Febrúar 1946

Febrúar 1946

1 febrúar
Siggi á Hamri kom með kjól sem Fríða hefur saumað fyrir Guðfinnu.

2 febrúar
Kristján fór suður í Kirkjubæ.

3 febrúar
Norðaustan lenjuhríð. Það átti að messa á Bægisá og fór Steini suðureftir og ætlaði að tala við prestinn í síma en það náðist ekki samband vegna símabilunar. Steini kveikti ekki á ofninum vegna veðurs en svo kom presturinn því það var betra veður ytra en það kom enginn til messu. Baldur tók mjólk um 4 leytið og fór Kristján með honum inneftir. Snorri á Bægisá kom og bað mig að taka gröf fyrir Þórlaugu[1] konu hans sem andaðist á Kristneshæli síðastliðinn fimmtudag eða föstudag.

4 febrúar
Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum og ætlar að hjálpa Árna til að baða á morgun. Þorleifur á Hamri kom og fékk lánaða samlagsfötu.

5 febrúar
Kristján fór inneftir með Baldri, kom aftur um kvöldið og líka komu Reynir og Kristín Jónsdóttir og gistu. Steini kom heim um kvöldið.

6 febrúar
Kristján fór inneftir og Guðfinna til að finna augnlækni og fékk hún ný gleraugu. Helgi á Bægisá kom með bækur. Kristín var hér um kyrrt í dag.

7 febrúar
Kristján fór inneftir með Baldri. Við Steini tókum gröf í Bægisárkirkjugarði. Ég fór suður í Syðri-Bægisá og Snorri kom með mér úteftir og tók til grafarstæðið. Kristín var um kyrrt.

8 febrúar
Kristján var hjá Gísla í Kirkjubæ í dag. Steindór kom heim um kvöldið.

9 febrúar
Moldhríð. Þá var Þórlaug á Syðri-Bægisá til moldar borin. Steindór fór suður í Syðri-Bægisá og var þar við húskveðju en við Steini fórum ekki nema í kirkjuna og biðum þar. Líkfylgdin kom úteftir kl. að ganga 3 og fór þá veðrið óðum versnandi og var komin moldhríð þegar kistan var látin í gröfina og iðulaust kóf á meðan við mokuðum ofaní.

10 febrúar
Snjóhreytingur. Sveinn fór heim til sín og kom ekki aftur. Baldur kom innanað með dunkana seint í dag og var allt að 4 tíma á leiðinni. Svo fór hann með fólk frá Syðri-Bægisá inneftir. Það var við jarðarförina í gær. Steindór fór með bílnum inneftir. Siggi á Hamri kom og bað mig að kalksprauta kú á Hamri og gerði ég það.

11 febrúar
Kristján fór með Baldri. Ég og Steini fórum suður í Syðri-Bægisá í heimboð. Steini tafði fram á háttatíma en ég skemur. Sveinn kom heim.

12 febrúar
Ég fór til Akureyrar með mjólkurbílnum og keypti sitt af hverju. Stefán á Barká kom og fékk 100 pd af kartöflum, borgaði 45 kr. Ingvi í Skógum og Fúsi á Rauðalæk komu.

13 febrúar
Steini og Kristján fóru suður í Bægisá og sóttu tvo kirkjubekki. Ég fór suður í Bægisá og talaði við Önnu á Þverá í síma, svo fór ég ofan í Kirkjubæ og Hamar og út í Brúnastaði. Síða bar og átti gráskjöldótt naut.

14 febrúar
Þá var sjötugsafmælið hans pabba og var búist við gestum í því tilefni, var búið að baka og sjóða, skúra og þvo o.s.frv. Við vorum búnir með útiverk um hádegi og fórum þá í betri fötin. Fyrst kom Fríða á Hamri og var hún að hjálpa við framreiðslu. Svo kom Benedikt í Kirkjubæ ríðandi og var hann sá eini er þannig kom.

(Hér hefur greinilega verið ætlunin að lýsa veislunni nánar og skilin eftir auð síða fyrir þá lýsingu. Hér hefur t.d. átt að koma fram að „litli drengurinn“ hafi verið skírður Gunnar)

15 febrúar
Pétur á Rauðalæk kom og bað um rörtöng að láni en hún var í láni í Kirkjubæ. Sveinn er lasinn og fór inneftir til að finna lækni. Hann kom ekki aftur um kvöldið.

16 febrúar
Við stungum út úr einni og hálfri kró og Kristján keyrði því frá á bílnum. Svo fór hann á skrall inn í þorp um kvöldið.

17 febrúar
Jóhannes á Steðja kom með nýbundnar bækur og fékk bækur til að binda. Sveinn kom heim en þarf að vera undir læknishendi eitthvað fyrst.

22 febrúar
Ingvi í Skógum kom með fundarboð en ég fór með suður í Kirkjubæ um kvöldið.

23 febrúar
Steini gerði tvær tilraunir til að koma bréfi fram í Myrká með bíl en tókst ekki. Kristján fór á leik til Akureyrar um kvöldið.

24 febrúar
Steini fór gangandi fram í Myrká. Kristján fór í bæinn með mjólkurbílnum sem tók sunnudagsmjólk um kl. 3.

25 febrúar
Kristján og Sveinn komu heim eftir háttatíma. Sveinn er eitthvað betri en ekki góður.

26 febrúar
Pétur á Rauðalæk kom.

27 febrúar
Þá komu þeir í fólksbíl Steindór og Júlli Hjálmar og stönsuðu um stund. Steindór var eitthvað lítilsháttar lasinn. Kristján fór á spilaraæfingu út í Vindheima.

28 febrúar
Kristján var hjá Gísla í Kirkjubæ. Ingi á Rauðalæk kom.

 

 

 

[1] Þórlaug Þorfinnsdóttir (1889-1946) úr Svarfaðardal, húsfreyja á Syðri-Bægisá frá 1914.