Apríl 1946

Apríl 1946

1. apríl
Við Kristján fórum inneftir.

2. apríl
Við fórum inneftir. Kristinn fræddi okkur um umferðarreglur o.fl. fyrir hádegi en seinnipartinn vorum við að keyra. Um kvöldið fékk Jóhannes bílstjóri Stein með bílinn til að flytja fólk og flutning fram í Hörgárdal en svo bilaði bíllinn hjá Steini svo hann komst ekki lengra.

3. apríl
Við fórum inneftir með Jóhannesi því hinn bíllinn var í ólagi. Jóhann Þorkelsson[1] kenndi okkur Hjálp í viðlögum fram að hádegi. Seinnipartinn var okkur sýnt hvernig hjól eru tekin undan o.fl. Það var Tryggvi Jónsson[2] sem kenndi. Ég fór heim með Jóhannesi. Sprakk hjá honum dekk á leiðinni og komum seint heim, gat þó mjólkað.

4.–6. apríl
Við Kristján fórum alla dagana inneftir og lærðum á námskeiðinu eftir því sem tök voru á. Á föstudag komu þær innanað með okkur Billa og Heiða[3] og voru hér fram á mánudag.

7. apríl
Þá var messað á Bægisá og fór héðan Steini, Jóhanna og mamma, líka Billa og Heiða. Sveinn fór heim til sín og kom ekki fyrr en komið var fram á nótt. Siggi á Hamri kom og fékk ormalyf. Gestur tók mjólk kl. 5. Ég var heima en Kristján var í bænum.

8. apríl
Þá var slúttdagur á námskeiðinu. Gestur kom og flutti okkur inneftir og fóru þær Billa og Heiða með inneftir. Kennarar okkar fóru yfir það helsta sem áður var tekið til meðferðar. Kl. 4 var öllum mannskapnum boðið til kaffidrykkju á Hótel KEA og þar voru haldnar ræur og að endingu voru allir myndaðir. Komum heim um kl. 8. Ég þurfti að borga ferðakostnað kr. 94 en að öðru leyti kostaði námskeiðið ekkert fyrir nemendur. Rauðka Steindórs bar og átti naut.

9. apríl
Ég fór suður í Kirkjubæ, þar var kýr að bera og hjálpaði ég til við það. Kristján fór út í Skóga. Ingi á Rauðalæk kom og spann á vélina.

10. apríl
Ingi kom og spann og Kristín kom til að hespa. Ærnar fóru út 2 – 3 tíma en lítið dregið af.

11. apríl
Hans á Vindheimum kom og fékk lánaðar bækur. Sveinn og Kristján keyrðu á völl. Kristján fór í snatt um kvöldið.

12. apríl
Froststormur. Sveinn og Kristján keyrðu á völl. Stefán á Hlöðum kom og bað um einn hestreiðing. Jóhannes á Steðja kom með bækur sem hann hafði bundið. Hef ég nú borgað honum 297 kr fyrir bókband Lestrarfélagsins og svo hefur hann bundið fyrir mig 8 bækur fyrir 85 kr. Gísli í Kirkjubæ kom.

13. apríl
Steindór fór yfir að Öxnhóli. Jón Geirsson bólusetti börn á Brúnastöðum. Hans kom og sótti okkur og flutti okkur suðureftir aftur. Fórum suður í Kirkjubæ og tókum kálf með sem ég fæ hjá Bensa. Jóhanna fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom aftur um kvöldið. Steini kom heim um kvöldið. Það vantaði eina á þegar látið var inn og leituðum við Sveinn að henni dauðaleit en svo kom hún sjálf seinast.

14. apríl – pálmasunnudagur
Rósant í Ási kom til að finna Steindór. Kristján fór yfir á Mela, þar átti að verða fundur en fáir mættu. Siggi á Hamri kom með umburðarbréf þess efnis að fá Guðbrand Hlíðar[4] náðaðan af fangelsisdómi. Sigfús á Rauðalæk kom og borgaði kirkjugjald kr. 48.

15. apríl
Við Sveinn járnuðum Grána. Kristján fór ofan í Rauðalæk. Steini fór í bæinn og kom (ófullur) heim um kvöldið.

16. apríl
Við Kristján hreyttum nokkrum mykjuhlössum. Guðfinna gerði hreint eldhúsið. Steini fór suður í Bægisá til að setja upp hattkróka í kirkjuna.

17. apríl
Kristján og Sveinn fóru í bæinn og komu aftur um kvöldið. Steini fór yfir á Mela til að setja niður hráolíuofn.

18. apríl
Kristján fór í flangur. Ingvi í Skógum og Reginn á Steðja komu með honum aftur. Sigríður á Steðja kom og tafði.

19. apríl
Þá var messað á Bægisá og fór héðan Steini, Jóhanna og mamma. Kristján fór inn á Akureyri með Hans á Efri-Vindheimum. Björn í Efstalandskoti kom hér heim og fékk Svein með sér yfir að Öxnhóli, ætluðu að sækja hey fyrir Gísla í Kirkjubæ en hættu við það vegna rigningar. Hans kom hér heim með Birni.

20. apríl
Steini fór yfir í Hallfríðarstaði. Steindór kom heim um kvöldið. Við hreyttum á túninu.

21. apríl
Kristján fór út í Vindheima. Reynir fór heim til sín snemma dags.

22. apríl
Þá voru bólusett börn á Brúnastöðum. Við Guðfinna fórum með krakkana úteftir. Baldur sótti okkur en Kristján fór með okkur suðureftir á Hansa bíl eftir að hann var búinn að fara með Hans til Akureyrar. Helgi á Syðri-Bægisá kom með bækur. Steindór fór inneftir á mjólkurbílnum.

23. apríl
Það er einlæg óáran í kúnum svo að við fengum dýralækni til að koma og líta á þær. Það eru stíflur í einni og fékk hún kalksprautur og doðaskammta. Önnur er með þrimla í júgri og fékk hún júguráburð. Sú þriðja er með blöðrur í leginu og var sprengt í henni. Það var Guðbrandur Hlíðar sem kom og með honum komu Halldór dýralæknir frá Brekku og Jóhannes á Brúnastöðum, bílstjórinn Júlli Helga. Steini í Kirkjubæ kom til að sækja gemling sem lenti hér.

25. apríl
Hríðarkólga, snjóhreytingur, gaddharka. Um tíðina á síðastliðnum vetri má segja í stórum dráttum að hún hefur verið óstillt en frostalítil oftast og snjólétt, þó hefur sett niður mikla fönn oftar en einu sinni en hann hefur tekið fljótt aftur.

26. apríl
Kristján fór út á bæi, ætlaði að koma með möl á bíl en varð ekki af.

27. apríl
Ég var að þurrka og sortéra kartöflur.

28. apríl
Efstalandsbræður komu og var Sveinn að sækja dót sitt, hann fór alfarinn síðastliðinn miðvikudag. Stebbi Nikk kom til að borga Steina. Gestur tók mjólk kl. 5.30.

29. apríl
Þokufullt loft. Ég járnaði gamla Brún og svo fór ég með hann og Skjóna suður í Kirkjubæ. Það er í þriðja skipti sem ég legg við Skjóna. Steini fór ofan að Laugalandi og byrjaði að vinna þar við laugina. Hinir laugarkarlarnir eru búnir að vera þar um tíma.

 

[1] Jóhann Þorkelsson (1903-1970) héraðslæknir á Akureyri.

[2] Tryggvi Jónsson (1911-1992) bifvélavirki á Akureyri, kom stundum í Garðshorn og dyttaði að Farmall A.

[3] Tvíburarnir Bryndís (1940) og Arnheiður (1940) dætur Kristins Jónssonar og Ástþrúðar Sveinsdóttur.

[4] Guðbrandur Hlíðar (1915-2000) var dýralæknir á Akureyri, hafði lært í Þýskalandi og var grunaður og dæmdur fyrir njósnir fyrir nasista.