Júní 1942

Júní 1942

1. júní
Steindór fór í kaupstað fyrir Marinó til að sækja efni til ræsanna. Hann keypti tvenn stígvél fyrir mig og Kristján og kostuðu þau tæpar 50 kr. Við Kristján vorum við flögin að sá og valta, dreifa áburði. Svo kom Steindór heim um kl. 2 og keyrði skít suður og ofan um tíma seinni partinn. Mamma fór út í Bryta og Rauðalæk.

2. júní
Steindór fór í vinnuna og reið á Gránu á milli. Þorleifur á Hamri kom og fékk 147 kg töðu. Frú Jóhanna á Bægisá kom og tafði um stund, hún var að leita að „systrunum“. Við Kristján plægðum part af flagi. Það voru lánuð 10 borð ofan að Laugalandi, þau fóru á mjólkurbílnum. Guðni og Svanfríður[1] fluttu í dag frá Rauðalæk og út að Hvammi.

3. júní
Pabbi fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom ekki heim aftur. Steindór fór í vinnuna en var hálflasinn. Við Kristján mörkuðum nokkur lömb og hleyptum upp fyrir 18 ám og svo unnum við í flaginu seinnipartinn. Guðfinna hreinsaði.

4. júní
Steindór fór í vinnuna. Pabbi kom heim um 4-leytið. Við Kristján girtum kartöflugarðinn og járnuðum Gráskjónu, mörkuðum undir 9 ám og vorum svo stund í flaginu með hrossin.

5. júní
Steindór fór í vinnuna og inn á Akureyri. Við mörkuðum og hleyptum uppfyrir og svo vorum við seinnipartinn í flaginu. Þorleifur kom til að sækja rollu sem hafði misst lambið sitt hér fyrir ofan og svo kom hann um kvöldið og fékk 203 kg töðu. Kristján fór út í Rauðalæk til að biðja Marinó[2] um vinnu fyrir sig.

6. júní
Steindór fór í vinnuna. Ég ætlaði að gera mikið og klára flagið en þegar ég var að fara af stað suður og ofan þá sá ég heyrði til rollu hér efra sem var með miklum jarmi. Ég fór svo að grennslast um það og fann þá dýrbitið lamb, nýdautt, draslaði því heim og ánni og setti annað lamb undir hana. Svo fór ég út í Bryta til að grennslast eftir hvort ekki eigi að gera grenjaleit og réðist það svo að það var ákveðið að leita í kvöld og fóru þeir upp að utan, Steini á Bryta og Pétur á Rauðalæk, en ég átti að fara upp að sunnan. Ég fór svo af staðum kl. 8 um kvöldið og fór Kristján með mér. Það er ekki að orðlengja það að við fundum greni fyrir sunnan og ofan Stórastein og fór þá Kristján strax út í Brúnastaði til þess að fá Jóhannes til að skjóta dýrin en þá var hann farinn vestur í Skagafjörð. Varð það útkoman að við Steini á Bryta lágum við grenið um nóttina og var Kristján þá hjá okkur. Það var norðan stormur og hiti um frostmark en úrkomulítið og varð mér voða kalt, fékk færi á refnum en hafði skotið ekki úr byssunni. Mamma fór í kaupstað í mjólkurbílnum.

7. júní – sunnudagur
Klukkan 5 um morguninn kom Steindór upp á grenið og var þar allan daginn með Steina en við Kristján fórum heim og sváfum um daginn. Ingi á Rauðalæk kom og ætlaði að verða á greninu í dag en svo var því slegið föstu að hann færi þangað í kvöld. Jóhannes kom síðdegis suður og upp. Jón á Skjaldarstöðum kom og ég járnaði fyrir hann hest. Gunnrún[3] kaupakona á Neðri-Rauðalæk kom og tafði lengi. Guðfinna fór út í Bryta. Ragnar í Lönguhlíð kom. Hósi á Hamri kom.

8. júní
Ég var á greninu frá kl. 8 – 6 en þeir Jói og Ingi fóru heim til sín en tóku svo við í kvöld. Jói skaut læðuna í morgun og tvo yrðlinga í nótt en ég náði tveimur yrðlingum í dag. En þá er refurinn eftir og vöktu þeir aftur í nótt, Jói og Ingi. Kristján fór til Akureyrar og svo komu þau aftur í kvöld, hann og mamma. Steindór fór í vinnuna.

9. júní
Ég var að jafna flagið fyrripartinn en svo kom Ingi og bað mig að vera hjá greninu svo þeir gætu sofið og gerði ég það og var efra í 10 klukkutíma eða fram á nótt. Þá tóku þeir aftur við og vöktu í nótt en sáu aldrei refinn. Kristján fór með Steindóri í vinnuna. Ólöf[4] kom til smjörkaupa.

10. júní
Steindór og Kristján fóru í vinnuna. Ragnar[5] í Lönguhlíð kom og var hér í vinnu í dag og ætlar að vera lengur. Kláruðum við fyrst að jafna flagið undir sáningu og svo tókum við ofan af sverði en seinast ristum við torf, 19 heytorfur og um 60 reiðinga. Ingi kom af greninu um 9-leytið en Jóhannes um 3 leytið og er þar með hætt að liggja á greninu þar eð vonlaust þykir að refurinn náist. Guðfinna fór í síma að Bægisá.

11. júní
Steindór fór í vinnuna og inn á Akureyri og fékk gaffal og sláttuvélarfingur fyrir mig, auk þess fisk fyrir kr. 3. Ég var við að rista reiðinga með Ragnari og Kristjáni. Seinasta ærin bar í dag og var tvílembd. Stefán á Barká kom með bréf til Steindórs. Þorleifur kom og fékk 80 kg töðu.

12. júní
Ragnar fór í vinnu í staðinn fyrir Steindór en Steindór var heima við reiðingsristuna og ristum við mikið og fengum allt að 6 reiðinga niður[6]. Kristín og Helga á Rauðalæk komu og með þeim Guðrún Hinriksdóttir, öðru nafni Gígja[7].

13. júní
Steindór fór í vinnuna. Ragnar bar saman tað fyrripartinn en við Kristján fluttum torf úr flagi. En seinnipartinn var Ragnar með mér við torfið og fluttum við úr alls um 560 st reiðing og 50 – 60 heytorfur[8]. Svo fór Ragnar heim til sín um kvöldið. Siggi á Bryta kom til að sækja riffilinn og hangiket. Kristján fór um kvöldið ofan í Rauðalæk.

14. júní – sunnudagur
Við rákum saman fyrir neðan og mörkuðum það sem eftir var. Nú fann ég tvílembing sem hafði drepist ofan í að líkindum í nótt. Þorleifur á Hamri kom og borgaði töðuna, 26 aura kílóið, alls 111 kr. Mjólkurbíllinn fór með mjólk og munaði engu að ég gleymdi að fara með mjólkina í tíma. Pétur á Rauðalæk kom til að skila ræsaspaða o.fl. Rósant á Hallfríðarstöðum kom og járnaði ég fyrir hann 2 hesta[9]. Kristján fór ofan í Rauðalæk. Steindór fór yfir að Barká. Siggi á Bryta kom. Kýrnar voru látnar út fyrsta sinn.

15. júní
Ég sáði í flagið og Kristján herfaði og valtaði svo það er nú frá. Svo fluttum við torfið úr sem eftir var og hreyktum[10] nokkru af hinu. Það var klárað að bera saman taðið og einnig klárað að hreinsa.

16. júní
Steindór og Kristján fóru í vinnuna við ræsin. Ég fór til Akureyrar á mjólkurbílnum og tók þar út sitt af hverju fyrir á fimmta hundrað krónur og fannst mér þær fljótar að fara. Ég lenti í rigningunni með að flytja heim draslið. Þá kom Bjarni Finnbogason[11] eftirlitsmaður nautgriparæktarfélagsins. Mamma fór suður í Bægisá til að þvo kirkjuna.

17. júní
Steindór og Kristján fóru í vinnuna. Ég fór suður í Kirkjubæ og Bægisá til þess að vita hvort bændur þar gætu gert við gripafélagsgirðinguna og varð það úr að Hallgrímur gamli fór í það með mér og gerðum við við girðinguna á 6-7 tímum. Guðfinna fór út í Rauðalæk með böggla sem ég keypti fyrir Leónharð og svo fór hún ofan í Neðri-Rauðalæk og tafði 3 klst. hjá Pétri. Siggi á Hamri kom með hreppaskilaboð.

18. júní
Steindór og Kristján fóru í vinnuna. Ég bar áburð í garðana og Guðfinna rakaði upp að grösunum. Svo tókum við ofan af sverði og síðast ristum við torf og reiðinga.

19. júní
Þá tókum við upp svörð, ég, Steindór og Kristján og Hallgrímur á Bægisá var við það í fulla 5 tíma. Pabbi lagaði hnausana til á þurrkvellinum en Guðfinna klauf og að lokum girtum við Kristján í kring um svörðinn um kvöldið. Guðbjörn á Rauðalæk kom til að aflýsa Vatnsdalshólaför sem átti að fara á morgun.

20. júní
Steindór fór ekki í vinnuna og við ristum reiðinga, á að giska 400 stykki, og nokkrar heytorfur. Snorri á Bægisá kom til okkar í flagið en tafði lítið. Guðfinna fór út í Bryta.

21. júní - sunnudagur
Um fótaferðartíma komu þeir hér heim Þorsteinn[12] á Vindheimum og Guðni og voru meira en hálfir. Slæptust þeir hér í eina 2 tíma en vildu ekkert þiggja. Sr. Theódór kom með símboð til Guðfinnu og fór hún suðureftir tafarlaust til viðtals við kunningjastúlku sína af Vestfjörðum. Höskuldur Kristjánsson[13] kom hér heim í bíl og var að spyrja eftir hesti. Kristján fór í skemmtiför með bindindisfélaginu að Svalbarði. Pabbi fór út í Bryta. Þorleifur á Hamri kom og var að panta reiðinga fyrir Bjarna[14] bróður sinn. Við vorum að garfa í skiptum á búinu[15] en varð lítið ágengt. Steindór fór um kvöldið út í Vindheima og Neðri-Rauðalæk.

22. júní
Steindór fór í vinnuna. Kristján kom heim kl. 2 í nótt og svaf svo til hádegis. Við fluttum torf úr flagi, Guðfinna með mér fyrripartinn og Kristján með okkur seinnipartinn og þá risti ég nokkrar torfur[16]. Pétur á Rauðalæk kom og fékk lánaða slóðagrind. Ólöf Þórðar kom og fékk lánaða hreinsunarhrífu. Um kvöldið kom stúlka af Vestfjörðum, Guðrún Magnúsdóttir[17], Reykjanesi, og gisti. Hún er gamalkunnug Guðfinnu.

23. júní
Steindór fór í vinnuna og þaðan inn á Akureyri til að sækja rör í ræsin. Ingi á Rauðalæk kom og fékk lánaða kerru. Við Kristján vorum við torfið og ég dreifði úr einum Ammafos[18] poka. Pabbi var að hagræða torfinu til þerris. Guðrún var hér um kyrrt.

24. júní
Guðrún fór með mjólkurbílnum og Guðfinna fór með henni og kom ekki aftur um kvöldið. Steindór var heima og við ristum a.m.k. 500 reiðinga. Kristján var með okkur. Pabbi var við að þurrka torfið. Guðbjörn kom með kerruna.

25. júní
Steindór fór í vinnuna. Við Kristján fluttum reiðinga fram um miðaftan, þá hætti hann og fór ofan í Laugaland til að sækja hjólið sitt en Guðfinna flutti úr með mér til kvölds. Árni í Ási kom og vildi fá okkur Kristján í vinnu á morgun og gaf ég honum kost á að fá Kristján. Guðfinna kom með hraðferðinni í morgun.

26. júní
Steindór fór í ræsaaðgerðirnar en Kristján var í malarmokstri hjá Árna í Ási. Unnu þeir yfir í Sporði[19]. Ég var latur og gerði lítið, setti saman sláttuvélina fyrripartinn og sló 1 – 2 dagsláttur seinnipartinn suður og niður á nýrækt og er það að verða sæmilega sprottið þar en annars er fremur illa sprottið og er verið að hreinsa tún á Hamri – Kirkjubæ og víðar.

27. júní
Steindór var heima og við ristum torf og reiðinga. Kristján fór í flækingstúr um kvöldið.

28. júní - sunnudagur
Við járnuðum Gránu og Rauðku. Siggi á Bryta kom og fékk Gráskjónu fyrir Jóhönnu og kom hún svo á henni suðureftir. Reynir kom líka á hjóli og töfðu þau lengi. Reynir fór með mér í reiðtúr, fyrst út með götum og svo suður braut. Gunnrún og Helga og Ransí[20] litla komu og töfðu og svo fór Guðfinna með þeim ofan eftir aftur. Guðbjörn kom og Hósi og Siggi á Hamri og Guðmundur, piltur af Tjörnesi. Þorleifur á Hamri kom til þess að tala um smalamennsku. Ólöf kom ekki og var þó búin að lofa því.

29. júní
Steindór fór í vinnuna. Kola bar snemma dags en heildist ekki og náði ég nokkru af hildunum um kvöldið. Ölvir[21] og Gísli bílstjóri komu og tóku 360 reiðinga sem áttu að fara til Bjarna Rósantssonar. Við Kristján fluttum torf o.fl.

30. júní
Þá rákum við saman og fl. hér fyrir utan og voru það frjáls samtök en ekki skyldusamanrekstur. Það gekk vel að reka saman en mjög illa að reka inn og komu þeir seinna Pétur og Ingi og hjálpuðu okkur. Svo var allt rúið sem til náðist nema tvær ær sem voru illa fylldar[22]. Við Kristján fórum út á bæi til að sækja fé sem við áttum þar og var að ekki rúið þann dag og samt vorum við ekki laus við féð fyrr en kl. 3 eftir miðnætti. Ein ær drapst á réttinni sem ég átti en ekki veit ég hvað orðið hefur henni að bana. Ég fór um morguninn ofan í Rauðalæk til þess að tala um samanreksturinn. Hinir og aðrir menn komu hér á réttina til að vitja um kindur.

 

 

[1] Sigurlína Svanfríður Sigurgeirsdóttir (1898-1989) var ein af systkinunum frá Vöglum sem fluttu síðar út í Grjótgarð.

[2] Jón Marinó bóndi á Rauðalæk 1928-1944 var vegavinnuverkstjóri en störf hjá Vegagerðinni gengu í ættir hans. Guðmundur bróðir hans var vegaumdæmisstjóri á Akureyri og Birgir Guðmundsson var umdæmisverkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins í Borgarnesi.

[3] Þetta hefur líklega verið Gunnrún Jensína Ásgeirsdóttir (1922-1989) frá Hnífsdal, síðar á Ísafirði. Nafnið er ekki algengt.

[4] Líklega Ólöf Sigurrós Þórðardóttir (1916-1971) úr Arnarneshreppi en ekki verður séð hvaðan hún kom til smjörkaupanna.

[5] Tilgáta um að þetta hafi verið Ragnar Marinó Sigtryggsson (1923-?) bróðir Maríu síðar konu Gísla Jónssonar sem var eða húsmaður í Kirkjubæ. Ragnar bjó síðar í Færeyjum.

[6] Þetta þýðir líklega að mýrarjarðvegurinn hafi verið svo þykkur að hægt hafi verið að rista 6 torfur (e.t.v. 4 sm þykkar), hverja niður af annarri.

[7] Áður nefnd 10. okt. 1936, bjó síðar á Lynghaga 14 í Reykjavík á hæðinni neðan við Björn rakara og Elínu, hafði þá verið gift Hámundi, alltént átti hún son sem hét Gunnar Hámundarson.

[8] Reiðingur var torfa sem var jafnþykk á alla kanta en heytorfurnar voru með grasrót, þynntust til jaðranna og voru ristar ofan af jarðveginum sem reiðingstorfurnar voru ristar úr.

[9] Þarna eru breyttir tímar frá því að Rósant á Hamri kom og járnaði fyrir Garðshornsfeðga. Nú járnar pabbi fyrir aðra.

[10] Torfunum var hreykt, þ.e. þær voru reistar upp á rönd til að þær gætu þornað.

[11] Bjarni Fanndal Finnbogason (1918-1975) ráðunautur, Skagfirðingur, seinna í Búðardal og Reykjavík. Birgir Fanndal (1948-1970) sonur hans var á Reykjaskóla með sumum okkar Garðshornssystkinanna, mikill sómadrengur. Hann missti bíl sinn í Fossána og lét lífið.

[12] Þorsteinn Steinþórsson (1884-1945) faðir Baldurs og þeirra systkina og Guðni Jónasson (1897-1980) síðar bóndi á Hofteigi.

[13] Höskuldur Sigurjón Kristjánsson (1912-2006) frá Framnesi í Grýtubakkahreppi, síðar verkamaður á Akureyri, kallaður Höskuldur blíðalogn.

[14] Bjarni Rósantsson (1904-1973) var múrari á Akureyri og hefur hér verið að kaupa reiðing sem var notaður í einangrun í húsveggi og jafnvel loft íbúðarhúsa.

[15] Eftir að mamma kom til sögunnar hafa þeir bræður ákveðið að skipta jörðinni á milli sín til helminga. Síðar gaf Steindór pabba sína hálflendu enda var pabbi búinn að vinna að búinu á meðan Steindór aflaði sér tekna með smíðum um allar sveitir.

[16] Torfljáir voru með tvennum hætti. Annarsvegar voru þeir bognir upp í oddinn og voru notaðir til að rista heytorfur. Hins vegar voru þeir sem voru beinir og voru notaðir til að rista reiðingstorfur sem voru jafnþykkir út til jaðranna. Það hlýtur að hafa verið vandasamt að rista reiðingstorfur þannig að þær yrðu allar jafnþykkar.

[17] Líklega Guðrún Fanney Magnúsdóttir (1928-2020) sem var síðar húsfreyja á Ísafirði og enn síðar bankaritari á Seltjarnarnesi. Hefur líklega ráðist sem vinnukona til Akureyrar um þetta leyti en var áður vinnukona í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.

[18] Túnáburður framleiddur í Uzbekistan eða Azerbeijsan, innihaldið líklega ammoníak og fosfat.

[19] Sporður gæti hafa verið nesið vestan við Ytri-Bægisá þar sem vegurinn liggur yfir að Melum.

[20] Rannveig Ágústína Sigurðardóttir (1935-2006) var systir "Sigga litla" á Bryta, sumarkrakki á Neðri-Rauðalæk.

[21] Ölvir Karlsson (1915-1991) bróðursonur Hallgríms á Vöglum, lengi bóndi og oddviti í Þjórsártúni í Rangárvallasýslu.

[22] Ef ný ull var ekki farin að vaxa innan við reyfið á ánni var hún illa fylld og erfitt að ná af henni reyfinu.