Maí 1945

Maí 1945

1. maí
Steini var heima. Kristján var við að klára að flytja braggann vestur. Steindór var út á Efri-Vindheimum að gera við „bodí“ fyrir Baldur. Ég gerði við girðingu.

2. maí
Steini og Kristján fóru í vinnuna. Ég fór suður í Bægisá til að kveikja á kirkjuofninum því það á að yfirheyra fermingarbörn í dag. Svo talaði ég í síma við Akureyri. Seinnipartinn plægðum við parta af flagi niður á túni. Steini kom ekki heim um kvöldið. Ég lét fátt af ánum inn í kvöld. Annars hafa þær legið nokkrar nætur en hefur alltaf verið gefið.

3. maí
Ég fór með Síðu út í Vindheima undir naut. Við Steindór plægðum seinnipartinn. Kristján var í Kirkjubæ. Kristín Jónsdóttir (Stutta-Stína) kom um kvöldið og gisti. Það er í ráði að hún verði kaupakona hjá mér í sumar.

4. maí
Norðaustan sperringur. Guðfinna fór til Akureyrar og kom aftur um kvöldið með mjólkurbílnum. Kristín var hér um kyrrt.

5. maí
Kristín fór yfir að Koti. Fríða á Hamri kom. Steini kom heim um kvöldið. Sömuleiðis Kristján. Ein ær bar í nótt sem Steini átti, tvílembd.

6. maí – sunnudagur
Kristján fór suður í Kirkjubæ o.fl. Um kvöldið var samsæti að Melum, kveðjusamsæti sem bindindisfélagið hélt Finnlaugi á Bægisá og Hermínu konu hans. Þau létu gifta sig í gær og eru svo á förum alflutt suður á land. Guðbjörn á Rauðalæk kom með myndavél sem ég fæ lánaða einhverja daga og tók ég eina mynd af Fríðu í dag[1]. Steini fór með geymana sína ofan í Rauðalæk. Um kvöldið fór ég suður í Kirkjubæ til að sprauta kalki í kýrnar.

7. maí
Steini fór í vinnuna. Ég stakk út úr einni kró og flutti út að garði og herfaði það. Steindór jós útlendum áburði.

 

Hlé á dagbókarskrifum fram yfir sauðburð

 

[1] Pabbi tók ekki mynd af Pálma.