Ágúst 1936

Ágúst 1936

1. ágúst
Við slógum allan daginn hér fyrir sunnan túnið og svo var rakað fram yfir kaffitíma en þá var hætt af því að það var svo blautt. Eggert tók hér torf fyrir Núma.

2. ágúst
Pabbi og Steindór fóru vestur í Skagafjörð með Eggert í morgun. Mamma fór út á bæi, Skóga lengst. Kristján fór út í Bryta og Hamar. Þóra fór út í Rauðalæk. Tryggvi Gissurarson kom og tafði. Rósant á Hamri kom og fékk léðan torfljá. Stebbi Nikk[1], Gísli[2] í Bakkaseli og Sverrir[3] komu og fengu reiðinga[4].

3. ágúst
Pabbi og Steindór komu heim kl. 3 í nótt.

5. ágúst
Við fönguðum mest allt heyið, settum aðeins þrjá bólstra af illa þurru. Haraldur Sigurðsson kom og gisti.

6. ágúst
Það voru teknir saman 2 flekkir í garða og föng. Steingrímur á Rauðalæk kom.

7. ágúst
Það var rakað lengst af seinnipartinn. Haraldur fór með bílnum.

9. ágúst
Einar Jónsson kom. Júlli á Bryta kom með nokkrar síldar. Jón á Skjaldarstöðum kom. Pabbi fór út í Bryta. Kristján fór ofan í N-Rauðalæk. Mamma fór suður í Bægisá.

10. ágúst
Við dreifðum föngum og tókum saman.

11. ágúst
Við bundum bæði úr sætum og flekk, alls 37 hesta, auk þess tókum við ofurlítð saman. Guðmundur[5] í Þríhyrningi kom til þess að biðja um hestreiðinga[6].

12. ágúst
Kristján var sendur út í Bryta og svo var Steindór ytra seinnipartinn við að negla járn á hlöðu.

13. ágúst
Það hafði hríðað í fjöll í nótt. Um kvöldið voru bundnir 16 hestar af töðu og þar með hirtur fyrri sláttur.

14. ágúst
Það var slegið og rakað.

15. ágúst
Það var bundið í hesthúsheyið, sumt úr bólstrum og sumt úr flötu, 31 hestur og heyið fullgert. Um kvöldið kom Tryggvi Gissurarson með frú[7] og Kristinn Kristjánsson[8] og frú og voru hér um nóttina.

16. ágúst – sunnudagur
Jón á Skjaldarstöðum kom og fékk 11 torfur á vagn. Hósi kom og fékk lánaðan hnakk. Steindór fór út í Bryta og Rauðalæk. Kristinn og Jóhanna fóru yfir í Háls[9] til berja og Kristján fór með þeim. Svo komu þau hér aftur og svo kom bíll um kvöldið og sótti þau. Pabbi fylgdi Tryggva yfir um á því hann ætlar að vera 3 daga í Lönguhlíð.

17. ágúst
Þá var bundið að fjárhúsunum efra 35 hestar, einn bólstur er eftir, annað hirt upp. Reynir kom og fékk lánaðan hest til að binda á og skilaði honum aftur um kvöldið.

18. ágúst
Steindór sló um stund með vél og skúffu út og niður með læk.

19. ágúst
Tryggvi kom handan að og gisti.

20. ágúst
Nú var dálítill þurrkur svo það var snúið. Tryggvi og Guðný fóru með bílnum. Steindór fór í kaupstað og kom aftur um kvöldið með mann með sér sem ætlar að verða hér nokkra daga í vinnu, hann heitir Þorsteinn Magnússon[10], áður bóndi á Jökli í Eyjafirði.

21. ágúst
Við tókum saman ögn af heyi. Þorsteinn var að setja þakhrygg og stromp á hlöðuna.

22. ágúst
Steindór sló með vél og skúffu um stund.

23. ágúst - sunnudagur
Kári kom til að safna sláturfjárloforðum. Pétur á Rauðalæk kom og fékk 3 borð. Steingrímur kom. Þorleifur á Hamri kom og fékk lánaðan skrúflykil. Guðbjörn kom. Karl[11] á Vöglum kom, var að leita að hestum. Rósant á Hallfríðarstöðum kom og Steindór fór með honum suður í Bægisá. Pabbi fór út í Bryta.

24. ágúst
Steindór og Þorsteinn voru við að setja fóðurgang í fjósið.

25. ágúst
Þá var bundið úr flötu og 1 bólstur, alls 32 hestar í hlöðuna út og niður.

26. ágúst
Fyrripartinn var bundið 28 hestar úr uppsettu. Steindór sló með vél og skúffu út og upp í sundum um kvöldið.

27. ágúst
Þorsteinn tók í sundur eldavélina. Við Steindór þöktum hesthúsheyið en um kvöldið fóru þeir suður í Bægisá, Steindór og Þorsteinn.

28. ágúst
Við byrjuðum að slá upp.

29. ágúst
Ég sló upp með vél en hitt fólkð var við að flytja og raka heyið í votheysgryfju. Líka var tekið saman úthey.

30. ágúst – sunnudagur
Árni Jónsson kom og seinna um daginn kom hér fólk innan úr Hlíð. Flutti Eggert það á bílnum fyrst fram í Háls og svo kom það hér og fékk að tína ber um stund en svo kom það heim og fékk kaffi og lummur. Það var 19 alls. Svo kom hér líka Kristín á Rauðalæk með Guðbjörn og Helgu. Reynir kom og tafði lengi. Alli kom og Bjarni Friðriksson. Pabbi fylgdi Þorsteini fram í Hörgárdal. Steindór fór út í Bryta og Rauðalæk til þess að fá heyhitamæli. Þóra fór út í Bryta.

31. ágúst
Eggert kom með 2 tonn af kolum heim í hlað og svo flutti hann reiðinga inn eftir aftur. Við bættum í votheysgryfjuna og slógum upp. Heimaganginum slátrað.

 

 

[1] Stefán Nikódemusson (1899-1998) bjó í Gloppu, síðar á Efri-Rauðalæk.

[2] Gísli Ingólfsson (1918-1998) sonur bóndans í Bakkaseli.

[3] Vafalítið Sverrir Baldvinsson (1912-2004) var hjá foreldrum sínum í Ási, síðar bóndi í Skógum.

[4] Mikil framleiðsla hefur verið á torfi úr mýrinni neðan við Garðshorn. Efstu torfurnar með grasrótinni voru notaðar til að þekja hey eða til að setja á bása undir kýrnar. Þessar torfur mjókkuðu til jaðranna. Torfur sem ristar voru undan þeim voru jafnþykkar til jaðranna og ristar með þar til gerðum torfljám sem voru beinir fram í odd. Þær torfur kölluðust reiðingar. Stundum fengust allt að 6 reiðingstorfur, hver undan annarri, þar sem mýrarjarðvegurinn var þykkastur. Torfurnar voru fluttar úr mýrinni og þurrkaðar og seldar í einangrun í íbúðarhús og stundum útihús sem voru víða byggði í þessari sveit um þessar mundir, einnig var reiðingur seldur til Akureyrar.

[5] Guðmundur Júlíus Jónsson (1866-1938) bóndi í Þríhyrningi.

[6] Hestreiðingur hefur verið torfa sem lögð var undir klyfbera á hesti. Reiðingur var á þessum tíma mikið notaður í einangrun í hús sem verið var að byggja víða um sveitir. Mýrarnar fyrir neðan Garðshorn hafa verið nýttar til að rista reiðing og selja eins og áður er lýst.

[7] Fyrri kona Tryggva og barnsmóðir var Stefanía Guðrún Stefánsdóttir (1864-1929) en ekki er vitað hver frú hans var á þessum tíma nema hún hét Guðný.

[8] Hugsanlega Kristinn Gunnsteinn Kristjánsson (1916-1996) frá Ólafsfirði, verkamaður á Akureyri, og Jóhanna Lilja Antonía Þorsteinsdóttir (1917-1998) frá Akureyri, hún var hálfsystir Baldurs, Steinþórs og þeirra systkina frá Efri-Vindheimum sem gæti skýrt heimsókn þeirra í Garðshorn.

[9] Miðhálsstaðaháls eða Staðartunguháls eftir því hvoru megin við Hörgána fólk bjó í dalnum. Þar hefur löngum verið gott berjaland.

[10] Þorsteinn Magnússon (1880-1963) bóndi á Jökli í Eyjafirði 1904-1934, starfaði síðan sem smiður á Akureyri og hefur verið í þeim erindum í Garðshorni.

[11] Karl Júlíus Hallgrímsson (1890-1962) bjó á Vöglum 1936-1946. Bróðir Hallgríms sem bjó á Vöglum til 1978.