Júní 1944
11. júní
Mamma fór suður í Kirkjubæ og Syðri-Bægisá. Kristín á Rauðalæk og Guðrún systir hennar komu og töfðu. Reginn á Steðja kom með félagsbók og svo sendi ég með honum bréf til Karls á Vöglum viðvíkjandi grenjaleit. Svo kom Karl um kvöldið og við Kristján fórum með honum til að leita en fundum engar líkur fyrir greni en sáum þó umgang á nokkrum stöðum.
12. júní
Ég fór með Rauðku út í Vindheima undir naut. Einir Þorleifs kom um kvöldið og ætlar að verða kúasmali hér í sumar. Seinasta ærin bar í dag.
13. júní
Ég valtaði sléttu frá í fyrra. Svo vorum við að taka ofan af sverði o.fl. Steindór fór í síma.
14. júní
Við vorum að grafa meðfram húsgrunninum að austan og púkka þar niður grjóti. Um kvöldið fórum við Steini[1], Kristján og Einir út í Vindheima með Búkollu og Ljómalind undir naut.
15. júní
Við vorum að púkka ofan með húsgrunninum og koma fyrir skólprörum og fylla að. Steini[2] fór út í Vindheima með afsalsbréf af Bryta og tók við peningum sem eftir stóðu af jarðarverðinu (6.000 kr.). Ég fór suður í Kirkjubæ um kvöldið til að sækja böggul (flagg) sem Gísli tók innfrá.
16. júní
Við rákum inn það sem eftir var af fé fyrir neðan girðingu og mörkuðum nokkur lömb og hleyptum svo uppfyrir. Svo vorum við að ræsta til í kringum bæinn o.fl. Um kvöldið var sett upp flaggstöng. Þá kom Hósi og Kristján fór með honum í snatt. Eftir hádegið kom umrenningur, Lárus að nafni. Hann gengur um og býður sig í kaupavinnu.
17. júní
Þá var frídagur fyrir alla og mikið um dýrðir. Útvarpið var í dag í ólagi og heyrðist illa útvarp frá Þingvöllum. Steini, Kristján og Einir fóru suður í Bægisá til að hringja kirkjuklukkunum kl. 2.
18. júní
Reynir kom í nótt kl. 2.30 og fór aftur um miðaftan og Kristján með honum en hann kom aftur um kvöldið. Pétur á Rauðalæk kom og tafði. Margrét[3] á Laugalandi kom og gisti. Kola bar og átti rauða kvígu.
19. júní
Ég, Kristján og Steini vorum að taka upp svörð. Eftir miðjan daginn kom Gísli í Kirkjubæ og ætlaði að fara að gera við girðinguna suður og upp og fór ég í það með honum. Með okkur var við það Hannes kaupamaður Bensa. Margrét var um kyrrt í dag. Um kvöldið kom Guðni Jónasson og ofurlítið betri.
20. júní
Við vorum að taka upp svörð. Margrét fór heim til sín. Hún er nú í þann veginn að flytja alfarin suður á land til Guðmundar sonar síns.
21. júní
Ég dreifði úr 7 kössum úr þvaggryfjunni fyrir hádegi en seinnipartinn var ég að flytja möl og grjót ofan að hliði því það þarf að steypa þar upp hliðstólpa því þeir gömlu eru brotnir. Steini og Kristján voru að laga til garð fyrir neðan hlaðbrekkuna. Mamma kláraði að hreinsa.
22. júní
Við Steindór vorum að steypa hliðstólpa fram að hádegi en eftir hádegi vorum við, ég, Steindór og Kristján að taka upp svörð. Mamma lá í rúminu, var með gikt og meiri lasleika. Pabbi kláraði að bera af túninu.
23. júní
Steindór fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom aftur um kvöldið. Við tókum upp svörð og er þar með lokið svarðarupptekt í vor.
24. júní
Kristján og Einir fóru til Akureyrar með mjólkurbílnum um morguninn. Við Steindór steyptum seinni hliðstólpann. Ég fann dauða rollu sem ég á, hún varð afvelta, dó frá tveimur lömbum. Um kvöldð kom Júlíus Hjálmar og gisti.
25. júní – sunnudagur
Við Steindór fórum út í Krossastaði til að athuga setuliðabraggana því nú er farið að selja þá. Guðfinna og Friðgerður fóru ofan í Rauðalæk og tók ég þær með í heimleiðinni. Guðfinna var að prjóna á vél. Sigurður Rósmundsson og Stefanía og Haukur komu og gistu. Líka komu hér Helga á Rauðalæk og Ransí (hún er þar í sumar) og Siggi á Hamri og telpa af Akureyri sem er þar um tíma og er kölluð Hanna. Steindór fór aftur ofan að Skógum til að hjálpa Gunnari á Kotum til að rífa bretahús. Júlli var hér allan daginn en fór frameftir með brautarbíl[4] um kvöldið.
26. júní
Við gerðum við brúna suður á nýræktina, settum í hana rör. Steindór fór til Akureyrar um kvöldið með Birni í Koti og kom aftur eftir háttatíma. Gestirnir fóru ofan í Rauðalæk en komu aftur og voru hér aftur í nótt.
27. júní
Stefanía, Sigurður og Haukur fóru með mjólkurbílnum heim til sín. Ég var að gera við girðingu en Steini fór út í Bryta til að taka til tótta[5]. Kristján og Einir komu heim um kvöldið. Pétur á Rauðalæk kom.
28. júní
Steindór fór tvisvar í síma að Bægisá og náði loks sambandi við menn þá sem sjá um sölu að Skógum kl. 11. Fór svo Steindór úteftir og keypti tvö hús[6], annað á 1.000 kr. og hitt á 875 kr. Ég, Steini og Kristján fórum suður í Bægisá og unnum þar í 5 tíma við að gera við kirkjugarðinn. Um kvöldið kom Gunnar á Kotum og gisti.
29. júní
Þá fórum við, ég, Steindór og Kristján, ofan að Skógum til að rífa húsin. Kristján var hjá Gunnari því hann var líka að rífa hús. Steini fór út í Vindheima til að skjóta kálf.
30. júní
Þá fór ég í bæinn til að láta skera í kýli sem ég fékk á vinstri hendi. Steindór og Steini voru við að rífa húsið í Skógum. Kristján var hjá Gunnari.
[1] Steini sem í fyrra mánuði fékk töðu í Garðshorni út í Bryta hefur nú hætt búskap þar og þau Jóhanna komin í húsmennsku í Garðshorn.
[2] Hér eru Steini og Jóhanna að flytja frá Bryta í Garðshorn þar sem þau voru næstu tvö ár áður en þau fluttu til Akureyrar.
[3] Margrét Egedía Jónsdóttir (1876-1956) var ekkja eftir Frímann bróður Pálma afa. Hún var elsta systir Steina sem var giftur Jóhönnu bróðurdóttur Frímanns. Margrét bjó hjá Guðmundi syni sínum til dauðadags, síðast á Hjalteyri þar sem hann var skólastjóri.
[4] Brautarbíll var líklega bíll sem var notaður við vegagerðina.
[5] Líklega var Steini að hirða heyafganga úr tóttum.
[6] Hér er um að ræða Breta-bragga en eitt slíkt hús var sett upp í Garðshorni sunnan við fjárhúshlöðuna og lengi notað sem geymsla, m.a. undir dráttarvélar. Hluti af þessu húsi stendur enn 2025.