Maí 1942
1. maí
Þá fór Sesselía úr vistinni með Óla sinn. Hún var ráðin til sumarmála og hefur verið að mestu hjá sér síðan. Hún fór að Grund í Eyjafirði í kaupavinnu. Finni[1] í Kirkjubæ flutti hana ofan á braut en þar tók mjólkurbíll úr Eyjafirði hana. Hósi kom til að fá lánaða taðvél. Við herfuðum tað og fluttum það á.
2. maí
Kristján fór á skóla. Marinó Ben. kom til að biðja Steindór að setja niður eldavél og múrpípu á Efri-Rauðalæk fyrir miðjan maí. Steindór fór með honum úteftir til að athuga. Við hreyttum og herfuðum það sem eftir var af taðinu og svo brenndum við úr múrpípunni. Mamma fór ofan í Rauðalæk.
3. maí
Steindór og Kristján límdu veggfóður í vesturloft herbergið. Kristján fór ofan á braut og út í Skóga. Tveir bretar komu og keyptu egg. 65. Kristján drap dauða rottu og hrafninn tók aðra.
4. maí
Steindór herfaði í flaginu en ég keyrði hrossatað út á kvíar og hreytti sumu. Um kvöldið var ausið úr þvaggryfjunni til kl. 10 og hálf. Kristján fór á skóla.
5. maí
Steindór fór suður í Bægisá með umburðarbréf og svo vorum við að herfa yfir það sem búið var að vinna á. Kristján fór í próf út í Ás og kom ekki heim fyrr en eftir háttatíma.
6. maí
Þá fór ég til Akureyrar með mjólkurbílnum, gekk í kaupfélagið og sitthvað annað. Kristján fór suður í Kirkjubæ. Um kvöldið var ærræfli lógað sem hefur verið að dragast upp í langan tíma og var hún grafin með húð en hárið var hirt af henni. Léonharð[2] á Rauðalæk kom og fékk lánaðan hest til að herfa. Fyrsta ærin bar í dag, tvílembd.
7. maí
Það var fluttur skítur suður og ofan á nýrækt og hreytt. Steini í Kirkjubæ kom til þess að láta Kristján vita að það á að yfirheyra fermingarbörnin á morgun. Leónharð kom og skilaði hestinum.
8. maí
Það var fluttur skítur í flag og herfað. Kristján var í rúminu vegna lasleika. Ég fór suður í Bægisá til að láta prestinn vita um að hann gæti ekki komið þangað. Það bar tvílembd ær í nótt og einlembd í morgun og tvílembd í dag. Ég lét ærnar út í kvöld þegar ég var búinn að gefa þeim.
9. maí
Við herfuðum bæði á túni og í flagi og svo var sáð 10 kg af byggi. Ólöf Þórðardóttir[3] kom, hún er nýkomin úr vist á Akureyri. Kristján fór í snöttutúr[4] og var lengi.
10. maí – sunnudagur
Steindór fór með Leónharð á Rauðalæk út í Bláteig[5] til að líta þar á húsakynni. Rósant frá Hamri kom að gamni sínu og Pétur á Rauðalæk kom til að fá lánaðan ræsaspaða. Pabbi fór út í Bryta og Kristján fór í snatt. Tveir bretar komu og keyptu egg.
11. maí
Steindór var út á Rauðalæk við að setja upp eldavél og múrpípu fyrir Marinó. Ég herfaði á túni fyrripartinn en gerði við girðingu seinnipartinn.
12. maí
Steindór var út á Rauðalæk. Marinó Ben. kom um morguninn. Kristján var lengi dags að herfa á túninu en ég dreifði því sem eftir var í þvaggryfjunni. Uppboð á Krossastöðum.
13. maí
Steindór fór út í Rauðalæk og vann þar. Kristján fór ofan í Neðri-Rauðalæk. Ein ær bar dauðu lambi og öðru lifandi í nótt og önnur fór eins að í dag.
14. maí – uppstigningardagur
Ég hef allar ærnar inni um nætur og fer ekki úr fötum því nú bera ærnar sem óðast. Rúmar 20 eru bornar og 12 af þeim tvílembdar. Steindór fór ofan í Rauðalæk og Kristján á silungsveiðar. Reynir kom og með honum Siggi litli kaupamaður og Júlli frá Bryta. Rósant á Hallfríðarstöðum kom til að fá brýndan hníf og klippur o.fl.
15. maí
Steindór herfaði fyrripartinn en var út á Rauðalæk seinnipartinn. Steini á Bryta og Árni[6] í Ási komu hér og fengu mig með sér til að hjálpa við að setja kirkjuorgelið upp á loft.
Nú er hlé á dagbókarskrifum en í seinnihluta maí hefur komið í Garðshorn vinnukona að nafni Guðfinna Bjarnadóttir.
24. maí - hvítasunnudagur
Gerði mikla rigningu svo ég kom holdvotur inn frá að sinna um féð. Ingi á Rauðalæk kom með böggul til Guðfinnu. Steindór fór út í Bryta.
25. maí
Þá var messað á Bægisá og fermt og skírt barn Árna[7] í Ási. Kristján var fermdur og fjögur önnur börn. Það fóru allir héðan til kirkju nema Guðfinna og svo kom Brytafólkið og Neðri-Rauðalækjarfólkið hér þegar messa var úti og drakk það hér kaffi og súkkulaði.
26. maí
Steindór fór um morguninn fram hjá Bakkaseli til þess að setja upp brautarskúrinn og verður hann þar við það einhverja daga. Þorleifur á Hamri kom til að skila taðvél. Ég var allan daginn að baksa við lambféð, lét inn óborið og nýborið. Fann ein á dauða í skurðinum suður og niður með lambið í burðarlið, dró dautt lamb úr annarri og vandi annað undir.
27. maí
Ég var lengst af að sýsla við lambféð. Það dó eitt lamb í læk og átti mamma það, ég setti annað undir ána en hún vill það ekki. Ég fór suður í Bægisá til að tala við séra Sigurð í síma viðvíkjandi sundkennslu.
28. maí
Ég var allan daginn að baksa við rollurnar og lömbin. Árni Jónsson kom og gisti, hann er nú handlama. Steindór kom heim um kvöldið. Kristján fór út í Rauðalæk fyrir Steindór.
29. maí
Það gerist lítið en það helst að þessa daga er stungið út brennslutað og klofið. Steindór fór til Akureyrar ríðandi. Árni var hér um kyrrt í dag. Kristján var lasinn af kverkabólgu.
30. maí
Steindór var heima og við jöfnuðum flag og hann keyrði skít í annað flag. Ég stakk út úr húsinu út og niður. Stebbi Nikk kom og keypti Bleik sem hann seldi Steindóri í haust. Bleikur var á 500 kr. í haust en 700 kr nú. Reynir kom hér við á leið úr vinnu.
31. maí
Steindór fór yfir í Myrkárdal til að reyna að fá Hermann í vinnu við reiðingsristu en sjálfur ætlar Steindór að vinna við aðgerð á ræsum hér niður á Mörkinni. Reynir kom og svo fór Kristján með honum út að Skógum til að selja egg. Mamma fór út í Efri-Rauðalæk. Jóhannes á Steðja kom og vildi fá keyptan undirristuspaða sem hefur haft að láni. Ég og Guðfinna fórum suður í Bægisá í síma.
[1] Friðfinnur Magnússon (1916-1982) bóndi í Bási 1939-1941. Ýtustjóri.
[2] Ekki er vitað hvaða Leónharð þetta var, hugsanlega sá sem var áður á Grjótgarði, Sigurgeirsson.
[3] Ólöf Sigurrós Þórðardóttir (1916-1971) síðar húsfreyja í Hvammkoti og á Akureyri.
[4] Pabba verður tíðrætt um snöttutúra Kristjáns, hann fer oft í snatt á bæi, þ.e. lítilla erinda.
[5] Bláteigur er í eyði þessi árin.
[6] Árni Júlíus Haraldsson (1915-2002) frá Rauðalæk býr nú í Ási áður en hann hefur makaskipti við Rósant Sigvaldason á Ási og Hallfríðarstöðum.
[7] Skírður var Ólafur sonur Árna og Aðalheiðar í Ási, síðar á Hallfríðarstöðum.