Mars 1946
1. mars
Kristján fór á spilaraæfingu út í Skóga.
2. mars
Sveinn fór suður í Kirkjubæ og svo fór hann með Bjössa bróður til Akureyrar. Kristján fór inneftir með mjólkurbílnum til að kaupa brauð, sítrón o.fl. til að selja á samkomu sem þeir standa fyrir Kristján, Ingvi í Skógum og Hans Hjörvar. Svo fóru þeir á samkomuna um kvöldið, Sveinn og Kristján. Þar voru á milli 20 – 30 manns og aðeins 4 dömur.
3. mars
Þá var messað á Bægisá. Mamma fór, Jóhanna, Steini og ég. Svo fór ég ofan í Kirkjubæ. Þorleifur á Hamri kom og keypti samlagsdunk af Steina.
5. mars
Jóhanna og Steini fóru til Akureyrar og komu aftur um kvöldið.
6. mars
Steini fór yfir að Hallfríðarstöðum og ætlar að verða þar einhverja daga við smíðar. Ég fór suður í Syðri-Bægisá til að sækja naut. Björn[1] kom með það. Rjúpu var haldið.
7. mars
Gísli í Kirkjubæ kom og bað Kristján að vera hjá sér á morgun við að baða. Sveinn fór suður í Kirkjubæ til að hjálpa Gísla til að taka hey og fleira. Ég fór suður í Syðri-Bægisá til að sækja naut. Björn kom með það. Snotru var haldið. Kristján var við bílkeyrslu með Hans á Vindheimum.
8. mars
Við Sveinn gáfum ormalyf og svo fluttum við heim svörð seinnipartinn. Kristján var að hjálpa Gísla í Kirkjubæ til að baða, þeir böðuðu út á Hamri.
9. mars
Hans og Steinþór á Vindheimum komu með bíl og tóku Kristján með sér til Akureyrar. Fúsi á Rauðalæk kom. Sveinn og Kristján fóru á ball yfir á Mela um kvöldið.
10. mars – sunnudagur
Talsverð logndrífa. Sveinn og Kristján fóru fram í Efstalandskot og fengu Hans með sig á bílnum.
12. mars
Hans á Vindheimum kom með bílinn og ætlar Kristján að hafa hann einhverja daga[2]. Það var stungið út úr húskró og flutt suður og ofan á nýrækt. Sigrún í Ási kom og spann á vél. Kristín Jónsdóttir kom og gisti.
13. mars
Við stungum út úr tveimur króm og Kristján flutti það á bílnum, einnig einn bíl af mykju og tvo af hrossataði.
14. mars
Kristján flutti 7 bíla af mykju suður og ofan á nýrækt og svo skilaði hann bílnum um kvöldið. Stebbi Nikk kom og ætlaði að finna Kristján. Tryggvi Giss kom.
15. mars
Steini og Kristján voru yfir á Öxnhóli að binda hey fyrir Stefán á Rauðalæk og Gísla í Kirkjubæ.
16. mars
Snjófjúk. Við Tryggvi fórum út á bæi, hann í Vindheima en ég fór í Steðja með bækur, kom svo í Skóga á heimleið og afhenti kirkjugjaldsmiða og borgaði Tryggvi. Svo kom ég í Ás og kom þangað bókum sem Lestrarfélagið á. Þar var borgað kirkjugjald. Svo fór ég í Efri-Vindheima, fékk borgað gjaldið og tók svo Tryggva með heim þaðan. Steindór kom heim með mjólkurbílnum. Gísli í Kirkjubæ kom. Sveinn fór fram í dal um kvöldið. Kristján fór inneftir með Hans á Vindheimum og svo komu þeir hér heim um kvöldið.
17. mars – sunnudagur
Baldur tók mjólk kl. 4. Steindór og Kristján fóru með honum. Sveinn kom heim eftir helgi.
18. mars
Kristján kom heim um kvöldið.
19. mars
Kristján ætlaði yfir á Mela en treysti sér ekki alla leið. Ingi á Rauðalæk kom um kvöldið með mynd sem Steindór bað hann fyrir innfrá í gær.
20. mars
Kristján fór nú alla leið yfir á Mela. Þar eru nú á degi hverjum íþróttaæfingar og átti hann að spila undir á harmoniku. Steinn á Syðri-Bægisá kom með bækur og svo bað hann mig að skjóta fyrir sig tík og gerði ég það.
21. mars
Kristján fór yfir á Mela. Ég fór með kirkjugjaldsmiða til prests á Bægisá og gerði upp við hann og skuldar hann kr. 65.10. Svo fór ég ofan í Kirkjubæ og tafði þar. Steini borgaði kirkjugjaldið sitt.
22. mars
Kristján fór yfir á Mela.
23. mars
Ég fór til Akureyrar og var að grennslast eftir kíghóstabólusetningu o.fl. Kristján og Sveinn fóru um kvöldið á samkomu yfir á Mela. Voru þar íþróttasýningar, dans o.fl.
24. mars – sunnudagur
Sveinn fór heim til sín. Kristján fór inn á Akureyri.
25. mars
Sveinn fór inneftir með mjólkurbílnum og kom aftur um kvöldið. Þá var bændanámskeið yfir á Melum og á að vera líka á morgun.
26. mars
Ég fór með mjólkurbílnum til Akureyrar. Þar byrjaði í dag námskeið[3] í meðferð dráttarvéla og ætla ég að reyna að verða þar með. Námskeiðið var sett í Skjaldborg með því að Halldór Ásgeirsson ritaði nöfn þeirra sem mættir voru og ætluðu að verða með og reyndust þeir að vera á milli 60 og 70. Eftir það talaði Jakob Frímannsson[4] um tilgang námskeiðsins o.fl. Að því búnu var okkur sagt að mæta við KEA kl. 10 á morgun. Dreifðist þá flokkurinn en nokkrir munu hafa verið eitthvað á bændanámskeiði sem er í dag á hótel KEA. Ég fór heim með Gesti um kvöldið.
27. mars
Þá fór ég aftur inneftir, fór með Gesti inn að Þinghúsi og náði þar í vörubíl og var með honum til Akureyrar og mætti á tilsettum tíma hjá KEA. Þar var mönnum skipt í A, B og C flokk og lenti ég í A-flokk og var vísað upp að Grísabóli ásamt A og B flokk. Byrjaði A flokkur á að rífa sundur dráttarvél inni í bragga en B flokkur fór að keyra tvær dráttarvélar úti. Eftir kl. 1 var skipt um þannig að A var úti við akstur en B inni við að rífa sundur aðra vél. Kennslu var hætt úr því kl var 4. Það varð að samkomulagi að við sem vorum úr Glæsibæjarhreppi og Steinn á Bægisá tókum bíl á leigu sem við förum á á milli.
28. mars
Við fórum á námskeiðið. Steinn keyrði bílinn og með honum voru ég, Ingi á Rauðalæk, Jóhannes á Brúnastöðum, Sverrir í Skógum, Páll[5] í Dagverðartungu og loks Sigfús[6] á Einarsstöðum. Tímann frá 10 – 12 var munnleg kennsla í hótel KEA. Lýsti kennarinn Guðmundur Halldórsson fyrir okkur olíuleiðslum og öðru sem við kemur eldsneyti vélarinnar[7].
29. mars
Ég fór á námskeiðið ásamt fleirum. Fyrirkomulag það sama, kennarinn útskýrði fyrir okkur smurningskerfi vélarinnar í hótel KEA. Kristján fór líka á námskeiðið. Búkolla bar um kl. 12 um kvöldið og átti rautt naut.
30. mars
Við fórum inneftir og hlýddum á fyrirlestur um rafurmagn vélarinnar o.fl. fyrir hádegi en vorum við að rífa sundur vélina seinnipartinn. Við fórum heimanað um kl. 9 og komum heim á sjötta tímanum svo ég gat mjólkað o.fl. í fjósinu. Jón Geirs bólusetti börn gegn kíghósta á Brúnastöðum í dag. Hans á Vindheimum kom hér suðureftir og flutti Guðfinnu og Jóhönnu og alla krakkana úteftir og svo tók ég allt draslið með suðureftir um kvöldið.
31. mars – sunnudagur
Ég var heima og gerði mín útiverk. Kristján fór í snatt út á bæi.
[1] Björn Sigurðsson (1917-2000) var hálfbróðir Ragnars Guðmundssonar í Hallfríðarstaðakoti. Björn var bóndi í Barká 1950-1957 og síðar á bæjum austur í Þingeyjarsýslu en þarna var hann vetrarmaður á Syðri-Bægisá.
[2] Kristján var ekki orðinn 17 ára þegar þetta var og því ekki kominn með bílpróf.
[3] Líklega hefur pabbi verið búinn að panta 1 stk. Farmall A og er hér að byrja að búa sig undir að nota hann.
[4] Jakob Frímannsson (1899-1995) kaupfélagsstjóri og bæjarfulltrúi á Akureyri.
[5] Páll Valberg Ólafsson (1916-2000) bóndi í Dagverðartungu, giftur Huldu Snorradóttur frá Syðri-Bægisá.
[6] Sigfús Eiríksson (1904-1956) bóndi á Einarsstöðum, áður á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
[7] Aðeins pabbi og Sverrir í Skógum í þessari sveit eignuðust dráttarvél (Farmall A) þetta sumar (held ég).