Júní 1945
1. júní
Steindór og Kristján fóru til Akureyrar. Kristján fór til læknis og tók hann gifsið af handleggnum. Kristín kláraði að hreinsa og bera af mínu túni. Í dag kom hér heim veturgamall hreintarfur og var að slæpast hér heima á túni það sem eftir var dagsins.
2. júní
Ég fór suður í Bægisá og ætlaði að tala við Jón Geirsson í síma en það var aldrei ansað í símanum. Á meðan ég var syðra kom Rósant í Ási og ætlaði að fá mig til að lækna doðabelju. Ég fór svo með honum og dældi í kúna og kom hún til heilsu. Um kvöldið kom Karl á Vöglum og fórum við Kristján með honum í grenjaleit og komum ekki heim fyrr en um fótaferðartíma. Fundum við grunsamlegar holur en hvergi neina vissu fyrir greni. Kristín fór yfir að Koti.
3. júní
Rósant í Ási kom með doðadælu og kartöflur sem hann fékk að láni. Kristín kom heim síðdegis.
4. júní
Gísli í Kirkjubæ kom og fékk tjöru til að bera í lömbin og svo fékk hann Kristján til að hjálpa sér við að reka inn fé. Steindór slóðaði og herfaði í flaginu. Ég gerði lítið. Kristín hreykti taðinu.
5. júní
Við mörkuðum og hleyptum uppfyrir. 3 eða 4 ær óbornar. Kýrnar látnar út fyrsta sinn. Kristján fór suður í Kirkjubæ.
6. júní
Ég fór ofan í Hamar og sprautaði kalki í tvær kýr fyrir Þorleif. Steindór jafnaði í flagi en ég reif ofan af gömlu hlöðunni.
7. júní
Ég fékk lánað lappaherfi[1] hjá Þorleifi á Hamri og var stund með það í flagi hér suður og niður. Svo jós ég útlendum áburði fyrripartinn og ellefu kössum af þvagi seinnipartinn.
8. júní
Kristján fór til Akureyrar til að láta athuga handlegginn og var honum leyft að fara að reyna eitthvað á hann. Kristján og Sören[2] á Skútum fengu Júlla Helgason með sig á fólksbíl hér frameftir um kvöldið en fóru svo með honum aftur inneftir. Jóhanna fór með þeim og gisti innfrá. Um kvöldið kom Stebbi frá Brúnastöðum með bíl og með honum Ögmundur[3] sem er fyrir sundlaugarbyggingunni á Laugalandi. Hann var að biðja um við til uppsláttar við laugina. Gísli í Kirkjubæ kom og ég fór með honum til að gera við gripagirðingu. Steindór kláraði að sá og valta flagið.
9. júní
Ég herfaði og slóðaði suður og niður í flagi. Kristján og Jóhanna komu heim og Steini úr Laugalandsvinnunni. Steindór dreifði hlandi fram á nótt.
10. júní – sunnudagur
Ég fór með Búkollu út í Vindheima undir naut. Þorleifur kom með fundarboð. Baldur á Þúfnavöllum kom með símboð til mín. Það var ekki ansað á Bægisá. Steindór[4] á Hraunshöfða kom til að finna Steindór. Ég fór um kvöldið suður í Kirkjubæ. Kristján fór á samkomu fram í Hrafnagil.
11. júní
Ég fór í síma að Bægisá, það var Bjarni Bjarnason sem talaði við mig og bað hann mig að senda sér tvö trippi sem hann á hér. Steindór var fram á Hraunshöfða að hjálpa við að setja niður „bragga“. Ég var að flytja skít í flag hér suður og niður og Kristján var með mér seinnipartinn. Um kvöldið fór Kristján suður í Kirkjubæ og kom með boð frá Karli á Vöglum um að fara í grenjaleit annað kvöld.
12. júní
Ég hreytti skít í flagið og herfaði það og slóðaði. Svo fórum við Kristján í grenjaleit um kvöldið með Karli og fundum líkur fyrir greni svo þeir voru þar áfram, Kristján og Karl en ég kom heim kl. að ganga 5. Steindór og Kristján voru að byggja hænsnakofa. Um kvöldið kom fólksbíll hér heim í hlað, það var Þorleifur Sigurbjörnsson sem keyrði en fólkið sem með var var Guðni Jónasson með frú og börn, Lena[5] í Hvammi og Jóhannes á Brúnastöðum. Þau töfðu stutt. Gísli í Kirkjubæ kom og fékk lánaða kerru.
13. júní
Ég var að dreifa hlandi fram á hádegi og dálitla stund seinna og kláraðist þvagið úr gryfjunni. Karl lá á greninu fram á kvöld og hafði þá einskis orðið vísari. Kristján flutti til hans mat o.fl. Steindór var við kofabygginguna. Gísli skilaði kerrunni. Rósant í Ási kom til að biðja Steindór að vera hjá sér í dag.
14. júní
Við tókum upp svörð seinnipartinn. Helga og Ransí komu.
15. júní
Kristján fór í bæinn, var að láta athuga handlegginn. Læknir sagði að hann þyrfti að láta nudda sig í tíu daga. Hann fór til nuddlæknis í dag, kom heim í kvöld. Steindór var úti í Ási að setja stafn í braggann. Ég jafnaði flagið og sáði í það fræjum. Það sálaðist svört ær sem Steini átti. Hefur verið að dragast upp lengi.
16. júní
Kristín fór í bæinn og ætlar ekki að koma fyrr en á mánudag. Við tókum upp svörð seinnipartinn. Reynir kom á mjólkurbílnum en fór fljótt aftur. Það kom hér heim fólksbíll með Steina. Gísli í Kirkjubæ kom og ég fór með honum í hrossaleit og tamningatúr.
17. júní – sunnudagur
Baldur tók mjólk kl. 2. Ég fór suður í Kirkjubæ og keypti pott og bala fyrir 40 kr af Jóhanni Sigurðssyni[6].
18. júní
Kristján fór til Akureyrar, Steini í Laugaland.
19. júní
Ég fór í bæinn og keypti sitt af hverju. Kom við á hreppaskilum á heimleiðinni.
21. júní
Steindór kláraði að byggja hlöðuboru upp við hesthús. Ég var með aðra út og niður við hús en hún er enn í smíðum. Ég fór út og upp í fjall með brúna folann, datt af baki á heimleiðinni og meiddi mig í rassinum.
24. júní
Steindór á Hraunshöfða kom til að finna Steindór. Steindór fór ofan í Laugaland.
25. júní
Þá málaði ég svefnherbergið okkar.
26. júní
Ég málaði. Steindór var fram á Hraunshöfða. Kristján fór í bæinn.
27. júní
Steindór var að mála stakket í Bægisárgarði fyrir Hall[7] frá Hallfríðarstöðum. Ég var seinnipartinn að gera ofan yfir leiði o.fl.
28. júní
Steindór fór með Rauðku undir naut, málaði stakket og sló með vél um kvöldið. Ég var að gera við kirkjugarðinn o.fl.
29. júní
Ég sló partinn syðst og neðst á nýræktinni. Það er komið nokkurt gras víða um túnið. Manntalsþing.
30. júní
Þurrkur seinnipartinn. Snúið.
1. júlí
Við görðuðum heyið. Árni Jónsson kom og tafði lengi dags. Ég fór fram í Efstalandskot og fékk þar prjónavélargarm. Kristján fór í vegavinnu fram í dal. Þorleifur á Hamri lagðist í lungnabólgu í gær. Kom læknir til hans í dag. Ingi á Rauðalæk kom og fékk lánað kúbein.
[1] Það er djúpherfi sem er ætlað til að mylja og rífa í sundur hnausa og til að losa upp moldina djúpt niður.
[2] Sören Methúsalem Aðalsteinsson (1925-2005) frá Skútum.
[3] Óþekktur
[4] Steindór Pétursson (1882-1956) úr Mývatnssveit, var bóndi á mörgum bæjum hér um slóðir. Faðir Péturs bónda á Krossastöðum og Einars bónda á Efri-Vindheimum.
[5] Magðalena Sigurgeirsdóttir (1896-1981) húsfreyja í Hvammkoti, Dagverðartungu og Hvammi. Ekkja.
[6] Óþekktur.
[7] Hallur Sigurvin Benediktsson (1888-1973) bóndi á Hallfríðarstöðum 1922-1931. Seinni kona hans var Anna Sigríður Brynjólfsdóttir frá Efstalandskoti sem var 28 árum yngri en hann. Synir þeirra Brynleifur og Theódór voru stundum á Neðri-Rauðalæk sem sumarstrákar.