Janúar 1944

Árið 1944

1. janúar
Féð var ekki látið út. Steindór og Bjarni fóru út í Bryta og töfðu þar langt fram á nótt. Kristján fór á fætur kl. 15.

2. janúar
Rósant á Hamri kom og tafði fram á kvöld og þá fylgdi Kristján honum ofan eftir. Jón á Skjaldarstöðum kom um kvöldið og tafði um stund. Steindór fór inneftir á mjólkurbílnum um morguninn. Það er kvefvella í fólkinu, líklega inflúensa en enginn frá verkum. Kristján fór á fætur kl. 12. Huppa bar í dag og átti rauðtunglótta kvígu.

3. janúar
Þá kom Sigga[1] frá Skógum og gisti. Hún er í vetur á Öxnhóli. Bjarni fór suður í Bægisá og ætlaði að tala við Héðin[2] í síma en lánaðist ekki.

4. janúar
Mamma og Kristján fóru að ræsta kirkjuna og Sigga fór með þeim og Kristján fylgdi henni yfir um á. Svo fóru þau mamma og Kristján suður í Syðri-Bægisá með bækur, Rósvelt og Dag í Bjarnardal II. Ég slátraði kálfinum hennar Huppu.

5. janúar
Hamarsbræður komu til að finna Kristján og svo fór hann með þeim á skíðum.

6. janúar
Við Guðfinna fórum út í Bryta og töfðum þar í 3 tíma. Náðum varla í fjósið. Kristján fór ofan í Rauðalæk og var á skíðum fram á kvöld.

7. janúar
Það er fremur illt á jörð fyrir fé og láta fáir út. Aftur á móti sæmilegt fyrir hross. Kristján fór á skíði ofan á Leiti.

9. janúar
Sunnan flapur. Hósi kom til að biðja mig að koma ofan í Hamar til að dæla kalkblöndu í belju og gerði ég það en Hósi og Kristján fóru út í Brúnastaði til að sækja mjólkurdunka því Stebbi hafði svikist um að skila þeim suður eftir í gær. Svo kom Hósi hér heim aftur og spilaði.

10. janúar
15 – 18 stiga frost. Það fór engin mjólk af því Stebbi hafði ekki bílinn í gang. Finnlaugur fór með sína mjólk en færið er ekki gott. Ég fór út á Brytahjalla til að líta eftir hrossunum, þar ganga 20 hross. Bjarni bjó sig til kaupstaðarferðar en komst ekki.

11. janúar
Hvassar renningsþotur. Stefán tók mjólkina, það fóru héðan um 150 lítrar. Bjarni fór með bílnum og kom ekki aftur.

12. janúar

Bjarni kom heim um kvöldið. Kristján var eins og maður allan daginn.

13. janúar

Ég fór út í Brúnastaði til að sprauta kalkblöndu í kú sem er að drepast þar. Ég kom við á Neðri-Rauðalæk í heimleiðinni. Hósi kom með bækur. Kristján fór í rökkurtúr með bíl fram að Steinsstöðum.

14. janúar
Þorleifur á Hamri kom með fundarboð. Við Bjarni fórum með Grána, Jarp og Rauð fram í Skjaldarstaði til þess að þeir gangi þar um tíma. Kristján klikkaði á vakningunni um morguninn og fór ofan í Hamar um daginn.

15. janúar
Ég fór út í Brúnastaði til að setja kalkskammt í beljuna. Hún er aðeins skárri en mesti ræfill. Bjarni fór út í Bryta. Kristján vaknaði kl. 10 og fór svo á ball yfir á Mela um kvöldið.

16. janúar
Kaldi með krepjuslettingi. Krepjuhryðjur. Stefán tók mjólk og með honum fóru bændur hér af Mörkinni á fund inn á Þinghús þar sem stofna átti framræslufélag.

17. janúar
Kristján fór til Akureyrar og kom ekki aftur. Þorleifur á Hamri kom og fékk lánaða doðadælu. Ég fór út í Rauðalæk til að segja Björgvin[3] að taka Skjónu af bjargleysu hér fyrir ofan og svo kom hann með mér utanað aftur.

18. janúar
Síða var borin í morgun þegar ég kom í fjósið og var kálfurinn grá kvíga í flórnum.

19. janúar
Ég fór ofan að Hamri um kvöldið. Kristján kom heim.

20. janúar
Þá fór ég til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom aftur með 1000 pd af kolum og 700 pd af maís, 100 pd rúgmjöl og 100 pd hveiti o.fl. Kristján fór í Hamar og Hósi kom.

21. janúar
Gerði logndrífu. Hósi kom og Kristján fór með honum til að leita að hesti. Annars fór Kristján á fætur fyrir hádegi.

22. janúar
Við Bjarni fórum út í Bryta og spiluðum stund, komum heim um kl. 7. Kristján fór á ball á Náströnd.

23. janúar
Kristján svaf fram undir myrkur, þá fór hann ofan í Hamar. Það átti að messa á Bægisá og fór ég og kynti ofninn kl. 9 og svo fórum við mamma, Bjarni og ég til kirkju á réttum tíma en þá kom ekki presturinn og þá fréttist á skotspónum að það yrði ekki messað og fórum við heim við svo búið. Um kvöldið fórum við Bjarni suður í Syðri-Bægisá og sátum þar við spil og kaffi fram á morgun og náðum varla í fjósið.

24. janúar
Hósi kom og hjálpaði Kristjáni til að setja niður spunavélina. Við gáfum fénu inn ormalyf og sóttum á einn sleða svörð.

25. janúar
Við Bjarni ókum heim þremur sleðum af sverði. Kristján kláraði næstum að setja eitt bindi upp í vélina. Svo fór hann ofan að Hamri. Tryggvi[4] í Lönguhlíð kom.

26. janúar
Var lenju hríð. Bjarni, Guðfinna og Friðgerður fóru til Akureyrar með mjólkurbílnum. Hósi kom með fundarboð. Kristján spann 1/3 úr bindi.

27. janúar
Pétur á Rauðalæk kom. Kristján fór með mjólkina og bar út úr fjósinu. En svo varð hann lasinn og fór í rúmið með 39 stiga hita.

28. janúar
Var sunnan byljaveður fram á dag. Kristján var í rúminu með hita.

29. janúar
Ég fór suður í Bægisá og símaði að Þverá og einnig talaði ég við Guðfinnu en hún er á Akureyri. Steindór kom heim um kvöldið. Kristján var í rúminu með hita.

30. janúar – sunnudagur
Sunnan gola og frostleysi. Steini í Kirkjubæ kom til að láta mig vita að hrossin hans Jóns mágs væru komin ofan að Bægisá og fór ég svo með honum og sótti þau og lét þau inn og gaf þeim. Steindór fór inneftir með Baldri á Vindheimum um kvöldið. Kristján er í rúminu með 39-40 st. hita. Líklega mislingar.

31. janúar
Bjarni kom heim um kvöldið en Guðfinna og Friðgerður eru eftir innfrá og verða þar til smithætta af mislingunum er um garð gengin hér heima. Kristján er með 39-40 st. hita og eru mislingarnir sem óðast að koma út á honum.

 

[1] Líklega Sigríður Anna Stefánsdóttir (1905-1992), systir Eiríks og Marinós. Hún giftist Eyþóri Stefánssyni tónskáldi og organista á Sauðárkróki.

[2] Skarphéðinn Bjarnason.

[3] Björgvin Friðriksson (1917-1948) bjó á Efri-Rauðalæk með Jóhönnu Kristínu Sigurðardóttur (1914-1994) árið 1943-1944.

[4] Sigtryggur Sigtryggsson (1890-1972), faðir Maríu, bóndi víða í sveitinni.