Júní 1936
10. júní
Við vorum við að steypa hlöðuna[1], Ragnar, Númi, ég og Steindór. Þóra hreinsaði og pabbi bar af.
11. júní
Við héldum áfram með steypuna. Vilborg kom.
12. júní
Þá var klárað að steypa hálfan hringinn af hlöðuveggjunum. Þorleifur kom með hreppaskilaboð[2] og Kristján fór með það suður í Bægisá.
13. júní
Ég jós 7,5 pokum af útlendum áburði, hinir voru við steypu fram um miðaftan. Þá fóru þeir Steindór og Númi að rista torf en Ragnar tók til tófta[3] með pabba. Þóra hreinsaði og bar af[4]. Steindór fylgdi þeim Núma og Ragnari á hrossum ofan að Krossastöðum. Bjarni Friðriksson[5] kom um kvöldið og gisti.
14. júní – sunnudagur
Steindór fór út í Bryta. Pabbi fór yfir að Öxnhóli. Reynir og Sigrún Hauks[6] komu, líka Guðbjörn á Rauðalæk. Þorleifur á Hamri kom og fékk tjörukúst. Kári kom og Steingrímur á Rauðalæk. Númi kom um kvöldið. Steindór og Kristján fóru með kvígu út í Ás undir naut.
15. júní
Uppslátturinn var tekinn frá steypunni og viðurinn hreinsaður. Ég fór fram undir Neðstaland þar sem verið er að vinna við vegagerð. Brúnn hefur verið í þeirri vinnu og sótti ég hann en fór með Jarp í staðinn. Siggi[7] litli á Hamri kom og um kvöldið kom Rósant og fékk lánað salt. Ragnar Guðmundsson kom um kvöldið og ætlar að vera hér einhverja daga. Katla gamla bar í dag upp í reit.
16. júní
Í dag var verið að slá upp fyrir seinni partinum af hlöðuveggjunum. Við það voru Steindór, Númi, Ragnar og ég. Um kvöldið kom Leónharð[8] á Grjótgarði og var að biðja um að mega halda hér til einhverjar nætur ef hann gæti unnið í brautinni. Seinasta ærin bar í dag. Tvær hafa dáið af þeim sem settar voru á í haust. Hinar 107 eru allar með lömbum, þar af 36 með tveimur. 5 lömb hafa misfarist sem ég veit um. 1 er heimagangur.
17. júní
Við vorum við að steypa. Tryggvi á Vindheimum kom með Jarp vegna þess að hann er haltur.
18. júní
Tryggvi á Vindheimum kom og tók Brún, hann á að fara í brautarvinnu. Pabbi fór með Búkollu suður í Syðri-Bægisá til þess að fá naut handa henni því það fréttist að Ásboli sé orðinn vondur og svo er Baldvin ekki heima í dag. Við vorum við steypu. Konungurinn kom til Reykjavíkur í dag og mikið var um dýrðir í útvarpinu.
19. júní
Við vorum að steypa. Pabbi fór út í Ás til að vita hvort hægt væri að leysa nautið en Baldvin er meiddur í hendi og vildi helst að tveir kæmu með kúnni en svo varð það úr að ég fór með kvíguna að Syðri-Bægisá undir naut. Í dag heldur KEA hátíðlegt 50 ára afmæli sitt að Hrafnagili.
20. júní
Við kláruðum að steypa í mótið þó hvasst væri og mátti ekki tæpara standa að það tækist veðurs vegna. Svo fylgdi ég Núma og Ragnari ofan hjá Laugalandi um kvöldið, var þá orðið hægra.
21. júní
Steindór fór yfir í Hörgárdal. Steingrímur á Rauðalæk kom með ömmu sína Ingibjörgu[9]. Bjössi[10] í Hallfríðarstaðakoti kom og drengur með honum, voru að biðja um herfi. Steini á Bryta kom og líka Þráinn[11] í Tungu og Finni kaupamaður í Kirkjubæ.
22. júní
Þá var rist torf og flutt úr flagi. Steindór fékk lánaðan vagn á Hamri til þess að hægt væri að flytja á tveimur vögnum. Númi kom eftir háttatíma í gærkvöld og var við torfið í dag. Jóhanna á Bryta kom. Mamma og Kristján fylgdu Ingibjörgu ofan í Rauðalæk. Leónharð kom með dót sitt og settist hér að. Steingrímur á Rauðalæk kom til þess að finna Núma. Stebbi[12] litli á Barká kom með hest og vagn til að sækja torf.
23. júní
Í dag var slegið frá steypunni og hreinsaður viðurinn nokkuð af honum. Þóra fór í kaupstað með bílnum. Mamma fór ofan i Rauðalæk.
24. júní
Við vorum við að hreinsa trjávið og slá upp fyrir votheysgryfjum. Ingi á Rauðalæk kom hér við og tók Brún í vinnuna.
25. júní
Við byrjuðum að steypa votheysgryfjuna. Ég fór með Skrautu út í Ás um kvöldið undir naut. Boli var vondur og verður líklega ekki leystur fyrr en hann verður drepinn. Ár og lækir eru í miklu flóði og hafa skemmt veginn í Öxnadal og hafa menn verið þar við viðgerðir í dag. Kristján konungur og hans fylgdarlið kom að sunnan á bílum í dag en leist ekki á að fara um Öxnadal og fór á skip á Sauðárkrók.
26. júní
Við steyptum og vorum langt komnir með gryfjurnar. Ágúst Jónsson[13] í Bási var hér í vinnu. Gunnar á Steinsstöðum kom með brotna kerru úr brautarvinnunni og fékk lánaðan kerrukassa og kjálka.
27. júní
Við kláruðum að steypa gryfjuveggina kl. 11. Svo fórum við að smala og rúðum sjötíu kindur. Númi fór heim til sín um kvöldið og Leónharð líka, hann er búinn að vera 6 daga í vegavinnunni. Steingrímur á Rauðalæk kom. Ída Magnúsdóttir kom.
28. júní
Reynir kom með klippur til þess að fá þær brýndar. Leónharð kom. Númi kom og var að taka dót sitt og nú ætlar hann að fara að vinna á Krossanesi. Hann er búinn að vinna hér 38 daga og hefur geðjast öllum vel og reynst góður verkmaður. Kvíga á öðru ári (Blika) fór ofan um snjóbrú[14] á læknum hér efra í dag og var þar þegar farið var að sækja kýrnar.
29. júní
Þá var rekið saman, almennur samanrekstur. Flestir óánægðir að þurfa að smala.
30. júní
Við pabbi vorum að fylla að austurhliðinni á nýju hlöðunni. Steindór negldi saman sperrur. Kristján fór út í Rauðalæk og Bryta.
[1] Verið er að steypa upp fjóshlöðuna sem er fyrsta steinsteypta útihúsið í Garðshorni. Fjárhúshlaðan var steypt 1939 og fjárhúsið líklega sama ár. Fjósið var steypt löngu síðar, vesturveggurinn ekki fyrr en um eða eftir 1960 og skúrþakið sett á enn síðar.
[2] Hreppaskil nefndust fundir sem haldnir voru árlega í hverjum hrepp þar sem kosin var hreppsnefnd og ýmis mál útkljáð. Yfirleitt voru þessir fundir haldnir fyrr á árinu en vegna ófærðar hefur þessum fundi verið seinkað.
[3] Ragnar og afi hafa líklega lagað til í heytóftum við útihús til að þær verði tilbúnar til að láta í þær nýtt hey.
[4] Sauðatað var borið á tún - því var hreytt á túnið - síðan var það herfað niður í jarðveginn en því sem ekki fór ofan í moldina var rakað saman og borið heim og notað til að bera undir féð til að krórnar yrðu ekki of blautar undir fénu. Ekki þótti gott að taðið lægi á túninu og færi saman við heyið þegar hirt var.
[5] Bjarni Friðriksson (1896-1979) var að draga sig eftir Sigríði Theódórsdóttur (1901-1990) á Ytri-Bægisá og henni giftist hann um síðir þrátt fyrir mótbárur prestshjónanna sem misstu með henni öflugustu fyrirvinnuna. Bjarni ólst upp á Neðri-Vindheimum og var síðan í vinnumennsku í Auðbrekkutorfunni. Þau Sigríður bjuggu lengst í Kópavogi.
[6] Líklega Sigrún Hauksdóttir (1927-2014) frá Akureyri sem hefur verið sumarbarn á Bryta. Hún var móðir Stefáns Þórs Baldurssonar sem var forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar.
[7] Sigurður Sigmarsson (1929-2018), bróðir Hósa sem oft hefur komið við sögu. Siggi á Hamri var hjá systkinunum Fríðu og Þorleifi fram yfir 1960 en þau ólu hann upp frá því hann var mjög ungur.
[8] Leonharð Sigurgeirsson (1907-1947) frá Vöglum, var á Grjótgarði á þessum tíma.
[9] Ingibjörg Gunnarsdóttir (1866-1948) móðir Péturs á Neðri-Rauðalæk og systir Helgu ömmu. Hún hafði átt heima á nokkrum bæjum í Skagafirði en var nú flutt til Akureyrar þar sem Grímur sonur hennar var smiður.
[10] Björn Sigurðsson (1917-2000) var hálfbróðir Ragnars Guðmundssonar (1898-1970) bónda í Hallfríðarstaðakoti. Kona Ragnars var Magnea Elín Jóhannsdóttir (1898-1952) dóttir Sigurðar Jóhanns Sigurðssonar (1872-1953) bróður Rósants á Hamri og þeirra systkina sem koma svo víða við sögu þessara sveita.
[11] Þráinn Sigurbjörnsson (1920-1995) var vinnumaður í Sörlatungu, bróðir Herberts símstöðvarstjóra á Ytri-Bægisá II.
[12] Stefán Manasesson (1925-1985).
[13] Jón Ágúst Jónsson (1900-1995) hefur verið vinnumaður í Bási þegar þetta var en hann var bóndi í Bási 1941-1964.
[14] Það er til marks um mikinn snjó um veturinn að snjór sat enn í giljum í fjallinu í lok júní.