Desember 1934

1. desember 1934 – Ísland sjálfstætt ríki.

Ég gaf ánum um kvöldið. Hér kom maður, Árni nokkur Magnússon af Hjalteyri. Hann var að finna Steindór. Einnig gekk hér um maður og bað að segja sér til vegar út og upp heiði. Hann var frá Sveinsstöðum í Tungusveit. Eggert tók mjólkina klukkutíma fyrr en venja er til.

2. desember

Steindór fór yfir að Öxnhóli og kom við á Ytri-Bægisá. Um kvöldið vantaði tvær ær og fór ég suður í Kirkjubæ til að leita þeirra og var önnur þar en hina fann ég ekki.

3. desember

Steindór fór út í Bryta og Efri-Rauðalæk. Helga á Neðri-Rauðalæk kom og sótti 3 ær sem komu hér heim. Ærnar komu allar heim í kvöld en nú þarf að gefa þeim a.m.k. hálfa gjöf, annars hef ég sjaldan gefið þeim meira en þriðjung.

4. desember

Kári kom til að fá tóbak ofan í eina kind. Við fluttum heim taðhlaða. Þegar ég var að smala þá fann ég eina á (Ullsíð) fótbrotna hér suður og upp. Ég fór svo heim og svo fórum við Steindór með trogbera og ókum henni heim og af því þetta var roskin æ þá var henni lógað. Eggert bílstjóri er eitthvað lasinn svo hann fékk Guðmund Snorrason[1] til að keyra bílinn vestur í kvöld.

5. desember

Steindór var við að spekka[2] búrið innan. Eina á vantaði um kvöldið og ég fór suður í Kirkjubæ til þess að vita hvort hún væri þar en hún var þar ekki.

6. desember

Í gærkvöld kom með bílnum innanað 2 strokkar[3] af ufsa og var þeim ekið heim í morgun. Brúnn sækir á að komast suður að Bægisá, fór hann suður eftir í nótt og hnuplaði sér töðu og ufsa. Ég sótti hann suðureftir snemma í dag en hann smeygði sér fljótt aftur og þá sótti pabbi hann og gerði við girðinguna um leið sem er slitin svo nú á hann ekki að komast. Reynir kom með félagsbók (Davíð skyggna). Um kvöldið kom Emma[4] frá Steðja og var hér nóttina.

7. desember

Emma var hér um kyrrt.

8. desember

Emma fór með bílnum um morguninn.

9. desember

Mig vantaði 6 ær um kvöldið og leitaði að þeim fram í myrkur en fann þær ekki.

10. desember

Norðan hrakveður. Húsin hafa lekið. Ég fór suður í Kirkjubæ með félagsbók (Davíð skyggna). Steindór var við að steypa gólf í gömlu baðstofunni[5].

11. desember

Steindór var við að steypa kjallaratröppurnar.

12. desember

Jóhanna í Kirkjubæ var hér yfir bjarta daginn við að hjálpa til við bökun. Steindór var við að setja þakglugga á húsið. Pabbi var lasinn.

13. desember

Kári kom um kvöldið til þess að fá að baða sig

14. desember

Steindór var úti á Neðri-Vindheimum við að líma bréf innaní stofu. Júlli á Bryta kom með félagsbók, Náttúrufræðinginn.

15. desember

Steindór fór í kaupstað með bílnum. Kristján fór suður að Kirkjubæ til þess að biðja Jóhönnu Jónsdóttur[6] að hjálpa til við bakstur í dag og svo kom hún með honum til baka og var hér fram á kvöld. Mamma varð lasin um kvöldið, hafði uppköst og lá við yfirliði. Það er einhver umgangspest í fólkinu. Samkoma í nýja Skriðuhreppshúsinu[7].

16. desember

Ágúst[8] og Kári í Kirkjubæ komu með kvígu undir naut. Í rökkursbyrjun kom Steinþór á Efri-Vindheimum til að sækja naut. Steindór fór úteftir með bola og Þorsteinn fylgdi til baka. Ég fór út í Rauðalækina til að spyrja fólk eftir á sem hefur vantað síðan á föstudaginn, varð einskis vísari. Undir háttatíma komu þeir Kári og Einar Jónsson[9] og stönsuðu dálitla stund. Mamma var í rúminu en ekki mjög slæm.

17. desember

Steindór var úti á Efri-Vindheimum við að færa til eldavél, kom svo við á Bryta og tók þar hangikjöt til jólanna. Ég fór að leita dauðaleit að ánni sem vantar og fann hana uppi á hjalla. Þar hafði hún farið ofan um snjó ofan í lækjarseiru og var þar dauð. Mamma var á fótum nokkurn veginn frísk.

18. desember

Steindór var úti á Neðri-Vindheimum við að „bedrekja“ stofu. Þorleifur á Hamri kom og bað um að fá að baða féð hér á morgun og er það í ráði. Kári kom um kvöldið, var að svipast að hundi.

19. desember

Þorleifur kom með kindur sínar og baðaði þær og Rósant var við það með honum. Svo kom Hósi litli líka uppeftir. Ég fór mð „Náttúrufræðinginn“ suður í Kirkjubæ um leið og ég fór að smala.

20. desember

Við böðuðum féð[10]. Marinó á Rauðalæk kom viðvíkjandi nautstollareikningum[11].

21. desember

Ég gaf fénu inni af því það er nýbaðað. Kári kom um kvöldið.

22. desember

Féð var úti á annan tíma.

24. desember

Reynir kom með jólakort og jólaóskir frá Bryta og eitthvað sent af sama tagi til baka.

25. desember – Jóladagur

... talsverður snjór er í fjöllum og er það öðruvísi en í fyrra á jólum, þá mátti heita öríst uppá fjallatinda. Mamma og Kristján fóru til kirkju, þar voru nokkrar hræður saman komnar. Steindór fóru suður í Kirkjubæ.

26. desember

Eggert tók mjólk með fyrra móti. Steindór fór með honum ofan að Laugalandi og svo kom Árni Jóns[12] með honum aftur. Jóhanna og Reynir komu um hádegið og Steini og Júlli um kvöldið. Svo kom Hamarsfólkið líka um kvöldið, Hallfríður og Tryggva[13], Rósant, Bjarni og Þorleifur og líka Kári frá Kirkjubæ. Tafði[14] þetta fólk hér fram á nótt við spil og kaffidrykkju. Árni var hér um nóttina. Mig vantaði eina á og fór út í Efri-Rauðalæk og Bryta að leita að henni en fann ekki.

27. desember

Árni fór yfir að Öxnhóli. Um kvöldið kom Axel Snæland[15] og fékk að vera nóttina, sagði hann margt en ekki allt satt. Sömuleiðis kom Þóra Haralds[16] með bílnum og var hér nóttina. Rósant[17] kom með svarta á undir Móflekk. Ég fann rolluna sem vantaði í gærkvöld, hún var föst í girðingu hér suður og upp.

28. desember

Um kvöldið var spilað. Árni kom og var nóttina. Spiluðum við Steindór við þau Árna og Þóru, drukkum landa, reyktum sígar og átum magál. Árni bað Þóru en hún tók því ekki líklega og er ég hræddur um að ekkert verði úr því milli þeirra.

29. desember

Árni fór út að Bryta og Steini fór með honum. Að áliðnum degi komu þær Sigríður og Sigurlína Einarsdætur[18] systur Benedikts skósmiðs og með þeim Birgir Eydal[19]. Tafði það hér fram um fjóstíma. Þá kom Kári því hann átti að vera fylgdarsveinn á heimleiðinni. Steindór fylgdi þeim suðureftir með lugt.

30. desember

Reynir[20] kom með hníf sem hann bað að draga á hverfistein. Pabbi fór út að Bryta og ætlar að vera þar í nótt að gamni sínu.

31. desember

Pabbi kom heim um það bil að bjart var orðið. Við vorum boðin ofan að Hamri um kvöldið svo við kláruðum gegningar með fyrra móti og vorum búin með verkin og að búa okkur kl. 6.30 og þá fórum við. Þegar ofan eftir kom var okkur tekið með allskonar trakteringum, súkkulaði, kaffi með nægu sætabrauði svo og sígarettum, vínberjum, eplum, mjólk og „landa“. Við þetta var setið og spiluð „rúberta“ á milli til kl. 1.30, þá fórum við að þakka fyrir trakteringarnar og kveðja með ósk um gleðilegt ár sem nú var nýbyrjað. Svo skildu allir glaðir og ánægðir yfir samsætinu.

 

 

[1] Guðmundur Stefán Snorrason (1898-1981) bóndi á Steðja, síðar vörubílstjóri á Akureyri

[2] Sögnin að spekka var notuð um múrverk sem unnið var af ófaglærðum sem fínpússuðu steypu.

[3] Ekki er vitað hvers konar ílát þetta voru, varla þeir strokkar sem notaðir voru til að strokka smjör.

[4] Emma Matthildur Jónsdóttir (1874-1951) móðir fyrrgreinds Guðmundar Stefáns. Emma bjó fyrst með syni sínum en á árunum 1921-1934 taldist hún ein bóndi á Steðja.

[5] Þegar torfbærinn í Garðshorni var rifinn stóð baðstofan lengi eftir með steyptu gólfi sem hér er sagt frá. Undir þessu steypta gólfi var lengi kartöflugeymsla.

[6] Jóhanna Jónsdóttir (1919-1987) var ein fjögurra dætra ekkjunnar Oddnýjar Hjartardóttur sem að framan er getið. Jóhanna var síðast húsfreyja í Keflavík.

[7] Nýja Skriðuhreppshúsið var síðar nefnt Melar en pabbi kallaði það oftast Náströnd nema þegar honum fannst eitthvað merkilegt fara fram þar. Opinberlega var það tekið í notkun 1934 en það hefur greinilega verið orðið nothæft fyrr.

[8] Ágúst þessi hefur verið vetrarmaður í Kirkjubæ, hugsanlega ráðinn af Benedikt Einarssyni söðlasmið sem var með búskap á Bægisá/Kirkjubæ en bjó á Akureyri.

[9] Einar Ceselíus Jónsson (1911-1965) var ráðsmaður hjá móður sinni, ekkjunni Oddnýju sem fyrr greinir, bróðir Jóhönnu Soffíu sem hjálpaði til við bakstur í Garðshorni.

[10] Féð var lengi vel baðað einu sinni á ári og helst áður en fengitíðin hófst um jólin. Í baðinu var skordýraeitur sem átti að vinna á færilús sem gat verið plága í sauðfé.

[11] Hér hefur verið um að ræða uppgjör fyrir afnot af þarfanautinu sem að þessu sinni hefur verið í Garðshorni en sveitungar allt utan frá Krossastöðum, jafnvel Laugalandi, nýttu sér.

[12] Árni Halldór Jónsson (1885-1963), bróðir Steina, smiður og bóndi á Auðnum, Efri-Rauðalæk og Laugalandi á árunum 1914-1926. Átti lengi heima á Grjótgarði, síðast á Akureyri. Ógiftur og barnlaus.

[13] Kristjana Tryggva Kristjánsdóttir (1882-1969). Guðrún móðir Hamarssystkinanna og Tryggva voru systrabörn.

[14] Sögnin að tefja merkti að dvelja eða staldra við en ekki að tefja fyrir eins og orðið er oftast notað.

[15] Enginn finnst með þessu nafni í Íslendingabók. Maðurinn hefur líklega ekki sagt rétt til nafns frekar en um annað.

[16] Sigurveig Jakobína Þóra Haraldsdóttir (1913-1971), síðar húsfreyja á Vökuvöllum.

[17] Rósant Sigurðsson (1865-1947), faðir Þorleifs. Guðrún Bjarnadóttir (1867-1935) var kona hans en þau bjuggu áður á Efstalandi. Rósant var viðloða á Hamri hjá börnum sínum mörg ár eftir að Guðrún dó. Fá dæmi eru um að bændur hafi haldið ám undir hrúta á nágrannabæjum.

[18] Sigurlína (1880-1952) og Sigríður (1884-1963) Einarsdætur voru viðloða búskap Benedikts bróður síns á Ytri-Bægisá og Kirkjubæ á árunum 1916 til 1959. Þau voru öll ógift og barnlaus.

[19] Gunnar Birgir Ingimarsson Eydal (1925-2015) síðar prentari í Reykjavík, bróðir Þyriar píanókennara á Akureyri. Þeir pabbi voru fjórmenningar út af Bensa í Flöguseli.

[20] Reynir Kristjánsson (1924-1999) á Bryta, sonur Jóhönnu og Steina.