Október 1944
1. október – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá. Það var ólag á kirkjuofninum og fórum við Steini báðir til að reyna að laga það og tókst ekki. Steini, pabbi og ég fórum til kirkju og var þar fátt fólk. Eftir messu kom séra Sigurður hér úteftir og skírði litla drenginn[1]. Neðri-Rauðalækjarfólkð kom hér allt nema Ingi og var við athöfnina. Hósi og Siggi komu en fóru fljótt aftur.
2. október
Kristján og Steindór fóru í göngur á Bægisárdal en ég smalaði fyrir neðan. Svo rákum við inn og tókum til sláturfé seinnipartinn.
3. október
Þá fórum við með fé til slátrunar á Akureyri. Ég og Kristján fórum með Sverri frá Brekku og flutti hann ferð fyrir okkur og aðra fyrir Þorleif og Pétur en Steindór fór yfir að Öxnhóli og fékk Jóhannes Hjálmarsson[2] til að fara þriðju ferðina. Ég fór með 43 lömb og 4 ær. Við komum til baka með mjólkurbílnum. Við fengum 4 pd af fiski á 70 aura kg, slægt og hausað.
4. október
Steini var í rúminu og hafði hita. Það er bólga í kinninni út frá tönn. Við vorum við bretaskúrinn.
9. október
Það var gerð eftirleit og fór Steindór á Bægisárdal með Gísla á Bægisá. Við létum féð inn um kvöldið.
10. október
Við slepptum fénu uppfyrir. Þá slátruðum við til heimilis. Steindór 6 kindum, Steini 4 og ég 7. Bjarni hjálpaði okkur til.
11. október
Pabbi fór til Akureyrar og kom aftur um kvöldð. Við Steini ætluðum að fara en vorum hræddir við rigninguna.
12. október
Þá fórum við Steini í bæinn og fengum út kol og beinamjöl, rúgmjöl o.fl. Reynir flutti okkur vestur um kvöldið á vörubíl sem hann á nú hlut í. Steindór var fram í Efstalandskoti og verður til helgar.
13. október
Þá var markaður á Vaglarétt. Við Bjarni fórum þangað og keypti ég jarpskjóttan fola, tvævetran fyrir 450 kr. Bjarni keypti annan, rauðan fyrir 550 kr., 3 vetra.
14. október
Við Kristján fluttum á og hreyttum. Steindór kom heim um kvöldið.
15. október
Þá kom Reynir innan að með kol á bílnum sínum fyrir okkur. Svo fórum við með honum aftur, Steindór, Steini, Kristján og ég. Við Steini fórum ofan í Laugaland en Steindór fékk hann með sig inn í Bót[3] því þar var fundur haldinn með stjórn Sjúkrasamlags Glæsibæjarhrepps. Svo kom Reynir aftur vestur og tók dót fyrir okkur sem Margrét á Laugalandi skildi þar eftir. Svo tókum við múrsteina á bílinn í Skógum.
16. október
Þá létum við heyvinnuvélarnar inn í nýja skúrinn. Svo hjálpaði ég Steina til að lóga tveimur ám og hrút og keypti ég af honum hálfan skrokk af hrút.
17. október
Steindór fór fram í Efstalandskot. Kristján og Bjarni voru í vinnu í Kirkjubæ. Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum til að hjálpa Árna við húsbyggingu.
18. október
Kristján fór í vinnu ofan að Laugalandi, þar er verið að byrja á sundlaugarbyggingu. Bjarni fór inneftir með mjólkurbílnum en kom aftur eftir hádegið og var þá að sækja töskur sínar og fara vestur. Steini kom heim um kvöldið. Þorleifur á Hamri kom og ætlaði að finna Steina en þá var hann ekki heima. Gísli kom og ætlaði að hitta Bjarna[4].
19. október
Þá lógaði Steini annarri beljunni sinni. Steindór kom heim um kvöldð.
20. október
Þá fóru þeir í bæinn, Steini og Steindór.
21. október
Steindór var niður á Hamri við að koma þaki á hesthús. Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum. Kristján er alltaf í vinnunni á Laugalandi.
22. október – sunnudagur
Þá var lógað lambhrút sem Steini keypti í haust af Jóa á Brúnastöðum. Hann (hrúturinn) var veikur af vatnssótt eða öðru þess háttar. Steindór fór út á bæi í sjúkrasamlagserindum. Jóhannes á Steðja kom.
23. október
Þá var rekið saman. Steini fór út í Vindheima og keypti þar veturgamlan hrút. Sveinn í Koti kom og var að hjálpa við að stinga út og herfa sauðatað.
24. október
Þá var klárað að flytja sauðataðið og herfa það en eftir að dreifa seinni partinum. Sveinn var í vinnu hjá Steindóri.
25. október
Við fórum seinnipartinn til að krafla saman féð og fundum meiripartinn af því og rákum það heim og hýstum.
26. október
Steini fór yfir á bæi, lógaði hrossi í Koti og var svo hjá Árna á Hallfríðarstöðum um kvöldið og nóttina. Gísli í Kirkjubæ kom og bað mig að hjálpa sér til að lóga hesti á morgun.
27. október
Stórhríð. Við áttum allt féð úti nema hrúta og fórum við kl. 7.30 að leita og vorum við það óslitið fram um kl. 2 og vöntuðu þá 9 ær. Féð var ógurlega fannbarið og bleytti húsin mikið. Sumt af því sem við fundum var á kafi í fönn því stórfenni er mikið. Steini var yfir á Hallfríðarstöðum í nótt en kom heim um hádegi og fór þá strax að leita.
28. október
Þá var leitað að því sem vantaði og fannst 5.
29. október – sunnudagur
Það hafði verið boðaður lestrarfélagsfundur hér í dag en kom enginn. Við Steini fórum að reyna að laga kirkjuofninn af því illa gengur að hita með honum og fengum við ekkert lag á hann. Steindór fór út á bæi í sjúkrasamlagserindum.
30. október
Við Steini rifum í sundur ofninn í kirkjunni og fundum ekkert annað en það að ekki var hægt að skrúfa frá nema til hálfs og gátum við lagað það. Björn á Efstalandskoti kom á bíl til að sækja Steindór og fór hann með honum frameftir en það gekk illa að koma bílnum í gang og komust þeir ekki frameftir fyrr en seint um kvöldið. Kristján lá í hálsbólgu.
31. október
Kristján lá í rúminu. Steini fór suður í Kirkjubæ og var þar við að lógu tveimur hestum, átti Jói á Brúnastöðum annan og viktaði hann nær 600 pd, kjöt og mör. Gísli átti hitt hrossið. Ég fór ofan í Rauðalæk og borgaði útsvarið mitt og líka pabba og Steina, alls nær 1200 kr. Svo fór ég líka út í Brúnastaði með rörtöng.
[1] Pálmi Frímannsson (1944-1989) fæddist 1. ágúst eða á meðan dagbókarskrifin lágu niðri.
[2] Jóhannes Hjálmarsson (1913-1977) vestan úr Svartárdal, bóndi í Stíflu í Glerárþorpi og síðar í Arnarnesi.
[3] Sandgerðisbót í Glerárþorpi.
[4] Bjarni afi er hér búinn að vera í Garðshorni í rúmt ár með litlum hléum. Hann kom fáum mánuðum eftir að Friðgerður amma dó og hér flytur hann vestur, líklega í Hnífsdal þar sem hann var ráðsmaður hjá útgerðarmanni. Jón Ólafur sonur hans var líka hjá þeim sama manni um tíma.