Í Baugaseli í Barkárdal er eini uppistandandi torfbærinni í Hörgársveit. Þar var búið til 1965 og síðustu ábúendurnir, Friðfinnur Steindór Sigtryggsson (1889-1976) og Una Zóphoníasdóttir (1894-1970) höfðu búið þar frá 1930. Síðustu árin höfðu Friðfinnur (1917-2011) sonur þeirra og kona hans Jórunn Rannveig Ragnarsdóttir (1932-2018) búið í Baugaseli á móti þeim.
Nokkuð er um að fólk leggi leið sína fram í Baugasel á öllum árstímum og á meðan Bjarna E. Guðlaugssonar naut við stóð hann fyrir árlegum ferðum þangað á Sumardaginn fyrsta auk þess sem hann var í fararbroddi fyrir árlegum Jónsmessusamkomum í Baugaseli á vegum Ferðafélagsins Hörgs. Þau sem koma nú í Baugasel átta sig væntanlega ekki á upphaflegri húsaskipan og þess vegna fylgir hér á eftir lausleg lýsing á henni.
Baugaselsbærinn er í Barkárdal, afdal vestur úr Hörgárdal, og stendur í rúmlega 100 m fjarlægð frá Barkánni sem – eins og nafnið bendir til – er oft barkarlituð af jökulleir úr Barkárdalsjöklinum fyrir botni dalsins. Bærinn snýr framstöfnum í suður í átt til árinnar, umkringdur háum fjöllum. Varasamt getur reyndar verið að fara með áttir á þessum slóðum af því að Hörgárdalurinn sjálfur snýr í norðaustur og suðvestur en íbúar tala gjarnan eins og hann snúi í norður og suður og það sem er norðvestan Hörgárinnar er jafnan sagt vera vestan við hana og austan við hana er það sem í raun er í suðaustri. Barkárdalurinn snýr hinsvegar nokkurn veginn í austur og vestur. Þess vegna má segja að norðan við bæinn eða bak við hann sé Baugaselsfjallið, rúmlega 1160 metra hátt, en sunnan við hann er Stórihnjúkur á Slembimúla um 960 m hár. Óvíða á byggðu bóli á Íslandi er sólargangur jafnstuttur og í Baugaseli, tæpir 5 mánuðir á ári, sem hefur orðið hagyrðingum að yrkisefni. Jón Ólafsson frá Gili í Öxnadal á að hafa gert þessa vísu:
Í Baugaseli er blómalaust,
býr í dimmu mengi.
Sést þar ekki sól um haust,
svo er á vorin lengi.
Aðrir segja að vísan sé eftir séra Gamalíel Þorleifsson, sem um tíma var prestur á Myrká, og að vísan sé öðruvísi en það verður ekki rakið hér.
Allt þetta kemur húsaskipun í Baugaseli auðvitað ekkert við og þess vegna er rétt að snúa sér að efninu.

Mynd 1 sýnir Baugaselsbæinn úr suðvestri, myndin tekin eftir að Ferðafélagið Hörgur hafði gert honum til góða, m.a. með því að mála framstafnana. Til vinstri sér í fjósið, sem er hrunið. Ljósmyndari ókunnur.

Mynd 2 sýnir bæinn þar sem horft er til vesturs þar sem glyttir í Barkárdalsjökulinn yfir dalbotninum undir hamrabeltum. Fremst á myndinni til hægri er baðstofan, sem nú hefur verið gerð myndarlega upp. Myndin er úr Byggðum Eyjafjarðar 1990, fyrra bindi.

Þriðja sjónarhornið er á Mynd 3 þar sem gluggarnir á austurhlið baðstofunnar sjást greinilega. Á báðum myndunum blasir við skorsteinninn upp úr eldhúsinu en þar var kola- eða kokseldavél á seinni búskaparárum Friðfinns og Unu. Myndin er líklega tekin eftir árið 2000.

Enn eitt sjónarhornið er nauðsynlegt að sýna en það er á Mynd 4 frá Fornleifastofnun sem sýnir Baugaselsbæinn úr suðvestri. Fjósið er lengst til hægri en næst á myndinni sjást tóttir gamla hlóðaeldhússins.
Allar framangreindar áttatilvísanir eru samkvæmt landakorti en eflaust á skjön við málvenjur íbúa í Baugaseli fyrr og síðar.
Þá er loks komið að því að ganga í bæinn og fara um hann með hjálp af meðfylgjandi uppdrætti sem við Hjalti Pálsson mældum út síðsumars 2023 og skýringum Ingimars Friðfinnssonar (f. 1926) sem ólst upp í þessum húsum. Við Hjalti eigum báðir ættir að rekja til fólks sem átti á sínum tíma heima í Baugaseli og það var tilefni heimsóknar okkar þangað. Við tókum fyrst og fremst innanmál á hverju rými en veggjaþykkt var ekki mæld. Torfveggirnir eru þykkir og einangruðu vel enda var vel hlýtt í baðstofu og eldhúsi á meðan búið var í húsunum.
Þegar ábúendaskipti urðu á jörðum var venja að meta ástand þeirra formlega og skrifa um það skýrslur. Í íbúðarhúsum var stærð hvers rýmis lýst svo og byggingarlagi. Með því að skoða þessar úttektarskýrslur er hægt að gera sér grein fyrir breytingum sem urðu á byggingum frá einum tíma til annars og einnig er hægt að bera saman byggingar á mismunandi bæjum. Í eftirfarandi lýsingu er tekið mið af úttektum sem gerðar voru í Baugaseli 1905, 1925 og 1930 en síðasta úttektin var gerð þegar Friðfinnur Sigtryggsson tók við jörðinni af Hallgrími Hallgrímssyni sem síðar bjó á Vöglum á Þelamörk og hefur fengið verðuga umfjöllun í Heimaslóð.
Eins og myndir 1 – 3 sýna eru framþilin tvö og dyr og gluggar á báðum fram á hlaðið. Dyrnar hægra/austan/norðan megin leiða inn í göngin en fyrst er komið í opinn skála til hægri þar sem var hefilbekkur, ýmis smíðatól og önnur verkfæri. Sambærileg rými voru á öðrum bæjum og kölluð bæjardyr. Innangengt er úr skálanum eða bæjardyrunum í geymslu í framhúsinu vinstra/vestan/sunnan megin. Áður var þetta rými kallað taðkofi og hefur verið geymsla fyrir eldsmat til matreiðslu, frekar tað en mó/svörð. Úr skálanum eða bæjardyrunum liggja göng inn í vistarverur heimilisfólksins en löng göng úr bæjardyrum þjónuðu þeim tilgangi að halda kulda frá vistarverunum, einkum baðstofunni.
Þegar kemur inn í göngin er gengið til hægri inn í eldhús og þaðan í baðstofu. Gegnt dyrum að eldhúsinu voru áður dyr inn í búr sem var eins og hver önnur köld geymsla undir mat. Búrið er fallið en hefur vafalaust snúið stöfnum í austur og vestur eins og baðstofan. Enn innar var gengið úr göngum inn í hlóðaeldhús til hægri og í fjósið til vinstri en það rúmaði í byrjun aldar 3 kýr. Friðfinnur Sigtryggsson hefur stækkað það til að geta haft fleiri kýr og selt mjólk til Akureyrar og síðan rúmaði það 7 kýr. Hætt var að nota hlóðaeldhúsið sem slíkt þegar nútímalegri eldunarbúnaður kom til sögunnar og þá var vestur-/suðurendinn á baðstofunni þiljaður af og baðstofan lengd til austurs/norðurs. Baðstofan var framan af öldinni rúmir 4 metrar (7 álnir) á lengd en er nú 7,5 m. Baðstofan var endurbyggð snemma á 6. áratugnum, enda þá orðin lasin, og á 9. áratugnum þiljaði Ferðafélagið Hörgur hana á nýjan leik með þátttöku Baugaselsbræðra sem voru lagtækir menn og lærðir smiðir sumir.
Eins og áður hefur komið fram bjuggu Friðfinnur Friðfinnsson og Rannveig kona hans í Baugaseli á móti foreldrum hans á árunum 1957 til 1965 og byggðu sér þá timburhús í krikanum milli skála og baðstofu sem blasir vel við á Mynd 2. Þegar þau fluttu burt og Baugasel fór í eyði 1965 var húsið tekið niður.
Ýmsan fróðleik er að finna um Baugasel og ábúendur þar í Byggðum Eyjafjarðar og í bókum Bernharðs Haraldssonar um Skriðuhrepp hinn forna. Einnig má benda á minningargrein í Íslendingaþáttum Tímans 30. des. 1971 sem sr. Ágúst Sigurðsson á Möðruvöllum skrifaði um Unu Zóphoníasdóttur.