2. apríl
Kristján fór suður í Kirkjubæ og kom aftur með póst. Þar átti ég eitt bréf. Sesselía[1] fór suður á Bægisá í síma. Guðni kom og var að bjóða mér kýrefni og svo fór ég úteftir um kvöldið og fékk kvíguna, hún er viku gömul og talin vera af góðu kyni.
Tryggvi Gissurarson kom um kvöldið og gisti.
3. apríl
Steindór og Kristján fóru til kirkju og svo var Kristján við spurningar á eftir. Steini á Bryta og Siggi[2] litli komu hér við á leið frá kirkju. Tryggvi gamli fór og pabbi fór með honum út í Bryta. Jóhanna sendi mér bindi og Steindóri vettlinga.
4. apríl
Það var gert hreint á kvistinum og svo var límt nýtt veggfóður í hann.
5. apríl – páskadagur
Þá komu tveir bretar til að kaupa egg. Reynir kom með egg frá Bryta. Kristján fór ofan í Hamar um kvöldið í snatt. Steindór var hálf-lasinn.
6. apríl
Það kom enginn og enginn fór neitt í burtu. Skrauta bar um kvöldið og átti stórt naut, rautt með hvíta stjörnu í enninu.
7. apríl
Gestur[3] á Brúnastöðum kom með bíl og ætlaði að taka Steindór með sér út í Hvamm en Steindór var lasinn og gat ekki farið. Ég fór út í Rauðalæk um kvöldið.
8. apríl
Steindór lagði á stað út að Hvammi. Hann ætlar að laga þar til herbergi fyrir Guðna[4] á Rauðalæk.
9. apríl
Steini[5] í Kirkjubæ kom til að finna Kristján. Ég bað hann fyrir bækur suður í Syðri-Bægisá.
10. apríl
Siggi á Hamri kom. Við Kristján ókum heim nokkrum sleðum af svarðarrusli. Í dag var lík Lilju[6] frá Efstalandi flutt framan af Kristneshæli og fram í Efstaland. Það er nú rúmt ár síðan hún lagðist veik og hefur lengst af legið á hælinu en er nú nýdáin.
11. apríl
Ég fór út í Rauðalæk með kálfinn hennar Skrautu, hann er látinn fyrir þann sem ég fékk þar á skírdag.
12. apríl – sunnudagur
Lóan var að syngja í dag og þröstur var að flögra hér heim við bæ í dag. Tveir bretar komu á bíl til að kaupa egg. Reynir[7] kom með egg frá Bryta. Kristján fór yfir að Öxnhóli með band til að prjóna.
13. apríl
Kristján fór til Akureyrar á hjóli til að láta máta á sig fermingarföt. Guðbjörn á Rauðalæk kom með félagsbók. Ég hafði ærnar úti í 4 tíma á milli gjafa í fyrsta sinn á vorinu.
14. apríl
Kristján keyrði nokkrum kerrum af rusli suður og ofan í flag. Stefán á Barká kom til að sækja kerrugrind sem var hér í aðgerð.
15. apríl
Kristján keyrði nokkrum kerrum suður og ofan og svo fór hann ofan í Hamar um kvöldið í snatt.
16. apríl
Kristján fór í skóla út í Ás. Steindór kom heim og er hann búinn að vera viku út í Hvammi.
17. apríl
Kristján fór í skólann. Tveir bretar komu ríðandi til að biðja um kaffi. Siggi á Hamri kom.
18. apríl
Ég herfaði hreytitað frá í haust. Kristján fór í skólann. Tveir bretar komu til að kaupa egg. Guðni á Rauðalæk kom með kálfskjöt o.fl. Rósant á Hallfríðarstöðum kom til að biðja Steindór um skammorf á torfljá.
19. apríl – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá og fóru pabbi og mamma og Kristján til kirkju og svo var Kristján við spurningar á eftir. Ég fór suður í Bægisá um morguninn til að sópa kirkjuna. Sesselía fór út í Rauðalæk um kvöldið.
20. apríl
Björn[8] í Efstalandskoti kom og var með okkur Sesselíu við að gera hreina kirkjuna og vorum við við það í 9 klst. Kristján fór í skólann og svo færði hann okkur kaffi suður eftir.
21. apríl
Kristján fór í skólann. Við Steindór keyrðum á völl.
22. apríl
Kristján fór í skólann og slæptist fram á kvöld.
23. apríl – Sumardagurinn fyrsti
Kristján fór út í Brúnastaði til að sækja bréf fyrir Steindór. Það er nú að mestu auð jörð upp í mið fjöll og meira en þökuþítt á jörð.
24. apríl
Kristján fór í skólann. Steindór var að valta og svo fór hann í síma. Ég hreytti suður á sléttu. Rauður fékk hrossasóttarlenju.
25. apríl
Kristján fór með skólakrökkunum ofan í Laugaland og þangað kom líka Snorri Sigfússon[9] til að líta eftir. Steindór var að herfa í flagi. Guðni á Rauðalæk kom með rottueitur og setti það hér í einlægar holur. Hann fer með það um alla bæi ofan að Krossastöðum.
26. apríl – sunnudagur
Sesselía fór yfir að Skriðu ríðandi á Grána. Steindór fylgdi henni yfir ána.
27. apríl
Steindór fór á fund inn á Þinghús ríðandi á Grána. Ég herfaði það sem hreytt var á föstudaginn. Kristján keyrði hrossataði suður og ofan í flag. Sesselía var úti á Efri-Rauðalæk við hreingerningu. Tveir bretar komu hér heim og voru við einhverskonar mælingar hér á túninu og varpanum um kvöldið.
28. apríl
Steindór var við að dreifa hlandi úr gryfjunni. Við Kristján herfuðum sauðataðshlaða suður og niður á nýrækt. Mamma fór út í Bryta. Búbót bar og átti rauða kvígu.
29. apríl
Gunna[10] á Efri-Vindheimum kom með boð frá Bryta um að biðja mig að koma úteftir til að hjálpa við að ná kálfi úr kú. Ég fór svo úteftir og tókst að hjálpa kúnni. Það var flutt úr taðröstinni og ausið. Ég lét hrútana út. Guðni kom og sótti það sem hann átti eftir af hangikjöti.
30. apríl
Kristján fór inn á Akureyri á hjóli. Við Steindór brennimerktum gemlinga og dreifðum og herfuðum sauðatað. Ég lét gemlingana ekki inn í kvöld. Sesselía fór ofan í Hamar um kvöldið.
[1] Óþekkt vinnukona.
[2] Sigurður Bárðarson (1930-2021) var sumardrengur á Bryta. Af einhverjum ástæðum var vinfengi Garðshornsfólksins við foreldra hans. Móðir hans var Stefanía Sigurðardóttir (1906-1983) en fósturfaðir hans Sigurður Rósmundsson (1905-1986) var að vestan. Tengslin við þau gætu hafa verið í gegn um mömmu. Rannveig (1935-2006) (Ransí) dóttir þeirra var í sveit á Neðri-Rauðalæk þetta sumar.
[3] Gestur Júlíusson (1922-1961) bróðir Önnu á Neðri-Vindheimum. Í kirkjubók er hann skráður á Neðri-Vindheimum. Þar eru líka til heimilis foreldrar Gests og Önnu.
[4] Enginn Guðni er skráður á Rauðalæk 1942 eða 1943
[5] Steingrímur Hansen Hannesson (1927-1999) er sagður fóstursonur Benedikts og systra hans í Kirkjubæ, bróðursonur þeirra. Hann bjó síðar á Neskaupstað.
[6] Anna Lilja Stefánsdóttir (1909-1942) kona Gests bónda á Efstalandi. Stefán faðir hennar var bróðir Valdemars á Fremrikotum.
[7] Reynir er ekki lengur skráður heimilismaður á Bryta, líklega byrjaður að læra að smíða á Akureyri.
[8] Björn Brynjólfsson (1920-2001) sonur Brynjólfs og Laufeyjar sem áður bjuggu á Steinsstöðum en hafa nú flutt út í Efstalandskot.
[9] Snorri Sigfússon (1884-1978) námsstjóri, bróðir Halldórs föður Björns afa Lerkilundarsystkinanna Þrúðar, Örvars, Heimis og Hildar.
[10] Líklega Hildigunnur Þorsteinsdóttir (1930-2002) systir Baldurs og þeirra systkina. Hún átti síðar heima á Keldulandi í Akrahreppi og síðast á Akureyri.