Mars 1935

Mars 1935

1. mars
Ásta og Kristján fóru suður í Kirkjubæ til þess að sækja gúmmílím dót og svo bætti ég annað stígvélið hennar Ástu um kvöldið.

2. mars – laugardagur
Ásta fór heim til sín af skólanum. Ég fór í veg fyrir Eggert um kvöldið til að vita hvort hann vissi nokkuð um Steindór. En Goðafoss var ekki kominn til Akureyrar þegar hann fór þaðan.

3. mars
Kristbjörg[1] á Efri-Rauðalæk og Soffía á Neðri-Rauðalæk komu og töfðu fram á kvöld. Einnig Júlli á Bryta. Hann kom með félagsbók, „Kossar“ og stígvél sem hann bað mig að bæta. Ærnar voru úti dálitla stund en afdráttur enginn. Stefán tók mjólk. Kári kom og skilaði sleða sem lánaður var suðureftir og líka nokkrum borðum.

4. mars
Steindór kom heim úr Reykjavíkurförinni. Hann kom til Akureyrar í gær og frameftir með mjólkurbílnum í dag. Kom hann með dálítinn flutninga sem ég sótti ofan að vegi á tvo sleða. Einnig kom með bílnum Gunnar [2]í Bólu, kom hann hér heim og var nóttina. Ásta kom af skólanum. Þorleifur á Hamri kom og fékk keypt baðtóbak fyrir 0,85 kr. Grána fékk hrossasótt[3] og setti ég ofan í hana 50 dropa af kransaugnadropum og var hún orðin góð um kvöldið.

5. mars
Ég fylgdi Gunnari fram í Neðstaland, fór með Jarp og reið Gunnar frameftir en ég heim aftur. Svo járnuðum við Jarp seinna um daginn. Steindór var við að smíða kassa til að aka í möl og mykju og þess háttar. Um kvöldið kom Ingólfur[4] í Bakkaseli með tvo hesta og fékk að vera nóttina.

6. mars
Baldur á Neðri-Rauðalæk kom um morguninn til að fá naut. Steindór fór með það. Kristján fór suður í Kirkjubæ til að skila kaffirót. Ingólfur fór inneftir með bílnum en hestarnir hans urðu hér eftir, svo kom hann aftur seint um kvöldið og gisti.

7. mars
Ingólfur lagði af stað tímanlega dags áleiðis heim til sín. Júlli á Bryta kom með boð til mömmu. Ég fór suður á Kirkjubæ með bók, „Kossar“. Um kvöldið kom Pétur[5] á Kotum með tvo hesta og gisti.

8. mars
Pétur ætlar að grennslast eftir byggingu á Neðri-Rauðalæk o.þ.h. Pabbi fór með honum ofan eftir og svo fóru þeir út í Ás til að finnar Einar því það er hann sem byggir jörðina. Svo komu þeir við á Efri-Rauðalæk á heimleiðinni. Enga samninga gerði Pétur og ákvað ekkert vegna þess að hann hefur ekki sagt Kotum lausum. Svo lagði hann á stað í rökkursbyrjun eitthvað fram í dalinn.

9. mars
Í dag var Stefán á Hlöðum jarðaður. Mamma fór þangað úteftir, fór með bílnum út að vegamótum og kom með honum frá Laugalandi.

10. mars
Helga á Neðri-Rauðalæk kom til að finna Ástu og svo fóru þær báðar suður í Syðri-Bægisá. Hósi á Hamri kom með fitumælingarglösin og tafði hér fram undir rökkur. Reynir kom með tvö bréf. Steindór fór suður í Kirkjubæ og yfir að Öxnhóli. Búkolla lét kálfi í nótt rétt fimm vikum fyrir tal. Það voru 5 merkur í henni samtals í dag.

11. mars
Kári kom til að fá lánaða sápu og fleira. Júlli á Bryta kom til að sækja naut, fór Steindór með það úteftir og á leið heim aftur en Júlli kom með það síðasta spölinn en Steindór fór út í Ás til að gera skýrslur. Kristján fór með út í Bryta.

12. mars
Steindór byrjaði að herfa flag hér út og niður í túninu. Hafði hann Jarp og Gráskjónu og svo var Bryta-Jarpur fenginn lánaður. Júlli kom með hann tímanlega í dag. Jörðin er orðin mikið þíð, allt að hálfri stungu. Ég hafði féð ekkert úti af því það var svo hvasst, annars hef ég hleypt út þegar ég hef verið búinn að gefa en sama sem ekkert dregið af.

13. mars
Kristján fór suður í Kirkjubæ með bréf til prestsins, kom aftur með póst. Fór svo ofan í Hamar með blöð. Svo kom Hósi með honum aftur og tafði æðistund. Steindór var við að herfa seinni partinn í flaginu.

14. mars
Steindór var við að herfa flagið.

15. mars
Mamma fór út í Neðri- og Efri-Rauðalæk, var að hlusta á útvarp um kvöldið og fór ég út eftir um háttatíma til að fylgja henni heim. Kristján fór ofan að Hamri og tafði þar æði lengi. Jón[6] á Skjaldarstöðum kom ríðandi, var hann að biðja Steindór að gera við kerrukassa fyrir sig sem fokið hafði og brotnað í rokinu 8. febrúar. Steindór var við að líma bréf í ganginn.

16. mars
Skólinn í Ási hætti í dag svo Ásta fór heim til sín. Ég fór út í Bryta með Jarp sem hefur verið hér síðan á þriðjudag. Steindór var við að strigaleggja og bréfleggja ganginn. Blesa bar seint um daginn.

17. mars
Kristín Gísladóttir[7] kom, hefur hún verið um tíma á Skjaldarstöðum. Steindór litli kom með henni og voru þau hér bæði nóttina. Steindór kom með kerruræfilinn sem Jón var að biðja hann að gera við. Kári kom og tafði.

18. mars
Steindór Valberg[8] hélt heimleiðis tímanlega dags. En Kristín var hér um kyrrt og var að sauma. Pabbi fór yfir að Öxnhóli.

19. mars
Kristín ætlaði með bílnum inneftir en hætti við það vegna veðurs og var hér um kyrrt og saumaði. Steindór fór með mjólk í dunk sem átti að fara inneftir en varð of seinn því bíllinn var farinn.

20. mars
Kristín fór með bílnum til Akureyrar. Það var afmælið hans Reynis í dag og öllum boðið út eftir héðan en af því veðrið var svo leiðinlegt og líka komin talsverð fönn svo ekki er gott að ganga þá fór enginn úteftir. Það var slátrað kálfinum hennar Blesu.

21. mars
Um kvöldið komu þeir Kári og Einar Sesilíus, var farið að spila og spilað til kl. 12.

22. mars
Rósant á Hamri kom til þess að fá smíðað stykki í hrosshársrokkinn sinn og líka til að fá ögn af baðtóbaki[9] handa gemlingunum sem hafa illt í maga. Það var látið inn dálítið af heyi.

23. mars
Við fluttum heim dálítið af töðu, Steindór var seinnipartinn við að gera við kerrukassann hans Jóns.

24. mars
Pabbi og Kristján fóru út í Bryta á skíðum. Drengur frá Neðri-Vindheimum, Jóhannes Jóhannesson[10], kom til þess að sækja naut. Steindór fór með það úteftir. Um kvöldið bar Kola og vakti Steindór eitthvað fram eftir yfir henni.

25. mars
Steindór var að mála forstofuna og ganginn á loftinu. Kári kom. Það berast stöðugt fréttir um að skepnur séu að drepast, helst kýr og er kennt um slæmu fóðri.
Það er afmælið hennar mömmu í dag og er hún þá sextíu ára.

26. mars
Steindór var við að mála. Það er einhver ólukka í Blesu, líklega helst í fótunum á henni. Samt mjólkar hún 12-13 merkur en hún er ógnarlega mögur og lystardauf að éta.

27. mars
Steindór fór inneftir með bílnum til þess að tala við dýralækni viðvíkjandi Blesu. Er helst álitið að það sé einhvers konar fótaveiki í henni. Lét dýralæknir ekki annað en skammt við lystarleysi. Soffía[11] á Rauðalæk kom til þess að biðja mömmu að prjóna fyrir sig eina sokka í vélinni, höfðu þær verkaskipti.

28. mars
Steindór byrjaði að aka mykju ofan á nýrækt en það var svo mikill renningspústrandi að það var ekki verandi við það. Kári kom og fékk lánaðan sleðaanga til þess að aka mjólkinni á ofan að brautinni.

29. mars
Kristján fór ofan að Hamri og tafði þar æði lengi. Steindór var við að aka mykju ofan á nýrækt.

30. mars
Steindór ók ofan á nýrækt.

31. mars
Steindór fór yfir að samkomuhúsi Skriðhreppinga[12] til að setja niður ofn. Eggert tók mjólk.

 

[1] Kristbjörg Anna Ingjaldsdóttir (1896-1989), kona Jóns Marinós Benediktssonar. Bárðdælingur.

[2] Gunnar Valdemarsson (1907-1975) sonur Arnbjargar systur Pálma afa. Þarna höfðu foreldrar hans flutt frá Fremri-kotum í Bólu í Blönduhlíð en hann átti síðar eftir að gerast bóndi á Fremri-kotum og búa þar til dauðadags.

[3] Hrossasótt er truflun í meltingarvegi hestsins, sem sýnir merki um vanlíðan með lystarleysi, krafsar án þess að bíta o.fl.

[4] Ingólfur Daníelsson (1890-1969) bjó í Bakkaseli 1929-1939, Skagfirðingur og þau hjón bæði.

[5] Pétur Valdemarsson hefur komið við sögu áður og er nú að spá í að flytja í Neðri-Rauðalæk

[6] Jón Jónsson (1885-1967) var bóndi á Skjaldarstöðum frá því faðir hans lést árið 1900. Jón var bróðir Aðalheiðar ljósmóður á Barká og þeirra systkina.

[7] Kristín Gísladóttir (1892-1975) var fyrri kona Kristfinns Guðjónssonar og átti með honum þrjú börn, þ.á.m. Steindór Valberg rafvélavirkja á Akureyri sem stundum kom í Garðshorn til að dytta að rafstöðinni. Á þessum tíma voru þau Kristfinnur skilin og hann farinn að starfa mikið sem ljósmyndari á Siglufirði. Steindór var skírður í höfuðið á Steinunni langömmu sem tók Kristfinn í fóstur fjögurra ára gamlan eða svo.

[8] Steindór Valberg Kristfinnsson (1921-2010) hefur búið hjá móður sinni á Akureyri á þessum tíma.

[9] Baðtóbak var notað til að eyða iðraormum í sauðfé en í hallæri notuðu menn þetta í stað venjulegs tóbaks en þótti ekki gott. Þetta voru óunnin tóbaksblöð. Skepnunum hefur líklega orðið illt af baðtóbakinu og þær fengið niðurgang sem hreinsaði iðrin.

[10] Jóhannes Haraldur Rögnvaldur Jóhannesson (1908-2001) hefur verið nýfluttur í Neðri-Vindheima með föður sínum sem var bróðir Rósants á Hamri. Jóhannes yngri bjó lengi á Neðri-Vindheimum eftir föður sinn.

[11] Anna Soffía Jónsdóttir (1886-1968) móðir Sverris Baldvinssonar í Skógum.

[12] Samkomuhúsið á Melum var byggt 1934. Eins og áður segir kallaði pabbi það Náströnd þegar þar voru haldin böll/skröll en Mela þegar eitthvað uppbyggilegra fór þar fram.