Febrúar 1944
1. febrúar
Ég fór fram í Skjaldarstaði til að vitja um klárana en þeir höfðu þá komið framan að í nótt og lent vestur í Sporð og þar fann ég þá í heimleiðinni og rak þá hér heim nema Rauð sem lenti í hrossum hér á mýrunum og náði ég honum ekki. Nú er orðið vont á jörð og taka margir hesta en þó ganga nokkrir enn.
2. febrúar
Ég fór út í Vindheima til að sækja naut og kom Hans með því suðureftir og svo fylgdi ég honum til baka. Svo fórum við Bjarni suður í Bægisá, ég fór í síma og færði frúnni svörð í poka um leið. Bjarni fór í Kirkjubæ og svo tókum við Rauð með okkur heim. Kristján er betri af mislingunum.
3. febrúar
Ég setti kalksprautur í allar kýrnar til öryggis en ekki vegna sýnilegra veikinda. Pétur á Rauðalæk kom með flutningsfötu sem hafði misdregist þangað heim. Hann sagði lát Höskuldar[1] í Skriðu. Gestur á Brúnastöðum kom um kvöldið til þess að fá lánaða doðadælu og leyfði ég honum að taka hana á Hamri. Mjólkin fór ekki vegna bilunar á bílnum og einnig vegna frosts og ófærðar.
4. febrúar
Ég fór út í Vindheima til að fá naut og kom Hans[2] með því suður eftir. Snotru var haldið. Svo fór ég með honum úteftir aftur og kom við á Bryta í heimleiðinni. Kristján klæddi sig.
6. febrúar
Við vorum að undirbúa fyrir bað á féð fyrir morgundaginn. Kristján fór suður í Kirkjubæ til að sækja póst.
7. febrúar
Þokulæðingur. Hríðarfjúk. Þá böðuðum við féð. Kristján fór ofan að Hamri um kvöldið.
8. febrúar
Marinó Ben. kom með skattskýrslur og stansaði stund. Ég fór í síma og talaði við Guðfinnu, hún gerir ráð fyrir að koma heim á fimmtudag.
9. febrúar
Kristján fór til Akureyrar og kom aftur um kvöldið. Bjarni fór út í Bryta. Ég lét svörð í tvo poka og kom þeim á bíl hjá Laugja og bað hann að flytja þá fram að Þverá. Svo fór ég út í Neðri-Rauðalæk og Ingi klippti af mér. Þorleifur á Hamri kom til að sækja hangikjöt fyrir föður sinn.
10. febrúar
Þá fór ég til Akureyrar með mjólkurbílnum. Mjólkurbíllinn bilaði svo að Gestur tók mjólk á sinn bíl en Stefán tók farþega og komst með þá á sínum. Guðfinna ætlaði að koma heim en þá var Friðgerður lasin svo þær urðu eftir en ég fór heim með Gesti.
11. febrúar
Þá fór Bjarni til Akureyrar og ætlar til Reykjavíkur þegar gefur með flugvélinni. Snorri á Bægisá kom með miða sem hafði farið óvart í félagsbók, hann tafði og spilaði um stund. Kári Larsen kom með mjólkurbíl og gisti.
12. febrúar
Fór að storma sunnan. Kári var hér um kyrrt í dag.
13. febrúar – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá. Við Kári fórum suður í kirkju til að kveikja upp í ofninum. Svo komu þau Steini og Jóhanna á Bryta. Jóhanna varð hér eftir en Steini fór til kirkjunnar en þegar hann kom þar var ofninn þurr og dautt á honum. Hann kom svo hér úteftir aftur og ég fór með honum suðureftir með olíu á ofninn og eftir það gekk allt vel. Ein ær lá dauð í húsunum í morgun.
14. febrúar
Þá fór Kári með mjólkurbíl. Hallgrímur á Rauðalæk kom til að borga skuldir sínar, svo spilaði hann fram um háttatíma en þá var svo vont veður að hann gisti.
15. febrúar
Þá komu Guðfinna og Friðgerður heim á mjólkurbílnum. Ég sprautaði kalki í beljur á Hamri og Kirkjubæ.
16. febrúar
Kristján fór ofan á braut og hitti Inga á Rauðalæk sem var með bókaböggul til mín frá Steðja. Steini á Bryta kom um kvöldið til að fá holnál því að það hafði kýr meitt sig á spena þar.
17. febrúar
Kristján fór út í Bryta til að vita hvernig gengi með kýrspenann og var það allt í lagi. Hann kom aftur með bréf til mín frá Jóhönnu og Passíusálma sem hún gaf mér í afmælisgjöf. Svo fór Kristján í snöttutúr seinna um daginn.
18. febrúar
Gísli í Kirkjubæ kom og bað mig að hjálpa sér til að gefa inn ormalyf. Ég fór svo suður eftir um kl. 1 og gaf inn á 3 bæjum. Hósi varð seytján ára í dag.
19. febrúar
Steindór kom heim með mjólkurbílnum um kvöldið og komu þeir með bílinn heim í hlað og flutning (eldavél og spýtur). Rósant í Ási kom og var að biðja um kartöflur í útsæði og svo fékk hann 5 kg með sér.
20. febrúar
Kristján fór út í Bryta og Vindheima. Jóhanna á Bryta kom og svo fylgdum við Guðfinna henni úteftir.
21. febrúar
Steindór fór inneftir með mjólkurbílnum. Ég fór út í Steðja ríðandi Rauðku og borgaði Jóhannesi 127 kr fyrir bókbandið.
22. febrúar
Þá kom Hósi og þeir fóstbræður settu upp lopa í spunavélina og spunnu eina 30 faðma. Svo fór Kristján með Hósa ofan eftir aftur. Mamma fór til að þvo kirkjugólfið og fylgdi ég henni suðureftir. Árni á Hallfríðarstöðum kom um kvöldið og við spiluðum við hann fram á nótt.
23. febrúar
Stormur með þykkviðri og rigningarhraglanda. Mamma fór ofan í Rauðalæk og yfir í Lönguhlíð. Kristján fylgdi henni og sótti aftur ofan í Rauðalæk. Ég fór með Eimreiðina suður í Syðri-Bægisá og skoðaði féð hjá Snorra.
25. febrúar
Þá fór Kristján út í Vindheima til að sækja naut og kom Þorsteinn með það suður eftir. Snotru var haldið, það var uppbeiðsli.
26. febrúar
Kristján fór til Akureyrar með mjólkurbílnum kl. 6 um kvöldið en Steindór kom með honum heim. Ármann á Myrká kom um kvöldið og fór ég með honum út í Bryta til skrafs og ráðagerða viðvíkjandi kirkjunni. Við komum hingað aftur um kl 2 um nótt og gisti Ármann hér.
27. febrúar
Kristján kom með mjólkurbílnum því hann tekur mjólk í dag. Steindór fór með honum aftur.
28. febrúar
Þá kom Ingi á Rauðalæk og spann á spunavélina.
29. febrúar
Stórhríðarél. Ingi kom og spann. Kristján fór yfir á Mela á leikfimisæfingu.
[1] Höskuldur Magnússon (1906-1944) bóndi og kennari í Skriðu, faðir sr. Þórhalls.
[2] Hans Þorsteinsson (1926-2002), bróðir Baldurs, Steinþórs og þeirra systkina. Átti síðast heima á Akranesi.