Apríl 1936

Apríl 1936

2. apríl
Sr. Theódór kom með símboð til Steindórs, stansaði klerkur dálitla stund og svo fór Steindór með honum í símann.

3. apríl
Steindór fór inneftir með mjólk. Marinó á Rauðalæk kom og gerði ráð fyrir að fara inn eftir á morgun. Hósi kom.

4. apríl
Við mokuðum ofan af húsum. Fanndyngjurnar af því sem mokað hefur verið ofan af undanfarið eru svo háar að þær eru jafnar húsmæninum. Steindór fór með mjólkurdunka út í Rauðalæk. Svo fór hann með hest og sleða yfir að Hallfríðarstöðum með umbúðir um hey.

5. apríl – sunnudagur
Árni Jónsson kom og tafði fram á kvöld. Hann er núna við innréttingu á „Náströnd“ og heldur til á Öxnhóli. Rósant á Hamri kom til að bæta stígvélið sitt.

6. apríl
Alli fór inneftir með mjólk. Það er einhver ólukka í Kolu og höldum við að það sé máski doði. Ég fór út í Rauðalæk og Bryta til að sækja doðadælu og var dælt í beljuna um kvöldið. Um kvöldið voru eldhúsumræður í útvarpinu til kl. 12.

7. apríl
Í dag hafa verið eldhúsumræður og alla leið þar til kl. að ganga 1. Skrauta bar um kvöldið. Kola er heldur skárri.

8. apríl
Þorleifur fór með mjólk.

9. apríl
Alli kom og Steindór fór með honum ofan að Hamri og samdist þar með þeim að ekki væri hægt að halda áfram mjólkurflutningi á sleða lengur vegna þess að brautin er orðin svo auð á partinum frá Steðja að Grjótgarði. Jóhannes Örn kom í bókbandserindum.

10. apríl
Kári kom til þess að fá lóðhamar o.þ.h. Kristján var sendur út í Bryta. Stefán bílstjóri fór að róta bílnum en færið er ekki gott því óvíða sér í brautina. Fóru nokkrir menn að hjálpa honum og komust þeir með bílinn suður undir Hamarsleiti, þar sneri hann við. Steindór fór út og ofan, sömuleiðis kom Alli og fór út og ofan en kom hér við á bakaleiðinni og fékk lánaða kollu til að gera upp í. Búkolla bar í morgun.

12. apríl – páskadagur
Það hefur verið mjög fáförult í dag það sem sést hefur enda er færið mjög slæmt þar sem ekki er hægt að fara upphleyptan veg. Ég fór út í Bryta um kvöldið, gekk á skíðum og er það allgott þegar frostkali er eftir sólsetrið.

13. apríl
Reynir kom og tafði og svo kom Júlli til þess að hlusta á leik í útvarpinu, Alt Heidelberg. Kári og Alli komu líka í sömu erindum. Steindór fór suður í Syðri-Bægisá og um kvöldið út í Rauðalæk til þess að lofa Marinó að vita að það er ákveðið að reyna að moka fyrir bílana á morgun.

14. apríl
Steindór fór í snjómoksturinn, var mokað svo bíll kemst nú inn að Sílastöðum. Voru menn aðallega úr Glæsibæjarhrepp en nokkrir úr Möðruvallasókn. Steinþór á Efri-Vindheimum kom.

15. apríl
Steindór fór aftur í snjómoksturinn og komust þeir nú innhjá Viðarholti. Ég lofa ánum að vera úti stund þegar ég er búinn að gefa þeim en þær taka ekkert. Lítið eitt dregið af hrossunum.

16. apríl
Steindór fór enn í snjómokstur og nú var farið með mjólk á bílnum og komst hann nú alla leið inneftir og er búið að hafa mikið fyrir því að gera veginn færan. Enn er ekki farið nema fram að Rauðalæk.

17. apríl
Pabbi[1] fór út í Bryta. Jóhanna og Reynir komu og mamma var að sníða og sauma kjóla fyrir Jóhönnu. Steindór fór með mjólk út og ofan að Rauðalæk og svo ók hann nokkrum ferðum af grjóti sunnan frá mel. Um kvöldið kom Jóhanna[2] í Fagranesi og gisti.

18. apríl
Steindór fór fram í Skjaldarstaði með Brún og Gránu. Jón ætlar að taka þau á hús og jörð.

19. apríl – sunnudagur
Guðbjörn á Rauðalæk kom og tafði æðilengi. Jóhanna á Bryta kom.

20. apríl
Steingrímur á Rauðalæk var hér tíma úr degi við að aka grjóti með Steindóri. Gestur[3] á Efstalandi kom. Steindór ætlar að smíða vagngrind fyrir hann. Mamma og Kristján fóru ofan að Hamri.

21. apríl
Steingrímur var hér við grjótakstur tíma úr deginum. Pabbi fór með mjólkurbílnum ofan að Grjótgarði og Laugalandi.

23. apríl
Hósi kom hér og tafði, einnig kom Steingrímur á Rauðalæk. Steindór fór suður í Kirkjubæ. Ég var að hálfdrepast úr kvefi og tannpínu.

24. apríl
Steindór fór með bílnum út að Neðri-Vindheimum. Ég skrapp heim að Kirkjubæ til að láta Alla vita að ein ær þaðan var saman við hérna féð. Pétur á Rauðalæk kom tvisvar. Það er farið að heyrast svo illa í útvarpstækinu og kom Pétur með nýtt þurrbatterí og setti í tækið og þá var allt í lagi.

25. apríl
Steindór fór í kaupstað með bílnum og á fund á Þinghúsinu. Alli í Kirkjubæ kom og sótti rollu.

26. apríl
Kristján fór út í Bryta. Kári og Ragnar í Kirkjubæ komu og var Ragnar að kveðja því nú ætlar hann að fara að vinna í Krossanesi. Steindór fór suður í Kirkjubæ um kvöldið.

27. apríl
Kristján fór suður í Syðri-Bægisá með kartöflur, „Eyvind“ og kom aftur með „Rósina“. Steindór fór suður í Kirkjubæ til að sækja dívan og borð sem hann kaupir af Ragnari og Ídu. Einn gemlingur fór ofaní Vondukeldu en náðist þaðan lifandi.

29. apríl
Kristján var sendur suður í Syðri-Bægisá. Pabbi fór ofan í Rauðalæk til að elta hrossin. Ég var að mölva á lækjunum hér fyrir sunnan því þar eru miklar hættur fyrir féð.

30. apríl
Búbót bar í nótt. Fyrst í dag lét ég féð út á milli gjafa og dró ofurlítið af. Stebbi tók ekki mjólk í dag vegna vélabilunar í samlaginu.

 

[1] Pálma afa er sjaldan getið í dagbókunum nema þegar hann fer á bæi, nú oftast til dóttur sinnar á Bryta. Hann gæti þó hafa haft einhver föst verk með höndum eins og að mjólka kýr.

[2] Jóhanna Álfheiður Bergsdóttir (1883-1967) kona Haraldar fyrrnefnds. Hún var austan af landi.

[3] Gestur Sæmundsson (1903-2004) bóndi á Efstalandi 1934 til 1966, sonur Vilborgar sem áður hefur komið í Garðshorn og spunnið.