Minnisbók Frímanns fyrir árið 1923

Minnisbók Frímanns fyrir árið 1923

Nýársdagur

Mánudagur og ætli þá þetta ár að verða mæðuár að dómi þeirra sem trúa á þessa kenningu og víst er um það að mörgum reynist það svo. Nýársdagur rann upp bjartur og kyrr en kalt. Þann dag var messað að Ytri-Bægisá og fór ég til kirkju ásamt fleirum. Ekkert bar þá til tíðinda svo í frásögur sé færandi. Fám dögum seinna fórum við suður að Kirkjubæ[1], pabbi, Steindór, Kári, Jóhanna og ég. Spiluðum við þar um kvöldið og drukkum súkkulaði og kaffi því nóg var veitt. Næstu daga bar ekkert nýtt við. Tíðin var fremur óstillt en snjólítið og sjaldan mikið frost.
Þá var það á sunnudag 7. janúar að Jón Baldvinsson[2] í Kirkjubæ ætlaði að fara inn á Akureyri með heyæki en þurfti líka að fara með trippi inneftir en gat varla komist einn með allt saman svo það varð úr að ég færi með honum. Ég flýtti mér þá að búa mig því það var komið langt fram á dag. Ég fór í sparifötin mín því þetta átti að verða spássérstúr fyrir mig í og með. Svo fór ég suður að Kofa og eftir stutta stund lögðum við af stað. Þorsteinn[3] á Neðri-Rauðalæk slóst í för með okkur fyrir utan Rauðalækinn og var hann með hest og sleða. Nú bar ekkert til tíðinda og okkur gekk sæmilega vel út fyrir neðan Steðja. Þar mættum við manni með hest og sleða og með honum var annar maður sem ég þekkti dálítið. Hann hét Kristfinnur Guðjónsson og átti heima á Melstað í Glerárþorpi. Hann var á leiðvestur í Skagafjörð og hafði meðferðis tösku með salaríi sem hann ætlaði að selja þar sem hann færi um.
En það hafði lengi bísnað fyrir að ég færi vestur að gamni mínu og nú sá ég það að þarna fékk ég góða samfylgd og eftir að ég hafði bollalagt heilmikið þá ákvað ég að snúa við og það svo rækilega að í staðinn fyrir að fara inn á Akureyri ákvað ég að ferðast vestur í Skagafjörð en samt fylgdi ég Jóni út á milli Krossastaða og Laugalands. Þar sneri ég við og hljóp heim á leið. Það var utan stormur en frostlítið og gott færi svo ég var fljótur heim en samt var orðið hálfdimmt. Fólkið varð mjög forviða þegar ég kom heim þegar það átti von á að ég væri ef til vill inni á Akureyri.

Nú var ég heima daginn eftir því Kiddi kom ekki fyrr en um miðjan dag og svo var líka mánudagur til mæðu. Hann var hér um nóttina, opnaði búðina um kvöldið og var keypt af honum fyrir meira en fimm krónur. Morguninn eftir var nú heldur en ekki ferðahugur í okkur. Ég hugsaði nú bara um mig, klæddist mínum bestu fötum og var öllu leyti svo vel útbúinn sem föng voru á. Utanyfirföt hafði ég að láni og í vasanum hafði ég budduna mína með tíu króna seðli í ef mig skyldi reka upp á sker því allur er varinn góður.
Þegar við höfðum etið það sem við gátum eins og póstshestar og kvatt fólkið og okkur var óskað allra heilla þá lögðum við af stað. Við höfðum sína töskuna hvor á bakinu og sinn krókstafinn hvor og þar að auki poka með tvennum stígvélaskóm í og tvennum skaflaskeifum sem áttu að fara til Steingríms á Silfrastöðum.
Það var utan stormur og hríðar mugga, hálfdimmur og dálítið frost. Fyrsti viðkomustaður okkar var í Kirkjubæ. Þar tók ég tvö bréf og lofaði að koma þeim til skila. Nú héldum við áfram en fyrir utan Syðri-Bægisá er gaddavírsgirðing og þurftum við að stíga yfir hana. Ég fór á undan og gekk vel. Kiddi kom á eftir en rasaði til um leið og hann steig yfir og datt alveg marflatur en meiddi sig þó ekkert en var bara montinn yfir sínu falli, því sagði hann: „Fall er fararheill þegar að heiman er farið.“ Nú héldum við áfram og næst komum við að Efstalandi. Við komum þar inn og fengum súkkulaði og nóg brauð. Kiddi opnaði búðina og það var keypt ofurlítið smávegis. Nú héldum við áfram, það var dálítil utangola og hríð en færið var ágætt og okkur miðaði vel áfram. Við komum að Bakka og Kiddi bauð þar varning sinn en enginn vildi líta á hann. Sama útreið varð á Auðnum.
Næst komum við að Hrauni. Þar var okkur boðið inn og fengum kaffi líka. Var keypt þar fyrir um átta krónur. Þar hef ég aldrei komið fyrri síðan ég man eftir mér. Þar er vel húsaður bær og skemmtilegt fólk. Nú var farið að líða á daginn og við vorum niðri í miðjum dal. Við héldum nú áfram fram yfir hraunið og er það hálf illur vegur og þá var færið líka farið að versna. Snjórinn hélt ekki lengur. Við komum að Engimýri en stönsuðum ekkert. Það var líka að byrja að rökkva. Áfram héldum við en okkur sóttist seint fyrir ófærð, þó komum við í hálfrökkri að Þverbrekku og þar höfðum við hugsað okkur að gista. Við hittum Stefán[4] bónda þar og báðum um að lofa okkur að vera og var það auðsótt mál. Þar áttum við góða og skemmtilega nótt, nógur matur og meira en það og fólkið allt fjöruglegt og skemmtilegt. Óþægileg fannst mér fjóslyktin þar í baðstofunni um kvöldið en svo má illu venjast að gott þyki og fann ég sama sem ekkert til hennar um morguninn.
Við lögðum af stað þaðan þegar albjart var orðið á miðvikudaginn eftir að hafa etið og drukkið okkur fulla. Veðrið var hið besta og útlit fyrir gott veður um daginn. Næst komum við að Bessahlöðum, komum þar inn og ég fékk mjólk að drekka en nú dugði ekki að slóra því við þurftum að ná vestur fyrir heiði þennan dag. Áfram en nú var færið slæmt, broti og óðum við fönnina í kálfa og kné. Nú komum við hvergi við þar til við náðum að Bakkaseli nálægt miðjum degi eða lítið eitt fyrr. Við stönsuðum þar dálitla stund og hvíldum okkur, fengum kaffi og auðvitað var Kiddi að opna búðina. Þá lá nú næst fyrir að leggja á Öxnadalsheiðina. Hún er sögð að vera fjagra tíma lestagangur en nú var snjór á henni og ófærð svo mér leist ekki vel á blikuna en nú var ekki um annað að gera úr því svona var komið. Okkur gekk hægt en slysalaust. Heiðin er eins og dalur sem liggur frá austri til vesturs og hallar henni alltaf ögn til vesturs. Þegar við komum vestur hjá Grjótá sáum við að snjórinn fór óðum minnkandi eftir því sem vestar dró og varð hálfrautt með pörtum svo við fórum nú að ganga harðara. Grjótáin kemur úr svokölluðm Grjótárdal sem er að norðanverðu í dalnum. Rennur hún fyrst þvert ofan en beygir svo við og rennur í vestur og er djúpt gil að henni með pörtum og liggur vegurinn að norðanverðu við hana. Víða eru þvergil og er bratt og illt að fara yfir sum þeirra. En áfram varð að halda hvað sem tautaði og mér var farið að þykja þetta nokkuð langt eins og oft vill verða þegar maður fer þar sem maður er ókunnugur. Og nú var farið að rökkva og þegar við komum vestur í heiðarsporð var orðið aldimmt en eina bótin var að Kiddi var kunnugur þarna, var búinn að vera þarna mörg ár. Nú komum við að Norðuránni og var ís á henni og komumst við klakklaust fyrir hana. Hér í Norðurárdalnum var mjög lítill snjór en það var svo dimmt að ég sá lítið hvernig umhorfs var en bráðum komum við að grjótgarði og þegar við komum yfir hann þá komum við að bæ. Það voru Fremri-Kot og hér bjó frændfólk mitt, föðursystir mín Arnbjörg og maður hennar Valdemar og tveir synir þeirra, Gunnar og Guðmundur og svo er vinnukerling sem Helga hét.

 

Áramót 1923-1924

Nú er þetta ár á enda, tíminn líður og sérhver liðin stund er sem draumur sem mann dreymir um nótt og hugsar til að morgni en sá draumur er veruleiki og gaman er að hugsa um allt það fagra og góða sem mætir mönnum. Að hugsa til allra þeirra gjafa sem að er rétt og vér meðtökum með gleði. Vér lifum öll í guðs ríki og guð er algóður og þess vegna er allt gott sem er í guðs ríki. En nú eru sumir menn svo svartsýnir að finnast allt illt sem er í kringum þá og geta ekki séð neitt gott eða metið það að neinu. Þeir menn skapa sér vont hugarfar og þeim líður ætíð illa. Það er afleiðing af orsök.
En þeir menn sem eru ánægðir með allt og alla, þeir eru ætíð glaðir og öllum góðum mönnum líkar vel við þá en hinir öfunda þá og jafnvel hata þá en enginn getur hatað nema sá sem hefur vont hugarfar.
Nú þegar horft er yfir þetta liðna ár þá er mjög margs að minnast en frá mínu sjónarmiði eru það allt góðar og fagrar endurminningar, allt góður draumur sem skilur eftir bjartar myndir. En svo gæti einhver sagt að ég hefði ekki þurft að reyna neitt mótdrægt og er það að sönnu satt.
Ég hef á þessu ári fært út minn sjóndeildarhring, bæði andlega og líkamlega, sem fer vanalega saman. Á þessu ári hef ég í fyrsta sinn á æfinni ferðast burt úr þessari sveit og vestur í Skagafjörð og var ég hálfsmánaðartíma í burtu. Í fyrsta sinn á ævinni lá ég í tjaldi. Það var við vegavinnuna og hélt ég þar til í fleiri vikur með kátum félögum og svo mætti margt telja sem fyrir hefur komið.
Síðasta vikan af þessu liðna ári var mjög góð hvað tíðina snertir, frost lítið og stillt og glaða tunglskin á næturnar, snjólítið en jörðin mikið svelluð. Var unaðslegt að vera úti, hvort heldur var á nótt eða degi. Á annan dag jóla fórum við Steindór og Kári ofan að Laugalandi á sleða og var Rauðku litlu beitt fyrir sleðann. Við töfðum þar fram á nótt og fórum við Steindór heim um nóttina en Kári varð eftir.

 

 

 

[1] Hér talar pabbi fyrst um Kirkjubæ að því er séð verður en þannig var nefndur bærinn sem nú heitir Ytri-Bægisá II og svo var hann kallaður fram yfir 1946.

[2] Jón Baldvinsson (1877-1955) hafði áður búið í Geirhildargörðum en var síðar skipstjóri á Akureyri. Kona hans var Guðrún Hallgrímsdóttir (1891-1980) sem var systir Kristínar (1892-1997)sem síðar kemur við sögu á Neðri-Rauðalæk.

[3] Þorsteinn Þorsteinsson (1864-1957) frá Naustum bjó á Neðri-Rauðalæk 1920-1922. Kona hans var Ragnheiður Hallgrímsdóttir (1870-1924) úr Blönduhlíð í Skagafirði. Þau tengsl hafa valdið þvi að þau tóku við mæðgunum Karítasi og Svöfu sem áður eru nefndar.

[4] Þorsteinn Þorsteinsson (1864-1957) frá Naustum bjó á Neðri-Rauðalæk 1920-1922. Kona hans var Ragnheiður Hallgrímsdóttir (1870-1924) úr Blönduhlíð í Skagafirði. Þau tengsl hafa valdið þvi að þau tóku við mæðgunum Karítasi og Svöfu sem áður eru nefndar.