Mars 1944
1. mars
Þá kom Steini á Bryta og tafði.
2. mars
Ingi á Rauðalæk kom og spann. Kristján fór út í Vindheima til að sækja naut og kom Hans með það. Rjúpu var haldið. Svo fór Kristján aftur úteftir, rak (gler)augun í kúamykju og setti gat á þau. Svo ætlaði hann á leikfimisæfingu en varð ekki af. Bjössi í Koti kom og ætlar að verða hér einhverja daga.
3. mars
Þá fór ég út í Ás til að athuga félagsbækurnar og tók ég nokkrar til að selja á væntanlegri samkomu félagsins. Kom við á Hamri í heimleiðinni. Ingi spann.
4. mars
Við stungum út úr tveimur króm á húsunum. Guðbjörn kom með spólur[1]. Kristján fór ofan í Rauðalæk með böggla. Og svo fórum við þrír, Kristján, Björn og ég, yfir að Náströnd á samkomu sem Lestrarfélag Þelamerkur hélt þar. Var ég þar dyravörður og tók á móti peningum sem inn komu. Þar voru seldir bögglar fyrir rúmar kr. 300, inngangseyrir svipaður. Björn fór þaðan heim til sín en við Kristján komum heim laust fyrir fótaferðatíma.
5. mars – sunnudagur
Jón á Skjaldarstöðum kom og tafði. Kristján fór í flangurstúr.
6. mars
Við stungum út úr þremur króm í húsinu. Björn kom og hjálpaði okkur við það. Kristján fór svo í snatttúr um kvöldið. Guðbjörn kom til að grennslast um spunavélina.
7. mars
Björn spann fyrir mig.
8. mars
Ég fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og keypti m.a. 19 bækur fyrir 75 kr. Björn hirti fyrir mig. Ingi spann.
9. mars
Björn spann.
10. mars
Björn spann og fór svo inneftir með mjólkurbílnum um kvöldið. Kristján fór til Akureyrar og kom aftur um kvöldið. Þorleifur kom með bækur og fundarboð (hreppsfundur) og Kristján fór með það suður í Kirkjubæ.
12. mars – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá. Ég kveikti upp í ofninum en mamma og Kristján voru við messuna. Steini á Bryta kom við á leið til og frá kirkju.
13. mars
Mamma fór út í Bryta og ofan í Rauðalæk.
14. mars
Kristján fór út í Vindheima til að sækja naut, Þorsteinn kom með því. Huppu var haldið. Hulda[2] á Vindheimum kom með band til að prjóna. Siggi á Hamri kom og Kristján fór yfir á Mela á leikfimisæfingu. Ég hafði ærnar stund úti.
15. mars
Reginn á Steðja kom með band sem mamma ætlar að prjóna. Gestur kom hér heim um kvöldið á bílnum hans Stebba og tók 2 hesta af heyi sem á að fara til Einars Einarssonar. Með honum voru í bílnum Alli í Flögu, Gústi í Bási og Björgvin á Rauðalæk. Kristján fór í flangurstúr.
16. mars
Bjarni kom úr Reykjavíkurför sinni eftir 5 vikna burtveru. Fór hann suður með flugvél en kom aftur með Esju sem tepptist af ís á Ísafirði. Kristján fór í flangurstúr.
17. mars
Guðfinna fór út í Bryta og við Kristján fórum til að sækja hana um kvöldið. Annars var Kristján um tíma suður í Kirkjubæ við heyflutninga.
18. mars
Ég fór út á bæi með kirkjugjaldsmiða til útbítingar. Ég fór með mjólkurbílnum og kom fyrst við á Brúnastöðum og afhenti miðana en Jóhannes var blankur og gat ekki borgað en Stefán bílstjóri borgaði sitt. Svo fór ég að Skógum og fékk þar súkkulaði og kaffi, gjaldið var greitt og gefnar kr. 50 til ofnkaupanna. Þaðan fór ég að Ási, drakk kaffi og tók á móti gjaldinu. Svo gat ég látið tvo lykla að bókaskápunum en þeir voru áður tapaðir. Rósant skrifaði sig fyrir 60 kr til ofnkaupanna en var áður búinn að afhenda þær. Næst fór ég í Efri-Vindheima. Þar drakk ég kaffi og Þorsteinn borgaði sína skatta en Marsilína gaf 25 kr í ofninn. Þá fór ég í Bryta en þar var ekkert borgað nema 3 kr í gamalli skuld en ég fékk mjólk og brauð, kýrkjöt o.fl. að éta. Þaðan fór ég að Efri-Rauðalæk. Björgvin og Hallgrímur borguðu skilvíslega og Hallgrímur gaf 10 kr í ofninn. Svo drakk ég kaffi hjá Björgvin og hélt að því búnu að Neðri-Rauðalæk og tafði þar lengi. Pétur borgaði gjaldið en Kristín gaf 20 kr í ofninn. Eftir að hafa drukkið kaffi hélt ég heim og kom þar laust fyrir fjóstíma. Kristján var suður í Kirkjubæ í atvinnu. Steindór kom heim um kvöldið. Um kvöldið var samkoma yfir á Melum, leikur, dans og fleira. Kristján fór þangað.
19. mars – sunnudagur
Siggi á Hamri kom til að bjóða mömmu að koma ofaneftir af því að hún fór ekki í jólaboðið í vetur og fór hún ofaneftir. Kristján fór út í Bryta. Gunna[3] og Hulda á Vindheimum komu til að finna mömmu. Steindór fór inneftir í mjólkurbílnum því hann tók mjólk um 3-leytið. Rauða kvígan frá Bryta bar eftir háttatíma og átti kvígu.
20. mars
Kristján var út á Brúnastöðum við skítflutning á tún. Guðbjörn á Rauðalæk kom til að vita um spunavélina. Kvígan heildist ekki en ég gat náð hildunum.
21. mars
Kristján var út á Brúnastöðum. Við Bjarni fluttum á völl úr hesthúshaugnum efra. Búkolla bar og átti naut.
22. mars
Ingi á Rauðalæk kom og spann á vélina og Kristín kom til að hespa fyrir hann. Ég flutti 14 kerrur af sauðataði suður og ofan á nýrækt. Kristján skapp suður í Kirkjubæ.
23. mars
Ingi og Kristín komu og voru við spunann og kláruðu sitt. Helga litla skrapp uppeftir seint á dagi. Jóhannes á Steðja kom með félagsbækur. Vi hreyttum nokkrum hlössum og svo fór Kristján á íþróttaæfingu.
24. mars
Við Bjarni fórum út í Bryta með Rauðku og kerru og 1 síldarmjölspoka. Kristján fór með mjólkurbílnum til Akureyrar. Guðbjörn kom með spólur. Gísli í Kirkjubæ kom með poka frá Steindóri sem hann var beðinn fyrir.
25. mars
Gunna á Vindheimum kom til að finna mömmu. Ég flutti 14 kerrur af sauðataði suður og ofan á nýrækt.
26. mars
Bjarni fór út í Efri-Vindheima til þess að fá naut. Þorsteinn kom með það. Síðu var haldið. Sverrir[4] kom til að skoða hey og skepnur. Hann gerði töðuna 222 hesta og úthey 45 hesta. Ég fór suður í Bægisá með kirkjugjaldsseðlana. Prestur borgaði í loforðum og svo fór ég í Syðri-Bægisá og þar var borgað og gefnar 100 kr í ofnsamskotin. Þaðan fór ég í Kirkjubæ og borgaði Bensi eins og til stóð og 10 kr í samskotin. Þaðan fór ég heim og mjólkaði kýrnar o.fl. og svo fór ég ofan í Hamar. Þorleifur borgaði nefskattinn en Fríða lét 15 kr í samskotin. Um kvöldið kom Guðni Jónasson og gisti.
27. mars
Þá járnuðum við Jarp og svo fór Guðni með hann til að temja en skildi eftir brúnan fola í staðinn. Pétur á Rauðalæk kom og tafði. Hann var að finna pabba. Kristján kom heim eftir 4 daga túr. Sr. Theódór kom með símboð til mín.
28. mars
Ég fór í símann og talaði þar við mig Jón Níelsson[5] frá Brimnesi á Árskógsströnd og var það viðvíkjandi því að Kristján hafði ráðið sig til hans í vinnu í vor. Bjarni fór suður í Syðri-Bægisá með bók og krónu og kálfsskinn til Bensa. Við Kristján ókum taði og svo fór hann í leikfimisæfingu.
29. mars
Mamma fór út á bæi, Neðri-Rauðalæk, Brúnastaði, Skóga og Steðja. Ragnar[6] í Koti kom til að spinna eitt bindi í vélinni en það var bilað hjólið svo hann gat ekki klárað bindið. Við Kristján herfuðum sauðatað suður og niður á nýrækt. Bjarna vantaði af fénu og leitaði mikið en það hafði lent á Bryta og kom þaðan.
30. mars
Við Kristján hreyttum úr á blett suður og niður.
31. mars
Kristján fór ofan í Rauðalæk og sótti sýrugeymi.
[1] Þetta voru ekki videospólur heldur spólur í spunavélina, lopinn var spunninn upp á spólurnar.
[2] Hulda Þorsteinsdóttir (1928-2009) síðar húsfreyja á Efri-Vindheimum.
[3] Líklega Hildigunnur Þorsteinsdóttir (1930-2002) ein af Þorsteinsbörnunum, húsfreyja á Keldulandi í Skagafirði, starfsmaður Varmahlíðarskóla, síðast á Akureyri.
[4] Sverrir Baldvinsson (1912-2004) í Skógum hefur verið forðagæslumaður.
[5] Jón Kristján Níelsson (1898-1980) hefur reynt fyrir sér í útgerð á þessum tíma, síðar verslunarmaður á Akureyri, stofnaði og rak húsgagnaverslunina Kjarna við Skipagötu.
[6] Ragnar Guðmundsson (1898-1970) lengi bóndi í Hallfríðarstaðakoti, faðir Baldurs frá Skjaldarstöðum.