2. febrúar 1935
Steindór fór inn á Akureyri með Stefáni á Vindheimum og kom heim aftur um kl. 12 um nóttina.
3. febrúar
Steindór fór ofan í Hamar með hest og vagn og kom aftur með tvo poka af síldarméli sem komu innan að í gær. Seinna um daginn fór hann út í Bryta. Kári kom. Í dag var sólskin dálitla stund, fyrsti dagurinn sem séð hefur sól hér svo teljandi sé á þessum vetri síðan á sólstöðum.
4. febrúar
Hörður á Vöglum kom til þess að sækja naut. Steindór fór með það úteftir og kom aftur um kl. 6. Marinó á Rauðalæk kom og ætlaði að finna Steindór og var búinn að bíða æðistund þegar Steindór kom. Marinó vill láta Steindór fara á flokksfund Bændaflokksins sem á að halda bráðlega í Reykjavík. Við stungum út úr húsi.
5. febrúar
Steindór var suður í Kirkjubæ við seinni kláðaböðunina. Stefán[1] á Steðja kom um kl. 9 til að sækja naut. Ég fór með það út eftir, kom inn og drakk kaffi og sá Finnu. Halldór nokkur Hjálmarsson[2] fylgdi til baka en þegar við komum suður á bakkana mættum við Þorsteini á Vindheimum og vildi hann fá nautið heim til sín sem líka varð. Og fylgdi hann svo alla leið suðureftir.
6. febrúar
Steindór var við að þvo framstafninn á húsinu úr sementsvatni. Stungið út úr húsi.
7. febrúar
Í nótt var svo mikið sunnanrok að sumum varð ekki svefnsamt. Brakaði og brast í húsinu en ekki fauk neitt svo ég viti. Kári kom og kvartaði yfir veðrinu í nótt, sagði að Kirkjubæjarmenn hefðu lítið sofið fyrr en með morgni. Steindór var við að þvo húsið að norðan og austan en um kvöldið fór hann út í Rauðalæk og Bryta. Vilborg kom, ætlaði út í Bryta en settist hér að og fór að spinna.
8. febrúar
Í nótt var rok öllu meira en í fyrrinótt. ... Við vorum rétt háttaðir en fórum strax á fætur aftur og fórum við Steindór út til að reyna að njörva niður heyin og tókst það að mestu. Kl. að ganga 3 fór að draga úr veðrinu og fórum við þá að hátta. Þá var komin hríð og frost. Steindór var við að innrétta í ganginum. Ég fór suður í Kirkjubæ með félagsbók, „Jörð“.
9. febrúar
Steindór fór inn á Akureyri til að vera þar á tveimur fundum. Kom ekki aftur fyrr en komið var fram á nótt. Gerða[3] og Kristján fóru ofan að Hamri með blöð. Róslín heitin í Hrauni var jörðuð. Skaðar af veðrinu í nótt eru ekki farnir að vitnast svo ég viti annað en að talsvert fauk af töðu á Ytri-Bægisá.
10. febrúar
Steindór fór út í Bryta og Neðri-Vindheima og suður í Kirkjubæ. Að því búnu fór hann að búa sig til ferðar suður í Reykjavík, fór hann á stað um kl. 3 gangandi út í Vindheima og fékk Stefán með sig á bílnum eitthvað á leið til Akureyrar. Ég fylgdi honum út að Vindheimum.
11. febrúar
Reynir kom með hveiti og bað að baka úr því köku því Jóhanna er inná Akureyri við að láta rafurmagna sig. Árni Jónsson kom, hann er núna á Efri-Rauðalæk að gera við baðstofuna. Kom til að finna tommu nagla.
12. febrúar
Stungið út úr húsinu út og niður. Ég tók eftir einhverri móleitri rönd suður og niður við Bægisárgirðinguna, fór ég angað til að forvitnast um hvað þetta væri og reyndist það vera taða sem fest hefur í vírstrengjunum þegar taðan fauk. Fór ég svo suður og upp í Kirkjubæ til að segja þeim frá því. Þá frétti ég að þak hefði fokið af fjárhúsi í Hallfríðarstaðakoti, skemmst hlaða á Hallfríðarstöðum, fokið þök af hlöðum í Staðartungu, fokið hesthús á Féeggstöðum o.fl.
13. febrúar
Mamma og Vilborg fóru suður að Bægisá og Kirkjubæ. Júlli á Bryta kom til að sækja kökuna.
14. febrúar
Ég fór með slatta í fötu af mjólk ofan að bílnum, annars er engin mjólk látin inneftir núna því 5 kýrnar eru geldar og lítið í hinum. Pabbi fór út í Bryta.
15. febrúar
Gerða fór yfir að Öxnhóli og ætlaði þaðan heim til sín.
16. febrúar
Hósi litli á Hamri kom til þess að bjóða Kristjáni í afmælið sitt á mánudaginn. Í nótt dreymdi mig draum sem hélt fyrir mér vöku frá kl. 1. Mér þótti bærinn hérna, líklega gamli bærinn, vera umsetinn af tveimur bjarndýrum. Var fólkið að reyna að fela sig uppi á bænum. Þá þótti mér annað dýrið ná mér og éta mig að mestu, aðeins eitthvert musl eftir. Litlu seinna fór það en sagði um leið og það fór að það kæmi seinna að sækja afganginn.
18. febrúar
Þorleifur[4] á Laugalandi kom um kl. 9 til að sækja naut. Ég fór með það út eftir og var haldið tveimur beljum þar. Kom heim aftur um kl. 4. Svo fór ég ofan að Hamri um kvöldið til að grennslast eftir Rauð hans Sigursteins og náði í hann og fór með hann heim því hann á að verða hér á fóðri í vetur. Júlli á Bryta kom og ætlaði að hjálpa pabba við útiverkin af því ég fór burtu en verkin fóru þá að verða búin svo hann fór heim aftur.
19. febrúar
Kári kom tímanlega dags, kom með talsímatilkynningu til pabba þar sem hann er kvaddur í síma frá Ytri-kotum. Svo kom Kári aftur seinna til að fá lánaðan sleða. Pabbi fór í símann og var það Pétur[5] á Kotum sem pantaði, hann var að grennslast eftir Neðri-Rauðalæk sem er laus til ábúðar á næsta vori. Ármann og Anna í Ási komu til þess að fá að sjá húsið því þau ætla að kaupa Þverá í vor og byggja þar nýtt íbúðarhús. Töfðu þau hér fram í myrkur.
21. febrúar
Þann dag dó að heimili sínu á Hlöðum Stefán Stefánsson[6] á níræðisaldri, banameinið lungnabólga. Sömuleiðis dó þann dag Guðrún Grímsdóttir[7] á Krossastöðum, fjörgömul manneskja og farin að heilsu og kröftum. Hafði nýlega fengið slag og hafði litla rænu eftir það.
22. febrúar
Jóhanna á Bryta og Reynir komu og voru hér nóttina vegna þess að færið er ekki gott. Ég fór suður í Kirkjubæ til þess að biðja um kaffirót og þétta. Rótina fékk ég en þéttann ekki. Það er kominn talsverður snjór, sæmilegt skíðafæri, bíllinn gengur enn.
23. febrúar
Þegar ég var nýbyrjaður að gefa fénu í morgun kom Gísli Friðfinnsson[8] til að sækja naut fyrir Grím á Krossastöðum. Fór ég svo með bola og vorum við fljótir í ferðum, allt að klukkutíma stans ytra. Gísli fylgdi mér fram að Steðja en svo var ég einn þaðan. Jóhanna og Reynir fóru snemma heim til sín og svo kom Júlli suður eftir til að hjálpa pabba við útiverkin og voru þau langt komin þegar ég kom aftur um kl. 1. Kári kom með boð til Vilborgar frá Ragnari í Koti.
24. febrúar – Góa byrjar
Rósant á Hamri kom með fundarboð og mjólkurnótur fyrir janúar. Vilborg lagði af stað og var ferðinni heitið yfir að Hallfríðarstaðakoti.
25. febrúar
Ásta kom með mjólkurbílnum um kvöldið og nú á að fara að byrja skóli í Ási.
26. febrúar
Frostið 15 – 18 gráður. Allt ætlar að frjósa. Við vorum að reyna að hlaða snjó að skúrdyrunum og veggnum, byrgðum glugga og dyr, það sem hægt er og um kvöldið hitaði ég upp með gasvél úti í gömlu baðstofunni því það ætlar að frjósa í vatnsleiðslupípunum. Baldur[9] á Neðri-Rauðalæk kom til að fá pila í hjól sem Kári átti hér. Ég skrapp út í Efri-Rauðalæk til að grennslast um Ástu því hún kom svo seint af skólanum, svo kom hún litlu seinna.
27. febrúar
Stefán á Steðja kom til að fá naut. Ég fór með það úteftir og kom aftur kl. að ganga 2. Stefán fylgdi mér. Helga á Rauðalæk kom með Ástu og svo fóru þær suður í Syðri-Bægisá.
28. febrúar
Þorleifur á Hamri kom til að fá naut. Ég fór með það ofaneftir og Kristján fékk að fara með. Svo kom Hósi með okkur uppeftir aftur og stansaði stund. Þorleifur skaut hund sem búinn var að halda hér til lengst af í vetur, hann var frá Hrauni. Kári kom með bréf til mín frá Steindóri, býst hann við að koma til Akureyrar 2. mars.
[1] Þetta ár bjó Stefán Nikódemusson á Steðja. Finna sú sem pabbi sá var Engilráð Guðfinna Jónasdóttir (1905-1983), mágkona Stefáns og vinnukona hjá honum á meðan þau bjuggu á Efri-Rauðalæk.
[2] Líklega var þetta Halldór Hjálmarsson (1928-1949) sem hefur verið látinn reka á eftir tudda, börn voru góð í þannig verk. Halldór lést af slysförum á Akureyri.
[3] Líklega fyrrnefnd Gerður Nanna sem hefur verið í Garðshorni um tíma sem vinnukona.
[4] Á þessum tíma var tvíbýli á Laugalandi. Annarsvegar bjó Einar oddviti og kennari og hjá honum voru bræðurnir Árni og Franklín, bræður Steina á Bryta, og fleira fólk. Hinsvegar var Margrét systir þeirra bræðra, ekkja Frímanns afabróður, og börn hennar. Þar á meðal var Sigurbjörg (Bogga) sem var gift Þorleifi Sigurbjörnssyni (1911-1958), bróður Herberts sem var símstöðvarstjóri á Bægisá, sem sótti nautið. Þetta hefur verið eftirsótt naut því að um langa leið var að fara.
[5] Pétur Valdemarsson (1896-1973) síðar bóndi á Neðri-Rauðalæk frá 1935 til 1970, sonur Ingibjargar systur Helgu ömmu. Á þessum tíma átti Pétur heima á Ytrikotum í Norðurárdal.
[6] Stefán Stefánsson (1852-1935) faðir Halldórs sem dó í byrjun janúar þetta ár, sem var faðir Stefáns oddvita sem áður er getið.
[7] Guðrún Grímsdóttir (1853-1935) móðir Gríms bónda á Krossastöðum. Helga amma og hún voru þremenningar af Arnarnesætt.
[8] Gísli Friðfinnsson (1888-1969) bóndi í Hátúni 1914-1917 og Neðri-Vindheimum 1917-1925, síðar verkamaður á Akureyri. Þremenningur við Pálma afa af Stóragerðisætt.
[9] Ekki er vitað hver þessi Baldur var en hann hefur ekki verið heimilisfastur hjá Baldvin á Neðri-Rauðalæk.