Ágúst 1942
1. ágúst
Þá fór ég út í Bryta með hest og vagn og var við binding allan daginn, voru bundnir 50 hestar. Kristján fór ofan í Dagverðareyri til að dorga og fékk hann nokkur seiði og 25 síldar. Hér heima var dreift því sem eftir var í föngum og þurrkað og bundið úr flötu 14 hestar. Svo sló Steindór það síðasta yst og neðst á nýræktinni suður og niður og blett hér suður og upp í horninu á heimatúninu.
2. ágúst – sunnudagur
Steindór sló hjá Bensa í Kirkjubæ um morguninn. Ég, Steindór og Guðfinna og Siggi litli fórum út í Bryta og hjálpuðum til að binda þar 30 hesta. Steindór fylgdi Ólöfu Þórðar yfir um á. Siggi á Hamri kom og fékk einn kettling. Kristinn Jónsson kom og fékk eina mjólkurflösku. Hann er að veiða silung. Hósi kom og vildi fá orf. Björn[1] í Sörlatungu kom og pantaði reiðing.
3. ágúst
Hósi kom og sló hér á meðan Steindór var að standsetja orf handa honum. Við Kristján fluttum 300 reiðinga suður að braut. Svo var snúið og bundið 7 hestar úr bólstrum og 29 hestar úr flekkjum, alls 36 hestar.
4. ágúst
Við slógum með orfum fram að hádegi en svo var slegið með vél niðri á elstu nýrækt seinnipartinn og líka voru bundnir 40 hestar úr bólstrum. Þá eru komnir inn 300 hestar. Siggi á Hamri kom aftur með kettlinginn sem hann fékk á sunnudaginn því hann er svo ungur. 2 bretar komu og keyptu egg.
5. ágúst
Þá var slegið það sem eftir var af gömlu nýræktinni og rakað. Svo voru bundnir 11 hestar úr gömlum bólstrum og fluttir 300 reiðingar suður að braut. Kristján fór um kvöldið út í Ás til að slá þar með bindindisfélaginu.
6. ágúst
Við fluttum rúmlega 300 reiðinga suður að braut. Svo vorum við að þurrka á gömlu nýræktinni og var bundið þaðan úr flötu 26 hestar og 10 hestar af töðu á heimatúni. Kristján fór út í Bryta.
7. ágúst
Ég og Guðfinna fórum til Akureyrar og Siggi litli með okkur og varð hann eftir en svo tók ég bíl með okkur til baka og kom þá innanað með okkur systir Sigga sem heitir Bergþóra[2]. Það var Bjössi Þorvaldar sem keyrði og tók hann 500 st reiðinga til baka sem fór til Bjarna Rósantssonar. Kristján fór inneftir með honum. Það var slegið upp á túninu og svo voru bundnir 8 hestar úr flötu.
8. ágúst
Við Steindór fluttum torf suður að braut fram um miðaftansbil og svo slógum við stund út og upp á Kvíum. Það var klárað að hlaða upp sverðinum. Hallgrímur[3] á Bægisá kom og fékk lánaðan riffil til að skjóta heimagang. Gunnrún á Rauðalæk kom um kvöldið. Siggi á Bryta kom til að sækja sláttuvélarljá o.fl.
9. ágúst
Við pabbi fórum út í Bryta. Baldur á Vindheimum kom á bíl og vildi kaupa heytorf en það var ekki komið að veginum svo hann gat ekki tekið það. Svo fór ég í dag ofan í Hamar og lenti þar í töðugjöldunum með fleiri gestum og samdi við Bjarna Rósantsson um reiðinga. Dóri á Bægisá kom til að skila rifflinum. Ólöf kom um kvöldið.
10. ágúst
Ég fór suður í Bægisá í síma og símaði bæði til Akureyrar og á Dagverðareyri. Við kláruðum að slá út og upp á Kvíum. Svo slátruðum við veturgömlum hrút um kvöldið og þá kom Kristján heim úr kaupstaðnum. Ég fór út í Brúnastaði og talaði við Stebba um að flytja reiðinga.
11. ágúst
Stebbi á Brúnastöðum flutti inn á Akureyri 400 reiðingstorfur á bíl. Steindór fór með honum og fór með ullina og einn skrokk af veturgömlum hrút, 23 kg, og gerði hann 108 kr. Ég sló á grundinni út og niður. Þorsteinn á Vindheimum kom og fékk 20 torfur.
12. ágúst
Við kláruðum að slá túnið og varð síðast skottið suður og niður. Við fönguðum nokkuð af heyi um kvöldið. Þá komu tveir bretar og keyptu egg. Kristján fór ofan á braut um kvöldið og lenti svo í að slökkva eld í brautarkanti við Öxnadalsbrúna og kom ekki heim fyrr en kl 1.30.
13. ágúst
Kristján var við að slökkva eldinn. Stebbi á Brúnastöðum tók reiðingarusl á bíl. Við slógum á engi. Slátrað hrút um kvöldið.
14. ágúst
Við Kristján fluttum heytorf[4] suður að braut. Stebbi kom og tók það sem eftir var af reiðingunum sem Bjarni fær. Voru það 180 torfur heilar og svo rusl. Svo batt ég það sem eftir var af gömlu bólstrunum, það urðu 16 hestar. Marinó kom og bað okkur að gera við brautarkantinn sem brann. Kristján fór ofan í Hamar með boð til Hósa.
15. ágúst
Ég fór ofan í Hamar til að lofa Þorleifi að vita að við ætluðum að fá síldarmjöl á bíl og vill hann vera í félagi. Svo fór ég út í Brúnastaði með peninga til Stebba fyrir mjölið og svo sótti hann tvær ferðir og flutti hingað 20 poka, 10 í Hamar og 4 í Bryta. Mélið kostar 32 kr og 2 kr flutningskostnaður pr. poka.
16. ágúst – sunnudagur
Rigningar. Það er allt orðið forrennandi og standa pollar á harðvelli. Kristján fór ofan í Rauðalæk o.fl. Ég fór út í Bryta og kom við á Efri-Rauðalæk. Rósant frá Hamri kom til að grennslast eftir hvenær ætti að hlaða upp brunna kantinn og var ákveðið að gera það á morgun. Gunnrún á Rauðalæk kom og fékk lánaðar bækur.
17. ágúst
Heyið var rifið upp úr dellunni og þornaði mikið úr því og var garðað sumt um kvöldið. Við Kristján vorum að hlaða upp brautarkant við Öxnadalsbrú. Unnum við 10 tíma og vorum með Brún og kerru, þar voru líka Rósant, Hósi og Steini í Kirkjubæ.
18. ágúst
Við dreifðum föngum út og upp á Kvíum og þurrkuðum þau og bundum inn og voru það 17 hestar. Einnig var snúið í hinu heyinu. Það var slátrað á og lambi og var hvorttveggja rýrt.
19. ágúst
Ég batt 4 hesta úr sætum ofan af túni. Svo vorum við að skaka í heyi en kom að litlu gagni. Dóri á Bægisá kom til að leita að hesti. Siggi á Hamri kom og sótti kettling.
20. ágúst
Við vorum lengst af að taka saman hey, það er illa þurrt og settum við það í sátur og var breitt yfir mest af því af því það lítur út fyrir úrkomu. 2 bretar komu og fengu egg.
21. ágúst
Þá var slegið upp á túninu og flutt í gryfju 8 vagnar. Seinast slógum við á engi. Kristján fór ofan í Hamar til að draga ljáinn sinn[5].
22. ágúst
Við slógum og rökuðum niður í mýri. Eyvindur Jónsson[6] kom og mældi jarðabætur og var það rúm dagslátta af sáðsléttu. Hósi kom og fékk lánaðan vagn og aktygi fyrir Rósant til að flytja hey og svo skilaði hann því aftur. Kristján fór á samkomu yfir á Náströnd[7] um kvöldið.
23. ágúst
Ég, Guðfinna og Bergþóra fórum út í Bryta, ríðandi. Kristján fór í snatt. Við þurrkuðum og tókum saman 5 bólstra. Steini í Kirkjubæ kom með heyhitamæli. Um kvöldið komu þeir Björn[8] og Ármann í Sörlatungu og fengu 3 hestreiðinga.
24. ágúst
Við slógum upp með orfum og settum 6 vagna í gryfju. Svo var bundið inn 14 hestar af útheyi og 4 af töðu. Steini á Bryta kom hér við á leið suður í Bægisá því biskup er þar að „vísitera“. Gestur á Brúnastöðum kom með borð á bíl, þau voru frá Einari á Laugalandi, lánuð honum í vor.
25. ágúst
Ég rótaði sundur sátum sem voru illa þurrar og svo var það flutt inn, sumt laust á vagni en sumt bundið, alls 24 hestar. Þá var fyrri sláttur hirtur af túninu og varð taðan 400 hestar. Þá komu Stefanía og Haukur og gistu.
26. ágúst
Þá bundum við sátur hér sunnan úr hallinu, það voru 8 hestar. Stefanía og Haukur fóru út í Bryta. Við slógum og rökuðum. Ólöf Þórðar kom og vantaði hrífuhaus en gat ekki borgað hann af því svo margir voru viðstaddir. 2 bretar komu og keyptu egg. Við slátruðum veturgömlum hrút (haustgoti) um kvöldið. Sr. Theódór kom með símboð og Guðfinna fór í síma.
27. ágúst
Við fönguðum lítið eitt um morguninn og var þá farið að blotna. Annars slógum við lengst af. Bergþóra litla fór heim til sín með mjólkurbílnum. Um kvöldið kom Eiríkur Stefánsson[9], Reykjanesi.
28. ágúst
Við fluttum 3 vagna í gryfju af há og svo var rakað og þurrkað og teknir saman 2 bólstrar. Steindór sló með vél fyrir neðan mólækinn[10] og blett upp við skurðinn. Stefanía og Haukur komu og svo fór mamma með þeim yfir í háls til að tína ber. Bergþóra kom innanað og Kristrún Snæbjarnar[11] og gisti hún hér.
29. ágúst – höfuðdagur
Við vorum allan daginn að raka og þurrka hey, tókum saman 4 bólstra og settum nokkuð af heyi í föng sem er nærri þurrt. Kristrún fór með mjólkurbílnum. En svo kom aftur með honum Matthildur Grímsdóttir[12] og gisti. Kristján fór á bæi um kvöldið.
30. ágúst – sunnudagur
Ég fór út í Bryta og hjálpaði Steina til að þekja hey og um kvöldið fór ég ofan að Hamri til að koma bréfi áleiðis til fræðslumálastjórans. Siggi á Bryta kom og Ransí og Kristín og Gunnrún og Helga á Rauðalæk. Kristján fór í snatt.
31. ágúst
Við slógum og fluttum í gryfju 8 vagna af há, var það af partinum fyrir sunnan húsin út og niður. Svo var bundið úthey seinnipartinn, 35 hestar og fullgert hesthúsheyið. Siggi á Bryta kom og Ransí og Helga á Rauðalæk.
[1] Enginn Björn bjó í Sörlatungu en þar bjó Friðbjörn Björnsson og vera má að hann hafi verið kallaður Björn eða jafnvel Bjössi.
[2] Bergþóra Kristinsdóttir (1934-2011) síðar skrifstofumaður hjá bæjarfógeta á Akureyri og borgarfógeta í Reykjavík.
[3] Hallgrímur Hallgrímsson (1894-1982) sem síðar bjó á Vöglum. Hann var húsmaður á Ytri-Bægisá II 1942-1943 ásamt Halldóri (1924-1966) fóstur- og systursyni sínum sem skilaði rifflinum. Heimagangurinn hefur vafalaust ekki verið skotinn á færi.
[4] Heytorf var með grasi og var notað til að þekja heysæti.
[5] Hér hefur Kristján verið farinn að nota nýja gerð af ljám sem voru ekki bakki og blað, eins og þeir gömlu sem voru dengdir til bits, heldur voru þeir nýju dregnir á hverfisteini. Eldri ljáir af þessari gerð voru þungir og pabba þótti ekki gott að slá með þeim þangað til Eylands-ljáirnir komu.
[6] Eyvindur (1904-1969) þessi var ráðunautur, austan úr Reykjadal.
[7] Hér kallar pabbi félagsheimilið á Melum Náströnd sem bendir til að honum hafi ekki líkað samkoman sem Kristján sótti.
[8] Þessi Björn (1917-2000)? gæti hafa verið bóndi á Barká 1950-1957 en maður með þessu nafni var húsmaður í Sörlatungu 1942, fæddur á Hálsi í Köldukinn. Enginn Ármann er skráður í Sörlatungu þetta ár.
[9] Eiríkur Stefánsson (1901-2001) kenndi um árabil við Reykjanesskóla, m.a. á meðan mamma var þar. Hann var austan af Jökuldal.
[10] Mólækurinn hefur líklega verið lækur sem áður fyrr rann syðst og neðst á "nýræktinni" og afmarkaði talsverðan skika. Nú rennur lækurinn í merkjaskurðum en fyllt hefur verið upp í gamla farveginn enda var hann hættulegur skepnum, mikið niðurgrafinn og að hluta undir jarðbrúm.
[11] Kristrún Snæbjarnardóttir (1919-1945) var fædd í Svartárkoti en foreldrar hennar höfðu flutt í Lögmannshlíð og búið þar um slóðir.
[12] Matthildur Grímsdóttir (1872-1946) var ljósmóðir á Akureyri, líklega kunningjakona Helgu ömmu.