1. nóvember 1934
Ég fór heim með bola og Hörður fylgdi mér fram fyrir ofan Neðri-Rauðalæk. Þar kom Baldvin[1] í veg fyrir okkur og vildi fá nautið heim og stansaði ég þar. Baldur vetrarmaður fylgdi mér þaðan. Ærnar voru reknar upp í Bratta[2] og ekki gefið á kvöldin. Hvergi úti fé nema hér og á Syðri-Bægisá og Lönguhlíð og hestar víða komnir á hús.
2. nóvember
Hörður á Vöglum kom til að fá bola og fór Steindór með hann út eftir og kom heim með hann í rökkri. Ég var með ærnar efra.
3. nóvember
Steindór var suður í Kirkjubæ að smíða fjárhúsgarðann.
4. nóvember
Steindór fór út í Efri-Rauðalæk og Neðri-Rauðalæk og Hamar. Hann fékk lánaðar flutningsfötur[3] á Hamri því hann ætlar til Akureyrar á morgun með hest og sleða og mjólk.
5. nóvember
Steindór fór inneftir og kom aftur um kvöldið kl. 11. Baldvin á Rauðalæk varð honum samferða báðar leiðir.
6. nóvember
Stefán í Lönguhlíð er búinn að leita að á í marga daga. Steindór fór út að Efri-Vindheimum til að hjálpa til við fjárhúsbyggingu.
7. nóvember
Steindór var úti á Vindheimum. Júlli[4] á Bryta var hér við að hjálpa mér til að aka mold frá bænum.
8. nóvember
Steindór var úti á Vindheimum og Júlli var hér um tíma. Hann kom með sviðahausa sem við sviðum við gaslampa.
9. nóvember
Eggert kom vestur að Bægisá með bílinn seint um daginn. Steindór var úti á Vindheimum. Kári Larsen[5] kom til að fá sér nærföt o.fl.
10. nóvember
Steindór var úti á Vindheimum. Ég var að flytja heim kol sem Eggert kom með á bílnum í gær og þegar ég var að enda við það þá kom Hermann bóndi á Vöglum til að sækja naut. Ég fór svo með honum út hjá Vindheimum, þar tók Steindór við bola en ég fór upp í Vindheima og tók hrossamör og fleira og bar heim. Þá var pabbi búinn að ná ánum saman og lét ég þær fljótlega inn. Hörður fylgdi Steindóri til baka. Hósi[6] á Hamri kom með lestararfélagsfundarboð og bréf. Kristján fór með það suður í Kirkjubæ og Hósi með honum.
11. nóvember
Steindór fór út í Bryta og Efri-Vindheima. Baldvin á Rauðalæk kom og fékk meitil. Hósi kom að gamni sínu.
12. nóvember
Júlli á Bryta var hér og var að moka ofan af möl með Steindóri[7]. Þorsteinn[8] á Vindheimum kom og fékk torf á sleða. Ásta[9] kom af skólanum.
13. nóvember
Þorvaldur í Heiðarhúsum kom, hann ætlar að gefa hundunum inn úti í Skógum á morgun. Ég var með slen og magaveiki og hausverk og fór ekki á fætur fyrr en kl. 11 og fór lítið út. Helga[10] á Neðri-Rauðalæk kom til að vitja um póstinn. Blöðin komu í dag og í þeim er sagt frá ógnar sköðum sem urðu laugardaginn 27. október.
14. nóvember
Pabbi fór yfir að Öxnhóli. Um kvöldið kom Jónas Pétursson frá Hranastöðum, hann er orðinn eftirlitsmaður nautgriparæktarfélagsins í stað Björns Símonarsonar sem er orðinn kennari við Hólaskóla. Steindór fór með Jónasi suður í Kirkjubæ um kvöldið en komu svo aftur og Jónas var hér um nóttina.
15. nóvember
Kári kom til að leita að hundi, fann hann úti á Skógum og kom við á bakaleiðinni. Um kvöldið kom Björn Brynjólfsson[11] á Steinsstöðum og gisti með hest, ætlar með bílnum til Akureyrar á morgun.
16. nóvember
Steindór var við að grafa niður vatnsleiðslupípurnar í gömlu baðstofunni. Björn Brynjólfsson kom aftur um kvöldið, tók hestinn sinn og hélt heim.
17. nóvember
Við Steindór vorum við að steypa tröppu ofan í kjallarann að norðanverðu. Mamma, Kristján og Ásta fóru út í Efri-Rauðalæk um kvöldið til að hlusta á útvarp. Helga á Neðri-Rauðalæk kom.
18. nóvember
Við Steindór létum sláttuvélina og herfið inn í baggagatið á hlöðunni og þegar við vorum að enda við það kom Hermann á Vöglum til að sækja naut. Steindór fór með það úteftir. Drengur frá Heiðarhúsum sem heldur til á Efri-Rauðalæk um skólatímann kom til að spyrja eftir á. Baldvin á Neðri-Rauðalæk kom til að grennslast eftir kindum. Ég fór ofan í Rauðalæk um kvöldið og bólusetti 3 kindur. Hörður á Vöglum fylgdi nautinu suður eftir um kvöldið.
19. nóvember
Um kvöldið komu Draflastaðahjónin Guðrún[12] og Kristinn með mjólkurbílnum og gistu hér um nóttina.
20. nóvember
Steindór fór út í Bryta til að sækja hangikjöt handa gestunum (kjötinu var komið í reyk á Bryta). Svo kom Jóhanna suðureftir og dvaldi fram á kvöld, ég fylgdi henni úteftir um kvöldið. Draflastaðahjónin voru hér um kyrrt yfir daginn og var spilað um kvöldið. Kári kom um kvöldið til að sækja sér föt.
21. nóvember
Guðrún og Kristinn fóru með mjólkurbílnum og pabbi fór líka inn á Akureyri og kom ekki um kvöldið. Jóhanna Jónsdóttir[13] í Kirkjubæ var hér við að gera hreint eldhúsið. Geiri[14] gamli í Ásgerðarstaðaseli kom í rökkrinu og baðst gistingar.
22. nóvember
Það er síðasti skóladagur í Ási og Ásta fór heim til sín. Pabbi kom heim með bílnum um kvöldið. Geiri gamli fór inneftir með bílnum og kom aftur um kvöldið og gisti.
23. nóvember
Steindór var að moka ofan af möl og ég keyrði heim 4 kerrum af möl og hann tveimur á eftir. Geiri lagði í hann kl. 11 þegar hann var búinn að ryðja úr sér og í sig aftur. Kári kom um kvöldið með bréf til mín frá Steingrími Sigursteinssyni[15] þar sem hann er að biðja að taka hest í fóður.
24. nóvember
Veðrið. Féð fór sama sem ekkert út.
25. nóvember – sunnudagur
Steindór fór suður í Kirkjubæ til að setja í glugga, svo fór hann út að Neðri-Vindheimum seinna um daginn. Júlli á Bryta kom með „Eimreiðina“. Kristján fór ofan að Hamri[16] að gamni sínu og Hósi kom með honum aftur. Ég fór með félagsbók þjóðs[ögur?] og Blöndu suður að Kirkjubæ um leið og ég fór að smala. Marinó[17] á Rauðalæk kom um kvöldið til að fá naut. Steindór fór með það úteftir. Eggert[18] tók mjólk.
26. nóvember
Steindór fór út að Steðja og Vöglum til að líta eftir ásetningi sem er ekki í vel góðu lagi. Ærnar voru stutt úti svo ég gaf um kvöldið.
27. nóvember
Steindór fór til Akureyrar með bílnum. Ég fór með honum með hest og sleða ofan að vegi. Þar var þá kominn Elías[19] í Hrauni með hest sem hann bað að taka af sér í tvo daga á meðan hann færi til Akureyrar til að vera þar á oddvitamóti sem ræða á um fóðurbirgðir o.þ.h. Um kvöldið vantaði eina rollu og fór ég ofan að Neðri-Rauðalæk til að leita hennar. Hún var þar og kom ég henni heim. Þorleifur á Hamri kom eftir beiðni og skaut Snata litla.
28. nóvember
Eggert gekk illa að hafa bílinn í gang. Kári hljóp út í Garðshorn til að fá gaslampa til að þýða bensínið sem var frosið en þegar til kom þá þurfti ekki lampann. Eggert fór tvær ferðir, með fyrri ferðinni kom Elías og tók hestinn sinn. Seinni ferðina kom hann ekki fyrr en um háttatíma og þá kom Steindór heim með honum. Júlli á Bryta kom og bað mig að koma úteftir og innsprauta doðabelju[20]. Var hann búinn að fara suður í Syðri-Bægisá til að fá áhöld. Ég fór svo úteftir og hjálpaði til við beljuna og heppnaðist það sæmilega eftir því sem seinast fréttist.
30. nóvember
Steindór flutti heim á tveimur vögnum matvöru og fl. sem hann kom með innan að í gærkvöld. Kári kom með samkomuboð og fór svo út á bæi. Í rökkurbyrjun kom drengur frá Hátúni, ég held hann heiti Sigursteinn Kristjánsson. Hann kom til að sækja naut fyrir Hermann á Vöglum. Steindór fór með tarfinn og kom aftur um háttatíma og þá fylgdi Hörður. Um kvöldið kom Gunnar[21] á Víðimýri og baðst gistingar. Hann er póstur á milli Sauðárkróks og Akureyrar í vetur. Hann hafði skilið hestinn sinn eftir á Steinsstöðum, gekk þaðan og hingað og ætlar svo með bílnum að morgni.
31. nóvember
Hósi kom og sömuleiðis Jóhanna og Reynir á Bryta. Það var afmælið hans Kristjáns og þá voru bakaðar lummur og hitað kakó. Ég fór suður í Kirkjubæ um kvöldið með „Eimreiðina“.
[1] Baldvin Sigurðsson (1883-1954), kona hans var Anna Soffía Jónsdóttir (1886-1968), þau voru foreldrar Sverris bónda í Skógum.
[2] Nú man ég ekki lengur hvar Brattinn var en hann gæti hafa verið framan í Breiðahjalla eða jafnvel framan í Grasahjalla. Örnefnið er ekki á örnefnaskrá Jóhannesar Óla.
[3] Flutningsfötur voru einnig nefndar dunkar, mjólkurdunkar eða mjólkurbrúsar og voru notaðar undir mjólk sem send var með mjólkurbílnum til Akureyrar.
[4] Júlíus Hjálmar Sigurður Helgason (1915-1978) ólst upp hjá Jóhönnu og Steina á Bryta. Hann var lítið skyldur þeim, samt fjórmenningur við þau bæði.
[5] Kári Angantýr Larsen (1913-1994) var tekinn í fóstur í Garðshorn fárra vikna gamall. Magnús afi hans, sem kom honum í fóstrið, og Helga amma voru systrabörn. Hér hefur Kári verið kominn í vinnumennsku í Kirkjubæ en gert út frá bernskuheimili sínu, Garðshorni.
[6] Ingvar Hóseas Sigmarsson (1927-1993) var fóstursonur systkinanna á Hamri eins og Sigurður (1929-2018) bróðir hans. Sigmar faðir þeirra og þau systkinin voru systrabörn. Þeir voru úr 7 systkina hópi en móðir þeirra lést í júlí 1933.
Það er athyglisvert að Hósi er sex ára þegar hann er sendur milli bæja og Kristján fer með honum suður í Kirkjubæ ekki fullra fimm ára gamall.
[7] Hér er verið að undirbúa uppsteypu á íbúðarhúsinu með þvi að sækja möl í einhvern mel, hugsanlega þann sem er/var suður undir merkjum fyrir neðan sumarhús Garðshyrninga. Annars var mölinn flutt neðan af Hörgáreyrum.
[8] Þorsteinn Steinþórsson (1884-1945) á Efri-Vindheimum, faðir Baldurs, Steinþórs og þeirra systkina.
[9] Ásta Frimannsdóttir (1921-1996) var til heimilis hjá móður sinni á Laugalandi en hefur fengið að ganga á skóla í Ási og búa hjá frændfólki sínu í Garðshorni (Ásta og pabbi voru bræðrabörn). Skólinn var tvær vikur í senn og tveggja vikna hlé á milli.
[10] Helga Sigurlaug Baldvinsdóttir (1922-2015), systir Sverris í Skógum. Pabbi og þau systkinin voru fjórmenningar.
[11] Björn Brynjólfsson (1920-2001) 12 ára gamall, var í hópi 14 systkina Brynjólfs og Soffíu á Steinsstöðum, síðar í Efstalandskoti. Soffía og Guðmundur langafi voru bræðrabörn og lögðu rækt við frændsemi sína sem hefur framlengst til næstu kynslóðar á eftir því að meira samband var milli þremenninganna Brynjólfs og Pálma afa en margra annarra.
[12] Guðrún Kristjánsdóttir (1888-1954) var einkadóttir Hólmfríðar Sigurðardóttur (1850-1932), systur Steinunnar langömmu. Kristinn Sigurbjörn Einarsson (1874-1948) var seinni maður Guðrúnar en þau voru barnlaus. Dóttir Guðrúnar af fyrra hjónabandi var Sigurlína Hólmfríður Sigfúsdóttir (1920-2008) húsfreyja í Ytri-Villingadal.
[13] Jóhanna Soffía Jónsdóttir (1919-1987) var í Kirkjubæ hjá móður sinni sem var nýorðin ekkja. Tvær systur Jóhönnu voru einnig í Kirkjubæ og Einar bróðir þeirra var ráðsmaður hjá móður sinni.
[14] Sigurgeir Sigurðsson (1865-1935) hafði búið á nokkrum bæjum í Hörgárdal, síðast í Ásgerðarstaðaseli. Faðir "Simba í Seli" og fleiri barna.
[15] Steingrímur Pálmi Sigursteinsson (1914-1999) átti heima á Neðri-Vindheimum, sonur hjónanna þar. Hann og pabbi voru fjórmenningar.
[16] Enn þykir ekki tiltökumál þótt Kristján, varla orðinn sex ára gamall, skreppi einn á næsta bæ.
[17] Jón Marinó Benediktsson (1897-1968) bjó á Efri-Rauðalæk með konu sinni Kristbjörgu Önnu Ingjaldsdóttur (1896-1989), þau voru barnlaus. Bróðir Marinós var Guðmundur Benediktsson afi íþróttafréttamannanna "Gumma Ben" og Evu Bjarkar Benediktsbarna.
[18] Akstur með mjólk úr sveitunum var sem sagt hafinn en mjólkurbíllinn, sem Eggert ók, var nánast eini bíllinn sem fór um vegatroðningana sem þarna var unnið við að lagfæra.
[19] Elías Tómasson (1894-1971) bjó í Hrauni, seinna bankagjaldkeri á Akureyri. Fjórmenningur við Frímann í Garðshorni. Sonardóttir hans er Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri, ekkja Sigurðar Pálssonar skálds.
[20] Kýr með doða voru læknaðar með tvennum hætti. Annarsvegar var kalkblöndu sprautað í æð eins og hér hefur verið gert en hinsvegar var lofti dælt í spena kýrinnar. Hvort tveggja virkaði og pabbi var oft fenginn til að fara á bæi til að lækna "doðabeljur".
[21] Gunnar Jóhann Valdemarsson (1900-1989), bróðir Péturs á Rauðalæk. Gunnar var systursonur Helgu ömmu. Hann bjó síðar með Amalíu Sigurðardóttur (1890-1967) á Víðimel en hún hafði búið á Víðivöllum í Blönduhlíð með fyrri manni sínum.