Nóvember 1944
1. nóvember
Steini fór yfir í Lönguhlíð til að lóga trippi fyrir Tryggva. Kristján var í rúminu.
2. nóvember
Við Steini fórum að leita að kindum sem vantar. Fundum tvær sem vöntuðu í vondu hríðinni og voru þær við bestu heilsu. Kristján var að mestu í rúminu.
3. nóvember
Ég bjó til brú á lækinn efra. Svo fórum við Steini og leituðum að fénu og fundum allt. Kristján var á fótum.
4. nóvember
Ég ætlaði í bæinn um morguninn en hætti við vegna veðurútlitsins og líka stendur loftvogin afar lágt. Kristján fór í vinnu ofan að Laugalandi en þar var ekkert unnið í dag svo hann fór alla leið inneftir en kom aftur um kvöldið. Steindór kom heim frá Efstalandskoti.
5. nóvember – sunnudagur
Ég fór suður í Bægisá til að kveikja á kirkjuofninum því messa hafði verið ákveðin fyrir löngu. Svo símaði ég að Möðruvöllum og sagði þá prestur að hann eigi að vera á héraðsfundi fram á Munkaþverá í dag svo ég hætti við að kveikja. Kristján fór ofan í Rauðalæk og Steindór suður í Bægisá og Kirkjubæ. Fénu var gefið inni. Jói á Brúnastöðum kom, var að leita að kindum.
6. nóvember
Féð var úti og ekkert gefið um kvöldið. Steindór fór fram í Efstalandskot.
7. nóvember
Mjólkurbíllinn var bilaður og Steini Sigursteins flutti mjólkina í dag. Gísli í Kirkjubæ kom með hest og sleða og sótti lamb sem hann hefur átt hér um tíma.
8. nóvember
Það var ekki tekin mjólk. Við Kristján smíðuðum skíðasleða undir mjólkina.
9. nóvember
Féð var dálítið úti og var ekki gefið um kvöldið. Guðbjörn kom og fékk lánaða mjólkurbrúsa því mjólkurbíllinn kom ekki.
10. nóvember
Þá kom mjólkurbíllinn um kl. 11 f.h. og tók mjólk eftir þriggja daga uppihald. Það er komin talsverð fönn og sumstaðar jafnfallið svo fé bar sig illa að.
11. nóvember
Ég fór til Akureyrar með mjólkurbílnum en færið var ekki gott og bíllinn kom ekki inneftir fyrr en kl. að ganga tólf og svo fór hann innanað laust eftir 2 svo ég var ekki hálfbúinn að erinda þegar farið var.
12. nóvember – sunnudagur
Þá var hér haldinn lestrarfélagsfundur og komu á fundinn Snorri á Bægisá, Þorleifur á Hamri, Anna og Guðný á Brúnastöðum, Hulda á Efri-Vindheimum, Rósant í Ási, Soffía í Skógum og Jóhannes og Sigríður og Æsa á Steðja. Steini varð seinn fyrir með að smala ánum sínum svo þær fóru allar heim í Bryta og hann varð að fara ofan í Vindheima til að fá hjálp við að ná þeim úr hinu fénu.
13. nóvember
Guðbjörn á Rauðalæk kom og bað mig að koma ofaneftir og skjóta fyrir þá hross og gerði ég það. Svo lóguðum við Grána hans Steina hér heima. Kristján var í vinnu hjá Gísla á Kirkjubæ. Steindór fór í bæinn með mjólkurbílnum og kom aftur um kvöldið.
16. nóvember
Þá fór ég í bæinn með mjólkurbílnum og Kristján líka. Bíllinn bilaði svo að hann fór ekki vestur um kvöldið svo við urðum að kaupa fólksbíl með okkur heim. Jóhanna fór líka inneftir en var eftir innfrá. Ég keypti bækur fyrir lestrarfélagið og fleiri.
17. nóvember
Kristján fór ofan í Rauðalæk og Hamar og ég fór ofan í Hamar um kvöldið til að ákveða bókakaup o.fl.
18. nóvember
Kristján fór út í Steðja með bækur til bands. Steindór kom heim um kvöldið en hann hefur verið fram í Efstalandskoti síðan á þriðjudag.
19. nóvember
Steini í Kirkjubæ kom með boð frá Bensa að hann bæði mig að sprauta kalki í kýrnar fyrir sig. Hósi kom til að kveðja því nú er hann að fara suður í Njarðvík með Ingvari Axels. Ég fór suður í Kirkjubæ og sprautaði í kýrnar og líka fyrir frúna. Svo fór ég í Syðri-Bægisá með bækur. Um kvöldið fór ég út í Efri-Rauðalæk.
20. nóvember
Steindór var úti á Efri-Vindheimum við að negla járnþak á húsið. Steini, Kristján og ég fórum út í Bryta til að taka niður útvarpsstöngina og svo fórum við þaðan til að smala ánum, þær sækja svo mikið út í fjall.
21. nóvember
Mamma og Kristján fóru til Akureyrar og gistu þar. Steindór var út á Vindheimum og svo fór hann ofan í Hamar um kvöldið til að taka miðstöðvarvél úr sambandi því hún er biluð og þarf að fara í aðgerð. Piltur frá Brúnastöðum kom til að fá doðadælu.
22. nóvember
Steindór fór út í Vindheima og kláraði að negla þakið. Mamma og Kristján komu heim. Gísli í Kirkjubæ kom og bað mig að lóga fyrir sig rollu sem er að drepast og presturinn á. En Gísli er handlama og getur ekki gert þessháttar verk. Ég fór og lógaði rollunni.
24. nóvember
Steindór fór út í Brúnastaði og var þar við að setja upp bretabragga. Kristján fór ofan í Rauðalæk og Hamar.
25. nóvember
Steindór og Kristján voru út á Brúnastöðum við braggabyggingu. Kristján fór á ball yfir á Mela um kvöldið.
26. nóvember – sunnudagur
Jóhannes og Ævar á Steðja komu með bækur, nýbundnar.
27. nóvember
Kristján var út á Brúnastöðum við braggabygginguna. Björn í Efstalandskoti kom með bíl til að sækja Steindór og líka fékk hann torfrusl á bílinn. Um kvöldið kom Baldvin Árnason[1] og gisti.
29. nóvember
Siggi vetrarmaður á Brúnastöðum kom og sótti lamb sem hefur verið hér um tíma. Pétur á Rauðalæk kom með peninga til mín frá oddvitanum, 188 kr.
30. nóvember
Steini og Kristján fóru út í Bryta til að sækja útvarpsstengur. Það var afmæli þeirra nafna og etin steik og drukkið súkkulaði.
[1] Baldvin Árnason (1902-1960) var bóndi í Ási 1926-1929, var síðan um tíma á Akureyri en bóndi á Arnarstöðum í Bárðardal 1949 til dauðadags.