Nóvember 1943

Nóvember 1943

1. nóvember
Um morguninn kom sr. Theódór með símskeyti til mín frá Jóni Bjarnasyni um að hann sendi hrútana með „Esju“ en búist var við að hún komi í dag svo ég fór af stað með mjólkurbílnum en fékk svo Gest á Brúnastöðum til að fara með mig inneftir. Steindór fór líka og ætlar hann að vinna við smíðar í Slippnum á Akureyri í vetur. Kristján fór líka inneftir. Nú fór það svo að „Esja“ kom ekki fyrr en seint um kvöldið svo Gestur fór heim með okkur Kristján um kvöldið. Hann flutti 1500 pd af kolum og 1 síldartunnu og svo gisti hann hér um nóttina.

2. nóvember
Þá fór Gestur með okkur þrjú til Akureyrar, mömmu, Bjarna og mig. Komum við þangað laust fyrir 9, tókum út 5 poka beinamjöl, 400 pd maís, 300 pd rúgmjöl, 100 pd hafragrjón, 100 pd hveiti, 100 pd salt, rúm 400 pd fisk, nýjan og saltan, og svo tókum við hrútana í Esju. Það voru kollóttir hrútar af Kleifa-kyni og kostar flutningur á þá um 100 kr heim. Við komum heim kl. að ganga 1 við Bjarni en mamma varð eftir innfrá.

3. nóvember
Þá fluttum við heim það sem eftir var þurrt í svarðarhraukunum.

4. nóvember
Við Kristján vorum stund við að hlaða brautarkant og grafa skurð. Friðgerður var missirisgömul og var þá tæp 17 pd.

7. nóvember – sunnudagur
Þá var haldinn hér lestrarfélagsfundur og kom á hann Jóhannes á Steðja og með honum Sigríður og Æsa. Soffía í Skógum, Steini á Grjótgarði, Aðalheiður og Anna á Brúnastöðum, Kristín og Helga á Rauðalæk, Þorleifur á Hamri, Rósant í Ási. Auk þess Sigurvin[1] á Djúpárbakka, hann stansaði ekki og gekk úr félaginu. Um morguninn kom Finni[2] í Kirkjubæ með bíl og Bensa. Um kvöldið fórum við Bjarni og Kristján út í Bryta og bólusetti ég féð fyrir Steina með lungnapestarbóluefni.

8. nóvember
Steini í Kirkjubæ kom og sagði að þangað væru komnir 2 kiðlingar sem Stefán í Gloppu selur mér. Bjarni fór með bækur suður í Syðri-Bægisá og kom svo með kiðlingana aftur. Emma á Bægisá kom til að fá lánaðan gaslampa. Mamma kom heim um kvöldið. Við Kristján fórum ofan í Rauðalæk og ég þaðan upp í Bryta.

9. nóvember
Bjarni fór með bækur ofan í Hamar. Kristján fór út í Bryta og verður þar í nótt. Um kvöldið kom Tryggvi Gis(surarson).

10. nóvember
Ég fór með Tryggva yfir um á, hann fór í Hallfríðarstaðakot en ég fór í Öxnhól og tafði þar lengi, fór svo út í Kot og tók Tryggva með til baka.

11. nóvember
Ég fór út í Ás og tafði þar allan daginn við að athuga lestrarfélagsbækurnar[3]. Kom við á Neðri-Rauðalæk í heimleiðinni og fór með fullan sykurkassa af bókum frá Ási suður að Hamri. Mamma og Kristján þvo nú kirkjuna.

12. nóvember
Við slátruðum Kápu og drógum undan Jarp o.fl. smávegis. Tryggvi Gis fór héðan út í Vindheima. Sr Theódór kom með gaslampann og Siggi á Hamri kom að gamni sínu. Kristján fór út í Ás um morguninn til þess að sækja lestrarfélagsstimpilinn.

13. nóvember
Guðni Jónasson kom til að sækja rollu sem hann á hér og svo seldi ég honum gimbrarpísl fyrir 40 kr. Kristján fór í bæinn og kom ekki aftur en Steindór kom heim um kvöldið. Ærnar komu nú loksins allar heim, þær hafa verið hýstar undanfarið og gefið síldarmél en aldrei verið allar fyrr.

14. nóvember – sunnudagur
Ég fór suður í Bægisá með svörð til frúarinnar[4] og svo fór ég til að leggja í kirkjuofninn því það bar að messa. Svo fór ég heim aftur og fór í sparifötin og var við messuna. Þar voru 9 höfuð í kirkju. Svo vorum við Steini á Bryta við að koma ofni neðan frá braut og inn í kirkju, hann er nýkeyptur og kostar allt að 13 hundruð. Stefán tók mjólk. Steindór fór með honum.

15. nóvember
Við Bjarni fórum út í Bryta, ég bólusetti féð og svo ætluðum við að taka ærnar sem ég kaupi þar en það varð ekki af því. Kristján kom heim.

16. nóvember
Steini á Bryta kom og ég fór með honum suður í Bægisá til að athuga kirkjuofninn. Kristín og Helga[5] á Rauðalæk komu og svo kom Pétur til að sækja þær. Siggi á Hamri kom. Kristján fór út í Bryta og gisti.

17. nóvember
Þá fórum við Bjarni til Akureyrar með mjólkurbílnum. Júlli frá Bryta kom utanað með Kristjáni og svo fóru þeir báðir til rjúpna og fengu 14.

18. nóvember
Ég fór um kvöldið suður í Syðri-Bægisá með bók, „Drauminn fagra“. Svo fór ég út í Hamar og Ingi á Rauðalæk kom þangað líka og ákváðum við að kaupa bækur í Lestrarfélagið, helst þessar: Dagur í Bjarnardal, Hornstrendingabók, Strandarkirkja, Roosvelt, Ósigur og flótti, Sjö sneru aftur, Maðurinn sem hvarf. Kristján fór ofan í Rauðalæk og Hamar.

19. nóvember
Steini á Bryta kom og ég fór með honum suður í Bægisá til að setja niður nýja kirkjuofninn en við gátum ekki gengið frá honum að fullu. Kristján fór tvisvar ofan í Rauðalæk, í seinna skiptið til að sækja sýrugeymi í útvarpið. Flestar ærnar lágu úti í nótt sem leið og allar í nótt.

20. nóvember
Við náðum flestum ánum heim en vöntuðu 23.

21. nóvember
Kristján fór suður í Kirkjubæ og sótti póst og ég fékk bréf frá Jóni Ólafi. Siggi á Hamri kom og tafði um kvöldið. Friðgerður sat við borðið, át smjör og tók tönn.

22. nóvember
Reginn á Steðja kom með bækur úr bandi frá Jóhannesi. Ingi á Rauðalæk kom til að sækja rollu sem hann átti hér. Kristján fór ofan í Rauðalæk með rafgeymi í hleðslu. Árni á Hallfríðarstöðum kom.

23. nóvember
Þá fór ég til Akureyrar með mjólkurbílnum og tók tíma í rafmagni hjá Jóni Geirs[6], kom aftir heim um kvöldið. Ég var í Jönubuxum[7]. Kristján fór suður í Kirkjubæ og út í Neðri-Rauðalæk. Þorsteinn á Efri-Vindheimum kom til að leita að lömbum.

24. nóvember
Ég fór inneftir í rafurmagnið og kom aftur um kvöldið, fékk og flutti heim tvær síldartunnur og keypti líka 30 hundaskammta fyrir Pétur. Kristján fór í snatt. Ég frétti að fundist hefði dauð rolla út og upp í fjalli og átti Steindór rolluna. Hana hefur vantað undanfarið.

25. nóvember
Ég fór í bæinn með mjólkurbílnum, var í Jönubuxum og borðaði hjá Þorleifi[8], kom heim kl. 6.30.

26. nóvember
Ég fór í bæinn og keypti fisk og dívanteppi. Borðaði og drakk hjá Eiríki[9]. Siggi á Hamri kom og fékk doðadælu. Sigrún[10] í Ási kom og Guðfinna fylgdi henni og lenti á fylliríisbíl.

27. nóvember
Ég og Kristján fórum í bæinn og komum heim um kvöldið og svo fór Kristján á ball á Náströnd. Mamma og pabbi fóru út í Bryta og gistu þar. Aðalsteinn í Flögu kom og gisti.

28. nóvember
Við Bjarni fórum út í Bryta og sóttum sex ær sem ég keypti þar í haust. Mamma og pabbi komu heim fyrir myrkur. Siggi á Hamri kom og Kristján flæktist.

29. nóvember
Ég fór inneftir með Laugja[11] því Stebba bíll var bilaður. Svo kom ég með Laugja aftur. Tíðindalaust.

30. nóvember
Ég fór inneftir á mjólkurbílnum en það var að þessu sinni Finni í Kirkjubæ af því Stebba bíll var bilaður. Svo fór ég að finna Þorstein Hörgdal[12] og borgaði honum brunabótagjaldið, 88,50 kr. Svo fór ég út í Blómsturvelli og fékk þar lestrarfélagsstyrkinn, fór svo upp á braut og ætlaði að taka mjólkurbílinn en hann kom svo seint að ég fór gangandi alla leið frameftir, fór upp í Bryta og stansaði þar stund því þar var afmælisveisla og Kristján var þar kominn. Svo fórum við heim og komum þar kl. 10. Siggi á Hamri kom með boð um að þar eigi að gefa inn hundunum á morgun.

 

 

[1] Sigurvin Ingibjörn Jónsson (1897-1987) bóndi á Djúpárbakka 1910 til 1987.

[2] Friðfinnur Magnússon (1916-1982) var Skagfirðingur, bjó 2-3 ár í Bási.

[3] Hér er verið að flytja lestrarfélagsbækurnar fram í Hamar en þeir hafa líklega verið þrír í stjórn, Þorleifur (líklega formaður), pabbi og Ingi á Rauðalæk. Pabbi varð síðar formaður og þá voru bækurnar fluttar upp í Garðshorn og þær lánaðar út þaðan.

[4] Pabbi skrifar um "frúna" og á þá við prestfrúna Jóhönnu Valgerður Gunnarsdóttur (1873-1957) sem var húsfreyja á Bægisá 1898 til 1957.

[5] Helga Ingibjörg Pétursdóttir (1933-1949) var yngst barna Péturs og Kristínar á Rauðalæk, dó úr botnlangabólgu.

[6] Jón Pétursson Geirsson (1905-1950) var læknir á Akureyri og hefur greinilega notað einhvers konar rafbylgjur til að lækna gikt.

[7] Þessi Jönubuxnabrandari er óskiljanlegur seinni kynslóðum, líklega mjög staðbundinn.

[8] Pabbi hefur borðað hjá Boggu (Sigurbjörgu Steinunni Önnu) frænku sinni og Þorleifi Sigurbjörnssyni.

[9] Eiríki Stefánssyni frá Skógum og Laufeyju frá Efri-Rauðalæk.

[10] Sigrún Jensdóttir Buch (1915-1999) var seinni kona Rósants í Ási, móðir 8 barna hans en hún átti tvö frá fyrra hjónabandi.

[11] Finnlaugur Pétur Snorrason (1916-2002) á Syðri-Bægisá, bróðir Steins og þeirra systkina.

[12] Þorsteinn Marinó Hörgdal Grímsson (1881-1966) hefur verið umboðsmaður tryggingafélags en stundaði ýmis önnur störf, var t.d. kennari og vegaverkstjóri.