Mars 1945
1. mars
Steindór stakk út úr einni kró og ók taðinu suður og ofan á nýrækt. Kristján fór á skíði.
2. mars
Steindór stakk út úr húskró og ók taðinu frá. Sigríður á Steðja kom með bók sem ég á (Sjómenn). Steini sótti sýrugeymana sína ofan í Rauðalæk. Siggi á Hamri kom hér heim. Var með Kristjáni á skíðum.
3. mars
Steindór fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom aftur um kvöldið með mikið af maísmjöli, eplum, appelsínum o.fl. Við Kristján járnuðum Brún.
4. mars
Snorri á Bægisá kom með bók, Brasilíufarana. Erla[1] á Skipalóni kom og gisti. Jón á Skjaldarstöðum kom, hann er að reyna að útvega sér mann til að byggja í vor. Rósant í Ási kom. Hann vantar enn kartöflur og svo ætlar Steindór að smíða fyrir hann kerrukassa og grind. Kristján fór út í Vindheima til að sækja naut. Rjúpu var haldið. Hans kom með nautið.
5. mars
Erla fór úr hádeginu. Hún er á barnaskóla í Ási[2] og heldur til í Skógum. Kristján ók nokkrum sleðum af sauðataði suður og ofan á nýrækt.
6. mars
Steini fór út í Steðja til að skjóta hrút fyrir Jóhannes. Kristján ók sauðataði en um kvöldið fór hann suður í Kirkjubæ og kom aftur með póst. Aðalheiður á Barká gerði boð og bað að lána sér hest á morgun frá Bægisá og heim til sín. Hún er að koma frá Akureyri og er með liðagikt og ekki gangfær.
7. mars
Steindór fór suður í Bægisá til að vita hvort Aðalheiður treysti sér heim og varð það úr að hún hætti við að fara. Svo fór Steindór út í Vindheima til að sækja naut og var Snotru haldið. Hans kom með nautið.
8. mars
Steindór fór til að fylgja Aðalheiði. Pétur á Rauðalæk kom með bréf til mín o.fl. Siggi á Hamri kom með sjúkrasamlagslög sem eru send um bæina.
9. mars
Steini fór suður í Bægisá til að þvo kirkjuna. Kristján var suður á Kirkjubæ seinnipartinn. Steindór fór út í Vindheima til að sækja naut. Þorsteinn kom með það. Huppu var haldið.
10. mars
Halldór „fína-drallið“ kom og tafði hér um kvöldið. Steindór fór suður í Bægisá til að gera við útihurðina fyrir prestinn.
11. mars
Þá var messað á Bægisá. Ég fór suðureftir til að kveikja á ofninum en til kirkjunnar fóru Steini, Steindór, Jóhanna og mamma. Kristján fór í flækingstúr. Ég lét ærnar út stundarkorn.
12. mars
Einar í Staðartungu kom og var að árétta fyrri beiðni sína um að við tækjum gröf í Bægisárgarði því það á að jarða Friðbjörn[3] fyrrum bónda í Staðartungu á föstudaginn nk. Hann dó laugardag 3 mars. Kristján fór suður í Kirkjubæ.
13. mars
Stefán á Rauðalæk kom með lopa sem á að reyna að spinna fyrir hann. Við sóttum svörð á einn vagn um kvöldið.
14. mars
Steindór og Steini tóku gröf í Bægisárgarði. Kristján fór út í Steðja. Ég lét ærnar út á milli gjafa.
15. mars
Steini og Kristján fóru suður í Bægisá og fluttu gamla kirkjuofninn niður í Kirkjubæ.
16. mars
Þá var Friðbjörn í Staðartungu jarðsettur að Bægisá að viðstöddu mörgu fólki. Við fórum 5 héðan, Steini, Steindór, Jóhanna, mamma og ég. Hvölpurinn flæktist burtu um morguninn og leitaði Kristján að honum alla næstu bæi og fann hann síðast á Hamri.
17. mars
Þá fórum við Kristján til Akureyrar, tók ég tonn af kolum. Gestur er með mjólkurbílinn og keyrði hann þetta allt heim í hlað fyrir mig. Ben. Einarsson var með bílnum og drakk hann hér kaffi. Tryggvi Gis, Kiddi og Þorsteinn á Vindheimum komu um kvöldið ríðandi og var Tryggvi nóttina.
18. mars
Ég lét féð út og dró af 1/3. Mamma, Guðfinna, Kristján og Fríða fóru ofan í Rauðalæk.
20. mars
Þá fluttum við á völl nokkrar kerrur og hreytti ég sumu. Júlíus Hjálmar kom, hann hefur verið á Grjótgarði nokkuð í vetur en er nú á förum þaðan.
21. mars
Þá setti Steindór asbestplötu undir eldavélina og dúk á eldhúsgólfið.
22. mars
Við bundum hey fyrir Steindór sunnan og neðan af nýrækt og fluttum heim í hlöðu fyrir hádegið. Gísli í Kirkjubæ kom með símboð til Steindórs og fór hann suður eftir kl. 4. Það var Kári Larsen sem talaði við hann.
23. mars
Ég fór suður í Bægisá og þvoði kirkjugluggana og svo fór Steindór og málaði þá. Svo fór ég suður í Syðri-Bægisá með kirkjugjaldsmiða og borgaði Snorri hann. Presturinn fékk sinn og borgaði ekki og svo kom ég við í Kirkjubæ með Bensa miða en hann var ekki heima. Kristján var suður í Kirkjubæ við hirðingu. Ég fékk bréf frá Bjarna.
24. mars
Steindór kláraði að mála kirkjugluggana en Steini þvoði kirkjugólfið. Kristján var í Kirkjubæ við hirðingu og svo fór hann á samkomu yfir á Mela um kvöldið.
25. mars – pálmasunnudagur
Þá var tekin mjólk eftir hádegið. Steindór fór með múrsteina á vagni suður í Bægisá og eiga þeir að verða undir stakketi í garðinum. Kristján fór inneftir á mjólkurbílnum og ætlaði að vera á leik í kvöld, Gamla Heidelberg. Sverrir kom til að skoða. Sagði hann töðu hjá mér 64 hesta og 50 hesta úthey, taða hjá Steindóri 90 hestar og úthey 55 hestar.
26. mars
Steindór var að mála kirkjugólfið. Kristján var suður í Kirkjubæ við hirðingu fyrir Gísla. Ég var við rúmið af því ég hafði svo mikla gikt í bakinu.
27. mars
Steindór kláraði að mála kirkjugólfið. Ég var lítið/ekkert skárri af giktinni og gerði ekkert. Fékk meðöl innan að með mjólkurbílnum.
28. mars
Steini fór til Akureyrar og kom aftur með fóðurblöndu, fisk o.fl. Ég var heldur skárri af giktinni.
29. mars
Eiríkur Stefánsson kom hér snöggvast, var að finna Steindór. Ég fór ofan í Hamar með bækur og kirkjugjaldsmiða sem Þorleifur borgaði. Það kom bíll af Akureyri hér fram um með fisk til sölu, keyptum við 110 kg á 60 aura kg. Valdi[4] á Syðri-Bægisá kom með félagsbækur. Reynir kom og ætlar að vera fram á laugardag. Kristján fór í snatt.
30. mars
Þá fór ég út á bæi, fór með mjólkurbílnum út í Steðja og borgaði Jóhannesi bókband fyrir Lestrarfélagið, alls 190 kr. og fyrir sjálfan mig 104 kr. en kartöflur fær hann fyrir 66 kr. Ég drakk þar kaffi og slæptist lengi. Svo fór ég suður í Skóga með kirkjugjaldamiða og var það borgað. Þar drakk ég súkkulaði. Svo fór ég í Ás. Rósant borgaði kirkjugjaldið og ég borðaði þar. Skildi eftir bækur og tók aðrar. Næst fór ég í Efri-Vindheima og var þar borgað kirkjugjald og svo fór ég í Efri-Rauðalæk, þar skildi ég eftir miðann og hitti Stefán niður í mýri. Seinast fór ég í Neðri-Rauðalæk og tafði þar, gjaldið var borgað og ég drakk kaffið. Heim komst ég um kl. 7. Um daginn kom hér Jón á Skaldarstöðum og Sigga og Lína[5] í Kirkjubæ. Kristján fór í snatt.
31. mars
Þá kom Aðalheiður á Barká með Sigríði dóttur sína, þær voru að sækja 50 kg kartöflur. Árni á Hallfríðarstöðum kom með 214 kg töðu sem hann er að skila úr láni til Steina. Steindór og Kristján keyrðu mykju á völl.
[1] Erla Sigurjónsdóttir (1932) - Þorsteinn yngri á Skipalóni, afi hennar, og Helga amma voru systrabörn.
[2] Fleiri dæmi eru um að börn sem áttu að sækja skóla á Þinghúsinu fengu að fara í skólann í Ási og gistu þá á nærliggjandi bæjum, sbr. Ástu Frímannsdóttur sem þá átti heima á Laugalandi. Langt var að fara daglega í skólann á Þinghúsinu frá Laugalandi og Skipalóni en þetta þurftu þó sum börn að gera.
[3] Friðbjörn Björnsson (1872-1945) bóndi og alþýðuskáld á Barká, Sörlatungu og Staðartungu. Tengdafaðir Einars sem var giftur Helgu Friðbjarnardóttur.
[4] Valdi þessi hefur ekki verið fastur heimilismaður á Syðri-Bægisá, gæti hafa verið vetrarmaður.
[5] Systur Benedikts, Sigríður Einarsdóttir (1884-1983) og Sigurlína Einarsdóttir (1880-1952), héldu heimili fyrir hann.