Minnisbók fyrir árið 1932

Minnisbók Frímanns 1932

21. apríl – Sumardagurinn fyrsti

Mamma fór ofan í Neðri-Rauðalæk. Steindór fór út í Bryta[1]. Anna í Kirkjubæ kom, ætlaði að finna mömmu en þá var hún ekki heima.

22. apríl

Ég hafði úti féð á annan tíma en dró sama sem ekkert af. Seinnipartinn var verið að aka möl og grjóti ofan að hliði[2].

23. apríl

Ég hafði úti ærnar um tíma, dró af um 1/8 part. Steindór ók 10 skítahlössum ofan á nýrækt[3].

24. apríl – sunnudagur

Ef sumarið fer eftir veðrinu þennan dag þá verður það ekkert sælgæti. Tíðindalaust. Kári fór út í Bryta.

1. maí

Ég hef haft féð úti alla daga og dregið af um og yfir hálfa gjöf. Flest er það fyrir ofan og þarf ég að smala á kvöldin. Eina á vantaði tvær nætur, var hún fyrri nóttina á Ytri-Bægisá en seinni nóttina var hún uppi á húsum á Syðri-Bægisá og sótti ég hana þangað á föstudag.
Sýslufundur var haldinn á Akureyri fyrri part vikunnar og aðalfundur KEA á föstudag og laugardag. Hreppsfundur á Þinghúsinu á þriðjudag. Steindór fór þangað og svo fór hann inneftir á föstudag og kom heim í nótt. Svo fór hann yfir að Barká í dag, ríðandi, og svo inn á Akureyri með Eggert[4] seinni partinn og ætlar að verða þar eitthvað. Steini á Bryta lagði á stað til Akureyrar í dag með ársgamalt naut sem hann ætlar að selja Ólafi[5] á Gróðrarstöðinni. Kári fór með honum. Í gær komu þær Anna[6] í Kirkjubæ og frk. Jóhanna Guðmundsdóttir. Í dag kom Fríða á Hamri og Setta[7].

 

 

[1] Nú búa Jóhanna og Steini á Bryta ásamt Reyni syni sínum.

[2] Nú er verið að draga að byggingarefni í íbúðarhúsið sem var byggt á árunum 1932 til 1934. Ég átta mig ekki á hvaðan þessi möl og grjótið var flutt né ofan að hvaða hliði.

[3] Nýræktin er líklega sunnan við heimreiðina í Garðshorn, þau tún gengu alla tíð undir nafninu Nýrækt.

[4] Hér hafa verið hafnar reglulegar ferðir með mjólk úr dölunum og bílstjóri hefur verið Eggert Davíðsson (1909-1979) frá Möðruvöllum.

[5] Ólafur Jónsson (1895-1980) ráðunautur og rithöfundur.

[6] Ekki er vitað hverjar Anna í Kirkjubæ og frk. Jóhanna Guðmundsdóttir voru. Á Ytri-Bægisá voru á þessum tíma tökubarnið Anna Kristín Jónsdóttir og prestfrúin Jóhanna Gunnarsdóttir en varla getur verið átt við þær. Það er líka óvíst hver þessi Anna Kristín var en hún er fyrst skráð á Ytri-Bægisá 1922, þá tveggja ára. Helst kemur til greina að hún hafi verið barn barnmargra hjóna í Reykjavík, Jóns Hjörleifssonar og Margrétar Ólafíu Runólfsdóttur og hún hefur þá verið fædd 28. ágúst 1919, dáin 15. júni 1951, þá skráð Cashbough.

[7] Fríða á Hamri var Hallfríður Rósantsdóttir (1898-1988), systir Þorleifs, en ekki er vitað hver Setta var, líklega var hún aldrei heimilisföst á Hamri.