1945
Janúar 1945
1. janúar
Það var messað á Bægisá í dag. Steini fór í morgun til að kveikja á ofninum og svo fór hann aftur til messunnar og Guðfinna og Jóhanna líka. Sigrún[1] í Ási kom hér við á leið frá kirkjunni og með henni dóttir hennar, lítil. Þær töfðu hér stund. Um kvöldið vorum við boðin ofan í Hamar og fórum við 5, Steindór, Steini, Kristján, Guðfinna og ég og komum við aftur heim kl. að ganga 4 um nóttina. Forberg[2] tók mjólk um morguninn og þá fóru þeir með honum inneftir jólagestirnir Reynir, Siggi og Haukur[3].
2. janúar
Kristján var hjá Gísla í Kirkjubæ við gegningar en Gísli fór fram í Öxnadal til að sækja hross.
3. janúar
Kristján var hjá Gísla aftur í dag.
5. janúar
Júlli Helgason kom og tafði en fór um kvöldið. Hann er vetrarmaður á Grjótgarði. Hann fékk bækur að láni, Hornstrendingabók og Draumurinn fagri.
6. janúar
Þá kom Pétur á Rauðalæk til að hjálpa Steina til að setja niður útvarp en það var ekki hægt að setja tækið við því að vantaði hlaðinn sýrugeymi. Steindór tók Grána og Rauð í hús.
7. janúar
Kristján fór suður í Kirkjubæ. Steini fór ofan í Rauðalæk með rafgeymi í hleðslu.
8. janúar
Kristján fór í bæinn með mjólkurbílnum. Snorri á Bægisá kom á Skjóna. Hann var að biðja mig að spinna fyrir sig.
9. janúar
Steindór fór yfir að Öxnhóli. Tryggvi Gissurarson kom og gisti.
10. janúar
Tryggvi var hér um kyrrt en Steindór og hann fóru út í Efri-Vindheima en komu aftur um kvöldið.
11. janúar
Kristján kom heim um kvöldið.
12. janúar
Pétur á Rauðalæk kom og var að rukka um þinggjöld sem borguð voru í sumar. Tryggvi var hér um kyrrt.
13. janúar
Tryggvi fór heim til sín á mjólkurbílnum.
14. janúar
Steindór fór inneftir á mánudag.
16. janúar
Ég fór inneftir með mjólkurbílnum og ætlaði að fá rafmagn í handleggina einhverja daga en fara á milli á bílnum en svo fór bíllinn ekkert innanað um kvöldið svo ég gisti hjá Stefaníu. Ég komst í rafmagnið hjá Jóni Geirs.
17. janúar
Ég komst ekki í rafmagnið því Jón var lasinn. Bíllinn komst seint inneftir svo að hann fór ekki vestur aftur og ég varð að gista aðra nótt. Næsta dag kom Jón ekki heldur svo ég fór til Kristjönu Jóhannesdóttur en hún hefur rafmagn og ljós og nudd. Ég ákvað að ganga til hennar í nudd og rafmagn en sá tími sem ég gat fengið var hálf sjö á kvöldi og er þar með útilokað að komast heim að kvöldinu.
... á heimleið frá Akureyri. Á sunnudag var bjart veður og þá átti mjólkurbíllinn að fara innanað með fólk kl. 9 að morgni og vorum við komin þar að bensínskúrnum 7 manns á tilsettum tíma en kl. að ganga 11 var bílstjórinn ekki kominn og fór ég þá á stað gangandi og bjóst við að bíllinn næði mér þá og þegar. Fyrir innan Dvergastein náði mér bíll frá Hallgilsstöðum og var ég með honum vestur að vegamótum en gekk svo þaðan fram að Brúnastöðum en þar fór ég inn og drakk kaffi en þegar ég er rétt kominn inn þá fór bíllinn fram hjá og tapaði ég af honum. Gekk ég svo spölinn sem eftir var og kom heim um kl. 3. Bíllinn tók sunnudagsmjólk. Ég var heima á mánudaginn, þá var stillt veður en nokkurt frost. Stefán á Rauðalæk kom með hest og sleða og fékk torf í kýrbásana sína. Hulda[4] á Bægisá kom með lopa sem á að spinna. Þriðjudag fór ég aftur inneftir og var innfrá til helgar. Kristján fór með mér og lét taka mál af sér á saumastofu „Gefjunar“ og á að sauma þar föt handa honum. Hann fór heim um kvöldið. Svo fór ég heim á laugardagskvöldið.
28. janúar
Ég var heima þann dag. Um nóttina bar Síða og átti svarta kvígu en hún kafnaði í flórnum.
29. janúar
Þá fór ég inneftir til þess að vera eina viku enn í nuddinu. Guðfinna fór með mér og Kristján en þau fóru bæði heim um kvöldið.
[1] Sigrún Jensdóttir (1915-1999) seinni kona Rósants í Ási. Dóttirin hefur líklega verið Septína Guðrún Sigurrós Rósantsdóttir (1941-1922), síðar einatt kölluð Rósa.
[2] Jón Forberg Jónsson (1909-1990) bóndi á Hrappsstöðum í norðurjaðri Akureyrar, síðar verkstjóri á Akureyri.
[3] Jólagestirnir voru Reynir sonur Jóhönnu og Steina og framangreindir synir Stefaníu Sigurðardóttur, Sigurður Bárðarson og Haukur Sigurðsson.
[4] Hulda Snorradóttir (1920-2010) síðar húsfreyja í Dagverðartungu.