Til meinatækna
(Tilefni óþekkt)
Með klökkum huga, systur, nú kveð ég ykkur hér.
Með kökk í huga mínum og tár í augum fer.
Í lífsins sælukokkteil er sorgin höfð í bland.
Hér sat ég þennan mánuð og lærði að skoða hland.
Ég veit ég tafði fyrir, bæði oft og alstaðar
á öllu þessu bið ég ykkur fyrirgefningar.
En sjúklinginn sem stungurnar og ekkert annað sér
er alveg tilgangslaust að biðja að fyrirgefa mér.
Ég gleymdi meinatækninum en hélt að hjúkkurnar
hentuðu mér betur en þetta skyssa var.
En maðurinn er skeikull. Mér þykir þetta leitt
og því ég lýsi yfir að skoðun mín er breytt.
Ennþá er samt hjúkkan mér óskaplega kær
og ekki verð ég fyrstur til að segja ljótt um þær.
En meinatæknir verður hverjum lækni þessa lands
slík lífsnauðsyn að jafna má við stehtoscópið hans.
Þið hafið unnið samúð mína bæði í lengd og bráð.
Með blóði, kúk og pissi verður saga ykkar skráð.
Ég vona svo við mætumst aftur heilsugóð og hress.
Nú held ég burtu, elskurnar, og kyssi ykkur. Bless.