September 1936
1. september
Það var bundið seinnipartinn 24 hestar úthey og 2 hestar há. Fríða Ulfrich[1] kom með símaboð til Steindórs og svo kom sr. Theódór líka seinna í sömu erindagjörðum. Steindór fór svo í síma til viðtals við Víðimýri.
3. september
Hríðarhrím á jörðu og frost í nótt. Við slógum og rökuðum. Steindór fór út í Bryta um kvöldið.
4. september
Við vorum að láta í seinni votheysgryfjuna. Reynir var hér og sló með vélinni. Haraldur Sigurðsson kom og gisti.
5. september
Við slógum. Leónharð á Grjótgarði kom til að biðja um að fá að vera.
6. september
Pabbi fór út í Bryta. Steingrímur á Rauðalæk kom til að láta Þóru vita um ball yfir á Náströnd.
7. september
Við slógum og bættum á í votheystótt. Haraldur fór með bílnum. Eftir háttatíma komu þeir Kári – hann er með mjólkurbíl – og Einar Jónsson og gistu.
8. september
Heyi var ekið heim á tún. Kristján fór út í Bryta.
9. september
Við slógum, rökuðum og fluttum á þurrt. Drengur frá Hólum kom til að sækja hænsn sem Kári skildi hér eftir í gærmorgun.
10. september
Við slógum út og niður í engi og var rakað og flutt heim á grund seinnipartinn.
11. september
Við vorum að slá og raka og flytja. Guðmundur Árnason bæjarpóstur á Akureyri kom með frú, ætluðu þau að tína ber en fundu lítið.
12. september
Við slógum í flóanum og fluttum heyið heim og bættum því í votheysgryfjuna. Kári kom og gisti.
13. september – sunnudagur
Eiríkur kom og Jón á Skjaldarstöðum kom og fékk 10 torfur á vagn og rúmstæði hjá pabba. Fríða Ulfrich kom og tafði lengi. Marinó á Rauðalæk kom til þess að sækja heyhitamæli. Bjarni Friðriksson kom með Medusa(?). Kári var hér um kyrrt, hann hefur taugagikt í höfðinu.
14. september
Við dreifðum og snerum og fönguðum aftur, sama sem ekkert þornaði út. Hósi kom til að biðja um hrífuhaus.
15. september
Við náðum mestöllu heyinu í bólstra og breiddum yfir þá og bjuggum lítillega um þá fyrir veðri. Sr. Theódór kom. Um kl. 11 um kvöldið hvessti allskyndilega á sunnan og fórum við Steindór þá út og setum á bólstrana, voru 3 þá komnir um og líka háar sátur. Vorum við að bjástra við heyið þar til kl. langt gengin 4.
16. september
Það var lítið hægt að gera vegna stormsins.
17. september
Við vorum að baksa við að setja hána í poka og flytja heim í hlöðu. Hún var öll í beðjum og fokdreifum. Miklar fréttir berast um skaða af storminum bæði á sjó og landi.
18. september
Steindór fór í kaupstað með Stebba. Ég náði í gamalá (Hornsloppu) og henni var slátrað. Við pabbi bundum 12 hesta af heyi. Það voru bólstursbeðjur sem fokið höfðu um í storminum. Á að giska 6 til 8 hestar hafa fokið, mest há.
19. september
Við bundum heyið sem eftir var og fullgerðum með því hey upp við húsin sem var hálfillt fyrir golu. Afgangurinn af heyinu fór í hlöðurnar, alls var bundið 35 hestar.
20. september – sunnudagur
Það hefur rignt – hús leka mikið. Steindór fór út í Bryta og Rauðalæk og svo fór hann fram í Bakkasel til að ganga þar á morgun. Við rákum saman og settum féð í hólfið. Haukur[2] frá Hóli kom og gisti. Hann er gangnamaður á Bægisárdal.
21. september – fyrstu göngur
Ég fór ofan að Vaglarétt til að sækja fé. Kristján fór ofan að Rauðalæk.
22. september
Steindór kom heim úr göngum með féð sem við áttum í Þverárrétt. Ingi á Rauðalæk kom. Um kvöldið kom Tryggvi[3] á Nunnuhól og gisti.
23. september
Ég byrjaði að grafa fyrir þvaggryfju sem á að steypa. Steingrímur Baldvinsson[4] kom um kvöldið og gisti. Það var lokið við að taka upp úr görðunum.
24. september
Mamma og Kristján fóru með Steingrími út í Bryta.
25. september
Ég sótti nokkrar kerrur af sandi suður að hóli[5]. Pabbi fór með Steingrími ofan að Rauðalæk.
26. september
Steingrímur fór með bílnum. Jakob dráttarvélarstjóri gekk hér um og einnig Júlli og Reynir.
27. september – sunnudagur
Við rákum saman og bólusettum það sem náðist í til þeirra hluta. Jón á Skjaldarstöðum kom og fékk 12 torfur á vagn. Pabbi fór út í Bryta. Ég fór suður í Syðri-Bægisá.
28. september
Steindór fór í göngur og var hér með bæjum.
29. september
Marinó á Rauðalæk kom og bað mig að bólusetja fyrir sig og fór ég úteftir með honum til þess og svo bólusetti ég fyrir Steina á Bryta um kvöldið. Steindór og pabbi fóru með sláturfé ofan á Skógabakka um kvöldið.
30. september
Steindór fór inneftir með féð og var því slátrað hjá KEA. Það voru 77 dilkar og jöfnuðu þeir sig upp með tæp 30 pd skrokkurinn. Steindór kom heim um kvöldið og kom með svartan hrútdilk sem fór alltaf á undan rekstrinum. Ragnar Guðmundsson kom hér heim með honum og gisti hér. Jakob kom með dráttarvélina og byrjaði að vinna hér.
[1] Fríða Ulfrich var dóttir þýskra hjóna sem voru í vinnumennsku hjá Benedikt á Ytri-Bægisá á árunum fyrir stríð.
[2] Líklega Haukur Bogason Arnars (1919-2012) frá Syðra-Hóli í Kræklingahlíð.
[3] Sigtryggur Sigtryggsson (1890-1972) bóndi í Lönguhlíð, Nunnuhóli og Hraunshöfða, faðir Maríu Valgerðar sem giftist Gísla Jónssyni sem var í Kirkjubæ.
[4] Steingrímur Árni Baldvinsson (1894-1985) systursonur Helgu ömmu, var lengst á Búðarhóli í Ólafsfirði og Ingibjargar móður Péturs á Rauðalæk.
[5] Líklega var sótt í malargryfjuna suður við Garðshornshól.