Janúar 1936

1936

1. janúar – nýársdagur
Steindór fór að hyggja að hrossunum því þau ganga enn en hann fann ekki nema Jarp. Fannst hann nokkuð fullur og lét hann vera. Ég skrapp ofan að Hamri og sótti um leið sleða með dóti niður að braut. Stefán tók mjólk um kl. 2. Kári fór með hana ofan eftir og fór um leið suður í Kirkjubæ og ætlar að vera þar við hirðingu í vetur. Júlli og Reynir á Bryta komu og spiluðu um kvöldið.

4. janúar – laugardagur
Steindór og Kári voru við að moka snjó og ruðningi út úr malarholum syðra og er meiningin að fara að aka þaðan steypumöl á næstunni.

5. janúar
Steindór fór að leita að Rauð hans Sigursteins og fann hann út við Fossá. Svo fór hann með hann og Gránu og Brún yfir að Hallfríðarstöðum til göngu því þar er frekar jörð að hafa. Kári fór suður að Kirkjubæ en kom aftur. Pabbi fór út að Bryta að gamni sínu og verður þar í nótt. Reynir kom með félagsbók, „Sjálfstætt fólk“. Steindór[1] á Skjaldarstöðum kom og var nóttina.

6. janúar
Steindór var við malarakstur, aðallega heim en 2 – 3 sleðum ofan á braut. Árni[2] í Skógum kom og svo fór Kári með honum út að Skógum til að spila í kvöld. Ragnar[3] í Kirkjubæ kom til að fá sandpappír. Í útvarpinu var barnatími og einsöngur. Marinó ... og svo var leikið „Tvíburarnir“.

7. janúar
Steindór var við malarakstur[4], ók 17-18 ferðum heim. Kári hjálpaði honum.
Um kvöldið var í útvarpinu ræða eftir Sig. Sigurðsson um berkla. Þar á eftir var þeirra minnst sem farist hafa af slysum, fyrst 3 manna sem urðu úti í Fljótum 4. nóv., 25 manna er fórust á sjó og landi 14. des. og loks þeirra er fórust í eldsvoðanum í Keflavík 30. des.

8. janúar
Eggert keyrir mjólkina en lætur illa af færinu. Kári var tíma úr deginum niður á Hamri að hjálpa við gegningar því Þorleifur er lasinn af kvefi. Steindór var við malarakstur. Ragnar í Kirkjubæ kom til að finna Kára og spiluðum við 3 rúbertur.

10. janúar
Kári var niður á Hamri tíma úr deginum. Alli[5] í Kirkjubæ kom um kvöldið, vantaði tóbak, hann tafði fram að háttatíma við að hlusta á útvarpið.

11. janúar
Steindór fór inneftir með mjólk á sleða. Fékk hann vont veður með köflum en samt kom hann heim um kvöldið. Ég fór suður að Bægisá og símaði inn eftir til þess að grennslast eftir Steindóri. Kári var niður á Hamri.

12. janúar
Steindór fór suður í Kirkjubæ með fötu sem hann var beðinn fyrir. Svo fór Kári suður eftir um miðjan dag til þess að hjálpa til að járna hest. Seinast fór Kristján með félagsbók. Steini á Bryta kom og sótti sleða sem Steindór hefur verið að gera við fyrir hann, einnig tók hann síldarmélspoka sem hann átti hér geymdan. Steingrímur[6] á N-Rauðalæk kom, hann langar til að læra að spila á orgel og ætla ég að reyna að kenna honum að þekkja nótur.

13. janúar
Steindór ók möl. Alli í Kirkjubæ fór inneftir með mjólk á sleða, hann tók 3 fötur héðan. Kári var syðra við fjárhirðingu. Steingrímur kom og glamraði á orgelið.

14. janúar
Steindór ók möl fyrri partinn og sverði seinnipartinn. Steingrímur kom. Um kvöldið komu þeir Kári og Alli frá Kirkjubæ. Friðrik Brekkan hélt fyrirlestur í útvarpið um vínbindindi.

15. janúar
Þorleifur á Hamri kom eftir beiðni og skaut tvo hrúta sem var lógað hér. Hvítum gömlum ættuðum frá Krossastöðum og móhosóttum á annan vetur, það var forystuhrútur. Steindór ók möl seinnipartinn. Steingrímur kom. Kári kom frá Kirkjubæ til að hafa skipti á flutningsfötum sem höfðu brenglast.

16. janúar
Steindór fór inneftir með mjólk á sleða og var ekki kominn um háttatíma. Hósi á Hamri kom með deildarfundarboð.

17. janúar
Steindór kom heim klukkan að ganga ellefu í gærkvöld. Svo ók hann nokkrum sleðum af möl í dag. Kristján fór suður í Kirkjubæ með „Eimreiðina“ og fundarboð. Jón á Skjaldarstöðum kom, hann er að spekúlera fyrir framtíðina og búskapinn, var að biðja um torf og tveggja hesta skefli[7].

18. janúar
Ég var að hálf-drepast úr gikt og var lítið úti. Steindór gerði úti og svo fór hann yfir að Hallfríðarstöðum til að vitja um hrossin. Þau hafa haft nokkuð í sig en Grána hafði meitt sig á fæti svo hann kom með þau og lét þau inn. Kári kom frá Kirkjubæ og settist hér að í bráð. Ragnar kom með honum og fékk lánað hveiti. Um kvöldið var leikið í útvarpið „Kristrún í Hamravík og himnafaðirinn“.

19. janúar
Ég var ekkert við útiverk og var hálfslæmur af giktinni. Steindór gerði úti. Ragnar í Kirkjubæ kom með símboð til Steindórs þar sem hann er kallaður í síma til viðtals við Grenivík. Fór hann suðureftir seint um daginn. Kári fór suður í Kirkjubæ og ætlar að vera þar a.m.k. á morgun því Alli ætlar með mjólk til Akureyrar á morgun. Grána fékk hrossasótt og var verið að setja ofan í hana kransaugnadropa og einnig var henni sett pípa. Fór hún að éta um kl. 10 og þá fórum við að hátta frá henni. Messa í útvarpinu kl. 5, sr. Árni Sigurðsson.

20. janúar
Alli í Kirkjubæ flutti mjólk til Akureyrar. Steindór kom með honum 3 fötum, 60 pottum, og líka sendi hann með honum rauðan hest sem Sigursteinn frá Vindheimum á. Þorleifur á Hamri kom.

21. janúar
Marinó á Rauðalæk kom og fékk bóg af nýju kjöti. Kári kom sem snöggvast til að sækja aspirín því Ída[8] í Kirkjubæ er eitthvað lasin.

22. janúar
Pétur á Neðri-Rauðalæk kom. Steindór skrapp út í Efri-Rauðalæk.

23. janúar
Ingi á Neðri-Rauðalæk kom til að bjóða Kristjáni í afmælið hans Guðbjörns[9] og fór Kristján með honum ofan eftir. Svo sótti ég hann um kvöldið. Steindór fór að moka út úr malarkrúsinni og fékk Kára til að hjálpa sér, svo ók hann möl seinnipartinn. Tryggvi[10] á Neðri-Vindheimum kom. Alli kom um kvöldið og sagði að Marinó ætli að fara inneftir með mjólk á morgun.

26. janúar
Steingrímur kom og seinna um kvöldið kom Pétur á Neðri-Rauðalæk, var hann að biðja Steindór að lána sér hest í kaupstaðarferð. Er í ráði að þeir fari báðir inn eftir í vikunni. Kári fór suður í Kirkjubæ og kom aftur kl. 12 á miðnætti. Messað í útvarpinu kl. 11. Sigurbjörn Á Gíslason predikaði. Um kvöldið slysavarnarfélagskvöld.

27. janúar
Steindór fór með mjólk út fyrir neðan Vindheima, þar tók Steini á Bryta hana og flutti til Akureyrar. Kári ók 4 ferðum af möl en það var svo mikill renningur að hann varð að hætta. Þrot var á vatni í vatnsleiðslunni svo við mokuðum upp lækinn og hlóðum snjóskýli í kring. Ragnar í Kirkjubæ kom til að fá lánaðan haka.

28. janúar
Ragnar skilaði hakanum. Í rökkrinu kom Alli og var að grennslast eftir kaupstaðarferð og fór héðan ofan að Hamri en villtist hingað heim aftur en hafði sig þó að Hamri og svo heim.

29. janúar
Steindór lagði af stað í kaupstaðarferð og fór Þóra[11] með honum. Einnig lánaði hann Pétri á Rauðalæk hest og urðu þeir samferða.

30. janúar
Flest hús eru næstum á kafi í fönn. Steindór kom heim um kl. 7 síðdegis.

31. janúar
Kári fór suður í Kirkjubæ og kom ekki aftur. Alli kom til að láta vita að hann ætli í kaupstað í fyrramálið. Steindór fór út í Bryta og Neðri-Vindheima.

 

 

[1] Steindór Valberg Kristfinnsson fyrrnefndur. Hann var einhver ár á Skjaldarstöðum.

[2] Líklega Árni Júlíus Haraldsson (1915-2002) mágur Eiríks Stefánssonar bónda þar sem gæti hafa sinnt kennslu en haft Árna sem vetrarmann.

[3] Sennilega Ragnar Guðmundsson (1912-1969) sem hefur verið vetrarmaður hjá Benedikt söðlasmið. Hann var lengi sjómaður á Akureyri og drukknaði við Vestmannaeyjar. Kona hans þáverandi var Ída sem kemur við sögu hér á eftir.

[4] Nú á líklega að fara að byggja fjóshlöðuna. Mölin er sótt í mela suður með kirkjuveginum eða í melinn suður undir merkjum neðan við Garð.

[5] Ekki er vitað hver þessi Alli var en líklega hét hann Aðalbjörn og hefur verið vetrarmaður hjá Benedikt bónda.

[6] Steingrimur Pétursson (1916-2013) var sonur Péturs á Neðri-Rauðalæk. Samkvæmt Íslendingabók náði hann hæstum aldri allra skyldmenna Garðshornssystkina (þremenningar eða skyldari). Það er athyglisvert að pabbi var ekki mjög lærður orgelleikari eftir nokkra tilsögn frá Haraldi á Efri-Rauðalæk en hér hefur hann getað leiðbeint Steingrími um nótnalestur.

[7] Aktaugar frá sleða eða öðru æki voru festar í skefli sem var einhvers konar þverslá sem átti að jafna átakið frá hestinum eða hestunum ef þeir voru tveir eins og hér. Ég veit ekki hvort skeflið var framan eða aftan við hestana, líklega frekar aftan við þá en þá hafa taugar úr aktygjunum verið festar í skeflið sem aftur var tengt við ækið.

[8] Ída Magnúsdóttir (1912-1994) kona Ragnars Guðmundssonar sem áður hefur komið við sögu. Hún bjó siðar á Akureyri, fæddist á Rangárvöllum.

[9] Guðbjörn Pétursson (1927-2006) bróðir Inga (Ingólfs (1920-1996)), Steingríms og Helgu Ingibjargar barna Péturs og Kristínar á Neðri-Rauðalæk.

[10] Tryggvi Eyfjörð Jóhannesson (1917-1994) var bróðir Jóhannesar bónda á Neðri-Vindheimum, bróðursonur Rósants á Hamri. Tryggvi var bóndi í Ási 1939-1942 og á Krossastöðum 1942-1947.

[11] Líklega fyrrnefnd Sigurveig Jakobína Þóra Haraldsdóttir. Ekki liggur fyrir hvaðan hún kom eða hvaðan hún var að fara í kaupstaðarferðina.