstöðusteina undir bretaskúrinn.

23. september
Þá fór Steini til Akureyrar með sláturlömb sín, rak þau fyrst suður og ofan á Fúsaholt og þar voru þau tekin á bíl sem er framan úr Eyjafirði. Hann tók um 60 kindur, 29 sem Steini átti og annað eins fyrir Gísla í Kirkjubæ. Reynir kom með fólksbílinn og tveir strákar með honum. Reynir var að taka bílpróf í dag. Steindór og Kristján byrjuðu að reisa braggann en ég var að taka upp kartöflur ásamt Guðfinnu og pabba og mömmu. Uppskeran er sæmileg. Guðmundur[2] í Bólu kom og gisti. Var að reka fé til Akureyrar.

24. september
Pétur á Rauðalæk kom og tafði. Stefán á Efri-Rauðalæk kom til að finna Steina. Siggi á Hamri kom til að grennslast eftir göngum á morgun. Við rákum saman í fjallinu.

25. september
Ég fór í göngur á Bægisárdal, voru gangnamenn alls 7. Við rákum inn í Vindheimaréttina og drógum þar í sundur og svo fór Steindór með úrtíninginn ofan í Vaglarétt. Kristján var í göngunum og fórum við ekki nema að Vindheimum. Siggi á Hamri kom um kvöldið og bað mig að bólusetja fyrir Þorleif og gerði ég það.

26. september
Steini var við drátt í Vaglarétt í dag og hefur þar með lokið sínum gangnaskilum í haust. Við vorum að dútla við braggann og svo voru fluttar heim fjórar ferðir af sverði.

27. september
Þá fórum við með fé til Akureyrar á bíl. Sverrir Jónsson[3] frá Brekku keyrði. Steindór fór með 32 kindur, ég með 25 og Kristján með 3. Komum heim um kvöldið með Kára Hermannssyni[4]. Ég kom með lítið slátur og Steindór með ekkert.

28. september
Ég fór í síma að Bægisá og fékk um leið glas af bóluefni hjá Bensa og svo bólusettum við féð, lömb og veturgamalt og svo vorum við við húsbygginguna. Kristján fór um miðjan dag í snatt. Guðbjörn á Rauðalæk kom og bað mig að koma ofaneftir og skjóta hrút, „Hitler“ og gerði ég það síðdegis. Júlli Hjálmar kom með hrærutunnuna úr brautarvinnunni. Hann var með bíl. Um kvöldið komu Stefán[5] í Auðbrekku og Árni[6] í Hólkoti.

29. september
Við vorum við húsbygginguna. Mamma þvoði kirkjugólfið.

30. september
Við kláruðum að setja texið[7] í braggann og hálfnuðum að negla járnið á hann. Steini í Kirkjubæ kom og fékk lánaðan vagn og skilaði honum aftur.

 

 

[1] Úrtíningur er það fé sem gengur af þegar viðstaddir bændur eru búnir að taka sitt fé í réttinni.

[2] Guðmundur Valdemarsson (1911-1976) var bróðir Gunnars á Fremrikotum sem var að kaupa bretabragga í Skógum. Þeir voru synir Arnbjargar systur Pálma afa.

[3] Sverrir Þorgrímur Jónsson (1916-1977) frá Brekku í Kaupangssveit, bifreiðarstjóri á Akureyri.

[4] Kári Hermannsson (1919-2013) vestan úr Dölum. Húsgagnasmiður og síðar verslunarstjóri á Akureyri.

[5] Stefán Valgeirsson (1918-1998) bóndi og alþingismaður.

[6] Árni Ólafur Stefánsson (1927-2016) ólst upp í Hólkoti og var bóndi þar 1949-1956, síðar bifreiðarstjóri á Akureyri.

[7] tex var létt pappakennt efni í ca. 15 mm þykkum plötum sem notaðar voru sem einangrun í bretabröggunum.