Apríl 1944

Apríl 1944

1. apríl
Þá fór ég til Akureyrar með mjólkurbílnum og í dag verða mannaskipti á bílnum. Stefán Jóhannesson hættir en við tekur Kristján Sigtryggsson[1] frá Steinkoti.

4. apríl
Féð er ekki látið út þessa daga. Við Kristján tókum upp spunavélina[2] o.fl. smávegis.

5. apríl
Steini og Gísli í Kirkjubæ komu og fengu 5 kg kartöflur Kristján fór út í Bryta um kvöldið og gisti. Steindór kom heim um kvöldið.

6. apríl – skírdagur
Um kvöldið komu þeir Guðni og Bragi Sveins[3]. Voru þeir á tamningartúr. Guðni var með Jarp minn, svo tók hann Brún sem hann skildi eftir um daginn en skildi nú eftir Grána.

7. apríl
Þá var messað á Bægisá, ég fór suður eftir til að kveikja í ofninum en mamma, Steindór, Kristján og Bjarni voru við messuna. Kristján[4] á Bryta kom hér við á leið til og frá kirkju. Sömuleiðis komu þau Rósant í Ási og Sigríður á Steðja á leið frá kirkju. Ég var kallaður í síma að Bægisá og var það Jón Níelsson sem ég talaði við, óskaði hann eftir að Kristján kæmi til sín helst á morgun og var strax hafist handa með að búa hann út. Hann fór ofan í Rauðalæk um kvöldið.

8. apríl
Það er alveg autt að neðan en flekkótt hér og hvítt þegar kemur upp að Breiðahjalla. Kristján lagði af stað í verið, hann ætlaði út í Brimnes á Árskógsströnd til að verða þar landmaður til júníloka.

9. apríl
Þá vorum við boðin ofan í Rauðalæk og fórum við 4 um kl. 3.30, ég, Guðfinna, Steindór og Bjarni. Þar var líka Hamarsfólkið nema Þorleifur og svo var líka Hallgrímur á Rauðalæk þar. Féð var lítið úti.

10. apríl
Það er komið talsvert föl og er krap undir víða en autt í brúnunum og fyrir handan upp að bæjum. Steindór setti nýtt veggfóður á kvistinn[5].

11. apríl
Steindór fór inneftir með mjólkurbílnum. Sr. Theódór kom með símboð til mín. Ég var slæmur af gikt í bakinu.

12. apríl
Mamma fór suður í Syðri-Bægisá með bækur. Ég fór í síma og talaði við Kristján og lætur hann vel af sér. Svo fór ég út í Bryta með Rauðku og sleða og ók utan að két-tunnu og amboðum o.fl. Júlli var staddur á Bryta og fór hann með mér suðureftir og spilaði við okkur fram á nótt. Ein ær (Bóga) var afvelta í húsinu í morgun og var orðin svo þjökuð að hún drapst í kvöld.

13. apríl
Helgi[6] á Syðri-Bægisá kom til að safna peningum fyrir barnahjálpina og voru gefnar héðan 70 kr. Við ókum heim dálitlu af sverði.

14. apríl
Gísli í Kirkjubæ kom og við járnuðum með honum hest.

15. apríl
Pétur á Rauðalæk kom með bréf til mín.

16. apríl
Sr. Theódór kom með símboð til mín og fór ég í síma kl. 4, það var Kristján sem talaði við mig og bjóst hann við að koma heim um næstu helgi. Björn[7] í Sörlatungu kom og borgaði mér kartöflur frá í fyrra, 18 kr í tómum túköllum. Ég byrjaði að mála eldhúsloftið.

17. apríl
Ég hélt áfram við að mála en það gengur hægt. Síða beiddi upp í dag og fór ég út í Vindheima til að fá naut en þá var Þorsteinn kominn á stað með það suður í Bægisá og bað ég hann að koma við með það en það varð ekki fyrr en um háttatíma.

18. apríl
Ég kláraði að mála eldhúsloftið. Mamma fór til Akureyrar með mjólkurbílnum.

19. apríl
Enginn afdráttur[8] fyrir féð hér og lítið fyrir hrossin. Steindór kom heim um kvöldið, fékk bíl með sig og mömmu og tonn af kolum. Í dag var mamma við jarðarför Þorsteins[9] frá Lóni og svo kom hún heim með Steindóri.

20. apríl
Bjarni fór út í Bryta til að vita hvort þau vildu fara á leik[10], Gullna hliðið. Svo kom Guðni[11] og var svolítið betri. Við járnuðum Grána hans. Svo fór Bjarni með honum og var á ferðinni með einlægum mönnum fram á nótt og höfðu þeir vel í staupinu.

21. apríl
Gísli í Kirkjubæ kom til að tala um væntanlega för á leikinn. Kristján kom heim með rauðmaga í kassa.

22. apríl
Þá var ákveðið að fara á Gullna hliðið og eftir ýmsa snúninga varð það úr að við fórum 4 héðan, ég , Guðfinna, Bjarni og Kristján og 3 frá Hamri, Þorleifur, Fríða og Siggi. Gísli í Kirkjubæ, Ingi á Rauðalæk og Gestur og Aðalbjörg á Brúnastöðum. Kristján mjólkurbílstjóri flutti okkur og tók 6,50 kr fyrir sætið en í leikhúsið kostaði 15 kr fyrir manninn.

23. apríl
Ég var að mála eldhúsloftið. Jói[12] í Koti kom til að sækja 10 kg af kartöflum. Kristján var í snatti seinnipartinn. Hallgrímur á Rauðalæk kom um kvöldið.

24. apríl
Aðalheiður á Barká kom og tafði. Hún fékk 50 kg af kartöflum og Bjarni fylgdi henni heim um kvöldið. Kristján fór á bæi.

25. apríl
Ég var að mála eldhúsið. Jóhannes á Steðja kom með bækur og ég borgaði honum 3 kr. fyrir band á félagsbók. Þegar hann var nýkominn þá kom bíll hér neðan brautina og tveir menn úr honum alla leið heim. Var annar þeirra Tryggvi Emilsson[13] og ætlaði hann að finna Jóhannes og fóru þeir allir um hæl. Kristján fór suður í Bægisá og ofan í Rauðalæk.

26. apríl
Kringla hans Kristjáns lét lambi í nótt. Kristján fékk lamb hjá Gísla í Kirkjubæ til að venja undir. Hósi kom með boð til Bjarna um að Selfoss eigi að vera hér á Akureyri á föstudag. Kristján fór með Hósa ofan í Hamar. Við Kristján gerðum hreina gangana uppi og niðri.

27. apríl
Við Kristján máluðum neðsta hlutann af eldhúsinu. Bjarni fór í tvo reiðtúra á Jarpi suður í Kirkjubæ. Kristján var heima[14].

28. apríl
Bjarni fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom ekki aftur. Við Kristján brennimerktum gemlingana og létum kartöflur upp í fjósið til spírunar. Guðfinna fór ofan í Rauðalæk til að prjóna á vél. Kristján fór ofan í Hamar.

29. apríl
Mamma og Kristján fóru til að ræsta kirkjuna því nú á að messa á morgun. Steindór kom heim um kvöldið með allt sitt dót sem hann hefur haft innfrá í vetur. Svo kom hann með áburð, fóðurbæti, timbur o.fl. Bjarni kom með honum heim.

30. apríl
Steini á Bryta kom hér við á leið til og frá kirkju. Mamma fór til kirkju. Rósant í Ási kom og var að biðja um hey. Kristján fór ofan í Rauðalæk.

 

 

[1] Kristján Sigtryggsson (1917-1944) frá Steinkoti, lést af slysförum.

[2] Spunavélin var sett upp í stofunni í Garðshorni og stofan því ekki nýtt í annað á meðan. Hægt var að spinna einar 24 lopalyppur í einu eða tvinna eða þrinna band.

[3] Bragi Sveinsson (1909-1949) frá Flögu, ættfræðingur og smiður, bóndi í Hvammkoti á Galmaströnd 1940-1943 og þá voru þeir Guðni nágrannar.

[4] Kristján Steinstrup Jónsson, venjulega kallaður Steini.

[5] Kvistherbergið sem var herbergið hans á meðan hann átti heima í Garðshorni.

[6] Helgi Bjarni Steinsson (1932-1981) var bróðursonur Snorra á Syðri-Bægisá, skráður tökubarn. Flutti til Bandaríkjanna með eða á eftir föður sínum en móðir hans lést af barnsförum þegar hann fæddist.

[7] Björn Sigurðsson (1917-2000) var bóndi í Sörlatungu 1942-1945, Þingeyingur.

[8] Afdrátturinn fólst í því að fénu var gefið minna ef það hafði getað nýtt sér beit.

[9] Þorsteinn Þorsteinsson (1887-1944) var sonur Þorsteins Daníelssonar "yngri" á Skipalóni sem var vígsluvottur þegar Helga amma og Pálmi afi giftu sig. Þorsteinn Þorsteinsson var byggingameistari á Akureyri, einn af stofnendum Karlakórsins Geysis og lengi formaður.

[10] Þegar á þessum tíma var fólk farið að fara á leik, reyndar á leiksýningar.

[11] Guðni í Hofteigi var "svolítið betri" eða góðglaður.

[12] Jóhann Hallmar Ragnarsson (1929-1990) frá Hallfríðarstaðakoti, síðar bóndi í Fróðholti á Rangárvöllum, síðast á Selfossi.

[13] Tryggvi Emilsson (1902-1993) verkamaður, trésmiður, bóndi og rithöfundur á Akureyri og síðar í Reykjavík.

[14] Pabba hefur þótt tíðindum sæta að Kristján fór ekki á bæi.