Margt er sér til gamans gert

Gunnar Frímannsson:

Margt er sér til gamans gert

(Birtist í Heimaslóð 2025)

Fróðleikur um stefnumál og starfshætti ungmennafélaganna á fyrstu áratugum 20. aldar fæst að einhverju leyti með því að lesa fundargerðir og ársskýrslur félaganna en þannig sést aðeins ein hlið málsins[1]. Önnur hlið sést með því að skoða hvernig félögin horfðu við fólkinu sem starfaði í þeim og tók þátt í láta sögu þeirra gerast. Nýlega barst höfundi þessa pistils í hendur nokkurt safn sendibréfa sem Þorleifur[2] bóndi á Hamri á Þelamörk sendi vini sínum, Bjarna Kristjánssyni[3], sem þá var nýfluttur um sinn suður á land, en þar segir hann frá þátttöku sinni í félags- og skemmtanalífi á Hörgársveitarsvæðinu á árunum 1925 til 1930 þegar bréfin voru skrifuð. Þetta gerðist sem sagt á bannárunum en eftir að Spánverjar höfðu neitað að kaupa saltfisk af Íslendingum nema þeir keyptu léttvín af Spánverjum.

Þorleifur Rósantsson

Þorleifur fæddist á Efstalandi í Öxnadal árið 1895 og ólst þar upp en 1917 flutti hann með foreldrum sínum í Hamar á Þelamörk eftir makaskipti á jörðum við bóndann sem hafði búið á Hamri um áratug en flutti nú í Efstaland. Þorleifur hélt tryggð við rætur sínar í Öxnadal eins og skýrt kemur fram í bréfum hans til Bjarna. Fyrstu árin eftir að hann flutti í Hamar sótti hann messur og aðrar samkomur frameftir og í kvæðum játar hann Öxnadalnum ást sína en dálítið af þeim kveðskap birtist í grein Árna J. Haraldssonar um Þorleif í 30. hefti Súlna[4]. Þorleifur tók við búskap á Hamri af foreldrum sínum um það leyti sem bréfaskriftirnar hefjast og bjó þar áfram til dauðadags með Hallfríði[5], systur sinni, og lengi með Sigurði Sigmarssyni[6] frænda sínum sem þau tóku í fóstur. Þorleifur var alla tíð einhleypur en bréfin hans bera með sér að hann var þó engan veginn afhuga kvenfólki framan af ævinni, hafði gaman af að dansa við ungu stúlkurnar í sveitinni og var hrókur alls fagnaðar á böllum sem haldin voru ýmist í félagsheimilum sem komið hafði verið upp þar frammi í dölum á Þverá, Öxnhóli og í Ási en líka í heimahúsum eða undir berum himni þegar svo bar undir. Þá þurfti ekki hljómsveit úr fjarlægum landshlutum til að leika fyrir dansi því að stundum var látið duga að ballgestir syngju og trölluðu danstónlistina en stundum komu harmonika, orgel, munnharpa og fiðla líka við sögu.

Þorleifur tók virkan þátt í starfi ungmennafélagsins Vorhvatar á Þelamörk mestan hluta starfstíma þess á árunum 1917 til 1930, var lengi í stjórn þess, oftast gjaldkeri, og hann skildi ekki við félagið fyrr en ljóst var að lífi þess yrði ekki bjargað. Ljóst er að Þorleifur var ekki sammála öllum stefnumálum ungmennafélaganna en það varðaði þó aðallega bindindishugsjónirnar eins og ráða má af kveðskap hans sem birtist í fyrrnefndri grein Árna J. Haraldssonar í Súlum og ýmsu því sem kemur fram hér á eftir.

Bjarni Kristjánsson

Bjarni fæddist 1901 vestur í Skagafirði á örreytiskoti, Kirkjuhóli, skammt sunnan við Víðimýri, elstur fimm bræðra. Foreldrar hans voru þó úr Öxnadal og Hörgárdal, faðir hans fæddist á Miðlandi en móðir hans í Þríhyrningi. Þau bjuggu skamman tíma á Kirkjuhóli, voru síðan nokkur ár á Holtsmúla, Stórugröf og Þröm á Langholti en 1910 fluttu þau með sonum sínum í Steinsstaði í Öxnadal þar sem Guðrún[7], móðir Bjarna, var eitt ár ráðskona hjá Stefáni Kr. Árnasyni bónda, síðasta árið áður en hann flutti þaðan til Akureyrar. Kristján[8], faðir Bjarna, var þar vinnumaður og allir synirnir voru þar þetta ár. Árið eftir voru hjónin hjá prestshjónunum á Bægisá með tvo yngstu synina. Kristján og Guðrún fluttu frá Bægisá til Akureyrar þar sem þau – og síðan Halldór[9] sonur þeirra – bjuggu á Lækjarbakka frá 1914 og langt fram eftir öldinni, grasbýli eða þurrabúð framan- og vestanvert við Flugsafnið við Akureyrarflugvöll.

Dvölin á Steinsstöðum reyndist örlagarík því að þar tengdust drengirnir jafnöldrum sínum á næstu bæjum af báðum kynjum. Þetta var á meðan kynin voru aðeins tvö. Bjarni fór 11 ára gamall (1912) í fóstur í Efstalandskot til Jóhönnu, föðursystur Þorleifs Rósantssonar, en Þorleifur var hjá foreldrum sínum á næsta bæ, Efstalandi. 

Í Efstalandskoti var Bjarni fram á fullorðinsár. Sigfús[10] bróðir hans var tvö ár tökubarn í Hrauni áður en hann fylgdi foreldrum sínum til Akureyrar. Konráð[11] var eitthvað sem tökubarn á Hraunshöfða á leið foreldranna til Akureyrar en hann átti eftir að giftast Láru Sigfúsdóttur frá Steinsstöðum og Bjarni giftist Halldóru systur hennar. Yngstu bræðurnir, Halldór og Guðmundur[12], fylgdu foreldrum sínum en höfðu ekki þroska eða vit til að ná sér í konur úr dalnum.

Framan af ævinni stundaði Bjarni ýmis störf. Hann flutti suður og var vinnumaður í Gufunesi á árunum 1925 til 1929 þegar Þorleifur skrifaði bréfin sem hér segir frá. Hann flutti fljótlega norður aftur, var lengst af vörubílstjóri, ýmist fyrir brúarvinnuflokka Vegagerðarinnar á sumrin eða á Vörubílastöðinni Stefni. Hann flutti til Reykjavíkur 1965 og gerðist þá húsvörður í Ármúla 3 þar sem Véladeild SÍS og Samvinnutryggingar voru til húsa. Hann lést árið 1969.

Hér á eftir er fyrst og fremst gerð grein fyrir frásögnum Þorleifs af félags- og skemmtanalífi í sveitunum í kringum hann en frásagnir hans í sendibréfunum af veðurfari, búskap og ástalífi sveitunganna látnar liggja milli hluta. Er þetta þó allt forvitnilegt fyrir áhugafólk um sögu þessara sveita. Þorleifur kynnir sig sem lífsnautnamann í upphafi bréfs sem hann skrifaði Bjarna 28. júní 1925:

Flýgur andinn frjáls og léttur,
forni vinur, beint til þín.
Setið hef ég við sígarettur,
súkkulaði – og brennivín.

Fjarlægð engin hugann heftir
hér þó milli breitt sé sund.
Vona ég við eigum eftir
ennþá saman glaða stund.

Í mörgum bréfanna segir Þorleifur frá tíðarfari og búskaparbasli, sem hann segist líklega ekki endast lengi við, en svo fór þó að hann bjó á Hamri til æviloka, eins og áður segir, og varð bráðkvaddur í fjárragi á heimatúninu. Eitt fréttabréf hans til Bjarna byrjar svona (17. febrúar 1926):

Frá þér hef ég fengið bréf
fyrir viku og degi.
Eg með svarið ekki tef,
af mér þetta segi:

Fátt til kæti heima hef,
hressing verð því feginn,
er þó laus við kveisu og kvef
og kláða, nokkurn veginn.

Latur tíðum ligg og sef
og labba húsaveginn.
Eins og rotta geilar gref
gegnum mygluð heyin.

Enga mey ég örmum vef
- enn mig forðast greyin -
og alltaf hárvisst þjark og þref
ef þær eru öðrumegin.

Framan af gaf Þorleifur sér þó tíma til að gleðjast með góðum félögum þegar færi gáfust og þau voru mörg og margvísleg um nokkurra ára skeið á meðan margt ungt fólk var í sveitunum. Það breyttist hinsvegar á örfáum árum um og upp úr 1930 og þá lagðist UMF Vorhvöt af vegna þess að margt ungt fólk af Mörkinni, burðarásar í félaginu, flutti burt. Annað fólk var um kyrrt en eltist og fannst það ekki eiga lengur heima í ungmennafélagi.

Þorleifur var 6 árum eldri en Bjarni en góður vinskapur hefur tekist með þeim á meðan þeir voru nágrannar og sú vinátta hefur enst lengi eins og bréfin frá Þorleifi til hans bera með sér. Síðustu bréf hans til Bjarna eru frá 7. áratugnum, eftir að Bjarni var fluttur suður, og þá átti Þorleifur skammt ólifað og þeir reyndar báðir. Í bréfunum segir Þorleifur Bjarna fréttir af Þelamörkinni og enn frekar úr Öxnadalnum sem Þorleifur saknaði lengi.

Á þessum tíma og lengi síðan tíðkaðist það á fremstu bæjum á Þelamörk að reka lambfé fram í Öxnadal til sumarbeitar af því að haglendi var lítið í upprekstrarlandinu í fjallinu ofan við Rauðalækjarbæina og Garðshorn. Hamar átti ekki heldur upprekstrarland í fjallinu en mátti sleppa fé á Ytri-Bægisárdal en þar var beitiland ekki skárra en í fjallinu. Þorleifur segir fréttir (3. júlí 1925):

„Ég rak fram á Hóladal og Steini[13] á Vöglum með mér. Það gekk allt tíðindalaust, veðrið var ágætt og nóttin yndisleg eins og útlenskar – og Öxndælskar – sumarnætur geta bestar og fegurstar verið og ekki hef ég í annað sinn séð dalinn okkar fallegri en hann var þá, grænn og gróinn í geislaflóði miðnætursólarinnar.“

En reksturinn fram á Hóladal var nýttur í fleira en til að koma fénu í sumarbeit.

„En við höfðun nú ekki lagt upp í ferðina án þess að hugsa ögn fyrir framtíðinni og Steini hafði farið til Akureyrar tveim dögum áður. Og þegar við höfðum nú skilið við skjáturnar og beðið fyrir þeim sem best við gátum fórum við að skoða ofan í töskuna hans og ekki til einskis því að þar komu upp tvær flöskur af Tarrangóna sem er það langbesta Spánarvín sem ég hef smakkað og ódýrt líka. Jæja, við tókum auðvitað tappann úr annarri og dreyptum á en Steini var bráðónýtur við það svo ég mátti drekka fyrir okkur báða og sveikst ekki um það eins og þú munt fara nærri um. Þó var eftir slatti í flöskunni þegar við komum ofan í Bakka en þangað mátti ég til að koma þegar svona stóð á og það var um hádegi. Þór[14] bóndi svaf þegar við komum en vaknaði þegar við riðum í hlaðið. Ég kastaði á hann kveðju inn um gluggann og hljóp strax upp á loft og hafði flöskuna með mér því mér sýndist bóndi syfjaður þegar hann rak andlitið út um skjáinn og var hann að fara í buxurnar þegar ég kom upp. Ég rétti honum nú flöskuna og bauð honum að „smakka smart“ og er skemmst frá því að segja að hann tæmdi hana og þótti gott bragðið.“

Þorleifur var öflugur liðsmaður í ungmennafélagsstarfinu eins og áður segir en greinilega hefur hann ekki lagt jafnþunga áherslu á allt sem fram kom í lögum UMFÍ og síður fundið sig í málfundastarfi Vorhvatar en í öðrum skemmtunum eins og eftirfarandi frásögn hans bendir til. Hann segir (25. júní 1925):

„... ég fór á ungmennafélagsfund í morgun og hann var nú svona eins og gengur, heldur stuttur þó, því að honum loknum átti að halda annan sameiginlegan málfund fyrir unga og aldraða Þelmerkinga og beið ég að vísu eftir því að hann væri settur en þá var mín þolinmæði á þrotum og hypjaði ég mig heim fljótlega en hugleiðingar mínar á meðan ég sat þar voru eitthvað á þessa leið:

Fund hér sestur er ég á,
unaðsbrest má klaga.
Slíka ég flesta muna má
mína verstu daga.

Kvörtun við og kvíðahreim
kæti góð mun dofna.
Kýs ég því að halda heim,
halla mér og sofna.

Á þessum slóðum, því er ver,
þrjóta stundir glaðar.
Ég á ekki heima hér
heldur annarstaðar.“

Verkefni, áherslur og fjáröflunarleiðir ungmennafélaganna voru skemmtilega fjölbreytilegar og mismunandi eftir félögum. Ein fjáröflunarleiðin var að taka að sér slátt fyrir bændur eins og ungmennafélagar í Öxnadal gerðu og sagt er frá í framangreindri grein Brynjólfs Sveinssonar. Þetta gerðu ungmennafélagar í Vorhvöt líka eins og Þorleifur segir frá (5. júlí 1925):

„Eins og til stóð slógum við á Steðjanum í nótt og vorum þar átta saman, strákar, en stúlkur ekki nema þrjár svo það hallaðist heldur á. Það var ekki ... erfitt fyrir svo marga að slá hálfa aðra dagsláttu en þó vorum við æði lengi en þegar því var lokið fórum við að rifja flekkina með stúlkunum því að þær voru að verða bit á sín fræði sem von var. ... Það hefði nú að vísu mátt ætla að við létum staðar numið og héldum heim þegar heyverkinu var lokið en það fór öðruvísi því þá var slegið upp balli í hestaréttinni, gólfið sópað og steinar tíndir upp og sléttað eftir föngum. Ekki stóð sá dansleikur lengi en þó æði stund og var það fjörugt ball þó ekki væri sem best undir fæti en strákarnir gerðir að dömum eftir þörfum og ekki kom ég heim fyrr en kl. að ganga 6 í morgun.“

Eftir þriggja tíma svefn heima á Hamri tók Þorleifur til við að rista torf og flytja. Sú iðja hefur eflaust staðið fram á kvöld og:

„Að því búnu fór ég að sofa, lét mig dreyma vel, vín og fagrar meyjar meðan hinir voru að kappríða úti á bökkunum[15]. Þangað langaði mig lítið til að fara, ég hafði innilega fyrirlitningu fyrir því uppátæki enda er ég enginn reiðmaður eða hestatemjari eins og þú veist og hef ég látið Gvönd[16] skilja það á mér að ég virti hann ekki mikið meira fyrir þetta en þó hann hefði ekkert aðhafst sem Kynningarformaður[17]. Næsta sunnudag er fyrirhuguð ferð austur í Vaglaskóg og vildu að vísu margir fara nú og var ég einn af þeim, var því sneiðyrtari í Gvendar garð þess vegna.“

Svo leið vikan og ferðin var farin í Vaglaskóg (19. júlí 1925):

„Skógarferðin ... var farin eins og lög stóðu til um síðustu helgi. Skyldum við hittast á Steðjagrundinni kl. 4 síðdegis á laugardaginn en ég varð heldur seinn í heimanbúnaði og tók mér góða slæpu áður en ég fór, svo klukkan var víst farin að ganga 6 þegar ég komst á stað svo ég reið heldur mikinn þangað til ég náði hópnum hjá Moldhaugum og var þá búinn að vera tæpan klukkutíma á leiðinni. Staðið var við á Akureyri stundarkorn og keypt nesti, ekki samt „snaps“, af þeirri tegund var ekki deigur dropi í ferðinni og gilti að vísu einu því að ég hef ekkert gaman af að staupa mig með þessum félögum, nú og svo hefði kvenfólkið fjandskapast við okkur, ef við hefðum verið fullir, en maður verður nú alltaf að taka svolítið tillit til þess eins og gengur, ekki of mikið samt. Við vorum 17 í förinni og mátti víst kalla að það væri frítt lið og mannvænlegt og var það allt í einingu andans og landi friðarins.

Við héldum austur yfir um nóttina og komum í skóginn kl. 3 rétt og dvöldum þar fram um hádegi daginn eftir. Átum við þar og drukkum og skemmtum okkur hið besta við dans og ekkjuleik milli þess sem við skoðuðum skóginn, vorum við einvöld þar lengstum en þegar við vorum að fara var allt að fyllast af kaupstaðarskríl af Akureyri og á leiðinni upp heiðina varð varla þverfótað fyrir því hyski. Þóttumst við hafa sloppið vel við það og vorum sæmilega heppin með veðrið, það var að vísu nokkuð hvasst og moldryk á heiðinni óþolandi. Bölvaði þá margur Gvendi[18] og kappreiðunum því þá var ... hið yndislegasta veður sem hægt var að hugsa sér. Heimferðin gekk hægt og bítandi þó illa væri riðið stundum og var fjörugt í betra lagi þar sem áð var, einkum framan af, en um kvöldið voru sumir farnir að vera syfjaðir því lítið var sofið í skóginum um nóttina. Að vísu höfðum við tjald en það var ekki nema fyrir stúlkurnar og tæplega það nema öllu hefði verið kássað saman en það dugði nú ekki. Og ekki hefði ég kært mig um að vera þar við sautjánda mann þó kostur hefði verið.

Ég kom heim kl. að ganga 1 um nóttina og var því orðinn hálfslæptur því ég sofnaði ekki neitt að heitið gæti í skóginum og var því búinn að vaka hátt í annan sólarhring og ekki hafði ég heldur legið í hveiti dagana næstu áður eða sofið á mig lús.“

Í annað sinn tók ungmennafélagið að sér slátt (15. ágúst 1925):

„Á sunnudaginn var vorum við í ungmennafélagsheyskap úti í Vindheimaengi og var þar allgott að vera. Steindór[19] formaður sýndi af sér mikla rausn og gaf öllu liðinu, 13 – 14 manns, kakó og heitar lummur og kökur góðar og var það blessuð hressing. Og um kvöldið fékk ég að raka um stund með stelpunum og 2 eða 3 aðrir. Þar gengu kjaftarnir og var ég búinn að spila Þór[20] talsvert upp og mátti heita að seinast væri kveðist á og lét ég þá fjúka æði margar hendingar. Annars á ég í vök að verjast í þeim efnum því nú eru þær farnar að kveða á móti mér tvær eða þrjár eða ég veit ekki hvað margar en ég hef reynt að svara lit, ennþá.“

Í byrjun árs 1926 dró til tíðinda á Þelamörk (17. febrúar 1926):

„Það eru mest tíðindi hér af Mörkinni nú á þessum síðustu tímum að „álfadans“ var haldinn ... og er það dæmalaust í sögu hennar áður. Voru allir teknir sem vettlingi gátu valdið og borið fætur svona nokkurn veginn hvorn fram fyrir annan. Jafnvel rosknir bændur gengu í endurnýjun lífdaganna og hoppuðu með. Voru 10 pör alls og blysberar og púkar þar að auki. Haraldur[21] á Rauðalæk var konungur en Ella[22] drottning. Gvöndur norski[23] var prins en Gauja[24] á Vöglum var prinsessa. Fleiri höfðu ekki metorð eða nafnbætur. Steini[25] á Vindheimum og Anna[26] í Ási voru púkar og fórst þeim það vel úr hendi. Steini hafði gott gervi og var hugvitsamlega útbúinn, sem vænta mátti af honum, hafði hann bæði horn og hala og var að öllu hinn djöfullegasti. Anna var og vel búin til þeirra hluta og mátti segja að þar hitti fjandinn ömmu sína. Ekki gat ég setið á strák mínum þegar ég sá hana við eldinn og gerði um hana eina stöku, rétt eina:

Enginn villist á því nú
er eldur tryllist bleikur
á réttri hillu þá ert þú
og þar með snilli leikur.

...

Við höfðum margar æfingar til undirbúnings undir dansinn og veitti ekki af því að þar voru margar kreddur og „serimóníur“ viðhafðar en sumum gekk illa að læra. Var sitt að hverjum, suma skorti skilninginn í höfuðið, aðra fimleikann í fæturna og sumir voru jafnvel ómögulegir í báða enda. Ef til vill er það ekki óhugsandi að sumum hafi gengið illa af ásettu ráði en ekki er ég að meina það til mín, eins og þú skilur. Annars gekk ég nauðugur til þessa leiks en það var varla undanfæri fyrir nokkurn mann sem hafði fótaferð um þær mundir. Og þetta var reyndar tilbreyting í fásinninu og ekki nema gaman að fara á æfingarnar í sæmilegu veðri og ekki margt að því að leiða yngismeyjarnar heim í húminu á kvöldin. Við vorum oftast 10 eða 12 sunnan fyrir Fossá og var oft glatt á hjalla sem vænta mátti, sungið hátt og hlegið dátt, á heimleiðinni einkum.

...

Og svo var nú sjálf samkoman. Þann dag var gott veður og bjart af tungli en nokkuð hvasst um nóttina meðan dansinn stóð yfir og fór hann vel úr hendi vegna þess. Bálið fuðraði upp á svipstundu og blysin sömuleiðis en slokknaði á sumum. Var þar ógurlegt neistaflug og eldglæringar en þó brann enginn til skaða. Þarna var fjölmenni meira en dæmi eru til í Ási áður, hefur sjálfsagt verið fullt 100 með öllu og öllu. Var því óskaplega þröngt[27] og ekkert gaman að dansa því nærri lét að hinir minniháttar træðust undir. Átján pör voru talin á gólfinu í seinasta dansinum um morguninn. Það var óþarflega margt því ekki getur heitið að þar sé gott að snúast ef þar eru fleiri en átta pör. Ekki gat heitið að þar væri neitt í „gogginn“ svo samkoma þessi var fremur leiðinleg.“

Vísan sem Þorleifur orti til Önnu í Ási er til marks um samskipti þeirra þessi árin. Þau baunuðu vísum hvort á annað, flestar greinilega í hálfkæringi án mikillar meiningar en stundum virðist hafa verið grunnt á því góða á milli þeirra. Til er vísa Önnu til Þorleifs:

Ljótur ertu Leifi minn
og leiður að sama skapi.
Þú ert eins og andskotinn
upp úr forarkrapi.

Þorleifur svaraði einhverri slíkri vísu Önnu svona:

Mér þótti vísan vera ljót
- vildi kjósa betri -
þú gerir máske bragarbót
biðji ég þín að vetri.

Þessi vísa og þær sem á eftir fara eru flestar úr bréfi Þorleifs til Bjarna, vinar síns, sem hann skrifar 17. janúar 1926, setur upp sem einskonar skýrslu, sem hann kallar „Hnútukast“ og merkir hana reyndar „Eftirprentun bönnuð“ sem höfundur þessa pistils hefur að engu. Í bréfinu rekur Þorleifur kveðskap sinn til og um stúlkurnar í sveitinni og ekki síst vísnahnippingar við Önnu í Ási sem hann segir að hafi svarað sér með þessari vísu:

Búmaður á Brennivínsjarp
biður mín að vetri
af því ég fæ engan garp
annan honum betri.

Úr þessu rættist vissulega fyrir Önnu[28] og vísast varð aldrei af neinu bónorði Þorleifs til hennar. Hún sendi honum einhverju sinni þessa stöku að sögn Þorleifs:

Þorleifs aldrei gæfan grær
þó grói flest að vori.
Þangað enginn ylur nær,
ís er í hverju spori.

Þorleifur svaraði:

Vonarliljan ljúfa grær
lífs á akri mínum
en illgirninnar arfaklær
áttu í garði þínum.[29]

Aðra grófari fékk Anna í annað skipti:

Gerir sjaldan hlé né hik,
hún er baldið tetur.
Kjafti aldrei augnablik
Anna haldið getur.

Ýmsar stöllur Þorleifs fengu vísur frá honum og allar fallegri. Hann orti t.d. fallega til Rósu[30] í Skógum en hann gefur þó í skyn að hugur hafi ekki endilega fylgt máli (17. janúar 1926):

Mörg ég þekkti fögur fljóð,
fæstum þó ég hrósa
og engin kveikti ástarglóð
í mér nema Rósa.

Þér voru einni öll mín ljóð
eitt sinn helguð, Rósa.
En það lengi ekki stóð,
aðra ég hlaut að kjósa.

Ekki er vitað til að Þorleifur hafi nokkurn tíma kosið nokkra aðra þó að hugur hans hafi greinilega verið opinn fyrir öðrum, t.d. má ráða það af skrifum hans að Bogga[31] á Efstalandi hafi verið honum hugstæð og í einu bréfinu óttast hann að hún sé að ganga í hendur forðum sveitunga í Öxnadal. Og auðvitað gekk hún út en það var allt annar Þorleifur[32] sem hlaut það hnoss. En ekki sagðist hann skorta tækifærin og kostina þótt hann þættist ekki geta gert upp við sig hverja hann ætti helst að velja, eins og hann segir (28. apríl 1928):

Mörgum hef ég meyjum kynnst
en mun þær jafnar gera
því að engin ein mér finnst
öllum betri vera.

Enn lýsir Þorleifur balli í Ási (15. nóvember 1925):

„Hér var haldið ball, boðsball[33] dálítið einkennilegt, sunnudaginn fyrstan í vetri ... Þetta var harla fámennt ball, eitthvað 12 til 14 sálir og aðeins valið lið en þó var mér boðið og hef ég líklega verið sá síðasti og þrettándi og var víst þar sem eins og „Joker“ í spilum, púki með horn og hala. Steindór formaður kom þangað en óvart samt og átti sér einskis ills von en var auðvitað ekki sleppt og varð hann nauðugur og viljugur að stíga þar dans eins og trölldrottningarnar forðum sem voru látnar dansa á logheitum járnskóm þangað til þær duttu niður dauðar. En Steindór fór nú betur út úr því, hann var bara á gúmmístígvélum og slapp lifandi svona nokkurn veginn. En hafi ekki sumum dömunum verið sárar tærnar eftir á, þá er ég illa svikinn.

Annars var þetta fjörugt ball með afbrigðum, svo fámennt sem það var, man ég ekki eftir öðru öllu fjörugra nema ef vera skyldi ballið á Þverá í vor á eftir sambandsfundinum.“

Þorleifur segir frá þeirri samkomu á Þverá sem tengdist áðurnefndri Kynningu[34] sem Ungmennafélag Öxndæla var þátttakandi í. Þorleifi þótti þetta góð skemmtun þegar upp var staðið (19. júlí 1925):

„Ég hef fengið mér í staupinu ofurlítið með mínum gömlu sveitungum og var upphafið það að Kynningarfundur var haldinn að Þverá í vor. Þar var allfjölmennt og var þó fundurinn leiðinlegur með afbrigðum og ekkert þaðan að segja. En svo var dansað á eftir eins og lög gera ráð fyrir en ekki átti sú hátíð að standa lengur en 2 tíma. Það þótti nú sumum heldur stutt og snubbótt en þó tjóði ekki annað en hlýða formanni sambandsins[35] og fóru þá allir utansveitarmenn að plagga sig. Ég tel mig ekki með þeim þegar ég er kominn frameftir og héldum við áfram að snúast, nokkrir félagar: Guðni[36], hann var þá í landi um tíma, Stefán[37] frændi og Þór og af dömum höfðum við nóg. Gekk þetta nú svona allvel þangað til utansveitarmenn voru að ríða úr hlaði, var þá ekki eftir í húsinu aðrir en við Guðni og Stebbi og svo einhver strjálingur af stelpum en Þór var farinn og réðist ekkert við hann enda var hann þá nýbúinn að fá tvær nýjar kaupakonur og svo var hætt við að áin yrði ófær því asahláka var. Steindór formaður[38] kom á gluggann um leið og hann reið hjá og bað mig að fara að búa mig því við þyrftum að halda stjórnarfund á heimleiðinni. Ég var nú ekki í því skapi þá stundina að ég væri mjög mikið að hugsa um félagsmál og svaraði honum því að ég ætti eftir að dansa að minnsta kosti tvo tíma en ekki bjóst ég við að það yrði sannspá.

Ég bjóst nú af stað og fór að vitja um klárinn, ég bjóst ekki við að réttin mundi halda honum lengi þegar hann væri orðinn einn enda mátti ég ekki seinna koma. Fór ég nú að leggja á. En þegar ég var að enda við það komu þeir Guðni og Stebbi hlaupandi og tóku af mér hestinn en annar náði svipunni svo ég stóð uppi með tvær hendur tómar. Guðni fór nú með klárinn inn í hús og skaut því að mér að ég mætti ekki fara strax. Sagði að þeir ættu ósnertar tvær flöskur af Tarrangóna og skyldum við fara og heilsa upp á þær. Drógu þeir mig svo með sér, reyndar ekki mjög þungur í tauminn, út og upp í lækjargilið fyrir utan og ofan túnið, áttu þeir þar greni og var vel um búið. Var þar hola djúp og mosaþúfa lögð ofanyfir og komu þar uppúr flöskurnar. Tókum við aðra þeirra inn í einu en fluttum hina heim til að dreypa á Jóa[39], sem var heima, og Júlíus[40] formann. Hann var eitthvað að hringsnúast þar á hlaðinu og vildi fara að komast heim en þess var enginn kostur.

Við fórum nú að verða glaðir í anda og var nú byrjað á ballinu aftur en ekki höfðum við dömur nema 5, var ein til vara því að við vorum 5 líka en einn þurfti að spila. Dömurnar voru Jóna[41], biskupsdætur tvær frá Steinsstöðum[42] og Bakkaselssystur[43]. Var dýrmætt að hafa þær því annars hefði ekkert ball orðið og svo var líka helst nýjabragð að þeim, fyrir mig að minnsta kosti. Hrefna[44] kvaddi stuttu eftir skaplegan háttatíma, glotti við og sagði að bónda sínum væri ekkert um þetta rall.

Ekki man ég nákvæmlega hve lengi þetta rall stóð en kl. 4 kom ég heim.“

Öxnadalurinn var ekki einvörðungu heimsóttur til að sækja þar dansleiki. Hér má skjóta inn í frásögn af heimsókn Þorleifs frameftir meðan allt lék í lyndi (15. ágúst 1925):

„Ég fór fram í dalinn á sunnudaginn var, nei, nefnilega fyrir hálfum mánuði og komst auðvitað í Engimýri lengst og reyndar kom ég hvergi annarstaðar. Á hlaðið á Bakka kom ég aðeins og tók Þór með mér frameftir en þá var sólskin og hiti sem mest má verða en hann átti mikið hey úti og þurfti að komast heim aftur til að taka saman. Þar í Engimýri var allfjörugt að vanda, kveðið nokkuð, sungið talsvert, hlegið mikið en spilað mest því þrjú eru hljóðfærin. Ragnar er búinn að fá nýtt orgel sem kostaði 700 krónur og slær nú víst ekki slöku við spilverkið. Ein flaska af Tarrangóna var til þar á bæ og fór hún í mig að mestu leyti, var það allgóð hressing. Annars er ég nú í bindindi og ætlaði að vera það fram um göngurnar, lengur sé ég ekki til neins að reyna það, en samt varð ég tvisvar kenndur á þeim sólarhring. Þeir bræður og Þór – því hann var þá kominn aftur – riðu með mér út fyrir neðan Kot og var það fjörugt ferðalag svo ég man ekki eftir öðru slíku, brennivínslausu. Var þar sungið hátt, hlegið dátt og kveðið kátt og kjaftað og leikið, lesin upp kvæði o.s.frv. og ég held þeir hafi ekkert séð eftir því að fara þennan krók.“

Samband Þorleifs við fyrrum sveitunga sína í Öxnadal trosnaði smám saman þegar árin liðu eins og hann segir (10. september 1927):

Á það benda raungóð rök
og reynist síðar vissa
að nú eru á mér undirtök
Öxndælir að missa.

Það voru þó aðeins sveitungarnir sem hann missti smám saman tengslin við en „sveitirnar sjálfar, þær legg ég aldrei að jöfnu.“

Félagar í Ungmennafélagi Öxndæla fóru í skemmtiferð fram í Leyning. Þorleifur fór reyndar ekki með en slóst í för með þeim þegar þeir áttu leið framhjá Hamri á heimleið og þá lá vel á fólki. Þorleifur ávarpaði hópinn fyrst með stöku (4. júlí 1926):

Hér eru menn og fögur fljóð
frjáls á gleðiþingum.
Gengur enn á gamlan móð
glatt hjá Öxndælingum.

Og svo fylgdi þetta erindi, greinilega ætlað til söngs:

Nú loksins eftir liðinn dag
er Lofnar sest að eldi.
Við syngjum þetta ljúfa lag
á ljósu sumarkveldi.
Þá vaknar hjartans heitust þrá,
þá hugsar hver til sinnar
og fögur augu muna má
og mjúkar, rjóðar kinnar.

Þorleifur var reyndar ekki alltaf ánægður með sveitunga sína ef þeir voru ekki til í tuskið þegar hann langaði til að skemmta sér (24. júní 1927):

Þeir gapa í nótt af geyspa hér,
gleði á flótta rekin.
Það er ljótt hve úr þeim er
allur þróttur skekinn.

Hér að framan segir frá því þegar Þorleifur fór fram í Þverá á Kynningarsamkomu og skemmti sér vel með frændum og vinum og kom ekki heim í Hamar fyrr en um kl. 4 að morgni. Viku síðar var hann aftur kominn út á lífið:

„Sunnudaginn næsta á eftir átti að vera samkoma í Ási og áður en við skildum á Þverá skutum við á fundi og samþykktum að ná í einhvern dropa til að hafa þar. Ég þurfti að fara ofan hvort sem var og tók að mér að sækja dropa en það gekk ekki alveg að óskum svo ég kom ekki með nema tvo potta af Vermouth og var það að vísu of lítið en með því sem okkur áskotnaðist annarstaðar frá þá vorum við nokkuð góðir því við byrjuðum ekki fyrr en nokkuð seint.

Samkoman var allfjölmenn eftir því sem hér gerist og fór vel fram. Þorsteinn M.[45] flutti fyrirlestur og svo var tombóla lítilsháttar og svo dans á eftir „eins og gengur“. Þar var allglatt á hjalla hjá okkur en ekki þó nándar nærri eins og á Þverá því þarna vorum við ekki heima hjá okkur, ég ekki fremur en hinir, og var lítið kveðið en á Þverá var töluvert gert að því og munt þú fara nærri um hver var höfundurinn að því, flestu.“

Á árunum eftir 1925, þegar Þorleifur skrifaði bréfin, var dansað á þremur stöðum í nágrenni hans. Ungmennafélagið Vorhvöt á Þelamörk hafði byggt sér samkomuhús í Ási 1918 en það var sambyggt við íbúðarhúsið en Rósant Sigvaldason endurbyggði það úr steini í vesturenda íbúðarhússins sem enn stendur uppi. Á Þverá var dansað í timburhúsi sem Stefán Bergsson hafði byggt skömmu eftir að hann flutti þangað um 1882. Húsið stóð á bæjarhlaðinu á Þverá en þá stóð bærinn ofar í túninu en síðar varð. Þetta hús var notað til 1928 eða þangað til Ungmennafélag Öxndæla í samstarfi við hreppinn byggði hús sem lengi stóð neðan við þjóðveginn niður undan Þverárbænum. Á Öxnhóli byggði Aðalsteinn Sigurðsson timburhús um 1920, sambyggt við íbúðarhúsið, og kallaði það Þinghús en var aldrei notað sem slíkt því að þinghús Skriðuhrepps var í Staðartungu frá 1889 þangað til félagsheimilið á Melum var byggt 1934. Í samkomusalnum á Öxnhóli var dansað þangað til Melar komu til sögunnar en þá var „Þinghúsinu“ breytt í fjós upp úr miðjum fjórða áratugnum.

Þorleifur var duglegur að sækja dansleiki á öllum þessum stöðum og vílaði ekki fyrir sér vegalengdir. Hann segir svo frá (15. nóvember 1925):

„Ég var ... á balli í nótt eða eitthvað þess háttar og var töluvert á ferðinni í þess orðs eiginlegustu merkingu. Samkoman þessi var á Öxnhóli en til að byrja með fór ég á fund út í Ás og sat þar um stund en þaðan er ekkert að frétta fyrir ókunnuga. En meður því að þar var ekki hægt að halda uppi gleðskap vegna fámennis varð það úr að flestir fundarmenn og -meyjar fóru frameftir [tæpir 6 km, innskot GFr]. Auðvitað var þetta vitleysa af vondri tegund því þá var liðið langt af nótt. Ekki varð þó hjörðin samrekstra og lenti ég í fylgd með stúlkunum og Óskari[46] á Steðja. En vegna þess hve hann er smár og vesall þá finnst þeim hann víst vera enginn karlmaður og svo var hann hafður fyrir áburðardýr og flutt á honum skóplöggin svo við gætum haft frjálsar hendur. Varð ég svo að leiða þær svo margar sem ég hafði handleggi til og svo voru aðrar þar utan í stundum. Svo settust sumar að heima hjá sér og komst ég ekki nema með tvær alla leið og var það ærið nóg. Færið var þannig að frosið var á mýrunum svona til hálfs en flóandi í vatni undir svo maður steig svona með annan hvorn fót ofan úr skelinni en holtin voru eins og holt eru vön að vera á eftir frosti á eftir stórrigningu, ekki ákaflega mjúk undir fæti. Þú ert vanur ferðalögum og akstri yfir ósléttan veg svo þú getur gert þér ofurlitla hugmynd um hvernig þetta ferðalag var í myrkrinu og svei mér sem ég held ekki að ég hafi strengi í handleggjunum síðan.

Þarna á Öxnhóli var auðvitað ekkert um að gera nema dansa því fyrirlesturinn var búinn fyrir löngu. Hann hélt gamall Öxndælingur, Jón Jónasson[47] lambhrúts-Þorsteinssonar frá Engimýri. Hann er háskólagenginn búfræðingur eins og þú veist víst og er nú á Akureyri. Þótti mönnum allgott til hans að heyra.“

Vel getur verið að Þorleifur hafi gert eftirfarandi vísu um ferðalagið frá Ási og fram í Öxnhól þótt ekki hafi hún fylgt frásögninni heldur kom hún í næsta bréfi (7.1.1926):

Víst mig hrundir veiddu hér
veldur beggja snilli.
Þeirra ég bundinn örmum er
elda tveggja milli.

Í lok áratugarins var farið að dofna yfir skemmtunum á Þelamörk af því að ungmennafélagarnir, sem höfðu haldið uppi fjörinu, voru að flytja burt en meira fjör var vestan Hörgárinnar (28. apríl 1928):

„Hér á Mörkinni hefur verið lítið um [skemmtanir] í vetur ... Ein samkoma hefur verið haldin síðan á nýjaári. Þar var sunginn tvísöngur (dúet), Jóhann Ó. Haraldsson[48] og Kristján Sigurðsson[49] frá Dagverðareyri, og gamanvísur – Jón Norðfjörð[50], einnig upplestur, og svo auðvitað dans, slíkt þarf nú reyndar ekki að taka fram. Hörgdælir hafa aftur á móti verið fjandans ári fjörugir og halda samkomur á hálfs mánaðar og þriggja vikna fresti, stundum. Af þeim samkomum hefur þú sennilega eitthvað frétt því Öxndælingar hafa sótt þær manna best. ... Um næstu helgi á að vera skemmtun á Öxnhóli. Þar flytur Davíð Stefánsson[51] fyrirlestur, ennfremur verður þar fimleikasýning og glímur en tæplega mjög merkilegar. Þó held ég ég verði að fara þangað að hlusta á Dabba.“

Almennt fór að fjara undan skemmtanahaldinu þegar fram í sótti eins og fyrr segir (29. október 1927):

„... nú er laugardagskvöld og vika af vetri og ekki svo mikið sem ein samkoma hefur enn verið haldin hér um sveitir, hvorki á Þverá, Ási né Öxnhóli – og finnst þér þetta ekki alveg dæmalaust helvíti? Það finnst mér og þetta segja fleiri. Það er alveg sama þó ráðgert sé að halda samkomu nú, þeirra aðstandendur og upphafsmenn eru svo máttvana og máttlausir að þeir drepast ofan í lúkur sínar án þess að koma nokkru í framkvæmd og það þó þetta séu valdir menn eins og t.d. Jóhann á Rauðalæk og Gvendur á Steðja og þvílíkir.“

Þorleifur var gjaldkeri í stjórn Umf. Vorhvatar til síðasta fundar 1930 en ekki tókst honum og félögum hans að halda lífi í félaginu og þar með skemmtanahaldi á Þelamörk. Bréfaskriftir hans til Bjarna enda um svipað leyti enda flutti Bjarni þá norður aftur. Það er við hæfi að enda þennan pistil á húsgangi eftir Þorleif sem gamlir Þelmerkingar fóru stundum með en hefur ekki þótt prenthæfur til þessa:

Fullur ég sofna og fullur upp rís
og fullur mig lengst mun gleðja
og fullur ég ralla og flakka kýs
og fullur mun heiminn kveðja
við auða díkið sem aldrei frýs
fyrir utan og neðan Steðja.

Ævar Jóhannesson (1931-2018) uppfinningamaður frá Steðja hélt því reyndar fram við greinarhöfund að Þorleifur hefði ekki einungis ýkt drykkjuskap sinn verulega heldur hafi hann einnig tekið sér skáldaleyfi til að færa „auða díkið sem aldrei frýs“ úr stað, það hefði verið fyrir sunnan og neðan Steðja en stuðlasetningarinnar vegna hefði Þorleifur fært það til í landinu. Þorleifur var skáld.

 

[1] Sjá grein í Heimaslóð 2025 um ungmennafélögin á Hörgársveitarsvæðinu fram til 1930.
[2] Þorleifur Rósantsson (1895-1968), bóndi á Hamri á Þelamörk 1924 til 1968.
[3] Bjarni Kristjánsson (1901-1969), vörubílstjóri og húsvörður, sjá nánar í texta
[4] Árni J. Haraldsson: Hagyrðingurinn á Hamri. Súlur, 30. hefti 1990. Sögufélag Eyfirðinga.
[5] Hallfríður Rósantsdóttir (1898-1988), húsfreyja/ráðskona á Hamri.
[6] Sigurður Sigmarsson (1929-2018), verslunarmaður á Akureyri.
[7] Guðrún Stefanía Jónsdóttir (1870-1945).
[8] Daníel Kristján Bjarnason (1877-1949).
[9] Halldór Aðalsteinn Kristjánsson (1908-2003), bóndi, lengst á Lækjarbakka á Akureyri
[10] Sigfús Tryggvi Kristjánsson (1904-1994), húsa- og brúasmiður, lengst í Reykjavík.
[11] Konráð Sigurbjörn Kristjánsson (1906-1986), járnsmiður, rak reiðhjólaverslun og verkstæði á Akureyri.
[12] Guðmundur Kristjánsson (1910-1990), bifreiðastjóri og bifvélavirki á Akureyri.
[13] Aðalsteinn Sigurgeirsson (1900-1966), bóndi á Grjótgarði, Myrkárdal og Vöglum.
[14] Þór Þorsteinsson (1899-1985), bóndi á Bakka í Öxnadal.
[15] Skógabökkum. Þar voru stundaðar íþróttir, m.a. voru þar fótboltaæfingar á „fótboltaflötinni“, og þarna var efnt til kappreiða á vegum Kynningar sem var samstarfsvettvangur ungmennafélaganna fimm á svæðinu þar sem nú er Hörgársveit.
[16] Guðmund Stefán Snorrason (1898-1981) á Steðja, bóndi og bifreiðarstjóri á Akureyri.
[17] Kynning efndi til héraðsmóts á Skógabökkum þar sem keppt var í hlaupum, langstökki og kappreiðum. Á eftir var drukkið kaffi í félagsheimili Ungmennafélagsins Vorhvatar í Ási.
[18] Guðmundi Snorrasyni. Eins og fram kom að framan var Þorleifur andvígur kappreiðunum sem Guðmundur skipulagði þá á Skógabökkunum og hefði heldur viljað fara í Vaglaskóg þá helgi.
[19] Steindór Guðmundur Pálmason (1901-1986), bóndi í Garðshorni, síðar smiður og húsvörður á Akureyri.
[20] Fyrrnefndur Þór á Bakka sem af einhverjum ástæðum hefur tekið þátt í starfi Umf. Vorhvatar að þessu sinni.
[21] Haraldur Pálsson (1874-1938), bóndi og organisti á Dagverðareyri og Efri-Rauðalæk.
[22] Elísabet Pálína Haraldsdóttir (1904-1993), dóttir hans, síðar húsfreyja á Öxnhóli.
[23] Guðmundur á Steðja hafði dvalið skamman tíma í Noregi og varð tíðrætt við sveitunga sína um búskaparhætti þar en þeim fannst sumum lítið til koma og skopuðust að.
[24] Guðrún Sigurgeirsdóttir (1902-1929), systir fyrrnefnds Aðalsteins, dó úr berklum á Kristneshæli.
[25] Sigursteinn Steinþórsson (1887-1950), síðar afgreiðslumaður á Akureyri, afi Bernharðs Haraldssonar.
[26] Anna Margrét Sigurjónsdóttir (1899-1968), síðar húsmóðir og ljósmóðir á Þverá. Þau Þorleifur elduðu löngum grátt silfur.
[27] Stofan í félagsheimilinu í Ási líklega rúmir 20 m2
[28] giftist Ármanni Þorsteinssyni (1903-1987) frá Bakka, bróður margnefnds Þórs, lengst bóndi á Þverá.
[29] Þessar tvær vísur eru úr bréfi dagsettu 17. febrúar 1926.
[30] Sigurrós Stefánsdóttir (1898-1947), fórst í flugslysi í Héðinsfirði.
[31] Sigurbjörg Steinunn Anna Frímannsdóttir (1906-1991), húsfreyja í Búðarnesi, Efri-Rauðalæk og á Akureyri.
[32] Þorleifur Sigurbjörnsson (1911-1958), bóndi í Hörgárdal og bifreiðarstjóri á Akureyri, bróðir Herberts símstöðvarstjóra á Ytri-Bægisá.
[33] Boðsböll voru ekki öllum opin heldur bauð sá (sjaldnar sú) tilteknum einstaklingum á ball, ýmist í heimahúsi eða félagsheimili, og stóð fyrir veitingum.
[34] sbr. það sem áður segir um Kynningu.
[35] Guðmundur Stefán á Steðja, formaður Kynningar.
[36] Guðni Jónasson (1897-1980), bóndi í Hofteigi í Arnarneshreppi, bróðir Einars hreppstjóra á Laugalandi.
[37] Jóhannesson (1903-1955) frá Engimýri.
[38] Hér koma ýmsir formenn við sögu. Steindór var formaður UMF Vorhvatar á Þelamörk.
[39] Jóhannes (1908-2001) yngri í Engimýri, síðar bóndi á Neðri-Vindheimum.
[40] Friðbjörn Júlíus Stefánsson (1904-1948), kennari á Efstalandi, formaður UMF Öxndæla.
[41] Sigurjóna Kristinsdóttir (1905-2000), þau Þorleifur systkinabörn. Systir Sigurrósar sem fjallað er um í Heimaslóð 2024, bls. 41.
[42] tvær þeirra Ingibjargar (1905-1988), Láru (1910-2007) og Halldóru (1908-2002) Sigfúsdætra, líklega þær síðastnefndu. Biskupstilvísunin er einhvers kona glens hjá Þorleifi.
[43] líklega Anna (1908-1968) og Rósa (1905-1990) Halldórsdætur sem voru í Bakkaseli eitt ár, systur Ásgríms lengi bónda í Hálsi.
[44] Hrefna Guðmundsdóttir (1895-1981) og Bernharð Stefánsson (1889-1969), síðar alþingismaður, voru húsbændur á Þverá.
[45] Þorsteinn M. Jónsson (1885-1976) skólastjóri á Akureyri, um tíma þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
[46] Óskar Jakob Snorrason (1914-1959), múrarameistari á Akureyri. Hann var sem sagt um fermingu þegar hann fylgdi Þorleifi og stúlkunum fram í Öxnhól.
[47] Jón Jónasson (1899-1964), síðar bóndi og kennari í Eyjafirði. Lambhrútsviðurnefni Þorsteins er óútskýrt.
[48] Jóhann Ólafur Haraldsson (1902-1966), sonur Haraldar á Rauðalæk, kennari, skrifstofumaður, organisti og tónskáld á Akureyri, faðir Yngva Rafns rafvirkja á Akureyri.
[49] Kristján (1885-1950) faðir Gunnars oddvita og kennara á Dagverðareyri.
[50] Jón Aðalsteinn Norðfjörð (1904-1957) var bæjargjaldkeri og leikari á Akureyri.
[51] Davíð skáld frá Fagraskógi.