Október 1943
1. október
Ég fór inneftir með mjólkurbílnum til að panta bíl til fjárflutninga í næstu viku o.fl. Svo fór ég með Stebba vestur í Laugaland og gekk þaðan fram fyrir Krossastaðaá, þar náði mér fólksbíll og fékk ég far með honum það sem eftir var og kom ég heim um kl. 1. Það var tekið talsvert upp úr garðinum og er það hægt með því að moka snjónum ofan af. Steindór var suður í Kirkjubæ seinnipartinn. Emma[1] á Bægisá kom með símboð til Jóhönnu og fór hún suðureftir seinnipartinn. Mamma kom heim.
2. október
Jói á Brúnastöðum kom og bað Steindór að hjálpa sér til að setja niður þvottapott og fór Steindór úteftir undir kvöldið. Heiða og Helga á Rauðalæk komu og svo fóru þau Jana og Kristján með þeim ofan eftir um kvöldið. Við tókum talsvert upp úr kartöflugarði.
3. október – sunnudagur
Ég fór suður í Bægisá í síma og var að grennslast um ferðir „Esju“. Frétti að hún væri að koma og fékk Steina í Kirkjubæ til að skjótast heim og segja frá því og svo fóru þær að tygja sig, Jana og Jóhanna því þær ætla vestur með „Esju“. Svo fóru þær með mjólkurbílnum kl. 4 og Guðfinna með þeim. Ég og Gísli í Kirkjubæ fórum fram á Bægisárdal í kindaleit en fundum ekkert á dalnum. Svo rákum við saman hér heima um kvöldið og fundum 3 lömb dauð úr pest í hólfinu. Svo bólusettum við um kvöldið. Steini á Öxnhóli kom til að biðja mömmu að hjálpa við slátur því Ella er heilsulaus. Steindór fór yfir að Hallfríðarstöðum.
4. október
Þá voru gengnar miðgöngur. Steindór gekk í fjallinu en ég að neðan, Kristján kom með hross út að Vindheimum. Svo tóku þeir kindur sem við áttum þar og ráku þær heim en ég rak úrtíning ofan í Vaglarétt. Guðfinna kom heim úr kaupstaðnum. Það var tekið upp úr kartöflugarði.
5. október
Við vorum að taka til sláturfé og reka það suður á Fúsaholt, þar var það tekið á bíla. Það voru 2 bílar af „Bifröst“ sem fluttu og fóru þeir 2 ferðir um kvöldið. Héðan fóru 100 kindur og 50 frá Neðri-Rauðalæk og 47 frá Hamri. Steindór fór inneftir með bílunum báðar ferðirnar en Kristján aðeins fyrri ferðina og svo er eftir að taka á einn bíl með morgninum.
6. október
Ég fór til Akureyrar á síðasta fjárbílnum og voru þeir líka með Ingi á Rauðalæk og Þorleifur á Hamri. Ég kom 10 lömbum í viðbót af því pláss var á bílnum. Það voru lömb þeirra mömmu, pabba og Kristjáns og voru þau lögð inn til Kristjáns Árnasonar. Ég fargaði öllum slátrum og kom heim með lítinn mör.
8. október
Þá kom Bjarni[2] tengdafaðir minn og með honum Bryndís Kristinsdóttir[3]. Ég bólusetti út á Bryta.
9. október
Þá fór ég með Búbót suður í Kirkjubæ og lógaði henni þar. Bjarni fór með mér. Svo kom ég með kvígu sem Bensi lætur í staðinn og fær hann 200 kr í milli.
10. október – sunnudagur
Þá fór Steindór út í Ás til að gera við húsþak. Við Kristján fórum út í Bryta og hjálpaði ég Steina til að taka til sláturfé en Kristján fór í Efri-Vindheima til að finna Hulla[4]. Siggi[5] á Efstalandi kom í fæðisleit.
11. október
Þá fórum við í göngur. Kristján fór uppfyrir en við Steindór smöluðum fyrir neðan. Þá fór Bjarni til Akureyrar með Bryndísi og kom aftur um kvöldið með flutning.
12. október
Steindór var suður í Kirkjubæ. Kristján var í vegavinnu sem nú er hér niður á flóanum. Ég fór út í Bryta og hjálpaði Steina með sláturfé ofan í Brúnastaði. Hallgrímur fékk að láta fé sitt inn í réttina.
13. október
Þá fórum við inneftir með sláturfé, það var látið í félagi frá þemur bæjum, Hamri, Neðri-Rauðalæk og héðan og fór á 4 bílum. Fóru þrír fyrst en einn seinna. Svo kom ég heim með mjólkurbílnum og kom með 1 ærhaus, 5 lungnastykki og ristla og nokkuð af mör. Annað seldi ég eða lagði inn. Hallgrímur missti fé sitt út úr réttinni og fékk þá svo Inga á Rauðalæk og Kristján til að reka saman með sér aftur. Steindór var eftir á Grjótgarði.
14. október
Þá lentum við Bjarni í að hjálpa Hallgrími til að reka á stað sláturfé og fór Bjarni með honum inn að Moldhaugum. Þá fann ég lamb upp í reit sem ég átti. Hafði það drepist ofan í lækjarseiru í snjónum um daginn.
15. október
Þá var Grjáskjóna hans pabba lögð. Árni á Hallfríðarstöðum fékk helming af henni og var hann hér við að buska[6]. Gráskjóna var 21 árs og hafði verið framúrskarandi þæg og farsæl skepna. Hún lagði sig með 374 pd kjöt og 70 pd mör. Um kvöldið bárum við saman svörð. Hreppaskilin voru haldin.
16. október
Ég var suður á Bægisá við að binda inn hey fyrir prestinn og voru við það líka Gísli og Steini í Kirkjubæ. Kláruðum við næstum að flytja inn heyið og settum striga yfir. Bjarni og pabbi báru saman svörð. Steindór kom heim, hann meiddist í baki á föstudag og er frá verkum. Þetta er fimmti dagur sem Kristján hefur unnið í brautinni en nú varð hann lasinn og vann ekki seinnipartinn.
17. október – sunnudagur
Ég fór suður í Bægisá og talaði í síma við Jón Bjarnason. Svo kom Steindór suðureftir og við gerðum upp viðskipti við Benedikt í Kirkjubæ. Þorleifur á Hamri kom með reipi og poka sem hann hafði að láni. Steini á Bryta kom.
18. október
Það var rekið saman og fór ég með ókunnugt fé ofan í Rauðalæk og kom þaðan aftur með 5 ær sem við áttum. Um kvöldið létum við inn fé og hross. Steini á Bryta kom með kindur sem við áttum og fékk hrossaflot. Kristján fór með honum úteftir og var nóttina.
19. október
Við Bjarni vorum að flytja á völl og hreyta og svo hnoðaði hann mör um kvöldið. Steindór fór suður í Kirkjubæ til að sækja póst. Guðbjörn á Rauðalæk kom til að fá hrossaflot.
20. október
Sr. Theódór kom með skeyti til mín um að senda leyfi vestur um að ég megi flytja 2 hrúta vestan úr Hnífsdal. Ég fór svo suður í Bægisá og hringdi til Halldórs Ásgeirssonar[7] og bað hann að senda leyfið. Annars vorum við að flytja á túnið og hreyta. Kristján ætlaði til Akureyrar en kom heim af því hann fékk enga bílferð.
21. október
Steindór fór með mjólkurbílnum ofan að Grjótgarði til að vinna þar, kom svo aftur á bíl sem Sigurður[8] á Einarsstöðum keyrði og fengu þeir hér 35 uppsláttarborð því þau eru ófáanleg á Akureyri. Kristján fór til Akureyrar og kom ekki aftur. Mamma fór yfir að Öxnhóli og ætlar að vera þar eitthvað í slátri. Við hér heima vorum að koma fyrir kartöflum í geymslu. Það voru 8 tunnur sem við settum í gryfju en kartöflurnar hafa verið alls 9 – 10 tunnur. Svo rákum við saman féð og hýstum það sem náðist. Halldór Júlíusson á Brúnastöðum lá örendur í rúmi sínu í morgun. Aðalsteinn[9] í Flögu kom og fékk lánaða byssu.
22. október – síðasti sumardagur
Ég fór ofan í Rauðalæk, ætlaði að fá lánað salt en þar var það ekki til. En svo borgaði ég Pétri útsvarið mitt og fékk þetta hjá Kristínu. Fór svo upp í Bryta og fékk þar 11 pd af salti að láni. Seinnipartinn flutti ég 100 st reiðing suður að braut sem eiga að fara út að Grjótgarði. Svo stungum við út úr húsum og fluttum á um kvöldið. Kristján kom heim um kvöldið.
23. október
Við kláruðum að stinga út úr húsunum og svo herfuðum við röstina og fluttum sumt frá og hreyttum. Steindór kom heim um kvöldið.
24. október
Þá fór sunnudagsmjólk. Steindór klippti af mér og svo fór hann út í Bryta. Við Bjarni fórum suður í Syðri-Bægisá og komum við í Kirkjubæ á heimleið og tókum póst. Svo rákum við saman féð og létu inn það sem náðist. Klukkunni var seinkað í nótt.
25. október
Steindór málaði framstafninn á íbúðarhúsinu með medusa, svo ætlaði hann að ná í bíl til Akureyrar undir kvöldið en það mistókst. Við kláruðum að flytja úr taðröstinni og hreyttum nokkru af því. Svo kenndum við lömbum átið o.fl. Mamma kom handan frá Öxnhóli og svo fór hún suður í Bægisá til að ræsta kirkjuna.
26. október
Laugi á Syðri-Bægisá kom með bíl og tók reiðing, 200 stk, sem áttu að fara fram í Steinsstaði. Fórum við Bjarni með honum frameftir til að biðja Odd[10] fyrir hrossin hans Jóns[11]. Það var klárað að hreyta úr hlössunum og langt komið að búa um hesthúskofann út og niður. Steindór fór inneftir með mjólkurbílnum.
27. október
Þá kom Steini á Bryta og við fórum báðir suður í Bægisá og tókum gröf í kirkjugarðinum fyrir Halldór heitinn á Brúnastöðum.
28. október
Þá var Halldór Júlíusson, Brúnastöðum, jarðaður að Bægisá að viðstöddu a.m.k. 70 manns. Héðan fór ég, pabbi, mamma, Kristján og svo kom Steindór innan að og fór ekki um kvöldið. Halldór „fínasti“ kom hér tvisvar, fyrst til að fá lánaða skolkönnu og síðar til að skila henni.
29. október
Steindór fór út í Ás og ætlar að verða þar í vinnu til helgar. Kristján fór út í Bryta og fékk lánaðan riffil og svo vorum við Bjarni suður á Bægisá við að slátra belju fyrir frúna. Kristján byrjaði á vegabót hér suður og niður með læknum en um kvöldið fór hann með riffilinn út í Bryta og gisti. Ég, Guðfinna og Bjarni fórum út og ofan í Rauðalæk. Ég fór með útvarpssýrugeymi[12] til hleðslu og svo fór ég að borga útsvar fyrir pabba. Í þriðja lagi útfyllti ég skýrslu fyrir ellistyrksumsókn fyrir Emmu á Bægisá. Svo keypti ég 2 kiðlinga af Stebba Nikk sem var staddur á Rauðalæk en Guðfinna og Bjarni fóru erindisleysu. Stefán á Barká kom til að sækja 50 kg af kartöflum.
30. október
Ég fór suður í Bægisá til að hjálpa Gísla til að koma gærum, kjöti o.fl. á bíl hjá Finnlaugi á Bægisá og svo fóru prestshjónin með í bæinn. Kristján kom lítið seinna frá Bryta. Þorleifur kom með kjöt í reyk frá Rósant. Sverrir kom til að setja á. Við létum inn féð um kvöldið. Pétur á Rauðalæk kom á fólksbíl.
31. október – sunnudagur
Við létum inn og gáfum votheysrekjur í kvöld og síldarmél í morgun. Jóhanna á Bryta kom og tafði og svo fór Kristján með henni úteftir og gisti. Pétur á Rauðalæk kom með sýrugeyminn fullhlaðinn.
[1] Emelía Hansdóttir (1874-1944) systurdóttir Ármanns bónda á Myrká. Vinnukona víða. Þegar fæðing og skírn Emilíu er færð í prestþjónustubók á Myrká segir: "Kenndi föður Jón bónda á Skriðu en hann sór fyrir."
[2] Bjarni Bjarnason (1895-1980) hafði misst konu sína, Friðgerði ömmu, um sumarið og var nú kominn í Garðshorn til dvalar.
[3] Bryndís Kristinsdóttir (1940) dóttir Kristins og Ástu.
[4] Synir Þorsteins á Efri-Vindheimum voru Baldur, Steinþór og Hans Hjörvar (1926-2002) og væntanlega hefur sá síðastnefndi verið kallaður Hulli.
[5] Sigurður Jóhann Stefánsson (1926-2013) lengst bóndi í Stærra-Árskógi.
[6] buska = slátra.
[7] Líklega Halldór Ásgeirsson (1893-1976) sláturhússtjóri m.m. á Akureyri.
[8] Sigurður Sigurðsson (1920-1952) var sonur Sigurðar bónda á Einarsstöðum, bifreiðarstjóri.
[9] Aðalsteinn Guðmundsson (1896-1977) bóndi í Flögu. Byssa hefur greinilega ekki verið til á hverjum bæ.
[10] Oddur Jónsson (1899-1996) var giftur Helgu Sigfúsdóttur (1902-1979) systur Sigfúsar sem hafði verið bóndi á Steinsstöðum til dauðadags 1942. Oddur var síðar skósmiður á Akureyri.
[11] Ekki er vitað hvaða Jón þetta var, líklega Jón á Skjaldarstöðum en enn síður er vitað hvers vegna pabbi þurfti að biðja Odd fyrir hross Jóns.
[12] Á Neðri-Rauðalæk hefur verið til tæki til að hlaða sýrugeymi fyrir útvarpið og þangað var farið öðru hverju til að fá geyminn hlaðinn. Líklega var þar vindrafstöð.