Maí 1944

Maí 1944

1. maí
Klökknaði dálítið síðdegis. Kristján fór í bæinn og kom ekki aftur. Bjarni lá í rúminu með hita og gikt í herðunum. Steini á Bryta kom með útsæði til spírunar. Ég fór ofan í Hamar um kvöldið.

2. maí
Kristján kom heim úr bænum. Lauga[1] á Hellulandi kom og gisti. Steinþór á Vindheimum kom með sitthvað til að gera við á „bodíið“ hans Baldurs. Steindór er að gera við það. Ég fór í síma um kvöldið.

3. maí
Kristján keyrði mykju suður og ofan á nýrækt, svo fór hann suður í Kirkjubæ um kvöldið. Þorsteinn á Vindheimum kom til að fá skerptan bor.

4. maí
Það var afmælið hennar Friðgerðar og drukkið súkkulaði og kaffi. Kristján flutti mykju og svo fór hann um kvöldið út í Rauðalæk til að fá egg undir hænu. Bjarni klæddi sig og gaf fénu um kvöldið.

5. maí
Ég fór suður í Bægisá til að kveikja á kirkjuofninum því það átti að yfirheyra börn þar. Guðfinna fór ofan í Rauðalæk til að prjóna á vél. Við vorum að flytja úr sauðataðsröst og hreyta.

6. maí
Emma á Bægisá kom með símboð til Steindórs og fór hann strax suðureftir en þá náðist aldrei samband við Akureyri. Við herfuðum sauðataðsröst[2] og sumt af henni var flutt úr og svo var slóðað yfir það sem ausið var í gær og líka gamalt hreytitað. Kristján fór út í Rauðalæk til að fá egg undir hænu.

7. maí
Jón á Skjaldarstöðum kom og ég járnaði fyrir hann hest. Árni Jónsson kom og með honum Tryggvi á „Mjölni“. Árni var hér nóttina. Kristján fór á samkomu yfir á Mela. Steindór fór suður í Syðri-Bægisá um kvöldið með altarisdúk. Og líka fór hann suður í Kirkjubæ fyrripartinn til að sækja póst og tjarga þak. Gísli í Kirkjubæ kom og svo fór Bjarni með honum í tamningatúr fram í Hörgárdal. Ein ær bar tveimur lifandi lömbum upp með læk 2 dögum fyrir tal.

8. maí
Við Kristján gerðum við girðingu seinnipartinn. Steindór keyrði mykju suður og ofan á nýrækt.

9. maí
Steindór herfaði fyrripartinn gamalt hreytitað en seinnipartinn var flutt úr sauðataðsröst og sumu hreytt. Steini á Bryta kom með útsæði og fékk 138 pd töðu. Bjarni fór út í Rauðalæk til að sækja hross. Kristján sótti „batterí“ ofan í Rauðalæk.

10. maí
Ég dreifði 6 kössum[3] úr þvaggryfjunni fyrripartinn. Steindór og Kristján hreyttu úr sauðataðshlössum og svo herfaði Steindór það seinnipartinn.

11. maí
Við létum allt féð inn en annars hefur geldfé legið nokkrar nætur. Ærnar eru að byrja að bera, eru nú 6 bornar og aðeins 1 tvílembd. Steindór byrjaði að laga geymsluna fyrir eldhús.

12. maí
Ég var lengst af að dreifa úr þvaggryfjunni. Rósant í Ási kom og fékk 520 pd af töðu og borgaði hann um leið 80 kr. Steini á Bryta kom og fékk 140 pd af töðu. Kristján fór ofan í Hamar.

13. maí
Árni á Hallfríðarstöðum kom og fékk 100 pd af útsæðiskartöflum.

14. maí
Ég fór suður í Bægisá til að kveikja í kirkjuofninum því það var verið að yfirheyra fermingarbörn. Svo fór ég ofan í Kirkjubæ og tók þar póst og kringlupoka sem keyptur var fyrir mig í gær. Mamma og Kristján fóru út í Bryta o.fl. Gísli og Finni í Kirkjubæ komu og svo fór Bjarni með þeim í tamningatúr yfir að Barká og Tungu. Guðbjörn kom og ætlaði að finna Bjarna. Ragnar í Koti kom hér heim til að tala um folageldingar.

15. maí
Ég var að herfa lengi dags á túninu. Ævar á Steðja kom með bækur og umburðarbréf. Kristján fór ofan í Hamar.

16. maí
Steindór fór í kaupstað. Ég herfaði á túninu.

17. maí
Við Bjarni fórum með brúna folann yfir í Kot því það á að vana hann þar bráðlega.

18. maí
Bjarni og Steindór fóru út í Laugaland og Hvamm. Hósi, Siggi og Kjartan komu. Ég fór tvisvar suður í Bægisá í síma. Kristján fór á bæi. Sverrir í Skógum kom í kosningaundirbúningi.

19. maí
Við fluttum og herfuðum skít í garðana og svo plægðu þeir Kristján og Steindór efri garðinn um kvöldið.

20. maí
Það var fyrsti dagur lýðveldiskosninganna og fórum við öll á bíl inn á Þinghús nema Bjarni og Friðgerður. Þar voru seld merki Landgræðslusjóðs og keypti ég eitt á kr. 10. Þar var líka leitað samskota til sjúkrahúsbyggingar á Akureyri og lét ég 30 kr til þess. Einnig greidd atkvæði um stofnun sjúkrasamlags í hreppnum og safnað undirskriftum að fyrirhugaðri símalagningu fyrir hreppinn.

21. maí – sunnudagur
Ég fór út í Bryta. Bjarni fór í tamningatúr. Kristján fór á bæi. Ég missti eitt lamb.

22. maí
Við fluttum á völl frá húsinu út og niður. Seinnipartinn dreifðum við útlendum áburði. Kristján fór í vegavinnu fram í dal.

23. maí
Það var herfað og hreytt. Steini á Bryta kom. Guðni Jónasson kom og keypti Laufu fyrir 800 kr. og fór með hana á bíl. Pálmi[4] á Björgum keyrði. Við byrjuðum að setja ofan í kartöflugarð.

24. maí
Krapahríð. Við fórum út kl. að ganga 3 um nóttina til að láta féð inn. Náðum við um 90, flestum bornum og öllum óbornum sem eftir voru.

 

 

[1] Gunnlaug Gunnlaugsdóttir (1882-1968) húsfreyja á Hellulandi, gift en átti ekki börn. Engin ættartengsl við Garðshornsfólkið.

[2] Líklega var sauðataðsröst langur haugur af sauðataði sem stungið var út úr fjárhúsum og borið í þennan langa haug framan við fjárhúsin. Síðan var taðinu keyrt út á tún og sturtað í haug úr kerrunni. Síðan er dreift úr haugnum (taðinu hreytt) og loks er taðið herfað niður í grasrótina.

[3] Kúahlandinu úr gryfjunni hefur verið ekið í einhvers konar kassa og úr honum var því dreift um túnið. Síðar var hlandinu dælt upp í stóra tunnu og úr henni var því dreift um túnið með því að tunnan var dregin á hjólum um túnið og aftan á tunnunni var dreifari.

[4] Jón Pálmi Jóhannsson (1911-1997) síðar bifvélavirki á Dalvík, afi Jóns Pálma Óskarssonar læknis á Akureyri.