September 1943

Dagbók frá 1. sept. 1943

1. september
Þetta er þriðji dagurinn sem við erum við heyskap út í Rauðalækjarengi. Við slógum þar Steindór, Kristján og ég en Jana[1] kaupakona rakaði. Kaupamennirnir Sveinn[2] og Einir[3] færðu okkur mat og kaffi. Annars var allt tíðindalaust.

2. september
Við slógum á Rauðalækjarenginu og Jana rakaði til kl. 4. Þá fór hún heim. Kristján fór með Kolu út í Efri-Vindheima undir naut.

3. september
Það var snúið í heyinu fyrir hádegi en annars kláruðum við að slá það engi sem við fengum leyfi til á Rauðalæk. Einar á Laugalandi kom og sótti 40 heytorfur sem hann fékk hér.

4. september
Það þornaði nokkuð úr heyinu, því var snúið tvisvar og ljáin rökuð og síðast fönguðum við og görðuðum nokkra flekki. Ingvar[4] í Kirkjubæ kom með bíl og tók 100 reiðinga fyrir Búa[5] á Bústöðum. Jana og Kristján fóru á ball fram að Þverá um kvöldið.

5. september
Við snerum í heyinu útfrá og settum upp í sátur þar til heyið var orðið blautt. Þá fóru þær mamma og Jana upp í Bryta en ég fór út í Brúnastaði til grennslast eftir hvort hægt væri að fá bíl til þess að flytja heyið heim. Hósi kom og Snorri[6] úr brautarvinnunni kom til að biðja að selja sér fæði.

6. september
Steindór sló með vél út og niður á túni og er það síðasti uppslátturinn. Og flutti hann það í gryfjuna. Ég sló á grundinni út og niður fram á hádegi en seinni partinn fórum við þrjú, ég Kristján og Jana út í Rauðalækjarengi og bundum það af heyinu og fluttum ofan að braut 25 votabandshesta. Svo fékk ég Gest á Brúnastöðum með bíl til að koma því heim. Gekk það illa, bíllinn sökk fyrir ofan hliðið og varð að taka allt af honum í fyrri ferðinni og svo sóttu þeir möl á hann til að gera við veginn. Með seinni ferðina gekk vel. Benedikt á Húsá[7] kom til að finna Steindór.

7. september
Við vorum að leysa votheysbaggana og slógum lítið eitt fyrri partinn en svo fórum við út í Rauðalækjarengið, ég, Kristján og Jana, og bundum 19 votheyshesta og svo flutti Gestur það suðureftir í tveimur ferðum. Kaupamennirnir Sveinn og Einir fóru inneftir með bílnum í morgun því að nú á skóli að fara að byrja á Akureyri. Sveinn kom 25. ágúst en Einir 30. ágúst.

8. september
Kristján og mamma og pabbi fluttu heim mest af taðhlaða út og niður hjá húsi[8]. Við Steindór slógum út og niður í engi. Jana rakaði stund fyrri partinn en var við þvott með Guðfinnu seinnipartinn.

9. september
Steindór var suður í Kirkjubæ til að undirbúa niðursetningu á vindrafstöð[9]. Hann kom heim um þrjúleytið en fór svo yfir að Hallfríðarstöðum um kvöldið. Ég sló nýja sáðsléttu fyrripartinn og svo var rökuð ljá út og niður í engi og ég var við að flytja heyið heim á grund seinnipartinn því það er hvergi hægt að flekkja í enginu. Benedikt í Kirkjubæ kom til að sækja hallamæli.

10. september
Við vorum við heyþurrk allan daginn. Steindór og mamma voru úti á Rauðalæk allan daginn og sneru tvisvar í flekkjunum, svo fóru þau Kristján og Jana úteftir um miðaftan og hjálpuðu við að fanga upp og var það klárað. Hér heima var dreift og snúið og svo batt ég 12 hesta úr flötu og flutti inn í hlöður.

11. september
Við þurrkuðum allt heyið sem til var heima og bundum það inn og voru það 8 hestar talsins. Steindór fór út í Rauðalækjarengi og sneri heyi sem Marinó á þar og görðum sem við eigum.

12. september
Við Steindór settum saman föngin sem voru eftir í Rauðalækjarenginu og tókum líka saman Marinós hey og vorum búnir að þessu um kl. 2. Þá fór ég út í Brúnastaði til að vita hvort hægt mundi vera að fá Gest til að flytja heyið á morgun og var búist við að svo mundi verða. Steindór sótti póst suður í Kirkjubæ og fór með póst til Brytafólksins. Jana og Kristján tíndu ber og gáfu fólkinu um kvöldið og meðan á því stóð komu þau Hósi og Heiða[10]. Stebbi tók mjólk.

13. september
Þá bundum við heyið úr Rauðalækjarenginu sem eftir var og flutti Gestur það á bílnum sínum og fór þrjár ferðir. Heyið var bundið 35 hestar en alls var það með því sem áður var flutt 60 hestar. Gestur tók 60 kr fyrir allan flutninginn. Seinnipartinn um daginn kom Guðmundur Frímannsson[11] og kona hans og voru þau hér nóttina.

14. september
Við Guðfinna fórum með þeim Guja og Evu út í Bryta og töfðum þar lengi. Svo fórum við með þeim ofan hjá Brúnastöðum og ætla þau að ganga ofan í Laugaland en við vorum með mjólkurbílnum suður í útleggjara. Við slógum smábletti hér heimavið.

15. september
Við járnuðum Grána, Brún og Rauðku fyrripartinn en slógum suður með götunum seinnipartinn. Ég fór suður í Bægisá um kvöldið og símaði að Möðruvöllum. Kl 12 um kvöldið kom Jóhanna[12] systir Jönu kaupakonu og gisti.

16. september
Steindór fór í kaupstað með mjólkurbílnum. Steini í Kirkjubæ kom og fékk 15 pör af reipum að láni. Ég sló í flóanum, Jana rakaði og Kristján keyrði heyinum heim á grund seinnipartinn. Mamma og pabbi rökuðu ljá frá í gær. Guðfinna fór með Jóhönnu Ólafs suður í Bægisá í síma. Kristján fór um kvöldið út í Rauðalæk.

17. september
Steindór var að spekka meðfram gluggunum á húsinu. Ég sló í flóanum og Jana rakaði og Kristján flutti. Hann missti Rauð ofaní og sleit aktygin og braut annan vagnkjálkann. Mamma og pabbi fönguðu heyið fyrir sunnan.

18. september
Steindór var við að dytta að gluggunum. Við Kristján þöktum hesthúsheyið og svo bjó ég um það eftir föngum. Seint um daginn tók ég eftir undarlegum reyk á Efri-Vindheimum og fórum við Kristján út í Bryta til að gæta að hvað væri að brenna og var það bara heyrusl sem kveikt hafði verið í. Steini í Kirkjubæ kom til að skila reipunum og svo fékk hann 10 kg kartöflur fyrir Bensa. Halldór[13] „fínasti“ kom.

19. september – sunnudagur
Við snerum í flata heyinu og fönguðum það svo upp. Séra Sigurður á Möðruvöllum kom hér heim eftir beiðni. Hann kom framan úr Bakka frá messu þar. Hann skírði litlu stúlkuna og heitir hún Friðgerður. Jóhanna og Steini á Bryta komu, einnig Sigríður[14] á Steðja og Æsa[15] og voru þau öll við skírnarathöfnina. Hósi kom og fór fljótt aftur. Rósant í Ási kom og var að biðja um kartöflur.

20. september
Ég flutti reiðinga niður að braut fyrripartinn en seinnipartinn sló ég í flóanum og fékk Jönu lánaða til að raka. Kristján flutti heyið heim á tún. Steindór fór suður í Kirkjubæ og hafði kýrkaup við Benedikt. Svo var hann að dytta að húsinu eftir það. Um kvöldið komu þau Heiða og Pétur, hann kom með gangnamiða[16] en Heiða kom til að finna Jönu.

21. september
Sunnan stinningskaldi ... var illt að vera við hey á tímabili. Við dreifðum og botnuðum heyið sem úti var og svo bundum við úr flötu 24 hesta en settum afganginn upp í sæti. Dreifar voru órakaðar. Steindór leysti í hlöðunni[17] en annars var hann að mála og kítta í glugga. Rósant í Ási kom og fékk 50 stk stoppreiðing. Kristján fór suður í Kirkjubæ í tóbaksleit[18].

22. september
Steindór fór með mjólkurbílnum ofan að Grjótgarði og ætlar að vinna þar eitthvað. Ég slátraði Dellu gömlu og svo var tekið upp úr kartöflugarði. Rósant í Ási kom og ég dró fyrir hann öxi og hníf.

23. september
Kristján fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og kom ekki aftur. Við Jana bundum bólstrana sem eftir voru suður með götunum og voru það 9,5 hestar og nú er ekki eftir úti annað en dreifar út og niður á grund. Það var tekið upp úr görðunum.

24. september
Moldhríð. Ég fór ofan í Rauðalæk og Hamar til að tala um samanrekstur ef veðrið batnaði ekki og var ákveðið að fara eitthvað til kinda úr hádeginu en svo var hætt við það af því veðrið fór batnandi. Svo fór ég suður í Kirkjubæ með gangnaseðlana.

25. september
Ég fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og keypti m.a. skáp á fornsölunni fyrir 370 kr. Kristján og Steindór komu heim um kvöldið. Gunnar[19] Parmesson kom og gisti.

26. september
Eftir áður umtöluðu var Bægisárdalurinn genginn í dag og fóru til þess Steindór, Dóri[20] á Brúnastöðum, Hósi á Hamri og Gísli og Steini í Kirkjubæ.

27. september
Við Kristján fórum í göngurnar, það var búið að ganga dalinn svo að það var bara fjallið og brúnirnar sem þurfti að ganga. Ég var gangnaforingi og gekk efstur. Steindór kom með hesta út í Vindheima en við Kristján fórum ofan í Vaglarétt, þar átti ég 4 kindur og kom þeim á bíl fram eftir og fór sjálfur með en Kristján kom með hrossin á eftir.

28. september
Lenjuhríð fram undir kvöld. Ég fór fram í Þverárrétt um morguninn með Stefáni bílstjóra og dró ég þar mitt fé sem var um 20 kindur. Svo dró ég fyrir Steina á Grjótgarði og hjálpaði honum með reksturinn. Við stönsuðum á Syðri-Bægisá og drukkum þar kaffi, fórum svo með féð hingað heim í túnhólf og Steini gisti hér. Þorleifur Sigurbjörns kom og tók byssuna sína.

29. september
Kristján fylgdi Steina ofan að Vaglarétt með féð. Skrautu var lógað. Steini skaut hana áður en hann fór. Um kvöldið fórum við Steindór út í Bryta og keyptum þar kvígu á öðru ári fyrir 600 kr og fengum einnig lánaðan pott. Ég fann 2 lömb niður í læk fyrir ofan Rauðalæk, annað dautt sem Dóri á Brúnastöðum átti en hitt með lífsmarki og átti Hallgrímur[21] á Rauðalæk það. Mamma fór út í Ás og ætlar að vera þar í slátri.

30. september
Ég var við að salta kjöt o.fl. Steindór lagaði til í fjósinu og svo tókum við upp úr garði stund síðast.

 

 

[1] Kristjana Margrét Ólafsdóttir (1917-2006) frá Snæfjöllum á Snæfjallaströnd, síðar húsfreyja á Ísafirði. Jana virðist hafa verið vinnukona hjá Steindóri því að fyrir kom að pabbi fékk hana lánaða til verka hjá sér.

[2] Sveinn Kristinsson (1936) sonur Kristins Jónssonar og Ástþrúðar Jónínu Sveinsdóttur. Mamma hafði verið barnfóstra hjá þeim hjónum veturna 1939-40 og 1940-41 en pabbi og Ástþrúður (Ásta) voru þremenningar.

[3] Einir Bjarklind Þorleifsson (1935-1990) var sonur Sigurbjargar Steinunnar Önnu Frímannsdóttur en þau pabbi voru bræðrabörn. Um og eftir 1965 voru börn Einis í fóstri í Garðshorni, Valdimar (f. 1960) lengst.

[4] Ingvar Axelsson (1923-1994) sonur Axels í Stóragerði, umsjónarmaður Árbæjarsafns og síðar fulltrúi garðyrkjustjóra í Reykjavík.

[5] Búi Guðmundsson (1908-1977) bjó lengst á Myrkárbakka en almennt var bærinn kallaður Bústaðir.

[6] Ekki er gott að segja hver þessi Snorri var, gæti hafa verið Snorri Pétursson (1914-1995) sem þá átti heima á Djúpárbakka en var lengst bóndi á Skipalóni.

[7] Hér er bærinn sem nú heitir Ytri-Bægisá II kallaður Húsá en var áður kallaður Kirkjubær og hér rétt á eftir er bærinn kallaður því nafni.

[8] Hér er vísað til fjárhúss sem stóð utan og neðan við Garðshornsbæinn frekar en að vísað sé til hesthússkofa sem stóð neðan við fjárhúsið.

[9] Vindrafstöðvar voru á nokkrum bæjum á Þelamörk um tíma, m.a. á Steðja, Neðri-Rauðalæk og Kirkjubæ (Húsá). Ævar uppfinningamaður á Steðja fékk 6V rafal úr bíl hjá hermönnum sem dvöldust neðan við Skóga og bjó sér til vindrafstöð úr honum.

[10] Ekki er vitað hver þessi Heiða var en hún hefur verið vinnukona annaðhvort á Hamri eða Neðri-Rauðalæk.

[11] Guðmundur Júlíus Frímannsson (1910-1986), Guji, var bróðir fyrrnefndrar Sigurbjargar Steinunnar Önnu. Kona hans var Eva Kristín Magnúsdóttir (1915-1981). Guðmundur var skólastjóri á Hjalteyri og síðar kennari á Akureyri.

[12] Jóhanna Sesselja Ólafsdóttir (1921-2009) frá Nauteyri við Ísafjarðardjúp, síðar snyrtifræðingur og sjúkranuddari í Reykjavík.

[13] Fyrrnefndur Halldór Hjálmar, fóstursonur Hallgríms á Vöglum. Hann var síðar kallaður "Dóri drall" eða eitthvað viðlíka, löngum kenndur við orðaleppa sem hann tamdi sér.

[14] Gesti í skírnarveislunni þarf varla að kynna nema helst Sigríði Ágústsdóttur (1908-1988) móðir Ævars uppfinningamanns frá Steðja. Hún var frá Kjós í Árneshreppi á Ströndum, systir Símonar Jóhanns prófessors í sálfræði við HÍ.

[15] Sigrún Æsa Ögn Jóhannesdóttir (1934) var dóttir Sigríðar, systir Ævars Jóns Forna, Regins Öxar og Haka Guðmundar.

[16] Á gangnamiðanum kom fram hvað hver bóndi átti að leggja til marga gangnamenn og hvar þeir áttu að ganga.

[17] Steindór leysti úr böggunum sem fluttir voru heim í hlöðu.

[18] Skyldi Kristján hafa verið farinn að reykja á þessum tíma, 14 ára gamall? Eða var hann að leita að tóbaki handa einhverjum öðrum?

[19] Gunnar Parmesson (1924-2006), reiðhjólasmiður, „lék árum saman á gítar með ýmsum danshljómsveitum í Reykjavík og víðsvegar um landið“

[20] Dóri þessi gæti hafa verið Halldór Jón Júlíusson (1918-1943) á Neðri-Vindheimum sem þar var ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hann varð bráðkvaddur þar tæpum mánuði síðar.

[21] Hallgrímur Hallgrímsson sem árið áður var á Bægisá er nú kominn út í Efri-Rauðalæk.