September 1942

September 1942

1. september
Þá fór Stefanía og Haukur með mjólkurbílnum eftir að hafa fyllt allar sínar fötur af berjum. Við slógum á grundunum út og niður.

2. september
Við slógum það sem eftir var af grundunum og svo slógum við há og fluttum inn í gryfju á fjórum vögnum. Bergþóra fór ofan í Rauðalæk.

3. september
Við þöktum hesthúsheyið fyrir miðdag en slógum seinnipartinn niður í mýri. Leónharð í Bláteig kom um kvöldið.

4. september
Við slógum með orfum út og niður með læknum fram um miðjan dag og svo sló Steindór þar með vél, stund seinni partinn. Bergþóra fór ofan í Rauðalæk.

5. september
Það var slegið ofurlítið í flóanum og svo var rakað og flutt upp á grundina og svo var snúið tvisvar í heyinu[1]. Gunnar[2] á Búðarhól kom og Sigurbjörg[3] kona hans og með þeim kona er Kristleif hét og var fóstursystir Kristbjargar á Rauðalæk. Kristján fór úteftir og lét hana vita og kom Kristbjörg suðureftir. Siggi á Hamri kom og sagði að fundist hefði ær sem við áttum niður á mýrum og var hún afvelta og illa farin. Gunnrún kom um kvöldið.

6. september
Við snerum í heyinu og náðum því öllu upp í bólstra, það eru 17 sæti. Reynir kom og með honum 2 hermenn. Þeir höfðu keyrt yfir lamb sem ég átti niður hjá Grjótgarði og vildu þeir borga það. Hallgrímur[4] á Bægisá kom og fékk 12 kg af súru slátri. Mjólkurdagur.

7. september
Þá var bundið úthey hér heima í túnhólfinu, alls 36 hestar. Svo var slegið með vél suður og niður á nýrækt og fluttir í gryfju 5 vagnar en hitt sett í flekki á að giska 8 – 10 hestar.

8. september
Við bundum 8 hesta um morguninn og kláruðum þar með að binda útheyið sem til var. Svo slógum við suður og niður við mólæk í kringum nýræktina það sem eftir var dags.

9. september
Við slógum með orfum fram um kaffi en þá fórum við að binda háarbólstra sunnan og neðan af nýrækt og bundum 20 hesta í fjóshlöðuna, síðast voru garðaðir flekkir.

10. september
Við kláruðum að slá suður og niður og svo slógum við byggið. Við Kristján fórum með Kolu út í Skóga um kvöldið.

11. september
Þá var slegið með vél á nýræktinni suður og niður og fluttir 4 vagnar í gryfju en sumu dreift til þerris. Svo var rakað og snúið og að síðustu bundum við 14 hesta úr flötu.

12. september
Við ætluðum að þurrka og binda hey sem orðið var hálfþurrt en það varð minna úr en þó tókum við það að mestu upp í sátur og garða. Mamma og Kristján fóru suður í Bægiá til að ræsta kirkjuna því það á að messa á morgun.

13. september – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá og fórum við þangað öll nema Guðfinna. Jón á Skjaldarstöðum kom og fékk 40 heytorfur og tók Steindór Valberg þær á bíl. Gunnrún kom og var að skila bókum og kveðja því nú er hún að fara úr kaupavinnunni. Við Guðfinna fórum út í Bryta um kvöldið til að sækja kaffi, rúsínur, lampa o.fl. Við snerum í heyi fyrripartinn og tókum svo saman seinnipartinn, 5 bólstra og 2 sátur.

14. september
Ég var lengst af að bera blautt hey frá hallinu suður og niður og ofan fyrir skurðinn. Svo var snúið því það var góður þurrkur og við bundum heim 5 hesta af útheyi og 2 af töðu. Kristján var frá verkum því honum var illt í hendi.

15. september
Við slógum tvo bletti út og niður í engi og svo um kvöldið slógum við part af nýrri sáðsléttu og fluttum 3 vagna af því í gryfju. Guðfinna fór ofan í Rauðalæk til að prjóna á vél. Hallgrímur á Bægisá kom og fékk slátur í fötu.

16. september
Í nótt var hörkufrost. Við vorum lengst af að raka ljá og flytja á þurrt. Tókum upp og bundum á 6 hesta. Siggi á Bryta kom.

17. september
Við slógum 4-5 hesta út og niður á engi, bundum og fluttum í fjóshlöðuna 7 hesta af uppslætti sunnan og neðan af nýrækt og bundum úr bólstrum 7 hesta af útheyi í efri hlöðuna. Sr. Theódór kom með símskeyti til Steindórs frá Steingrími[5] á Búðarhól.

18. september
Þá fórum við Guðfinna í bæinn með mjólkurbílnum og komum aftur með honum um kvöldið. Heima voru þurrkaðir flekkir og teknir saman 3 bólstrar, slegiðog flutt heim á einum vagni í gryfju og slegið í flóanum og flutt upp á grund. Fluttur heim svörður.

19. september
Við bundum 17 hesta af útheyi, sumt var þurrkað í dag. Svo var slegið út og niður í engi og flutt heim á grund á þremur vögnum. Svo járnuðum við Brún og Sörla og síðast fluttum við einn vagn í gryfjuna af sáðgrasi. Þorleifur á Hamri fékk lánaðan vagn til heyflutninga. Þorsteinn á Vindheimum kom og fékk 12 heytorfur. Guðni kom í morgun.

20. september – sunnudagur
Við vorum að reka saman og ná fénu inn í girðinguna því nú á að ganga á morgun. Svo fórum við Kristján fram í Gloppu um kvöldið.

21. september
Þá gekk Steindór á Bægisárdal og dró svo í Vaglarétt. Við Kristján gengum í Gloppukinnum. Ég gekk Melrakkadal og drap þar tófuhvolp og kom honum til byggða. Elti fé upp á fjall og uppgaf mig á því. Svo fór Kristján heim um kvöldið en ég gisti í Efstalandskoti.

22. september
Þá dró ég okkar fé í Þverárrétt og rak það heim. Steindór kom á móti mér fram hjá Steinsstöðum.

23. september
Pabbi fór út í Bryta. Við vorum að reka inn féð og merkja seinnipart dagsins. Guðbjörn á Rauðalæk kom með boð til Steindórs.

24. september
Steindór fór inná Þinghús til að vera við að loka kjörkassanum og svo fór hann til Akureyrar um leið. Ég flutti og sló á tvo vagna í votheysgryfjuna og seinnipartinn rákum við inn og bólustettum 70-80 kindur. Þorleifur á Hamri hjálpaði mér til við það.

25. september
Ég var að láta heyið sem enn er úti í snærisballa því það á að fara út í Ólafsfjörð. Siggi á Hamri kom til að biðja mig að bólusetja og fór ég ofan eftir til þess síðdegis. Kristján fór út og ofan í Rauðalæk.

26. september
Ég fór tvisvar suður í Bægisá til að síma til Ólafsfjarðar en lánaðist ekki. Aftur á móti gat ég talað við Reykjavík. Við kláruðum að binda og flytja heim heyið og varð það 15 hestar alls. Svo var slegið með sláttuvél partur af nýrri sáðsléttu og fluttir heim 2 vagnar. Þá er heyskap lokið hér og er hey talið 430 hestar taða, 180 úthey og 40 hestar vothey. Hér komu í dag menn úr Skagafirði með 260 kindur sem á að slátra á Akureyri, verða hér í nótt en flytjast á bíl á morgun. Jónas frá Kotum kaupir þær.

27. september
Á sunnudag fórum við Kristján í göngur fram í dal. Ég gisti í Gloppu en Kristján fór í Bakkasel.

 

[1] Það var svo blautt í flóanum milli Garðshorns og Hamars að þar var ekki hægt að þurrka hey og því var það flutt upp á þurrar grundirnar.

[2] Gunnar Jóhann Baldvinsson (1896-1976) var systursonur Helgu ömmu. Útgerðarmaður og bóndi á Búðarhóli á móti Steingrími Árna bróður sínum.

[3] Sigurbjörg Sigurðardóttir (1915-2008) var seinni kona Gunnars, hafði sjálf misst fyrri mann sinn en Gunnar hafði misst fyrri konu sína eftir fárra ára hjúskap.

[4] Hallgrímur Hallgrímsson (1894-1982) síðar bóndi á Vöglum.

[5] Steingrímur Árni Baldvinsson (1894-1985) frá Búðarhóli fæddist á Efri-Rauðalæk þegar foreldrar hans voru húshjón þar.