Október 1945

Október 1945

1. október
Þá voru gengnar 3. göngur. Steindór fór ofan í rétt.

2. október
Ég var að reyna að útvega bíl til að flytja sláturfé á morgun og fékk ég lofaðan bíl af Bifröst. Svo rákum við saman og tókum til sláturfé og höfðum það inni í húsum.

3. október
Þá fórum við til Akureyrar með sláturfé. Kom bíll fram að Fúsaholti kl. 8 og fór ég með inneftir. Svo fór hann aftur og sótti restina. Ég átti 29 kindur, Steindór 32, Steini10 og Gísli í Kirkjubæ 15. Svo komum við heim með mjólkurbílnum um kl. 8.

5. október
Ég skrapp í bæinn um hádegisbilið, náði í fólksbíl. Kom svo með Jóhannesi vestur í Laugaland og gekk þaðan að mestu.

6. október
Steini var heima og slátraði 8 lömbum og 3 ám til heimilis. Ég var til aðstoðar. Helgi á Bægisá kom með hund sem Snorri bað mig að skjóta og gerði ég það. Steindór var hjá Jóa á Brúnastöðum í vinnu.

7. október
Þá fengum við Hans á Vindheimum með bílinn til að flytja dót sem Margrét Jónsdóttir á ofan að Laugalandi og svo fluttum við til baka þakjárn og kol sem við fengum hjá Kalla á Vöglum. Gísli í Kirkjubæ kom og keypti tvævetran hrút af Steina. Sveinn í Koti kom til að finna Steindór.

8. október
Snjókoma. Við létum féð inn um kvöldið.

9. október
Steindór var út á Brúnastöðum. Ég fann lamb sem ég átti niður í mólæknum, var það fast á gaddavír og illa farið. Hefur verið þarna a.m.k. á aðra viku.

10. október
Ég hjálpaði Steindóri til að slátra til heimilis 7 kindum.

11 október
Steindór var út á Brúnastöðum. Ég fór ofan í Rauðalæk til að borga útsvarið mitt o.fl.

12 október
Steindór fór í bæinn. Gestur kom aukaferð með kol, 5.000 pd. Komst hann með þau hér heim á tún[1]. Hreppaskil á Þinghúsinu. Kristján kom heim.

13 október
Við fluttum heim kolin og svo fór Steindór út í Vindheima í húsbygginguna. Kristján hjálpaði mér til að herfa tvær sauðataðsrastir sem ég hef verið að flytja á undanfarið.

14 október
Steini fór út að Vöglum til að setja niður hráolíuofn. Kristján fékk Hans á Vindheimum með sig og komu þeir með ögn af kolum utan frá Vöglum. Magnús[2] í Skriðu kom og var að biðja Steindór að vera hjá sér á morgun við að setja járn á fjós. Við létum inn heyvinnuvélarnar.

15 október
Ég rak saman fyrir ofan og var eitt lamb ókunnugt. Gísli í Kirkjubæ átti það. Helga á Rauðalæk kom og bað mig að koma ofaneftir til að skoða mark á lambi og gerði ég það ásamt Þorleifi á Hamri. Ég flutti nokkrar kerrur úr sauðataðsröstinni.

16 október
Steindór var út á Vindheimum við fjárhúsbygginguna. Róslín[3] á Brúnastöðum kom til að fá karbólín[4]. Snorri á Bægiá kom og fékk að láni 6 plötur af baðsápu. Ég fór með tvö lömb suður í Kirkjubæ. Svo slátraði ég einu lambi sem er nýlega endurheimt.

17 október
Ég fór til Akureyrar og keypti maís, rúg og beinamjöl, alls 1.300 pd. Gestur flutti þetta heim fyrir mig.

18 október
Steindór var á Vindheimum. Ég flutti ögn af skít seinni partinn.

19 október
Hægviðri. Úrkomulaust að mestu. Klukkan tæplega 5 um morguninn fór ég af stað til að sækja ljósmóður, fór fyrst í Ytri-Bægisá og símaði að Þverá, fékk svo Stein á Syðri-Bægisá með bíl til að sækja Önnu og var hún komin hér áður en klukkan var 7. Kl. 1.45 fæddist drengur[5]. Steindór var á Vindheimum og Steini á Laugalandi.

20 október
Ég fór fram í Miðland til að vita hvort Kristjana[6] gæti verið hér einhverja daga en hún gat ekki sagt um það þá strax. Anna var hér í dag og verður í nótt.

...

28 október
Kristján fór út í Vindheima og Brúnastaði til þess að reyna að fá bíl til að flytja Kristjönu fram í Miðland en það fékkst enginn bíll svo ég fylgdi henni á hestum. Steindór var út á Vindheimum. Guðfinna klæddi sig aðeins. Um kvöldið komu þeir Sveinn og Gunnar í Koti til að sækja kartöflur til Steindórs.

29 október
Steindór var á Vindheimum. Steini var heima. Ég rak saman. Bensi og Sigfús komu með kindur.

30 október
Steindór og Steini voru út á Vindheimum og voru að setja járnið á fjárhúsin. Ég fór með kindur suður í Kirkjubæ og kom aftur með hvolp sem ég fékk hjá Gísla.

31 október
Steindór var út á Vindheimum. Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum og kom ekki aftur um kvöldið. Siggi á Hamri kom og fékk lánað steypumót.

 

 

[1] Það hefur ekki verið bílfært heim í hlað.

[2] Magnús Friðfinnsson (1880-1962) bóndi í Dagverðartungu, Hátúni og Skriðu.

[3] Róslín Berghildur Jóhannesdóttir (1934) síðar húsfreyja á Ytri-Bægisá.

[4] Karbólín er bólgueyðandi efni.

[5] Gunnar Frímannsson (1945). Símstöð var á Þverá en ekki á öðrum bæjum í þessum sveitum nema Ytri-Bægisá.

[6] Kristjana Þorleifsdóttir (1871-1956) hafði búið á nokkrum bæjum með Aðalsteini Hallssyni manni sínum, síðast á Miðlandi. Hún var amma bræðranna í Hrauni og þeirra systkina. Hún hefur greinilega fengist til að vera í Garðshorni á meðan mamma lá rúmföst eftir fæðinguna eins og siður var á þeim tíma.