Febrúar 1936
1. febrúar
Ragnar í Kirkjubæ kom með símboð til Steindórs frá Grenivík. Svo fór Steindór í símann kl. 4. Um kvöldið kom Gísli[1] í Engimýri með hest og baðst gistingar, hann var að koma frá Akureyri með vörusleða.
2. febrúar – sunnudagur
Steindór fór út í Bryta og þaðan yfir á bæi, Hallfríðarstaði, Öxnhól og Barká. Ég fór út í Bryta. Steingrímur á Rauðalæk kom.
3. febrúar
Steindór fór í síma að Bægisá. Reynir kom.
4. febrúar
Steindór fór til Akureyrar með hest og sleða, tók mjólk frá Kirkjubæ og Efri-Rauðalæk. Honum varð samferða Steini á Bryta með hest og sleða og Pétur á Rauðalæk lausgangandi. Kári kom um kvöldið og var nóttina. Benedikt Bægisárbóndi keypti hey yfir á Lönguhlíðarbakka sem Baldvin[2] í Ási átti og eru nú Kirkjubæjarmenn að aka því heim þessa dagana.
5. febrúar
Steindór kom heim um kl. 3, hann hafði á sleðanum 2 síldarmélspoka og 100 pund rúgmjöl.
6. febrúar
Jóhanna og Reynir komu og töfðu fram í rökkur, mamma prjónaði fyrir hana í prjónavél.
7. febrúar
Steindór fór út í Bryta til þess að sammælast við Steina um að fara yfir að Barká til að sækja töðu. Steindór kaupir þar 20 hesta hey og Steini fær þar 6 hesta af gamalli töðu. Þeir fóru svo um kl. 11 og komu aftur um 8. Steindór hafði á sleðanum 730 pd. af góðri töðu og rekjupoka í ofanálag.
9. febrúar
Reynir kom og Hósi og Ingi á Rauðalæk til þess að grennslast eftir kaupstaðarferð. Manases[3] á Barká kom um kvöldið og gisti.
10. febrúar
Steindór fór í kaupstað með sleða og hest. Honum samferða urðu þeir Steini á Bryta og Pétur á Rauðalæk.
11. febrúar
Steindór kom heim úr kaupstaðnum, hafði hann 800 pd af rúgmjöli á sleðanum, á það að vera til skepnufóðurs. Tryggvi á Neðri-Vindheimum kom með sleða sem Steindór ætlaði að gera við. Við pabbi sóttum tvær ferðir af sverði. Steindór fór um kvöldið ofan að Hörgá til þess að athuga akfæri.
12. febrúar
Steindór fór yfir að Barká til þess að sækja töðu, fór hann með tvö hross og fékk sleða frá Efri-Rauðalæk og svo fékk hann Steingrím á Rauðalæk sér til hjálpar. Ég fór út að Ási til að sækja naut, Baldvin kom með það og Snotru var haldið. Ragnar í Kirkjubæ kom til þess að sækja kartöflur o.fl. Um kvöldið kom Alli til þess að vita um böðun.
13. febrúar
Steindór fór yfir að Barká til að sækja töðu, hann fékk Kára til þess að fara með sér og svo fór Alli yfir um og sótti eitt æki til þess aftur að fá Steindór með sér ofan að Grjótgarði eftir heyi. Komu þeir með restina af þessum tuttugu hestum. Vigtaði það með rekjum og öðru 21 – 22 hesta. Einar Jónsson kom um kl. 3 og var nóttina, Kári var líka nóttina. Steini á Bryta fékk 6 hesta af gamalli töðu á Barká, 8 kr. hestinn, og er hann búinn að sækja það.
14. febrúar
Það var baðað féð frá Ytri-Bægisá hér og var það búið fyrir hádegi. Svo var hérna féð baðað á eftir og hjálpuðu þeir við það Alli og Ragnar en Kári fór með Bægisárféð suður eftir. Búið var að baða um kl. 3. Einar fór héðan eitthvað fram í dal. Reynir kom til þess að fá lánað baðtóbak.
15. febrúar
Ég fór suður í Kirkjubæ með félagsbók.
16. febrúar
Alli kom til þess að láta vita að hann ætli til Akureyrar á morgun með hest og sleða. Hósi kom með blöð og smjörpappír.
18. febrúar
Kristján fór ofan að Hamri og tafði þar allan daginn því það var afmælið hans Hósa. Reynir kom með tóma poka sem Steini hafði fengið lánaða og svo fór Reynir ofan að Hamri í afmælið. Steindór fór ofan að Rauðalæk til þess að sammælast við Pétur í kaupstað í fyrramálið. Svo fór Steindór suður í Kirkjubæ. Ég fór ofan að Hamri um kvöldð með hvölp[4] sem ég bað Þorleif að skjóta. Svo kom Kristján með mér til baka.
19. febrúar
Steindór fór í kaupstað með mjólk á sleða og kom aftur í nótt kl. að ganga 12. Hafði hann á sleðanum 1 poka síldarmjöl og 2 tunnur rúgmjöl með öðru dóti. Kári kom með mjólk frá Kirkjubæ um morguninn.
20. febrúar
Kristján var sendur út í Efri-Rauðalæk og Bryta. Reynir kom með honum aftur. Einar Jónsson kom og ætlar að hjálpa Steindóri við malarakstur.
21. febrúar
Steindór og Einar voru við malarakstur.
22. febrúar
Marinó á Rauðalæk fór inn eftir með mjólk. Einar fór með mjólk héðan út á afleggjara um morguninn og svo óku þeir Einar og Steindór möl allan daginn.
23. febrúar – sunnudagur
Jóhanna og Reynir komu og töfðu æði lengi. Mamma var að prjóna fyrir Jóhönnu en hún bakaði lummur og fleira. Aðalbjörn[5] kom og var að láta vita að hann ætlar í kaupstað á þriðjudaginn. Svo kom Kári og var hér nóttina.
24. febrúar
Það var byrjað að aka möl snemma dags en þá fékk Einar verk í öxlina svo hann varð að hætta en Kári var við mölina til kl. 3, þá fór hann.
25. febrúar
Einar var betri í öxlinni og var hann við malaraksturinn. Þá kom Aðalheiður á Barká og með henni Fríða[6] á Hamri.
26. febrúar
Einar fór suður í Kirkjubæ og gisti.
27. febrúar
Einar kom sunnan að, strokkaði strokkinn og fleira.
28. febrúar
Það var stungið út úr öllum fjárhúsunum og taðinu ekið ofan á tún. Um kvöldið kom Ragnar í Kirkjubæ til að sækja kartöflur og fleira. Alli fór inneftir með mjólk. Hósi á Hamri kom til þess að láta vita að Þorleifur ætlar í kaupstað á morgun.
29. febrúar
Einar fór með mjólk ofan að Hamri og flutti Þorleifur hana til borgarinnar. Svo óku þeir möl, Steindór og Einar, og af því að talsverður nýr snjór er kominn þá höfðu þeir tvö hross fyrir sleðanum. Reynir kom með „Eimreiðina“. Einar fór um kvöldið yfir að samkomuhúsi Skriðuhrepps því þar átti að verða samkoma en þar var fámennt. Einar kom aftur um nóttina. Það var lítið í útvarpinu og kom Fríða á Hamri og Hósi til þess að hlusta og svo var spilað fram yfir miðnætti.
[1] Gísli Jónsson (1914-1990) var sonur Jóhönnu Sigfríðar Sigurðardóttur sem var systir Rósants á Hamri, Jóhannesar elsta á Neðri-Vindheimum og þeirra systkina. Jóhannes var nýfluttur í Neðri-Vindheima og Gísli tekinn við búi í Engimýri af móðurbróður sínum en foreldrar hans bjuggu þar með honum. Gísli giftist síðar Maríu Valgerði Sigtryggsdóttur og bjó með henni víða þar sem nú heitir Hörgársveit.
[2] Baldvin Sigurðsson sem áður bjó á Neðri-Rauðalæk, faðir Sverris í Skógum.
[3] Manases Guðjónsson (1891-1938) síðast og lengst bóndi á Barká, bróðir Kristfinns sem Steinunn langamma tók í fóstur. Manases var giftur Aðalheiði Jónsdóttur (1893-1976) ljósmóður sem tengdist Garðshornsfólkinu.
[4] Þannig talaði pabbi og þetta mun vera gamall framburður, fólk sagði ýmist hvelpur eða hvölpur.
[5] Vísast sá sem að framan er kallaður Alli.
[6] Hallfríður Rósantsdóttir (1898-1988) systir Þorleifs á Hamri.