Gömul býli og bæjanöfn í Hörgársveit

Gunnar Frímannsson

Gömul býli og bæjanöfn í Hörgársveit

(Birtist í Heimaslóð 2025)

Með hverju árinu fjölgar eyðibýlum í Hörgársveit. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 og 2010 er eyðibýlum og gömlum býlum gerð góð skil, einkum í 1990-bókunum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712 eru taldir upp allir bæir í ábúð í hverri sveit en þar eru líka nefndar hjáleigur sem þá var vitað um. Margar þeirra höfðu ekki verið í ábúð í manna minnum en á sumum hafði verið búið skömmu áður og jafnvel á meðan skýrsla þeirra félaga var samin. Hér á eftir eru taldar upp þessar hjáleigur eða kot sem Árni og Páll nefna í Hvammshreppi, sem árið 1712 samsvaraði núverandi Arnarneshreppi og náði frá Haga og inn að Litla-Dunhaga, síðan í Skriðuþingsókn frá Dunhaga (Stóra-Dunhaga) að Syðri-Bægisá (Bæis á Sidre) og loks í Glæsibæjarhreppi frá Ytri-Bægisá að Glerá („kallast almennilega Aa“). Í eftirfarandi upptalningu eru eyðibýlin yfirleitt ekki talin upp sem nefnd eru í Byggðum Eyjafjarðar og hafa verið í ábúð á 20. öld. Einungis er vísað til heimilda ef þær eru ekki í Jarðabókinni.

  • Skinnhúfa var „eyðiból“ í landi Haga, löngu aflagt 1712. Staðsetning ókunn.
  • Gálmastaðir eða Gálmagerði í landi Kambhóls. Þar hafði ekki verið búið í manna minnum 1712. Staðsetning ókunn.
  • Jarðteiknabrekka í landi Skriðulands. Hafði ekki verið byggð í manna minnum 1712. Örnefnið er nefnt í örnefnalýsingu Skriðulands eftir Aðalstein Jónsson frá 1985.
  • Mið-Bakki var í landi Syðri-Bakka. Ekki í byggð síðustu 80 ár fyrir 1712. Staðsetning ókunn.
  • Skógarbrekkur í landi Arnarness. „Menn þykjast hafa heyrt að þar hafi verið byggt.“ Ekki nefndar í örnefnaskrá.
  • Ásláksstaðakot í landi Ásláksstaða var í ábúð 1712. Staðsetning ókunn.
  • Arnbjargarbrekka var gamalt nafn á Stóru-Brekku sem þá var í landi Hofs.
  • Brekkukot var í landi Hofs en ekki talið hafa verið byggt nema 2 – 3 ár.
  • Skúmsgerði var hjáleiga frá Möðruvöllum, í ábúð 1712, öðru nafni Spónsgerði.
  • Róðukot var í landi Bjarga. Þar var talið 1712 að hefði verið byggt. Staðsetning ókunn.
  • Náðagerði var í landi Dunhaga sem þá var ein jörð. Náðagerði var í ábúð árin fyrir 1712. Í örnefnaskrá með athugasemdum frá Arnsteini Stefánssyni segir: „Býlið fór í eyði 1834. Þar sem bærinn mun hafa staðið heitir Náðagerðishóll.“
  • Beinisgerði og Starastaðir (Starrastaðir) voru í landi Skriðu. Beinisgerði hafði verið í ábúð skömmu fyrir 1712, ábúð var þar síðan stopul þangað til Jónas Egilsson var þar með fjölskyldu sinni í húsmennsku samfellt frá 1865 til 1881. Á Starastöðum var búið til 1825.[1] Bæði býlin eru merkt inn á örnefnavef Landmælinga.
  • Skriðukot var ekki nefnt í Jarðabókinni. Það var í eyði 1785 skv. sóknarmannatali en þar var búið 1789. Merkt inn á örnefnavef Landmælinga.
  • Hornhús voru ekki nefnd í Jarðabókinni en eru byggð skv. sóknarmannatali 1785, í eyði 1790. Merkt inn á örnefnavef Landmælinga.
  • Hallastaðir var „fornt eyðiból“ úr landi Ytri-Hallfríðarstaða en Hallfríðarstaðir og Hallfríðarstaðakot hétu áður Hallfríðarstaðir -ytri og -syðri. Staðsetning óþekkt.
  • Uppsalir og Oddsstaðir voru í landi Öxnhóls. Uppsalir voru í ábúð 1712 en á Oddsstöðum hafði þá ekki verið búið í manna minnum. Báðir bæirnir eru merktir inn á örnefnavef Landmælinga.
  • Frá Barká voru tvær hjáleigur, Svellatunga, 1712 almennt nefnd Skollatunga og síðar Sörlatunga, og Fjalhöggsstaðir, um 1712 nefnd Felixstaðir en síðar Féeggstaðir. Báðar hjáleigurnar voru í ábúð 1712 og urðu síðar sjálfstæðar jarðir. Sjá tilgátur Hannesar Þorsteinssonar um „rétt“ nöfn á þessum tveimur hjáleigum/eyðibýlum.[2] Bæði Sörlatunga og Féeggstaðir voru í byggð langt fram á 20. öld.
  • Kringlugerði var til í landi Þúfnavalla en Árni og Páll töldu að þar hefði ekki verið býli heldur „þrælsgerði“. Þrælsgerði voru til víða um land og hafa líklega verið bústaðir þræla sem þóttu ekki í betri húsum hæfir eða sem fengu eigin hús til íbúðar. Örnefnið er í örnefnaskrá Jóhannesar Óla Sæmundssonar þar sem segir: „Þar eru greinilegar rústir eftir hús og garða.“
  • Hálskot er nefnt í örnefnaskrá Jóhannesar Óla sem eyðibýli í landi Þúfnavalla. Þar segir: „Þar eru leifar af túngarði um kýrfóðursvöll og rústir eftir tvö skepnuhús og bæ. Hvenær býli þetta hefur farið í eyði er óvíst með öllu.“
  • Káragerði var fornt eyðiból í landi Myrkár, hafði verið byggt í 5 ár upp úr 1670 og óvíst um ábúð þar fyrir þann tíma. Staðsetning er ókunn.
  • Stóragerði var ekki í ábúð 1712 og aldrei talið hafa verið í ábúð en var nefnt í Jarðabókinni sem örnefni í landi Myrkárdals. Bærinn var í byggð til 1942.
  • Gunnarsstaðir og Gamlagerði voru í landi Flögu en á hvorugu kotinu hafði verið búið í manna minnum 1712. Hér var þó búið á árunum 1813 til 1818.[3] Vitað er hvar Gunnarsstaðir voru.[4]
  • Ásgerðarstaðasel í landi Ásgerðarstaða hafði öðru hvoru verið í ábúð fyrir 1712 en ólíkt mörgum öðrum eyðibólum, sem hér hafa verið talin upp, var tekið fram að þar væri hægt að búa ef leiguliði fengist. Það hefur greinilega fengist því þar var búið til 1979.
  • Grjótárkot var í landi Flögusels en þar hafði byggð verið stopul fyrir 1712. Staðsetning er ókunn. Hinsvegar nefna Árni og Páll ekki að á býlinu Grjótá fæddist Guðmundur biskup góði Arason 1161 en ekki er heldur ljóst hvar sá bær var.[5]
  • Glaumbær var í landi Einhamars en enginn mundi árið 1712 að þar hafi verið búið. Staðsetning er ókunn.
  • Misjálfsstaðir hafa verið í landi Staðartungu 1712, væntanlega sá bær sem síðar hét Miðhálsstaðir en í grein Hannesar Þorsteinssonar um rannsóknir sínar á bæjanöfnum segir hann: „Nafnið Misjálfsstaðir í A. M. og Johnsen er vafalaust eitthvað afbakað en af því að ekki er kunnugt eða auðfundið hið rétta nafn verður að hlíta þessu. Miðhálsstaðir, sem í yngri heimildum er nafn jarðarinnar, er ekki annað en alröng leiðréttingartilraun.“[6] Á meðan ekki fæst skýring á nafninu Misjálfsstaðir verðum við líklega að taka það upp aftur í stað nafnsins Miðhálsstaða sem enginn skilur nema heimafólk í Öxnadal og nærsveitum. Þegar Árni og Páll skrifuðu Jarðabókina 1712 mundi enginn eftir byggð hér.
  • Sandhólar voru einnig í landi Staðartungu á svonefndum Skriðum sem eru á merkjum Staðartungu og Búðarness.[7] Þar mundi enginn eftir byggð fyrir 1712.
  • Jarðabókin greinir ekki frá eyðibýlinu Skugga sem „stóð hátt uppi í Staðartunguhálsi nánast beint upp af ármótum Hörgár og Barkár. Fornleifarannsóknirnar hafa leitt í ljós að þar hafa mannvirki tvisvar grafist í skriður og það mjög snemma, sennilega á 11. og 12. öld.“[8]
  • Þórðargerði og Hofgerði voru í landi Bakka. Þórðargerði hafði verið í byggð fyrir 1688 en 1712 mundi enginn eftir ábúð í Hofgerði. Staðsetning beggja óþekkt.
  • Háagerði var í landi Hrauns og hafði verið í ábúð fyrir 1692. Margeir Jónsson segir það hafa verið „utan og ofan við Hraun, fráskilið túninu ... Var það býli fram í byrjun 19. aldar“. Háagerði var þó ekki nefnt á sóknarmannatali frá 1784.
  • Vaskárkot var í landi Gloppu, „ætla menn að forngildu þar muni bærinn staðið hafa en vegna skriðuáhlaups fluttur“. Staðsetning óþekkt.
  • Torfagerði var í landi Hóla en enginn mundi eftir byggð þar 1712. Staðsetning óþekkt en Jóhannes Óli getur þess til að Torfagerði hafi verið sama býli og það sem síðar var nefnt Partshús.
  • Árgerði og Hálsgerði voru í landi Þverár. Vitað var um ábúð á báðum kotunum fyrir 1678. Staðsetning óþekkt.
  • Jónsgerði var í landi Syðri-Bægisár fram undir 1712 og þar var búið 1891 - 1895. Kotið hefur líklega verið suður undir mörkum Syðri-Bægisár og Neðstalands.
  • Efri-Bægisá var í landi Syðri-Bægisár fram á 19. öld, byggð „um 1779 ofan Bægisártúns“.[9]
  • Kirkjubær var grasbýli í landi Ytri-Bægisár skamman tíma á fyrri hluta 20. aldar. Kotið var beint norður af íbúðarhúsinu.
  • Neðstu-Vindheimar voru „á vellinum ... niður frá Neðri-Vindheimum sem þá kallaðist Mið-Vindheimar“.
  • Hanastaðir, áður Hanatún, voru í landi Glæsibæjar, milli Glæsibæjar og Skjaldarvíkur. Þar stóð þinghús Glæsibæjarhrepps áður en það var flutt að Sólborgarhóli 1910.[10]
  • Þórustaðir voru annaðhvort í landi Moldhaugna eða Laugalands, ekki vitað 1712. Þórustaðagil er enn þekkt örnefni á þessum slóðum og staðsetning Þórustaða hefur verið merkt inn á örnefnasjá LMI eftir leiðsögn Péturs Karlssonar frá Grjótgarði.
  • Sílistaðakot var þriðjungur af landi Sílistaða. Þar var búið í lok 18. aldar.
  • Blómsturvellir var „fornt eyðiból“ í landi Samtúns 1712 en þá vissu höfundar Jarðabókarinnar ekki hvenær eða hvers vegna jörðin fór í eyði. Bærinn hefur hinsvegar verið í ábúð síðan í lok 18. aldar, jafnvel lengur.
  • Hraukbæjarhús voru örnefni í landi Hraukbæjar „og ætla sumir að þar hafi í fyrndinni byggð verið en nú eru þar fjárhús heimajarðarinnar“.
  • Kríugerði og Sandgerði voru þekkt örnefni 1712 en ekki var talið að þar hefði verið búið.
  • Óskargerði var „fornt eyðiból [í landi Ytra-Krossaness] upp við lónið og eru þar ljós byggingamerki tófta og garðaleifa“.

 

Tilvísanir og heimildir

[1] Bernharð Haraldsson: Skriðuhreppur hinn forni, bls. 199 og bls. 742.
[2] Hannes Þorsteinsson: Rannsókn á bæjanöfnum, Heimaslóð 2025, bls. 160.
[3] Bernharð Haraldsson, Skriðuhreppur hinn forni, bls. 505. Völuspá útgáfa, Akureyri 2021.
[4] Sama heimild, 5. myndasíða.
[5] Sturlunga saga – 1. bindi, bls. 105. Mál og menning, Reykjavík 2010.
[6] Hannes Þorsteinsson: Rannsókn á bæjanöfnum, Heimaslóð 2025.
[7] Halldór Pétursson: Skriðuföllin í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar. Heimaslóð, Akureyri 2022.
[8] Sama heimild.
[9] Bernharð Haraldsson: Skriðuhreppur hinn forni, bls. 30-32 og 1. myndasíða. Völuspá útgáfa, Akureyri 2021.
[10] Byggðir Eyjafjarðar 1990, bls. 596.