Nóvember 1945

Nóvember 1945

1. nóvember
Gísli í Kirkjubæ kom og bað mig að hjálpa sér til að slátra nautkálfi fyrir prestinn. Ég fór svo suður eftir og skaut kálfinn eftir að hann hafði verið myndaður tvisvar með fjóshauginn í baksýn. Steindór var heima og vorum við að undirbúa að setja járnþak á fjósið. Steini kom heim um kvöldið.

2. nóvember
Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum og kom ekki um kvöldið. Við Steindór rifum vesturvegg úr fjósinu og settum þil í staðinn[1].

3. nóvember
Við Steindór vorum við að setja langbönd og járn á fjósið og er talsvert eftir við það. Steini kom frá Hallfríðarstöðum. Kristján kom úr brautarvinnunni.

4. nóvember – sunnudagur
Við Steindór vorum að baksa við fjósþakið. Mamma fór ofan í Rauðalæk. Jón á Skjaldarstöðum kom ríðandi á Grána sínum. Steini fann mókollótta gimbur sem hann átti. Hún lá afvelta hér suður og upp og hefur vantað meira en mánuð. Hún var lifandi en illa farin.

5. nóvember
Við Steindór vorum við fjósþakið. Steini fór í bæinn og kom aftur um kvöldið. Sveinn í Koti kom í vistina til Steindórs og keyrði mold á túnið. Steindór fór suður í Kirkjubæ til að biðja um þaksaum.

6. nóvember
Steini fór fram í Skjaldarstaði til að setja niður hráolíuofn. Kom aftur um kvöldið. Ég fór suður í Bægisá í síma til að tala við Jón Sigurjónsson[2] um kirkjugarðspilana. Við létum inn hrossin og kindurnar sem heima eru.

7. nóvember
Við kláruðum að setja járnið á fjósið að mestu. Sveinn flutti á völl og hreytti. Steindór fór út í Vindheima um kvöldið. Sigga Stefáns[3] kom og gisti.

8. nóvember
Steindór fór út í Brúnastaði og sótti kvígukálf nýborinn sem hann fær hjá Jóa. Ég fór ofan í Rauðalæk og fékk matarmiða fyrir litla barnið og 50 kg rúgmjölsmiða fyrir Steina. Sigfús á Efri-Rauðalæk kom og var að biðja um böggla fyrir væntanlega Lestrarfélagssamkomu. Sigga var hér um kyrrt í dag. Ingvar Axelsson kom.

9. nóvember
Steini og Steindór fóru fram í Myrká til þess að setja niður kirkjugarðshlið og girðingu. Fengu Hans á Vindheimum til þess að flytja sig og efni. Þeir komu aftur um kvöldið en eiga eftir af verkinu. Sveinn flutti á og hreytti. Ég fór að flytja úr sauðataðsröst út og upp í kvíum og hafði Litla-Brún en svo fældist han og fór með kerruna fram af hólnum og mölvaði þar annan kjálkann og losnaði við allt nema kjálkabrotið. Svo flutti ég á Rauð það sem eftir var. Kristján kom heim úr brautarvinnunni með dót sitt en þeir ætla þó að mölbera meira en keyra til og frá hér eftir.

10. nóvember
Um kvöldið var Lestrarfélagsball á Náströnd og fór ég þangað og Kristján. Þar var dansað og boðnir upp bögglar og gerði ég það og seldist fyrir um 280 kr. Steini og Steindór fóru fram í Myrká til þess að klára að setja niður grindurnar, þeir fóru og komu með rauða bílnum.

11. nóvember – sunnudagur
Kristján fór á bæi. Pétur á Rauðalæk kom. Steindór og Steini sóttu verkfærakassa suður í Kirkjubæ.

12. nóvember
Þá var rekið saman og rak Steindór saman fyrir ofan. Hér vöntuðu 4 kindur og kom Ingi á Rauðalæk með þær um kvöldið. Traktor frá Efstalandskoti er nú að vinna á Ytri-Bægisá og voru þeir Steindór og Sveinn tíma úr degi til aðstoðar þar.

13. nóvember
Ég fór til Akureyrar og keypti m.a. slatta af bókum fyrir Lestrarfélagið. Steindór var út á Brúnastöðum í vinnu. Steini var niður við Vaglarétt til að reisa bragga með Inga á Rauðalæk.

14. nóvember
Steini fór fram í Myrká til að vinna við kirkjugarðinn.

15. nóvember
Gunnar Brynjólfsson kom með traktor um kvöldið og ætlar að vinna hér einhverja daga.

16. nóvember.
Gunnar vann með traktorinn fyrir Steindór, hann vann hér suður við Garðshornshól og þurftu 2 og 3 menn til þess að stinga ofan af þúfunum. Kristján var með við það um tíma.

17. nóvember
Gunnar herfaði þegar hann var búinn að plægja. Steini kom heim úr Hörgárdalnum kl. 12 um kvöldið.

18. nóvember
Þá var Lestrarfélagsfundur haldinn hér og komu á hann Steðjahjónin og Æsa, Soffía í Skógum, Anna á Brúnastöðum, Stefán Nik, Hulda á Vindheimum og Fríða á Hamri. Ég tók við 640 kr sem var hreinn ágóði af samkomunni um daginn.

19. nóvember
Þá vann Gunnar með traktornum hjá mér og var hann fyrst syðst og neðst í horninu, plægði í þar áður unnið flag og herfaði það ögn á eftir, svo kom hann hér heim og plægði horn hér fyrir utan bæinn.

20. nóvember
Gunnar vann hér fram á hádegi og var þá búinn að vinna me vélinni hjá mér alls í 11 og hálfan tíma. Hann tók 35 kr á tímann. Hann fór héðan út í Efri-Rauðalæk.

21. nóvember
Steindór og Sveinn dreifðu úr þvaggryfjunni. Ég steypti bás og flór í fjósinu. Steini fór fram í Myrká og vann við garðinn um daginn, kom heim um kvöldið.

22. nóvember
Steindór var út á Brúnastöðum. Gunnar í Koti kom og fékk lánað hjól hjá Kristjáni til að ríða á heim til sín. Ég, Sveinn og Kristján rákum féð saman og hýstum. Vöntuðu 3-4 ær.

23. nóvember
Sveinn og Kristján fóru til Akureyrar. Ég fór suður í Kirkjubæ með tvær ær og Sagnakver Símonar. Og svo fór ég með Flateyjarbók í Syðri-Bægisá. Við kenndum lömbunum átið og man ég aldrei eftir að það verið gert svo seint hér því nú er mánuður af vetri.

24. nóvember
Ónáðugt veður. Steindór var suður í Kirkjubæ. Sveinn og Kristján fóru á ball yfir á Náströnd.

25. nóvember
Þá var messað á Bægisá. Steini og Jóhanna fóru til kirkju. Pétur á Rauðalæk kom um kvöldið.

26. nóvember
Ég var með ígerð í fingri og fór til Akureyrar til að láta skera í hann. Lagði inn í banka 1.000 kr fyrir Kristján og 500 kr fyrir Lestrarfélagið. Kristján og Steini voru að grafa vatnsleiðsluskurð á N-Vindheimum.

27. nóvember
Steindór fór til Akureyrar, kom aftur með flutning. Ég var skárri í fingrinum. Tryggvi Gis kom og gisti.

29. nóvember
Steindór fór í skírnarveislu út að Brúnastöðum. Gísli í Kirkjubæ kom með símboð til Steindórs. Grána Steindórs bar í dag og átti rauða kvígu.

30. nóvember
Steindór fór suður í Bægisá í síma og svo var hann í Kirkjubæ lengi dags. Tryggvi Gis fór héðan eftir hádegi, gekk út í Vindheima og komst þar á bíl heim til sín. Kristján fylgdi honum.

 

[1] Í stað torfþaks var sett járnþak úr bretabröggum sem steypti af sér vatni fram á hlaðið en líka upp í fóðurganginn milli fjóssins og hlöðunnar. Þilið sem sett var vestan á fjósið var úr timbri og gluggar á því voru úr bretaskúrum.

[2] Óþekktur

[3] Væntanlega áðurnefnd Sigríður Anna Stefánsdóttir frá Skógum.