Desember 1945
2. desember
Féð fór lítið út. Steindór fór til Akureyrar og ætlar að verða þar a.m.k. næstu viku í vinnu. Kristján fór suður í Kirkjubæ. Siggi á Hamri kom með honum aftur. Gestur tók mjólk.
3. desember
Við létum ærnar út en þær tóku lítið. Fönnin er svo mikil og illa löguð, hvergi minna en í kálfa og hné og þar yfir og svo er skel á fönninni. Bílarnir komast við illan leik eftir veginum.
4. desember
Féð stóð alveg inni. Bíllinn fór ekki fram fyrir Brúnastaði. Kristján og Sveinn fóru út í Neðri-Rauðalæk og Brúnastaði til að grennslast eftir mjólkurbílnum.
5. desember
Kristján fór á bæi. Siggi á Hamri kom og fékk lánaðan mjólkurdunk.
6. desember
Sveinn fór með mjólk á sleða út fyrir neðan Vagli en þangað fram komst mjólkurbíllinn í gærkvöldi en svo hafði rennt í slóðina í nótt svo það varð að moka frá bílnum út að Laugalandi og kom Sveinn ekki til baka fyrr en kl. 2. Við slátruðum Rauðku litlu og hjálpaði Steini mér við það. Hún var talin að vera minnsta hross fullorðið sem menn höfðu séð hér um pláss. Hún viktaði 296 pd kjöt og 18 pd mör. Það var undir henni mósótt folald, hryssa, og er hún væn enda var hún köstuð á laugardag síðastan í vetri. Svo skaut ég Depil fyrir Steina. Ingi á Rauðalæk og Siggi á Hamri komu um kvöldið.
7. desember
Vegurinn var skafinn frá Laugalandi og eitthvað hér framfyrir. Við járnuðum Brún.
8. desember
Kristján og Sveinn fóru til Akureyrar um kvöldið og ætluðu að vera á sjónleik, Lénharði fógeta, fóru svo þaðan fram að Hrafnagili á samkomu. Komu heim kl 4, þá í hálfgerðri stórhríð.
10. desember
Mjólkurbílnum gekk illa því hríðað hafði í slóðina. Steini fór út á Krossastaði með honum til hjálpar en Kristján fór alla leið inn eftir. Kom aftur um kvöldið með baðlyf og ormalyf.
11. desember
Við gáfum fénu inn ormalyf.
12. desember
Siggi á Hamri kom með flutningsdunk sem ég lánaði á dögunum. Steini fór með hráolíu suður í Bægisá.
13. desember
Pétur á Rauðalæk kom og borgaði mér 152 kr sem er styrkur frá hreppnum til Lestrarfélagsins fyrir liðið ár. Steini fór í síma að Bægisá.
14. desember
Steini fór til Akureyrar og kom aftur um kvöldið með bygg, maís og rúgmjöl, alls 900 pd. Við fluttum grjótið af votheysgryfjunum.
15. – 22. desember
Á sunnudag kom Ingi á Rauðalæk til þess að biðja okkur um hegðunarvottorð því hann ætlar að fara að taka bílpróf. Steindór kom heim á laugardagskvöld. Á mánudag bar Rjúpa og átti kvígu. Á þriðjudag böðuðum við féð og var þá lenju-stórhríð með slögum. Á fimmtudaginn fórum við til Akureyrar, ég, Sveinn og Kristján og fórum með mjólkurbílnum. Komum allir heim um kvöldið með epli og sitthvað fleira. Með okkur innan að kom Sveinn Kristinsson sem var hér kúasmali í sumar. Hann ætlar að vera hér einhverja daga. Á föstudag og laugardag var norðan hríðarveður. Annars má heita jarðlaust hér og er það bæði snjódýpt og storka. Hestarnir ganga hér efra enn, fjórir.
23. desember
Gestur fór ekki suður fyrir Brúnastaði með mjólkurbílinn vegna vondrar færðar. Þorleifur tók mjólkina af okkur úteftir.
24. desember
Sveinn litli fór með bílnum heim til sín. Sveinn vetrarmaður fór heim til sín og ætlar að verða þar um jólin. Reynir kom um kvöldið.