Janúar 1946

Janúar

1. janúar
Sveinn vetrarmaður fór heim til sín um ellefuleytið og kom ekki aftur um kvöldið. Það var búið að bjóða okkur ofan að Hamri í dag en svo varð Fríða á Hamri lasin og Magnús kaupamaður kom hér uppeftir með afboð.

2. janúar
Kristján fór á álfadansæfingu yfir á Mela. Gísli í Kirkjubæ kom með tvö símskeyti til Guðfinnu í tilefni af 30 ára afmæli. (Gísli kom ekki fyrr en á 3 janúar.)

4. janúar
Brúnn hans Bjarna fannst niðri í mólæknum tímanlega í dag, hefur farið ofan um snjó einhvern tíma í nótt. Náðist hann uppúr eftir að fengnir voru þeir Gísli og Steini í Kirkjubæ og svo kom Þorleifur á Hamri í lokin og vorum við þá orðnir átta. Klárinn var furðu hress. Fúsi á Rauðalæk kom og fékk bækur að láni og Helgi á Syðri-Bægisá kom með þær sömu bækur fyrr í dag. Steindór er að smíða dívana.

5. janúar
Þá var okkur boðið ofan að Hamri og fórum við 4, mamma, Steindór, Steini og ég. Kristján og Sveinn fóru út á bæi seinnipartinn, komu svo heim og gerðu í fjósinu en fóru að því búnu á ball yfir á Mela og seinna um nóttina fór Sveinn fram að Þverá.

6. janúar
Ævar á Steðja kom með nýbundnar bækur. Kristján fór á álfadansæfingu yfir á Mela. Guðfinna og Fríða fóru ofan að Hamri og ég fór um kvöldið til að sækja þær.

8. janúar
Kristján og Sveinn fóru út í Efri-Vindheima. Steini fór ofan í Hamar til að hjálpa til við að mjólka kvígu. Ég lét litla Brún inn í fyrsta sinn í vetur.

9. janúar
Kristján fór á álfadansæfingu.

10. janúar
Þá kom bíll með fisk og skildi eftir á öllum útleggjurum. Hann er sendur af KEA og fékk hver 20 kg. Kristján fór á æfingu.

11. janúar
Renningshryðjur, klakaklambur á jörðinni. Ég sótti Skjóna minn út fyrir Steðja í dag, hann var þar í gönguhrossum og var ekki illa haldinn. Kristján fór í snatt. Ragnar Sigtryggsson[1] kom um kvöldið og spilaði.

13. janúar
Kristján fór á fund yfir á Mela.

14. janúar
Gunna á Efri-Vindheimum kom og tafði lengi og svo fylgdu þeir henni eftir fjóstíma Sveinn og Kristján. Ævar á Steðja kom og tafði.

15. janúar
Steindór fór í kaupstað og kom aftur um kvöldið. Sveinn fór með Gísla í Kirkjubæ fram í Steinsstaði til þess að ná í trippi. Kristján fór yfir á Mela á álfaæfingu. Sigfús á Rauðalæk kom í kvöld með bækur og fékk aðrar í staðinn. Kristjana[2] í Ási kom með bréf til Steindórs.

16. janúar
Steindór og Steini voru út á Brúnastöðum að negla járn á fjós. Kristján fór á æfingu. Það kom fisksending frá kaupfélaginu.

17. janúar
Steindór fór út í Brúnastaði og Ás. Sveinn fór út í Vindheima og Skóga. Finni í Kirkjubæ kom og bað Steina að smíða hestabása og fór Steini suðureftir til þess og var til kvölds. Kristján fór á æfingu. Ég hjólaði nokkrum hjólbörum af hrossataði og hreytti því.

18. janúar
Steini fór í kaupstað með mjólkurbílnum og kom ekki aftur. Kristján fór inneftir með Hans á Vindheimum og kom aftur um kvöldið með 2.000 kr harmoniku, hann kom líka með 3 poka af maísméli og einn beinamjölspoka fyrir mig. Steindór var út í Ási að gera við baðstofuna. Fríða á Hamri kom um kvöldið, hún var að máta kjól á Guðfinnu. Við Sveinn höfðum féð úti í 3 tíma.

19. janúar
Kristján var í álfadansundirbúningi og svo var samkoma með álfadansi og meiri dansi um nóttina. Sveinn fór þangað yfir og var þar afar fjölmennt. Ingvi[3] í Skógum og Reginn á Steðja komu hér heim um kvöldið.

20. janúar
Benedikt í Kirkjubæ kom og var að athuga hey sem hann er að hugsa um að kaupa af Steindóri. Gísli í Kirkjubæ kom, hann var í tamningatúr. Siggi á Hamri kom með bækur. Ég sótti póst í Kirkjubæ. Jóhanna fór ofan í Hamar og svo kom Fríða með henni aftur. Kristján fór út í Skóga.

21. janúar
Ég og Guðfinna fórum til Akureyrar með mjólkurbílnum. Guðfinna fann augnlækni og vildi hann að hún kæmi til sín á morgun. Ég keypti meðal annars bækur fyrir meira en 500 kr o.fl. Steindór fór inneftir og ætlar að verða þar um tíma.

22. janúar
Guðfinna fór aftur inneftir og kom um kvöldið. Kristján fékk Hans á Vindheimum með sig inn á Akureyri og svo komu þeir hér heim um kvöldið og ég borgaði Hans fyrir vinnu hans við Myrkárgarðinn. Einnig borgaði ég Steina fyrir hans vinnu við garðinn[4].

23. janúar
Fúsi á Rauðalæk kom til að finna Svein. Kristján og Sveinn fóru út í Vindheima um kvöldið. Við beittum ánum og drógum sirka ¼ af.

24. janúar
Kristján fór út í Vindheima og fékk lánaðan bíl hjá Hans og kom með hann hér heim og ætlaði að flytja á honum möl en svo brotnaði stykki í bílnum svo lítið varð úr keyrslunni.

25. janúar
Siggi á Hamri kom um kvöldið með fundarboð (Kaupfélagsdeildarfund).

26. janúar
Sveinn fór á ball fram að Þverá um kvöldið.

27. janúar
Þá kom bíll heim í hlað og í honum var Reynir, Steindór Valberg, Jón Ólafsson og Jói[5] fóstursonur Rafnars og svo kom Steindór með þeim. Þeir stönsuðu stutt. Kristján fór suður í Kirkjubæ.

28. janúar
Fúsi á Rauðalæk kom með hvolpinn sem hafði flækst úteftir. Jóhanna fór inneftir með mjólkurbílnum og kom ekki aftur. Gráa kvígan bar og átti svarskjöldótt naut.

29. janúar
Gísli í Kirkjubæ kom með símboð til mín og svo fór ég í símann kl. 4, það var viðtal við Bjarna í Bolungarvík. Jóhanna kom heim um kvöldið. Fúsi á Rauðalæk kom með bækur sem ég lánaði.

30. janúar
Kristján fór út í Vindheima. Ég lógaði kálfinum hennar Skrautu. Þorleifur á Hamri kom með skýrsluform frá búnaðarfélaginu sem átti að útfylla.

31. janúar
Kristján fór út í Vindheima. Gísli í Kirkjubæ kom og ætlaði að taka bækur sem ég ætlaði að selja honum. Árni á Hallfríðarstöðum kom og var að biðja Steina að hjálpa sér til að baða féð.

 

 

[1] Ragnar Marinó Sigtryggsson (1923-2006) bróðir Maríu Valgerðar. Átti heima í Lönguhlíð þegar þetta var.

[2] Kristjana Ólafsdóttir (1937-1975) dóttir Sigrúnar í Ási, seinni konu Rósants. Húsfreyja á Litlu-Brekku í Arnarneshreppi.

[3] Ingvi Rafn Jóhannsson (1930-1924) ólst upp hjá foreldrum Sverris í Skógum og þeirra systkina eftir að hann missti móður sína barnungur. Hann var rafvirkjameistari og söngvari á Akureyri. Faðir hans var Jóhann Ó. Haraldsson tónskáld.

[4] Pabbi hefur verið í sóknarnefnd Bægisárkirkju og í stjórn Lestrarfélags Þelamerkur.

[5] Jón Ólafsson og Jói eru óþekktir enda koma þeir lítið við sögu.